12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Ingi Björn Albertsson:

Hæstv. forseti. Á þskj. 222 flyt ég brtt. við frv. til laga um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60/1984, sbr. lög nr. 54/1986, sbr. lög nr. 27/1987. Það er 47. mál Nd. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Borgarafl. í Nd., þau Óli Þ. Guðbjartsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Albert Guðmundsson og Hreggviður Jónsson. Brtt. hljóðar svo:

„Á undan 1. gr. frv. komi ný grein svohljóðandi:

a. Í stað 1.-75. gr. laganna komi 37 nýjar greinar.“

Hæstv. forseti. Þm. Borgaraflokksins hafa á haustþingi unnið að því að setja fram nýja stefnu í húsnæðismálum. Má segja að hvati að þessari vinnu hafi komið með húsnæðisfrv. hæstv. félmrh. Því frv. má líkja við fjallið sem tók jóðsótt og fæddist mús.

Í frv. er engin tilraun gerð til þess að leysa hin raunverulegu vandamál sem stafa af því að við búum við gjörónýtt húsnæðiskerfi gömlu flokkanna. Þarna er aðeins verið að bjarga í horn og stoppa upp í eitt gatið enn á stagbættum sokk. Til þess að hjálpa hæstv. félmrh. við að komast út úr þeim ógöngum sem húsnæðislánakerfið er komið í höfum við þm. Borgarafl. lagt fram frv. um húsnæðislánastofnanir í Ed. og leggjum nú fram í hv. Nd. brtt. við svokallað húsnæðisfrv. hæstv. félmrh.

Með þessari brtt. sem felur í sér heildarendurskoðun á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er í raun sett fram alveg nýtt húsnæðislánakerfi sem allar líkur eru á að geti virkað á eðlilegan hátt, eins og segir í I. kafla um markmið laganna, að allir landsmenn geti búið við öryggi í húsnæðismálum. Að búa við öryggi í húsnæðismálum er óþekkt hugtak í því húsnæðislánakerfi sem byggir á núverandi löggjöf. Þá höfum við notað tækifærið og annast hreingerningu, svo notað sé orð hæstv. fjmrh., á húsnæðislögunum. Lögin eru því sem næst orðin allsherjar ruslakista þar sem saman er safnað öllum mistökum fyrri tíma. Húsnæðisfrv. hæstv. félmrh. í því formi sem það var lagt fram er ein viðbótin enn í þá ruslakistu.

Á árinu 1986 kom þannig til samkomulag um skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna af Byggingarsjóði ríkisins sem hefur aukið fjárstreymi til hans svo um munar. Samkvæmt því skyldu allir sjóðfélagar, sem hefðu 20 mánaða lífeyrissjóðsréttindi í þeim lífeyrissjóðum sem samþykktu að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins, fá lán hjá Húsnæðisstofnun. Aðrir, þ.e. þeir sem ekki hefðu slík réttindi, voru ekki taldir skipta máli. Þannig var ætlað að loksins hefði fundist leið til að tryggja rekstur húsnæðislánakerfisins með ríflegu fé til útlána og koma á móti íbúðarkaupendum með hærri lánum en áður höfðu þekkst. Ekki virðist þessi ráðstöfun hafa gagnað. Þannig munu um 6000 umsóknir liggja óafgreiddar hjá Húsnæðisstofnun ríkisins meðan beðið er eftir því að einhverjar leiðir finnist til þess að finna aukið fjármagn til húsnæðiskerfisins eða leiðir til þess að takmarka aðgang umsækjenda að lánum úr byggingarsjóðunum.

