10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Ég vil í meginatriðum lýsa stuðningi við þetta frv. til laga, um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég fell að vísu undir þann hóp þm. sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði að hefði ekki hundsvit á þessum málum og viðurkenni það fúslega. Ég tel mig engu að síður hafa örlítið vit á íþróttamálum og ætla þess vegna eingöngu að fjalla um þau í stuttu máli.

Það er viðurkennt í dag að íþróttir stuðla að hollustu og þroska. Þær eru viðurkenndar á öllum sviðum. Þær eru viðurkenndar sem landkynning. Þær eru viðurkenndar sem gott forvarnarstarf þegar rætt er um tóbaksneyslu og áfengi, fíkniefni og önnur mál. Á sama tíma og þetta allt fer fram og allir viðurkenna þá á að stefna íþróttalífinu í landinu í hættu. Ég segi að það sé verið að stefna í hættu þegar á að færa þennan málaflokk yfir á sveitarfélögin. Og er ég ekki í nokkrum vafa um það. Ég sé alveg fyrir mér þegar sveitarstjórnir eiga að fara að skipta „púlíunni“ og raða niður á verkefnin: Eigum við að setja þessu meira í sjúkrahúsið eða eigum við að setja það í íþróttavöllinn? Það er ósanngjarnt að stilla sveitarstjórnum svona upp. Þetta á alls ekki að fara yfir í þeirra verkahring.

Það er alveg ljóst að þetta mun skapa aðstöðumun fyrir íþróttir í landinu. Eins og hæstv. fyrrv. félmrh. kom inn á þá mun þetta einnig valda byggðaröskun. Það er enginn vafi á því að metnaðarfullir einstaklingar í íþróttum fara þangað sem aðstaðan er. Það er ekki nokkur vafi. Og hvar er aðstaðan? Hún er öll hér á Reykjavíkursvæðinu í dag. Og sá aðstöðumunur mun aukast með tilkomu þessara laga ef þau verða samþykkt óbreytt.

Íþróttir eru líka viðurkenndar sem mikil landkynning fyrir þjóðina. Við eigum að viðurkenna þetta allt og stuðla að öflugra íþróttalífi og öflugra íþróttastarfi en nú er til staðar. Þar af leiðandi mun ég við 2. umr. flytja lengra mál væntanlega og dýpra hugsað. Ég mun þá flytja brtt. við þetta frv. þar sem ég mun mælast til að II. kaflinn verði algjörlega felldur út. Ég er hins vegar tilbúinn til að standa að endurskoðun á íþróttalögunum í heild. En Íþróttasjóður á að vera til. Sá Íþróttasjóður sem nefndur er í Il. kafla er ekkert annað en „snuð“ upp í okkur til að þagga niður í okkur. Ég get ekki séð hvað hann á að gera. Það væri fróðlegt að vita hvaða hugmyndir menn hafa um fjármagn til þessa sjóðs. Ég hef grun um að það sé eitthvað óverulegt og varla upp í nös á ketti.

Á bls. 12 segir, með leyfi forseta.

„Fjármálanefnd lagði mat á verkefnaflutning frá Íþróttasjóði til sveitarfélaganna við byggingu íþróttamannvirkja. Hann er metinn á rúmar 43 millj. kr. á núverandi verðlagi.“ Þessi tala er mér algjörlega hulin ráðgáta.

Ég lagði fyrir hæstv. menntmrh. fsp. sem hljóðaði þannig: Hver verður ógreidd hlutdeild Íþróttasjóðs í byggingu íþróttamannvirkja um næstu áramót? Svarið var 193 millj. kr.

Við annarri spurningu sem ég lagði fyrir menntmrh.: Hver er áætlaður kostnaður við að ljúka þeim íþróttamannvirkjum sem nú eru í byggingu? var svarið 267 millj. kr.

Við þriðju spurningunni: Hverju nema óafgreiddar beiðnir til Íþróttasjóðs um byggingu íþróttamannvirkja? var svarið 463 millj. kr.

Á að velta þessu öllu yfir á sveitarfélögin? Hvernig á að standa skil á þessu?

Það er viðurkennt að íþróttir og góð frammistaða í íþróttum er byggðarlögum til framdráttar. Nægir að nefna t.d. knattspyrnulið sem heitir Víðir og er úr Garðinum. Ég get fúslega viðurkennt að ég vissi ekkert hvar Garður var fyrr en þetta lið komst upp á stjörnuhimin þeirrar íþróttar.

Þá má spyrja: Hvernig á að standa að þegar landssamtök ætla að reisa hús? Hvaða sveitarfélög eiga þar að koma inn í? Hvað ef Handknattleikssamband Íslands ætlar að reisa hér aðra íþróttahöll, sem væntanlega allt landið á að nota? Hverjir eiga að greiða það? Það væri fróðlegt að vita það.

Það berast núna áskoranir úr öllum áttum um að verja íþróttir. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að hlusta á þær raddir sem þar koma fram. Læt þetta duga, forseti.