10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta er ekkert smámál sem er tekið fyrir með afbrigðum á kvöldfundi sem er á góðri leið með að verða næturfundur og ég verð að segja að mér geðjast ekki vel að þessum vinnubrögðum, eins og oft er nú búið að segja í sambandi við hvert stórmálið á fætur öðru. Lagasetning með þessum hætti er náttúrlega ótæk með öllu. Svona gjörbylting, ef segja má svo, er miklu stærra mál en svo að það verðskuldi ekki víðtækari og meiri skoðun almennra þm. en hér er boðið upp á. Það er algjörlega óviðsættanlegt, finnst mér, að löggjafarstörf og lagasetning séu nánast komin í hendur embættismanna og að þm. sé ætlað að fjalla um mál af þessu tagi á fáeinum dögum. Ég mótmæli því harðlega.

Þetta þingmál kom á borð okkar í dag. Það týndist reyndar í flóðinu á mínu borði þannig að ég áttaði mig ekki á því fyrr en nú í kvöld að við værum að fara að ræða þetta mál og er nú kannski ekki að undra þótt svona hlutir geti farið fram hjá þm. í önnum dagsins. Þess vegna hef ég allt of lítið getað búið mig undir þessa umræðu og get vitaskuld ekki gert það á þann hátt sem ég vildi og þetta mál verðskuldar.

Nú er það svo að við í Samtökum um kvennalista, eins og í öllum þingflokkum vafalaust, höfum talað með því og stutt það að gerðar yrðu breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með þeim hætti að á kæmust gleggri skil þar á milli, vitaskuld að því tilskildu að tryggðar séu auknar tekjur sveitarfélaganna til að taka á sig aukin verkefni. Það hlýtur að fylgjast að og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það alls ekki ljóst og engan veginn tryggt af því sem séð verður í frv.

Það er ýmislegt í frv. sem hlýtur að vekja spurningar við mjög snögga skoðun að vísu. Ég geri þá athugasemd hér fyrsta að mér finnst ákaflega bratt af stað farið. Ég held að það hefði verið æskilegra að taka þetta í fleiri skrefum og smærri því að það er mjög erfitt að átta sig á hvaða áhrif þetta hefur og hverju þetta breytir hjá sveitarfélögunum.

Það er enn fremur, finnst mér, afar óheppilegt að gera það á þann hátt sem gera á nú, þ.e. að það komi fram í frv. til fjárlaga að þetta standi fyrir dyrum en menn búi svo við óvissu í marga mánuði um það hvernig þessu verði endanlega háttað og menn hafi enga tryggingu fyrir því hvernig staðið verði að því að tryggja tekjur til þeirra verkefna sem færð eru á milli. Slíkar breytingar á verkefnaskiptingu hefði átt að gera með meiri fyrirvara. Við hefðum átt að fjalla um þetta á nokkrum vikum hér í þinginu og setja um það lög og síðan væri a.m.k. hálfs árs frestur þangað til lögin tækju gildi. Þannig hefðu menn getað skoðað málin og búið sig undir þessa breytingu.

Það er ýmislegt sem kemur upp í hugann þegar rennt er yfir frv. og skal ég ekki taka það mjög nákvæmlega fyrir enda, eins og ég sagði hér áðan, vanbúin til þess. Mig langar þó að nefna lið eins og dagvistarheimilin. Það er reiknað með því að sveitarfélögin sjái ein um byggingu almennra dagvistarstofnana eins og það er kallað hér. Ég kann betur við orðið dagvistarheimili. Þar sem fjallað er í athugasemdum við frv. um þetta mál er bent á það að dagvistun sé einvörðungu í sveitarfélögum í þéttbýli og einkum á stærri stöðunum. Og þessi þjónusta er sögð umfangsmest á höfuðborgarsvæðinu. Það er harla rétt. En þar með er ekki sagan öll sögð. Ástæða þessa er vitaskuld fyrst og fremst sú að það eru þessi svæði sem hafa getað staðið að byggingu dagvistarheimila og þó ekki nándar nærri því nóg eins og menn þekkja. Þörfin er miklu, miklu meiri og ástæðan fyrir því að dagvistun er meiri á þessum stöðum en á minni stöðunum er fyrst og fremst sú að sjóðurinn sem ríkið hefur lagt til hefur verið svo lítill að smærri sveitarfélögin hafa ekki sótt í hann en þau stærri hafa getað stofnað til skulda ríkissjóðs. Það er mjög langt frá því að þörf fyrir dagvistarheimili sé fullnægt og mig undrar það mat sem kemur fram hér í fylgiskjali á því hver kostnaður verði við þennan tilflutning. Þar er náttúrlega ekki miðað við neina þörf, heldur við það sem lagt hefur verið fram til þessara mála á undanförnum árum en það hefur verið langt undir því sem þörf hefur verið fyrir. Þess vegna held ég að það sé mjög rangt mat að það geti ekki orðið dýrara fyrir sveitarfélögin að taka við þessu. Það er þá eins og frumvarpssemjendur reikni ekki með því að sveitarfélögin vilji taka myndarlegar á málinu en gert hefur verið í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og það er því miður einnig grunur minn að svo verði.