Frv. hæstv. félmrh. er sett fram til að takmarka aðgang sjóðfélaga lífeyrissjóðanna að láni úr Byggingarsjóði ríkisins þrátt fyrir samkomulag það sem þeir hafa gert um skuldabréfakaupin. Í rauninni er með þessari síðustu tilraun hæstv. félmrh. til þess að stoppa upp í eitt gatið enn á handónýtu húsnæðislánakerfi landsmanna kveðinn upp dauðadómur yfir því í núverandi mynd. Því er kominn tími til að leita nýrra leiða, hugsa málið upp á nýtt. Landsmenn eru löngu orðnir yfir sig þreyttir á því að slást við húsnæðislánadrauginn sem hefur tröllriðið þjóðfélaginu mörg undanfarin ár í skjóli óviturlegra ráðstafana þeirra sem hafa mest áhrif og völd til þess að móta núgildandi löggjöf um húsnæðismál.

Þeirri skoðun hefur oft verið hreyft að bankakerfið eigi að taka að sér húsnæðislánin. Bankarnir geti alfarið séð um öll húsnæðislán og þurfi ríkið ekki að skipta sér frekar af þeim. Flm. telja að slíkt kerfi muni aldrei geta gengið í þessu fámenna þjóðfélagi. Bankarnir eigi fullt í fangi með að sinna lánum til atvinnurekstrar, veita lán til skamms tíma til að fjármagna kaup á alls kyns neysluvörum, bílum, heimilistækjum, Spánarferðum, svo eitthvað sé nefnt. Þeir veita einnig skammtímalán vegna húsbygginga og íbúðarkaupa og munu þurfa að halda því áfram hvaða húsnæðislánakerfi sem yrði fundið upp. Það að veita langtímaveðlán, allt að 40 ára lán vegna fasteigna samræmist illa þeim bankarekstri sem landsmenn þekkja til. Þá hefur þeirri spurningu heldur ekki verið svarað hvar bankarnir eigi að finna eða skapa það fjármagn sem óseðjandi húsnæðislánakerfið þarfnast. Það má benda á það að bankarnir mundu aðallega geta sinnt þeim sem hafa góða afkomu og ættu auðveldara með að greiða hina háu markaðsvexti af húsnæðislánum bankanna.

Eftir sem áður verður nauðsynlegt að ríkisvaldið sinni málefnum þeirra sem þurfa á aðstoð að halda í þjóðfélaginu. Þannig verða félagslegar íbúðir áfram að vera undir verndarvæng ríkisins. Eins er mikilvægt að ungt fólk sem er að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð fái aðgang að hagkvæmum lánum. Þeim sem eru að stofna heimili og reyna að koma undir sig fótunum, eru að stíga sín fyrstu spor á húsnæðisbrautinni verði hjálpað. Unga fólkið hefur hreinlega ekki bolmagn til þess að standa undir miklum lánum á markaðsvöxtum nú á tímum. Sá tími er liðinn að sumarhýran dugði fyrir útborgun í íbúð og verðbólgan sá um afganginn.

Flm. leggja því til að tekið verði upp tvöfalt húsnæðislánakerfi. Í fyrsta lagi sjái ríkið aðeins um lánveitingar til bygginga með félagsleg markmið og til þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Í þessu skyni hafa þm. Borgarafl. gert róttæka breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 60/1984, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að breyta starfsemi og skipulagi Húsnæðisstofnunar ríkisins. Flm. telja að starfsemi stofnunarinnar verði að vera markvissari einkum gagnvart lánunum sjálfum og þeim fjármunum sem fara um hendur hennar. Því gerum við ráð fyrir að stofnunin starfi sem bankastofnun. Hún hafi sjálf til vörslu Byggingarsjóð ríkisins og annist allar fjárreiður vegna hans. Með þeim hætti getur stofnunin geymt fé sjóðsins í þeim bönkum og útibúum úti á landi sem henni sýnist. Enn fremur annist stofnunin allar lánveitingar og innheimtu lána. Með þessu hefur stjórn og framkvæmdastjórn stofnunarinnar full umráð yfir þeim fjármunum sem varið er til útlána og fær aukna ábyrgð. Starfsemi stofnunarinnar verður markvissari og ábyrgari og mun styrkari. Flm. sjá ekki nauðsyn þess að Seðlabankinn annist vörslu Byggingarsjóðsins né heldur að stofnunin geti ekki rekið sína eigin veðdeild.

