10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það hefur ýmislegt fróðlegt komið fram í þessari umræðu það sem af er. Hæstv. forsrh. hefur lýst því hér hvernig hann hefur komið í veg fyrir að hans mati opinbert verkfallsbrot hjá hæstv. félmrh. gagnvart ríkisstjórn og framlengt hennar setu í ríkisstjórninni með þeim hætti sem hann lýsti hér skýrt og skilmerkilega, enda hæstv. ráðherra þjálfaður í deilumálum af þessu tagi sem fyrrv. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands og hefur þurft að taka á vandasömum málum af skyldum toga eins og hefur verið upplýst og rætt, bæði í fjöllesnum blöðum og úr ræðustól á hv. Alþingi.

Ég hef síðan heyrt ræður þm. sem hafa lýst því að þeir beri lausn þessa máls mjög fyrir brjósti. Í rauninni allir, sem hafa vikið að efnisþætti málsins, sem er þó kannski ekki á dagskrá í þingskapaumræðum, hafa lýst því hversu nauðsynlegt sé að Alþingi marki loksins skýra og afdráttarlausa stefnu í sambandi við húsnæðismál. Ég er í hópi þeirra sem telja að það hefði fyrir löngu þurft að liggja fyrir lausn í því máli með allt öðrum hætti en tekist hefur fram að þessu og það er ekki ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessari sérstöku málsmeðferð hér að ég sé andsnúinn því að nú verði reynt að komast til botns í sambandi við þá málaflækju sem hefur staðið á stjórnarheimilinu vikum saman og leitt til verkfalla á því heimili.

Ég hins vegar ítreka það, hæstv. forseti, að ég tel þá málsmeðferð sem hér á að leggja upp með með öllu óeðlilega, enda kom það fram í máli hæstv. forsrh. að hann virtist sömu skoðunar, að það væri mjög sérstætt að taka mál fyrir sundurgreint með þeim hætti sem var kynnt af hæstv. forseta, að hér yrði aðeins mælt fyrir meirihlutaáliti og hluta af brtt., sem hafa verið að berast inn á borð þm., en aðrir ætluðu að halda niðri í sér andanum fram á laugardag. Ég sé ekki í rauninni hvað veldur því að það á að fara að kljúfa umræðu upp með þessum hætti. Ég sé ekki betur en hér séu á dagskrá ýmis mál sem er búið að veita afbrigði fyrir, m.a. 2. dagskrármál, 4. dagskrármál og 5. dagskrármál sem er ekkert smámál, og ég spyr hæstv. forseta að því: Er illa varið þeim tíma sem við kynnum að hafa fram eftir nóttunni til að ræða þau mál og klára þau og taka síðan laugardaginn til þess að menn tjái sig nokkurn veginn við eðlilegar aðstæður um hinn stóra málaflokk, húsnæðismálin, sem svo margir bera fyrir brjósti að skilmerkileg lausn fáist á fyrir jólaleyfi Alþingis?