12.12.1987
Efri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

Vinnubrögð í efri deild

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um þinghaldið hafa verið skipulögð nefndastörf eftir helgina. Það liggur fyrir að bæði sjútvn. og fjh.- og viðskn. eru mjög önnum kafnar á mánudag og þriðjudag á þeim tíma sem næði gefst til nefndarstarfa. Mér er ekki kunnugt um að nein máli liggi hér fyrir sem brýnt er að ræða í dag. Hins vegar er gert ráð fyrir að það verði þingfundur í deildinni á þriðjudaginn og ég veit ekki til þess að það séu nein þau mál á leiðinni sem valdi því að ekki gefist nægur tími á þriðjudaginn til að tala um þau mál sem á eftir að leggja fyrir deildina eða koma kunni úr Nd. Ég vil því biðja hæstv. forseta að virða það samkomulag sem tekist hefur um að við fáum nú næði til að einbeita okkur að nefndarstörfum og getum snúið okkur að því nú og síðan sé hægt að taka ný frumvörp til meðferðar á þriðjudaginn. Það er m.ö.o. í mínum huga ekkert sem kallar á fund í dag. Í fjh.- og viðskn. Ed. var fullkomin samstaða um að við reyndum að skipuleggja nefndarstörfin nú um helgina og undirbúa fund vel á mánudaginn. Það er ýmislegt sem þarf að gera varðandi þau tekjuöflunarfrv. sem fyrir liggja og komu seint fram. Það þarf að athuga ýmislegt í sambandi við lánsfjárlögin og þm. þurfa að ræða ítarlega saman um stjórn fiskveiðistefnunnar, það frv. sem fyrir liggur um hana, en drögum að reglugerðum var dreift í morgun hjá sjávarútvegsnefndum. Allt tekur þetta tíma og ég held að það sé best fyrir þingstörfin að reyna að gefa starfsmönnum deildarinnar frið það sem eftir er dagsins til að sinna nefndarstörfum.