Varðandi stjórn stofnunarinnar teljum við rétt að hún sé kjörin af hv. Alþingi. Engir hagsmunaaðilar tilnefni menn í stjórnina þar sem erfitt er að gera upp á milli hinna fjölmörgu félagasamtaka sem til greina gætu komið. Þar sem hlutverk Húsnæðisstofnunar væri nú eingöngu orðið að sjá um lánveitingar til félagslegra íbúða og til þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð telja flm. rétt að sameina byggingarsjóði ríkisins í einn sjóð. Engin ástæða er til þess að Húsnæðisstofnun þurfi að greina á milli mismunandi byggingarsjóða eftir lánveitingum. Því er lagt til að Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verði sameinaðir. Úr hinum sameinaða byggingarsjóði verði síðan einungis veitt lán til forgangshópa, eins og segir í 9. gr. brtt., með leyfi forseta:

„Úr Byggingarsjóði ríkisins er heimilt að veita lán til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði, til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á notuðu húsnæði, til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði og til orkusparandi breytinga á húsnæði sem hér segir:

1. Íbúðir fyrir lágtekjufólk (verkamannabústaðir).

2. Íbúðir fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð.

3. Verndaðar íbúðir fyrir fatlaða.

4. Verndaðar íbúðir fyrir aldraða.

5. Leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga.

6. Leiguíbúðir á vegum félagasamtaka.

Úr Byggingarsjóði ríkisins er enn fremur heimilt að veita lán til byggingar eða kaupa á húsnæði fyrir félagslegar stofnanir á vegum opinberra aðila og félagasamtaka, svo sem dagvistarstofnanir fyrir börn og aldraða, hjúkrunarheimili og dvalarheimili.“

Hlutverki Húsnæðisstofnunar ríkisins er þannig breytt verulega og aðgangur að lánveitingum stofnunarinnar þrengdur verulega frá því sem nú gerist. Stofnunin mun aðallega annast lánveitingar með hagstæðum kjörum til:

1. íbúða fyrir lágtekjufólk, þ.e. verkamannabústaða,

2. þeirra sem eru að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð,

3. byggingar leiguíbúða í samvinnu við sveitarfélög, félagasamtök og hagsmunasamtök launþega“

4. byggingar verndaðra íbúða fyrir aldraða og fatlaða,

5. að takast á við sérstök verkefni, félagslegs, tæknilegs og fjárhagslegs eðlis.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem flm. hafa fengið munu þeir sem þannig ættu rétt á húsnæðislánum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins vera tæplega 40% af þeim sem sækjast eftir lánum til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði hverju sinni.

Ljóst er að mun auðveldara verður fyrir Húsnæðisstofnun að sinna þörfum þessa takmarkaða hóps. Starfsemi hennar og fjárþörf umfram það sem endurgreiðslur lána tryggja verður fjármögnuð með ríkisframlögum og skuldabréfaútgáfu. Ljóst er að því aðeins er hægt að veita hagstæð lán til ofangreindra forgangshópa.

Flm. hafa ekki talið rétt að gera miklar breytingar á verkamannabústaðakerfinu. Það er talið eðlilegt að frekar verði talað um íbúðir fyrir lágtekjufólk en verkamenn. Er hér aðeins verið að leiðrétta hugtök sem eru skilgreind með öðrum hætti nú en þegar lögin um verkamannabústaði voru sett á síðustu dögum vorþings 1929. Þá tókust á í Ed. um frv. stjórnmálakempurnar Jón Baldvinsson, formaður Alþfl., og Jón Þorláksson, formaður Sjálfstfl. Náðist samkomulag um að hafa einn sjóð þrátt fyrir að frumvarpsdrögin eins og þau voru samþykkt gerðu ráð fyrir sjóði í hverju byggðarlagi.

