12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. félmn. (Óli Þ. Guðbjartsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 2. minni hl. félmn. sem kemur fram á þskj. 243. Frv. þetta til laga um breyt. á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 60/1984, sbr. lög nr. 54/1986, sbr. lög nr. 27 1987, ber þess glöggt vitni að enn er mikill vandi fram undan til frambúðarlausnar í fjármögnun og útfærslu húsnæðislánakerfisins.

Í athugasemd með þessu frv. er m.a.s. svo langt gengið, með leyfi hæstv. forseta, að segja: „Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að grípa verður til áhrifaríkra aðgerða til að koma í veg fyrir gjaldþrot húsnæðiskerfisins. Fyrstu skrefin í þá átt eru stigin með þeim breytingartillögum sem felast í þessu frumvarpi.“

Ég er þeirrar skoðunar að hér sé ekki hreyft við grundvallarvanda þess kerfis, en hann er að mínu mati lánskjaravísitalan sem sett var með lögum nr. 13/1979. Í sjálfu sér eru flest atriði 1. gr. þessa frv. spor í rétta átt þegar haft er í huga að hér er verið að skipta of litlu fjármagni á milli of margra. Engu að síður er ljóst að mikið vantar á að tekist sé á við þetta verkefni á viðunandi hátt. Það sést m.a. á 2. gr. frv., sem seinasti hv. ræðumaður gerði líka mjög að umræðuefni í sínu máli, en þar segir, með leyfi forseta, að umsækjendur skuli innan þriggja mánaða, frá því að umsókn var lögð fram, fá svar um hvort þeir eigi rétt á láni og líklegan afgreiðslutíma láns. Endanleg svör um afgreiðslutíma láns og lánsupphæð berist eigi síðar en einu ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu.

Allir munu sjá hve losaralega löggjöf hér er um að ræða þar sem engin tímamörk eru sett frá fyrstu svörum til endanlegra svara. A.m.k. virðist líklegt að um árabil sé að ræða í þessu efni.

Það er dálítið athyglisvert að bera þetta markmið saman við það kerfi sem nágrannar okkar búa við. Annars staðar á Norðurlöndum er það þannig ef menn þurfa á húsnæðisláni að halda að þeir fengið viðunandi fyrirgreiðslu til áratuga á aðeins einni viku. Þannig er niðurstaðan þar sem hefur tekist að vinna fram löggjöf sem kallar fram það jafnvægi sem er algjör nauðsyn.

Meginniðurstaða mín er því sú að húsnæðislánakerfið sé nú á þeim krossgötum að óhjákvæmilegt sé að Alþingi taki það til endurskoðunar frá rótum með afnámi lánskjaravísitölunnar og reisi á þeirri endurskoðun löggjöf um gjörbreytt kerfi sem ætlað væri að standa lengur en fáeina mánuði eins og raunin hefur orðið um alla löggjöf í þessu efni seinustu þrjú til fjögur ár ef ekki lengri tíma. Mikilvægt er að menn átti sig á og viðurkenni að lánskjaravísitalan skv. lögum nr. 13/1979 er hér meginógæfuvaldur sem mestu skiptir að uppræta.

Í tillögum sem þm. Borgarafl. flytja á Alþingi um heildarskoðun á húsnæðislöggjöfinni er bent á leiðir til lausnar í þessu efni sem leysa mundi lánskjaravísitöluna af hólmi öllum til ómælds léttis. Í þeim tilgangi flytja þm. Borgarafl. brtt. við þetta frv, hér í þessari hv. deild. Fyrsti flm. þess frv., hv. 5. þm. Vesturl., mun mæla fyrir þeim brtt. sem eru raunar heildstætt frv. til laga um Húsnæðisstofnun. Enn fremur er rétt í þessu sambandi að minna á frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka sem þm. Borgarafl. í Ed. hafa flutt.

Megintilgangur þm. Borgarafl. með þessum tillöguflutningi er að ráðast strax til atlögu við húsnæðislánakerfið og hina óréttlátu lánskjaravísitölu og leggja til aðrar raunhæfar leiðir en þær sem enn virðast hér uppi í þinginu, sem sé þær að lappa upp á kerfið á gjörsamlega ófullnægjandi hátt eins og hæstv. félmrh. virðist ætla að láta sér lynda. Við teljum hins vegar að meginmarkmiðið sé að draga úr spennu húsnæðislánakerfisins og auka réttlæti til handa þeim sem verða nú að þola órétt og áníðslu. Við teljum að ríkið geti ekki vikið sér undan að hafa á sínum vegum styrka stofnun sem annast húsnæðislán til félagslegs húsnæðis og þeirra sem byggja í fyrsta sinn á viðunandi kjörum. Þessir aðilar munu nú vera um 40% markaðarins. Við teljum hins vegar núverandi bankakerfi eiga fullt í fangi með að fjármagna atvinnuvegi og aðrar þarfir þjóðfélagsins og það er einmitt þess vegna sem við teljum að það þurfi að stofna sérstaka húsbanka, ekki síst með aðild lífeyrissjóðanna, til þess að annast önnur lán til húsnæðisviðskipta. Og síðast en ekki síst teljum við að hugmyndin um vaxtaaðlögunarlán, sem fram kemur í frv. hv. þm. Borgarafl. í Ed., muni þegar menn hafa áttað sig og þegar menn hafa kynnt sér festuna í þessum efnum, sem er annars staðar á Norðurlöndum, þá muni þessi leið leiða til þess að hin illræmda lánskjaravísitala verði leyst af hólmi, og það er aðalatriði þessa máls.

Það er líka aðalatriði að losa húsnæðislánakerfið og húsbyggjendur undan þessari árlegu umönnun og forsjá hv. þm. og misjafnlega skynsamlegum aðgerðum þeirra unnum í álíka flýti og hér er þessa daga þegar menn eru sömu dagana að fást við tugi annarra lagafrv. Eðlilegt jafnvægi er algjör nauðsyn til að þessi mál komist á þann veg sem við er unandi.