10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Ellert Eiríksson:

Herra forseti. Ég ætla að eyða örfáum mínútum af tíma hv. deildar til að fjalla aðeins um þetta frv. til laga um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég vil sérstaklega fagna því að í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar hafi þetta verið eitt af þeim stóru málum sem var lögð áhersla á og ég fagna því sérstaklega að nú skuli gengið það skref að koma þessu af stað.

Forsrh. fylgdi þessu frv. úr hlaði og gat þess m.a. réttilega að nefndin sem stóð að þessu verki gaf út bók þar sem var kynnt hvernig að ætti að standa verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, ekki aðeins sem kemur fram í frv. heldur allviðameiri verkefnum en þar er. Þannig er verið að kynna hér aðeins 1/3 af því sem fyrirhugað er.

Í fljótu bragði get ég tjáð mig um að þessi 1/3 hluti, sem lagður er fram, er örugglega sá þægilegasti fyrir sveitarfélögin að takast á við og mjög hæfilegur prófsteinn á hvernig þessi samskipti takast. Það hefur verið gagnrýnt hér að menn viti lítið um hvað þeir eru að tala, þetta hafi verið illa kynnt og jafnvel séu að sjá þetta sumir í fyrsta skipti í kvöld. Svo má vel vera. En ég vil láta koma skýrt fram að í sumar eða réttara sagt í haust var sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum, að hluta til a.m.k., boðið að koma og hitta þar formann Sambands ísl. sveitarfélaga og formann fjárhagsnefndar, sem hér situr í hliðarsal, til að ræða m.a. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og fá athugasemdir frá okkur ef við hefðum einhverjar fram að færa. Fyrir hvers forgöngu það var að þeir komu til að ræða við okkur um þetta veit ég ekki, hvort það var hæstv. félmrh. eða hvort það var Samband ísl. sveitarfélaga sem sendi þá. Það skiptir engu máli. Alla vega komu þeir og buðu upp á þetta. Ég vona að við höfum ekki notið þeirra sérréttinda einir að fá þessa heimsókn og þessa kynningu.

En það er rétt að líta á annað. Hv. 5. þm. Vesturl. gat um sveitarfélag þar sem ég er sveitarstjóri, þ.e. Gerðahrepp, og árangur knattspyrnuliðs sem þar er. En um leið og þessu knattspyrnufélagi fór að ganga betur í knattspyrnu þurfti að bæta þess aðstöðu. Það þurfti að byggja íþróttamannvirki og sveitarfélagið hefur gert það. Því miður hafa núverandi lög og reglugerðir um Íþróttasjóð og framlög ríkisins litlu skilað, jafnvel kannski innan við 5% af byggingarkostnaði, þannig að ég sé ekki hvaða styrkur hefur verið að því enn, en má vera að hann komi síðar. En þá er rétt að minna á það, sem hv. 1. þm. Vesturl. gat um áðan, fyrrv. félmrh., að nýju sveitarstjórnarlögin gera núna þá kröfu til sveitarstjórnarmanna að þegar þeir gera fjárhagsáætlanir eða taka ný mannvirki á sína framkvæmdaáætlun þurfa þeir að gera þriggja ára áætlun og rekstraráætlun fyrir viðkomandi stofnun. Það vill svo vel til eða illa að fyrirtæki sem sveitarfélögin setja á stofn, t.d. eins og sundlaug, vill oftast vera auðveldasti hlutinn í byggingu en erfiðasti hlutinn að reka það af því að menn fara af stað og segja: Sveitarsjóður 10 millj., ríkissjóður 10 millj. Það er bara ekki svo slæmt mál. Og þeir vaða af stað. Svo kemur reksturinn. Hann er ekki bara 1 millj., hann er kannski 10 millj. á fyrsta ári.

Ég held að það sé grundvöllurinn í þessu og tel það eiginlega meginþáttinn að ábyrgð sveitarstjórnarmanna, sem leggja af stað í framkvæmdir, m.a. eins og kemur fram í frv., tengist því að þeir verða að fjármagna alla framkvæmdina sjálfir og þeir verða að gera sér grein fyrir öllum rekstrarkostnaðinum sjálfir úr eigin vasa. Ég held að hægt sé að fullyrða það hér, hv. 5. þm. Vesturl., að íþróttir og íþróttamannvirki verða ekkert frekar út undan í sveitarfélögum hvort sem þau hafa á dagskrá að byggja götur eða sundlaugar, íþróttahús eða sjúkrahús. Ég held að það fari alveg eins og hér í hv. fjvn. eftir áhuga hvers og eins hvaða málaflokkar njóta þar forgangs.