Þrátt fyrir að verkamannabústaðakerfið hafi staðist tímans tönn eru margir gallar á því og ýmsir vankantar sem flm. þótti rétt að sníða af. M.a. er í frv. gert ráð fyrir húsnæðisnefndum sveitarfélaga sem fá miklu víðtækara umboð og verksvið en stjórnir verkamannabústaðanna hafa nú. Gerum við ráð fyrir að þær fái svipaða stöðu í stjórnkerfi sveitarfélaga og byggingarnefndir þeirra.

Þá höfum við gert veigamiklar breytingar á kaflanum um skyldusparnað ungs fólks. Í tillögum okkar er gert ráð fyrir að ungu fólki standi til boða að gera samning við Húsnæðisstofnun um að skyldusparnaðurinn renni til byggingar leigu- og eignaríbúða fyrir ungt fólk. Húsnæðisstofnun getur leitað eftir samstarfi við sveitarfélög og önnur félagasamtök, m.a. samtök námsmanna, um að byggja slíkar íbúðir fyrir það fé sem þannig rennur til Byggingarsjóðs ríkisins. Ungt fólk sem hefur gert samning um slíka ráðstöfun skyldusparnaðar hefur forgang að þessum leiguíbúðum. Að skyldusparnaðartímabilinu loknu fær sá sem hefur ráðstafað skyldusparnaði sínum með þessum hætti afhent afsal fyrir eignarhlut í íbúð á vegum Húsnæðisstofnunar. Getur hann þá fengið lán hjá stofnuninni til þess að kaupa íbúðina eða hann getur selt eignarhlutinn á markaðsverði. Hér er um mikla áherslubreytingu að ræða á kaflanum um skyldusparnað ungs fólks. Með þeim hætti sem hér er lýst vinnst tvennt:

Í fyrsta lagi er reynt að koma til móts við mikla húsnæðisþörf ungs fólks. Ungt fólk á við mikinn húsnæðisvanda að stríða. Mjög erfitt er að finna leiguíbúðir og er markaðsleiga íbúða á frjálsum húsaleigumarkaði orðin svo há að ungt fólk á mjög erfitt með að standa undir henni. Einkum á þetta við um námsfólk. Ríkir hreint neyðarastand í húsnæðismálum námsmanna.

Í öðru lagi yrði minni ásókn í það að fá skyldusparnaðinn greiddan út hjá þeim hópum sem hafa rétt til slíks, einkum námsmönnum. Eins og skyldusparnaði ungs fólks hefur verið varið hefur það ekki séð mikinn tilgang í því að safna sparifé hjá Byggingarsjóði ríkisins. Námsmenn sækja yfirleitt um að fá skyldusparnaðinn greiddan út eftir hvert ár og gervihjónabönd ungs fólks til þess eins að ná út skyldusparnaði eru vel þekkt. Ætli ungt fólk yrði ekki sáttara við það að spara saman með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, að eignast stóran hlut í íbúðarhúsnæði með skyldusparnaði sínum og fá síðan tækifæri til þess að kaupa íbúð með hagstæðum lánum strax að loknu skyldusparnaðartímabilinu eða geta selt verðmætan eignarhlut í íbúð?

En hvernig á þá að fara með hina, það er að segja þá sem ekki lengur hafa aðgang að lánum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins? Það er sá hópur sem þegar á íbúð og hefur væntanlega fengið lán á hagstæðum kjörum hjá Húsnæðisstofnun áður. Þetta munu vera rúmlega 60% þeirra sem eru á almennum fasteignamarkaði. Hér er um að ræða íbúðareigendur sem ætla að stækka við sig eða minnka við sig, breyta eða lagfæra íbúðir sínar, þurfa að flytja á milli staða og selja og kaupa íbúð þess vegna, svo dæmi séu tekin. Til þess að tryggja aðgang þessa hóps að hagstæðum langtímaveðlánum vegna fjárfestingar í fasteignum telja flm. að nauðsynlegt sé að koma upp sérstökum húsnæðislánastofnunum, húsbönkum, sem hafi það hlutverk eingöngu að veita slík lán. Slíkir húsbankar verða að lúta lögmálum þess fjármagns- og viðskiptakerfis sem landsmenn búa við en með heppilegri löggjöf má ætla að þeir geti haft jákvæð áhrif á þróun fjármála í landinu, einkum lánskjör og stefnumótun í verðtryggingar- og vaxtamálum. Hafa þm. Borgarafl. í hv. Ed. þegar mælt fyrir frv. til laga um húsnæðislánastofnanir eða húsbanka. Þær brtt. sem við nú leggjum fram í hv. Nd. eru nátengdar því frv. og verða að skoðast í samhengi við það.

