10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Það frv. til laga um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hér er á dagskrá er fyrir ýmissa hluta sakir nokkuð sérstætt. Ég býst við því að það sé fremur óvenjulegt að frv. til laga, sem er þó ekki lengra en þetta, sé í tengslum við ekki færri en tíu önnur lög eða lagabálka. Þó verður það að sjálfsögðu að viðurkennast að þessi lög öll snerta sveitarfélög með einum eða öðrum hætti.

Það er rétt sem hér hefur komið fram fyrr í þessum umræðum að um langan aldur hafa menn rætt hér á landi um verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga. Ég býst þó við því að ástæðan til þess að heldur hefur gengið illa með þann flutning, heldur hefur lítið gerst, sé fyrst og fremst sú að sveitarfélög á Íslandi eru óvenjulega mörg miðað við mannfjölda þjóðarinnar og óvenjulega misjöfn að því leyti að þau eru mörg fámenn en tiltölulega fá fjölmenn. Þess vegna er það allt annað en einfalt verk að færa þessi verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna vegna þess að sveitarfélögin eru ákaflega misjafnlega í stakk búin til þess að taka við þessum verkefnum.

Það er nokkur áhersla á það lögð hér í athugasemdum með þessu frv. að almenn ánægja ríki meðal sveitarstjórnarmanna um þau markmið sem frv. tekur til. Ég leyfi mér fyrir minn hlut að efast um að þessi ánægja sé svo mikil sem af er látið og sé svo grunduð sem af er látið. Ég vek t.d. athygli á því að jafnvel svo mikilsverður aðili sem fulltrúaráð Sambands íslenskra sveitarfélaga virðist ekki hafa ályktað jákvætt um þetta mál varðandi þennan frumvarpsflutning sem hér er uppi hafður nú. Ég geri mér þó fulla grein fyrir því að mál af þessu tagi er þar búið að vera um árabil, jafnvel áratuga skeið á dagskrá. En málið ber hér að með dálítið sérstæðum hætti.

Það er rétt sem fram hefur komið að 12. sept. 1986 skipaði þáv. félmrh., Alexander Stefánsson, nefnd í þetta mál. Nefndin skilaði áliti 19. mars 1987 Hún skilaði að mörgu leyti merku áliti, stórri bók sem síðan var send út, líklega til allra sveitarfélaga, til kynningar. En ég er hræddur um að lengra hafi málið í rauninni ekki verið unnið en að það hafi á þennan hátt verið kynnt með þessari bók hjá sveitarfélögunum. Ég er ansi hræddur um að andsvarið frá sveitarfélögunum til baka hafi ekki komið markvisst fram á annan veg en með stjórnarsamþykkt Sambands ísl. sveitarfélaga sem hér var fyrr nefnt og að málið hafi verið rætt á fundum nokkurra landshlutasamtaka eins og hæstv. forsrh. minntist á hér í sinni ræðu fyrr í kvöld.

Það hvernig málið ber að til afgreiðslu nú er að minni hyggju af öðrum ástæðum. Ég hefði fyrir minn hlut talið eðlilegra og betra að mál af þessu tagi hefði til undirbúnings framkvæmdinni fengið lengri meðgöngutíma, minnst ár og það hefði verið reynt að leita formlegs samkomulags við sveitarfélögin betur en hér er gert.

Ég hef að vísu ekki haft þetta frv. til yfirlestrar nema núna seinni hluta dags í dag en vil þó engu að síður við þessa umræðu minnast á fáein atriði sem mér koma í hug við fyrsta yfirlestur. Það vekur sérstaka athygli mína þegar ég les í athugasemdum með frv. að yfirlit fylgir á bls. 18 og 19 um áætlaðan kostnað í þessu sambandi sem þarna hugsanlega færðist á milli. Niðurstöðutölur í þessu yfirliti, með leyfi hæstv. forseta, eru annars vegar hækkun hjá sveitarfélögunum: Upphæð sem nemur 1095 millj. kr. Hins vegar lækkun hjá sveitarfélögunum: Upphæð sem nemur 1210 millj. kr. En er það svo þegar fyrsta skref í þessum tilflutningi er stigið, að um álíka mikla upphæð sé þarna að ræða í hækkun og lækkun hjá sveitarfélögunum? Svo er ekki eins og niðurstöðutalan gæfi þó tilefni til að ætla að væri eðlilegt í þessu sambandi.

