10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég tek það fram að þó að ég verði með nokkrar athugasemdir hef ég verið þeirrar skoðunar og er að nauðsynlegt sé að stokka þetta upp og þannig að breyta þeirri verkaskiptingu sem hefur ríkt en þó með einu skilyrði, því skilyrði að reynt verði að jafna þann aðstöðumun sem er og verður vegna þessara breytinga. Sé það tryggt mundi ég ekki, fyrir mitt leyti a.m.k., gera athugasemdir við þessa breytingu. En því miður virðist mér við fljótlegan lestur á frv. að þetta sé ekki tryggt, ef ég skil það rétt, og í sumum tilvikum eru viss atriði ekki nefnd hér. Það kann að vera að þau séu inni í heildartölum, en það er ekki nefnt, og þar á ég við skólaakstur. Í strjálbýlli hreppunum getur vegalengdin sem þarf að aka börnum verið 5–6 sinnum lengri en í öðrum strjálbýlishreppum. Hvernig verður þetta jafnað? Ég sé ekki að það sé tekið tillit til þess eða minnst á þetta í frv. eða athugasemdunum við frumvarpsgreinarnar.

Ég vil fá það upplýst hjá hæstv. menntmrh. hvernig þetta er hugsað eða hvort tryggt sé að þessi aðstöðumunur vaxi ekki frá því sem er í gildandi reglum.

Ég ætla ekki að ræða frv. grein.fyrir grein. Aðrir hafa gert þessu góð skil mörgu hverju, en ég heyri það á mörgum sveitarstjórnarmönnum í hinum strjálbýlu hreppum að þeir kvíða mjög þessari breytingu. Það er athyglisvert að í þeim nefndum sem skipaðar hafa verið til að undirbúa frv. er enginn fulltrúi strjálbýlisins, í hvorugri nefndinni, ef marka má það sem stendur í þessari greinargerð. Ég harma það að staðið hafi verið að þessu máli á þann veg, enda sé ég ekki hvernig þessi jöfnuður á milli sveitarfélaganna á að nást innan þeirra frumvarpsgreina sem hér eru fyrir framan mig.

Ég lít svo á t.d. með tónlistarskólana að það eigi að gilda alveg það sama eins og með grunnskólana og ég held að hæstv. forsrh. hafi sagt að það gæti komið til greina. Ég fagna því, enda held ég að ef þessi tilfærsla yrði með tónlistarnám mundu hinir efnaminni síður geta stundað slíkt nám og þar með væri stigið skref aftur á bak.

Ég heyri líka að forsvarsmenn fátækari sveitarfélaganna hafa áhyggjur af að taka alfarið heilsugæsluna, en það er ekkert við því að segja ef tryggt er á annað borð að það sé jafnað á milli þegar upp er staðið. Ég hef það á tilfinningunni að ekki sé gengið nógu vel frá þessum atriðum. Ég spyr því hvort því megi treysta að þarna sé ekki verið að íþyngja tekjuminni sveitarfélögunum. Víða hagar svo til, sérstaklega í strjálbýli, að meðalaldur fólks er hár og venjulega þarf fólk meira að leita til slíkra stöðva eftir því sem það eldist. Þegar það fer svo saman við minnkandi tekjur, eins og er víða í strjálbýli, er það áhyggjuefni. Fer ég ekki út í það í þessari umræðu frekar.

Það sem ég legg áherslu á er að reynt sé að tryggja að aðstöðumunur vaxi ekki, heldur þyrfti nú að stíga það skref, eins og er búið að margheita af forustumönnum stjórnmálaflokkanna, að reyna að standa þannig að málum að minnka aðstöðumuninn.

Ég vil líka spyrja hæstv. menntmrh.: Í II. kafla frv. er talað um að það verði stofnaður íþróttasjóður og það skuli veitt fé úr honum til þess að styrkja byggingu íþróttamannvirkja íþróttafélaga og ungmennafélaga. En það er ekkert sagt um það hvernig með skuli fara þar sem verið er að byggja skólaíþróttahús. Nú fer það venjulega saman í strjálbýli. Hvernig er þetta hugsað?

Ég tek undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði fyrr í kvöld í sambandi við þau mál og ég hef dæmi nálægt mér. Annars vegar er verið að byggja íþróttahús á Hrafnagili og hefur verið á undanförnum árum. Á sama tíma var í minni heimabyggð sótt um það að byggja íþróttahús. Þeir hafa ekki enn hafist handa í því efni, en það voru nokkrum sinnum settar á fjárlög nokkrar krónur í hvert sinn. Staðan er sú að þar er ekki byrjað að byggja. Er það rétt skilið eftir þessum II. kafla laganna að það sé eingöngu átt við íþróttafélög og ungmennafélög, en ekki skólabyggingar? Ég vil aðeins fá þetta skýrt. Þetta er ekki sett þannig fram að ég sé öruggur á þessu atriði við fljótan lestur, en ég vil að það komi hér fram.

Ég mun styðja frv. ef það er tryggt að aðstöðumunurinn vaxi ekki a.m.k. vegna þessarar breytingar á milli sveitarfélaganna, en ef ég fæ ekki svör við því mun ég greiða atkvæði gegn því og mun ekki geta stutt slík frumvörp, enda þyrfti samkvæmt loforðum formanna allra stjórnmálaflokkanna gömlu að stíga það skref að jafna þetta en ekki í öfuga átt.