Flm. gera ráð fyrir því að bankarnir, tryggingarfélög, hagsmunasamtök launþega og lífeyrissjóðirnir muni koma upp slíkum sjálfstæðum húsnæðislánastofnunum eða húsbönkum á grundvelli þess lagafrv. Mikilsvert er að vel til takist. Almenningur verður að geta borið fullt traust til slíkra lánastofnana ef á að vísa honum að hluta til frá húsnæðislánakerfi ríkisins yfir til sjálfstæðra stofnana.

Það lagafrv. sem þm. Borgarafl. lögðu fram í Ed. og er þar enn til 1. umr. skilgreinir starfsemi slíkra húsbanka byggða á erlendum fyrirmyndum. Slíkir húsbankar eru víða starfandi í nágrannalöndum okkar og hafa gefið góða raun. Húsnæðislánakerfi nágrannaþjóðanna virðist yfirleitt vera í góðum farvegi og hinar örvæntingarfullu ráðstafanir sem sífellt er verið að gera á Íslandi til þess að bjarga gjörónýtu húsnæðislánakerfi okkar eru þar óþekktar með öllu. Stjórnmálamenn nágrannalandanna þurfa ekki að hafa mikil afskipti af húsnæðislánamálum. Um þau hefur ríkt friður og ró um áratuga og jafnvel alda skeið. Þannig hefur danska húsnæðislánakerfið lítið breyst frá því að fyrstu húsnæðislánastofnanir komu til sögunnar um miðja síðustu öld. Það vekur nokkra furðu að okkur skuli ekki hafa lánast að nýta okkur danska húsnæðislánakerfið meðan við vorum í ríkjasambandi við Danmörku.

Það form sjálfstæðra húsnæðislánastofnana, sem lagafrv. þm. Borgarafl. í hv. Ed. gerir ráð fyrir, byggir á gömlum hugmyndum. Fyrstu húsnæðislánastofnanirnar komu til sögunnar í Þýskalandi um miðbik 18. aldar. Danir tóku þessar hugmyndir til sín og voru fyrstu húsnæðislánastofnanirnar stofnaðar í Danmörku um miðbik síðustu aldar. Dönsku húsnæðisstofnanirnar hafa þróast og breyst í gegnum árin en grundvallarhugmyndin er sú sama, þ.e. lántakendur mynda með sér félagsskap og ábyrgjast sameiginlega öll útlán stofnunarinnar. Í seinni tíð hefur þó verið heimilt að húsbankar séu reknir í formi hlutafélags án þessarar samábyrgðar. Er gert ráð fyrir báðum þessum möguleikum í frv.

Húsbankarnir fjármagna útlán sín með útgáfu sérstakra húsbréfa sem þeir hafa einkarétt til að gefa út og selja á frjálsum peningamörkuðum. Í rauninni er um að ræða venjuleg skuldabréf eða spariskírteini sem húsbankinn býður til sölu í samkeppni á frjálsa fjármagnsmarkaðinum. Ef húsbréfin eru fullkomlega traust og áreiðanleg í líkingu við verðtryggð spariskírteini ríkisins ættu ekki að vera vandkvæði á því að selja þau á hagstæðu verði fyrir stofnunina, þannig að nægt fjármagn verði til útlána hverju sinni. Þar sem útlán bankans byggja eingöngu á sölu húsnæðisbréfanna verður að vera jöfnuður á milli útgáfu og sölu húsbréfa og útlána. Fyrir hvert nýtt útlán þarf að gefa út og selja húsbréf. Oftast er þetta gert á þann veg að röð húsnæðisbréfa er sett á markað með reglulegu millibili og lánsumsóknir afgreiddar í takt við útgáfu bréfanna. Þó er jafnalgengt hjá dönsku húsbönkunum að húsbréfin séu seld frá degi til dags og lánsumsóknir afgreiddar á sama hátt. Biðraðir eftir húsnæðislánum eru óþekkt fyrirbrigði í Danmörku. Þess eru dæmi að lánsumsókn, sem berst fyrir hádegi á mánudegi, sé afgreidd og lánið veitt á föstudegi í sömu viku.