Verkefnatilflutningurinn frá ríki til sveitarfélaga, eftir því sem mér sýnist hér, þýðir það í þessu skrefi að hækkun hjá sveitarfélögum í kostnaði næmi um 235 millj. kr., en lækkunin á móti væri um 10 millj. kr. Þetta er hlutfallið. Það er auðvitað vegna þess að þetta mál, eins og það ber hér að, var hluti af þeirri pólitík sem hæstv. ríkisstjórn rekur þessa dagana í því að losna við áralangan halla á ríkissjóði og sú leið sem hér er valin er ein í því efni.

Ég tel alls ekki að öll atriði, sem hér er um að ræða, séu neikvæð. Fjarri fer því. Ég vil t.d. nefna 2. gr. frv. 1. kafla, um breytinguna í sambandi við málefni fatlaðra. Ég tel niðurlagsorðin í 2. gr. töluvert mikilsverð atriði, en þau eru svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Sérstök flutningsþjónusta fyrir fatlaða, sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki til og frá stofnunum sem falla undir lög þessi, skal greidd af rekstrarfé viðkomandi stofnunar.“

Þetta ákvæði tel ég að sé mjög til bóta. Á þeim vettvangi sem ég hef undanfarið unnið hef ég oft fundið til þess að þetta ákvæði skuli ekki eiga við víðar í okkar þjóðfélagi.

Af orðum hæstv. forsrh. hér í kvöld og raunar einnig við lestur frv., Il. kafla, þar sem fjallað er um íþróttalögin, sýnist mér að hæstv. ríkisstjórn sé að draga í land frá því sem áður var áformað. Ég veit ekki betur en áður hafi verið áformað og tillögur nefndarinnar hafi gengið út frá því að leggja niður Íþróttasjóð. Hér er sú tillaga ekki uppi og ég fagna því vegna þess að ég tel að þar sé um að ræða verkefni sem ekki er eðlilegt að ríkið kinoki sér við að taka þátt í, einmitt vegna þess að með þeirri þátttöku sem ríkið hefur haft á undanförnum árum og áratugum, þá hefur það komið fram á jákvæðan hátt vegna mismunar sveitarfélaganna. Nákvæmlega eins er málinu háttað varðandi félagsheimilin að minni hyggju.

Ég er nokkurn veginn viss um það að sú uppbygging sem hefur orðið í þeim málaflokki nánast alla tíð, nokkurn vegin óslitið allt frá því að sú löggjöf var fyrst lögfest einhvern tíma laust fyrir 1950, ég er nokkurn veginn viss um það að félagsheimilin hefðu ekki verið byggð svo myndarlega upp hringinn í kringum allt land ef ekki hefði komið til þátttaka ríkisins. Auðvitað hefur þátttaka ríkisins verið sein og komið allt of hægt í rauninni. En í mörgum tilfellum hefur þátttaka ríkisins riðið þann baggamun sem öllu skipti.

Í mörgum dreifbýlissveitarfélögum hefur þetta á undanförnum áratugum verið nánast eina samfélagsverkefnið og skipt verulegu máli um byggðamöguleika í viðkomandi sveitarfélögum. Ég tel að þarna sé um svo mikið verk að ræða að það sé algjörlega ofviða mörgum smæstu sveitarfélögunum, sem auðvitað geta haft samstarf, það er alveg rétt, en þátttaka frá heildinni skiptir þarna oft verulegu máli.