Það er með þennan lið eins og fleiri liði í frv. sem á að flytja frá ríki til sveitarfélaga að ég óttast að þeir muni líða fyrir þennan tilflutning. Það hefur ekki verið svo myndarlega að þeim liðum staðið í samstarfi ríkis og sveitarfélaga en ég óttast að það muni ekki fara betur um þá ef þeir verða eingöngu í umsjá sveitarfélaganna, einfaldlega vegna þess að það er ekki nógu vel séð fyrir tekjum í sambandi við þennan tilflutning. Því miður eru þetta verkefni sem eru ekki beinlínis gæluverkefni hins opinbera og a.m.k. á meðan konur eru svo fáar í sveitarstjórnum er ég hrædd um að hin karlmannlegu viðhorf verði þar ríkjandi og að málefni eins og dagvistun barna og segjum tónlistarskólar muni ekki verða þar efst á forgangslistanum.

Það sama má vafalaust segja um aðra þætti. Ég nefni bara vatnsveiturnar sem á að fara að flytja til sveitarfélaganna. Í þeim málaflokki er gífurlega mikið ógert og það er stórt verkefni sem þar er flutt algjörlega yfir til sveitarfélaganna. Framlag ríkisins hefur hingað til ekki verið mjög stórt þannig að þar hafa ekki orðið slíkar framkvæmdir og uppbygging sem þörf hefur verið á. Því óttast ég að sveitarfélögin sjái þar fram á stór og mikil verkefni.

Hvað tónlistarskólana varðar þekkja menn það mál vel svo mikil mótmæli sem okkur hafa borist, fjöldi bréfa og ályktana, og greinaskrif mikil verið í blöðum. Það fer ekkert á milli mála að það er mikill uggur í mönnum vegna þessa og ég held að ástæða hefði verið til að athuga þessi mál nánar og flana ekki að neinu. Ég hef satt að segja ekki heyrt nokkurn mann í röðum sveitarstjórnarmanna né heldur meðal kennara og skólastjóra sem hefur ekki áhyggjur af þessu verkefni. Ekki er ýkja langt síðan, ég man nú ekki hvað það eru mörg ár, að þessi háttur var upp tekinn að ríkið kæmi inn í þessi mál. Þegar það fyrirkomulag var upp tekið sem nú ríkir verkaði það eins og vítamínssprauta á þessa starfsemi í sveitarfélögunum. Það er margra mat að um mikla afturför verði að ræða ef þetta gengur eftir.

Það undrar mig reyndar svolítið, svo kröftug mótmæli sem orðið hafa varðandi þennan málaflokk, að sambærileg mótmæli hafi ekki komið fram vegna tilflutnings annarra verkefna, þ.e. við uppbyggingu dagvistarheimila, að slík mótmæli hafa ekki heyrst jafnkröftuglega í þeim málaflokki. Ég var að velta því fyrir mér hvernig á því stæði því að ég hef sannarlega ekki minni áhyggjur af því en tónlistarfræðslunni. Vel má vera að þar sé um að kenna eðlislægri hógværð kvenna því að það eru fyrst og fremst þær sem hafa áhyggjur af dagvistarmálunum og þeim hættir til þess að sætta sig við það sem að þeim er rétt og reyna að gera hið besta úr öllu saman.

Ég vil svo segja það að stærsta spurningin er einmitt varðandi tekjutilfærslurnar og hlýtur að verða að skoðast mjög vandlega. Ég sé ekki í frv. að svo miklu leyti sem mér hefur tekist að kynna mér það á þessum stutta tíma hvernig sveitarfélögunum er ætlað að standa undir þessu. Það virðist við það eitt miðað að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði skertur minna en verið hefur og það dugir vitanlega engan veginn til. Það stendur á bls. 10 að með þessum verkefnaflutningi sé talið að um 200 millj. kr. útgjöld færist frá ríki til sveitarfélaga, en sveitarfélögum séu jafnframt tryggðar auknar tekjur með meiri framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það er fjallað um uppgjörsmál og að ríkisframlagi verði beint um Jöfnunarsjóð og því verði skipt af fjvn. að fengnum tillögum viðkomandi ráðuneytis. Það kemur hvergi fram að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði ætlaðar auknar tekjur frá þeim lögum sem nú gilda um Jöfnunarsjóðinn og eins og við vitum eru sveitarfélögin ekki sjálfráð um það hvernig þau afla sér tekna. Ég held að þessi mál séu alls ekki nægilega vel frá gengin og mér finnst það fyrir neðan allar hellur að okkur sé ætlað að skoða þetta á örfáum dögum.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. sem mælti fyrir þessu frv. hvort það sé með öllu ásetningur ríkisstjórnarinnar að þetta frv. verði að afgreiða fyrir þinghlé.