Dönsku húsbréfin njóta mikils trausts meðal almennings. Algengt er að gefa börnum húsbréf í skírnar- og fermingargjafir. Það eru þó fyrst og fremst bankar og tryggingafélög sem geyma lausafé sitt í húsbréfunum. Húsbréfin eru auglýst til sölu í öllum bönkum og peningastofnunum. Gengi þeirra, þ.e. söluverð og raunvextir, er skráð á viðskiptasíðum dagblaðanna á hverjum degi. Ef óheppileg þróun söluverðs húsbréfa er fyrirsjáanleg kemur danski seðlabankinn yfirleitt til aðstoðar og kaupir húsbréf í miklu magni.

Í seinni tíð hefur bankakerfið í Evrópu í æ ríkara mæli farið inn á bein tölvuviðskipti. Þetta hefur gert nauðsynlegt að skilgreina og heimila svokölluð rafeindabréf. Rafeindahúsbréf eru aðeins til í tölvukerfi stórbankanna, tryggingafélaga og verðbréfasala svo dæmi séu nefnd. Þau ganga kaupum og sölum á venjulegan hátt en eru aldrei skráð á pappír. Þannig er hægt að selja eða kaupa mikið magn af húsbréfum á svipstundu.

Aðalatriði þessa húsnæðislánakerfis er það að lánsumsækjandi sendir inn umsókn og fær húsnæðislán til margra ára. Hann skrifar undir veðskuldabréf fyrir öllu láninu handa stofnuninni. Stofnunin útvegar sjálf fjármagn til lánveitingarinnar með sölu húsbréfa sem í sjálfu sér kemur lántakandanum ekkert við. Áður var það algengara að lántakandinn yrði sjálfur að selja húsbréfin sem stofnunin afhenti honum við móttöku veðskuldabréfsins. Þannig er stofnunin óháð utanaðkomandi fjármagni sem lagt er til hennar á beinan hátt.

Til að koma upp íslenskum húsbönkum er talið ráðlegt að nota hlutafélagaformið þó það sé ekki einhlítt. Eðlilegt er að lífeyrissjóðirnir hafi frumkvæði að stofnun húsbanka í samvinnu við bankakerfið.

Í frv. hv. þm. Borgarafl. í Ed. er lagt til að gerð verði tilraun til þess að brjótast út úr myrkviðum lánskjaravísitölunnar. Lánskjaravísitalan hefur haft óbærilegar afleiðingar fyrir allt efnahagslíf landsmanna. Hún hefur komið fleiri manns á vonarvöl og lagt mörg atvinnufyrirtæki í rúst. Misgengishópurinn sem varð að þola stórhækkun lánskjaravísitölu umfram kaupgjaldsvísitölu á árunum 1983–1984 hefur enn ekki fengið leiðréttingu sinna mála hvað húsnæðislánin áhrærir.

