10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég held að hæstv. félmrh. hafi ekki skilið að fullu það sem kom fram í mínu máli. Ég er að gagnrýna vinnubrögð fyrst og fremst við þau áform sem koma fram í þessu frv., þ.e. að sætta sveitarfélögin við þá ákvörðun að yfirtaka þessi verkefni núna við áramót. Ég hef orðið átakanlega var við það sjálfur, jafnvel í mínu kjördæmi, að fjöldi sveitarstjórnarmanna segist ekki hafa verið hafður með í ráðum um hvernig að þessu ætti að standa og hvað þeir fengju í sinn hlut í sambandi við að standa að þessum tilflutningi sem þó er ekki meiri en þetta. Það er alveg ljóst.

Ég þarf ekkert að efast um það sem ég lagði áherslu á og tók fram í mínu máli. Nál. er í alla staði mjög vandað eins og ég tók fram í minni ræðu. Það hefur aldrei áður verið gerð slík úttekt á áformum í sambandi við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þar sem bæði eru tiltekin verkefni og einnig fjármálaleg aðferð sem þar er kynnt eins og þær nefndir sömdu og settu fram í þeirri bók sem var send öllum sveitarstjórnarmönnum í landinu. En það sem vantaði til viðbótar var að fá sveitarstjórnarmenn til að sættast á hvernig að þessum verkefnatilflutningi yrði staðið í framhaldi af þessari skýrslu. Það er ég að gagnrýna vegna þess að ég veit að það var tekin ákvörðun um að setja þetta inn í fjárlögin og ákveðið að þessi tilflutningur skyldi fara fram við nk. áramót, en það vantaði meiri kynningu á því svo að sveitarstjórnarmenn í landinu gætu áttað sig á því hvað þeir fá í hendurnar um næstu áramót. Margir þeirra, sem eru að undirbúa núna fjárhagsáætlanir fyrir árið 1988, eru í vandræðum með þetta vegna þess að þeir hafa ekki fengið að þeirra mati nægjanlega kynningu á þessu atriði.

Það er þetta sem ég vildi láta koma fram við 1. umr. málsins að ég tel að hafi verið vanrækt. Og hvað sem hver segir er það félmrh. og félmrn. sem ber ábyrgð á að þessir hlutir séu í lagi.