V. kafli frv. fjallar um dagvistarstofnanir. Ég er þeirrar skoðunar að sá þáttur sé einna þægilegastur til þess að flytja frá ríki til sveitarfélaganna. Það er vegna þess að dagvistarstofnanir eru þróaðastar í þéttbýli, það fer ekki á milli mála, og þéttbýlið sem við þó eigum úti um byggðir landsins er kannski best í stakk búið til þess að taka þetta verkefni að sér.

Í VI. kafla frv. er rætt um tónlistarskóla. Ég er þeirrar skoðunar að það sé sá þáttur í uppeldismálum hér á landi sem síst ætti að flytja frá ríki til sveitarfélaga. Og ég gat ekki betur heyrt af orðum hæstv. forsrh. en að búast mætti við að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar væri um að ræða ákveðna áttun í því efni, að menn mundu gjarnan doka við. Ég býst við því að það sé vegna þess að menn hafa fundið að ánægjan með þessa þróun, þetta skref er ekki eins mikil og að er látið liggja í athugasemdum með frv.

Ég fékk t.d. bréf úr því kjördæmi í dag þar sem ég er fulltrúi og hæstv. forsrh. og mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að geta aðeins smáatriðis sem þar kemur fram af því svæði sem ég þekki einna best til, austur í Árnessýslu. Þannig háttar til að þar er einn tónlistarskóli sem ákaflega mörg sveitarfélög taka þátt í rekstrinum á. Mér er minnisstætt þegar rekstur þess skóla komst á eðlilegan grundvöll 1977 eða 1978, minnir mig. Þá stóð þannig á að Vilhjálmur Hjálmarsson var menntmrh. og hann hafði forustu um það að koma þeirri löggjöf á sem þessir skólar búa við enn þann dag í dag. Sigurður Ágústsson í Birtingaholti var í forustu fyrir tónlistarskólum á þessum árum og ég heyrði það einhvern tíma orðað þannig að þegar bóndinn í Birtingaholti og bóndinn á Brekku náðu saman um þessi efni þá var komið á þeirri löggjöf sem við enn búum við í þessu efni. Það sem þarna reið baggamuninn var það að ríkissjóður tók að sér að greiða 50% af launakostnaði. Fyrir fáum dögum hittust fulltrúar allra þessara sveitarfélaga austur í Árnessýslu og ræddu þessi mál. Þeir álykta, með leyfi hæstv. forseta, á eftirfarandi hátt:

„Sameiginlegur fundur fulltrúa sveitarstjórna er standa að Tónlistarskóla Árnessýslu beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að taka alfarið að sér launakostnað við tónlistarskólann, en verði slíkt ekki mögulegt, þá gildi áfram óbreytt skipulag um kostnaðarskiptingu launa við tónlistarskólana. Þegar er trygg samstaða um þennan rekstur í þessu héraði og óttast menn um þessa starfsemi ef við henni verður hróflað rekstrar- eða skipulagslega.“

Ég get fyrir minn hlut tekið undir þessi sjónarmið. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að vera neinn munur á rekstri grunnskólastigsins hvort sem um er að ræða tónlistarskóla eða aðra þætti, að launakostnaður eigi að vera úr ríkissjóði. Þess vegna tel ég að það sem lagt er til í VI. kafla þessa frv. sé sýnilega spor aftur á bak.

Í IX. kafla frv. er rætt um landshafnir. Þær eru ekki margar hér á landi. Í því sambandi langar mig að leggja fram fsp. til hæstv. ráðherra um það hvernig ætlunin sé að fara með þær skuldir sem á landshöfnum hvíla. Ég veiti því athygli að það er ekki gert ráð fyrir að þessi hluti lagafrv. gangi í gildi fyrr en 1. júlí á næsta ári og það er sagt frá því í athugasemdum að það sé vegna þess að þarna þurfi að vinna að samningum eða nánari athugun á þessum þætti. En þá langar mig líka til þess að spyrja: Liggur fyrir nokkur áætlun um það hvernig rekstri þessara hafna yrði háttað eftir að hann væri kominn í hendur sveitarfélaganna? Er líklegt að reksturinn yrði með þeim hætti að hafnirnar yrðu ekki baggi á viðkomandi sveitarfélögum? Er eitthvað slíkt sem liggur fyrir sem er grundvöllur að þeirri tillögugerð sem hér er um að ræða?

Þá kem ég loks að X. kafla frv. Hann er að mörgu leyti sérstæður. Hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði honum nokkuð góð skil hér áðan og í rauninni vil ég taka undir margt af því sem hann tók fram í sínu máli. Hér er um að ræða hugmynd um það að mynda annars vegar sérdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og hins vegar uppgjörsdeild. Í því fjárlagafrv. sem nú er til meðferðar er gert ráð fyrir því að framlag til Jöfnunarsjóðs verði 1485 millj. kr. Mér skilst að ef lögunum um Jöfnunarsjóð væri framfylgt, þá ætti framlagið að vera á milli 1600 og 1700 millj. kr. þannig að jafnvel þó að þetta framlag hafi verið verulega hækkað í þessu fjárlagafrv., þá nær það ekki því, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. lagði áherslu á, að vera eins hátt og lögin gera ráð fyrir.

Nú á að mynda sérdeild í Jöfnunarsjóði og því vil ég spyrja: Hversu hátt hlutfall úr Jöfnunarsjóði á sérdeildin að vera? Ég vil í annan stað spyrja: Hvernig á að vera háttað úthlutun úr þessari sérdeild? Hvaða aðili á að fara með það úthlutunarvald sem þarna skiptir á milli sveitarfélaga til jöfnunar, væntanlega frá þeim betur settu til þeirra sem höllum fæti standa? Hvaða aðili er það sem á að meta þetta og hafa þarna úrskurðarvald? Mér finnst það ekki koma nægilega skýrt fram í frv.

Þá vil ég aðeins fara nokkrum orðum um hugmyndina um uppgjörsdeild í seinni hluta 28. gr. frv. Það kemur skýrt fram að uppgjörsdeildin er til þess að gera upp þau mál sem þegar eru komin í framkvæmd, ákvörðuð eða þegar unnin. Þarna á að koma til ákveðin fjárveiting á fjárlögum, 100 millj. kr. eða sem því svarar næstu fjögur ár. Greiðslur úr þessari uppgjörsdeild eiga að vera til verkefna sem þegar hafa verið unnin.

Fyrir nokkrum vikum var lögð fram hér á Alþingi fsp. til ráðherra um skuldastöðu sveitarfélaga í sambandi við félagsheimili. Þar kom fram í einu dæmi, sem ég þekki nokkuð vel til, að ákveðið sveitarfélag úti á landi ætti inni í Félagsheimilasjóði 14 millj. kr. Nú er mér kunnugt um að þetta sama sveitarfélag telur að þessi skuld sé ekki 14 millj. kr. heldur 26 millj. kr. Og ég tek fram að það eru ekki framreiknaðar tölur. Þá má spyrja: Hvaða aðili á um þetta að fjalla? Það er tekið fram hér í frv. Í athugasemd við 28. gr. segir, með leyfi forseta: „Þar sem fjárveiting til allra þessara framkvæmda hefur verið á vegum menntmrn. er ætlunin að fulltrúi frá því ráðuneyti og Sambandi ísl. sveitarfélaga komi sér saman um fjárhagslega stöðu hvers verkefnis í árslok 1987 og uppgjörið verði síðan miðað við þessa stöðu.“ Ég bið menn að athuga að þetta úrskurðaratriði á að færa annars vegar til fulltrúa menntmrn. og hins vegar til eins fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga. Jafnvel svo einfalt atriði eins og það að sveitarfélag fái að leggja orð í belg eða semja um það eða segja álit sitt á því hvernig staða þess er í þessum efnum, það er ekki gert ráð fyrir svo miklum rétti til hvers sveitarfélags. Það er fulltrúi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga sem þarna virðist eiga að vinna þetta viðkvæma verk af hálfu þeirra allra. Þetta er atriði sem ég get ekki fellt mig við.