Lánskjaravísitalan virkar með þeim hætti að óeðlilegir þættir svo sem hækkun matvöru virka á hana. Þannig munu matarskattar hæstv. fjmrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar, þegar þeir reiknast inn í framfærsluvísitöluna, hækka skuldir íbúðareigenda við húsnæðislánakerfið um hundruð milljóna ef ekki milljarða. Lánskjaravísitalan var fyrst skráð í júní 1979. Á þeim átta árum sem eru liðin síðan almennt var farið að verðtryggja fjárskuldbindingar landsmanna með lánskjaravísitölunni hefur hún rúmlega átjánfaldast. Byggingarvísitalan hefur rúmlega sextánfaldast. Á sama tíma hefur verðgildi bandaríkjadollars ellefufaldast og dönsku krónunnar nífaldast. Maður, sem hefði fengið að taka danskt húsnæðislán í júní 1979, skuldaði nú miklu minna en sá sem hefði tekið jafnhátt lánskjaravísitölutryggt íslenskt húsnæðislán með sömu afborgunarskilmálum.

Í grg. með títtnefndu frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka, 157. mál hv. Ed., er sýnd þróun lánskjaravísitölu, byggingarvísitölu, kaupgjaldsvísitölu og launavísitölu tímabilið 19791987 í töflu 1. Töflurnar eru júnítölur hvers mánaðar. Með leyfi forseta ætla ég að renna yfir þær.

Lánskjaravísitalan 1979 miðað við 100 stig, þá var lánskjaravísitala 1980 180 stig, 1981 245 stig, 1982 359 stig, 1983 656 stig, 1984 885 stig, 1985 1144 stig, 1986 1448 stig, 1987, júnítala 1687 stig, en uppgefin nóvembertala 1841 stig.

Á sama tíma var byggingarvísitala miðað við 100 stig 1979, 1980 158 stig, 1981 239 stig, 1982 370 stig, 1983 672 stig, 1984 786 stig, 1985 1037 stig, 1986 1294 stig, 1987 1534 stig.

Launavísitala 100 stig 1979, 152 stig 1980, 232 stig 1981, 353 stig 1982, 558 stig 1983, 716 stig 1984, 747 stig 1985, 1215 stig 1986 og 1598 stig 1987.

Kaupgjaldsvísitalan hins vegar árið 1979 100 stig, 1980 152 stig, 1981 228 stig, 1982 336 stig, 1983 530 stig, 1984 604 stig, 1985 785 stig, 1986 968 stig.

Kaupgjaldsvísitalan sýnir mjög vel hvernig launafólki hefur reitt af í verðbólgubálinu þar sem lánskjörin eru stillt eftir verðbólgunni en launin ekki, enda urðu menn sammála um að taka hana úr sambandi í ágúst 1986. Þróun launavísitölunnar, en mjög er umdeilt hvort hún sýni rétta mynd af afkomu launafólks, er ekki mikið hagstæðari. Hún sýnir að launafólk getur vart búist við því að verða ofan á í baráttunni við lánskjaravísitöluna. Ekkert bendir til þess að kaupgjald á Íslandi muni nokkru sinni geta haldið í við lánskjaravísitöluna. Það gekk ekki í mesta góðæri sem landsmenn hafa búið við. Varla gengur það frekar þegar aftur harðnar í ári. Ef nauðsynlegt reynist að verðtryggja húsnæðislán virðist skynsamlegra að binda þau við byggingarvísitöluna sem samkvæmt töflu 1 sýnir betri aðlögun að launavísitölu.

Í frumvarpinu um húsnæðislánastofnanir og húsbanka og einnig í þeim brtt. sem hér eru lagðar fram er því einungis gert ráð fyrir að heimilt sé að verðtryggja lán en jafnframt bent á aðra valkosti. Nágrannaþjóðirnar hafa ekki nema að litlu leyti farið inn á þá braut að verðtryggja lán. Eru þau þá tengd við byggingarvísitölu eða kaupgjaldsvísitölu. Yfirleitt er fólki ráðið frá því að taka slík lán og fremur hvatt til að taka venjuleg skuldabréfalán með afföllum. Vísitölubundin lán eru talin koma helst til greina þar sem hægt er að tengja rekstur fasteignar við sömu vísitölu. Þannig má hugsa sér að nota vísitölubundin lán til byggingar leiguíbúða þar sem húsaleigan fylgir sömu vísitölu.

Húsnæðislán í formi vaxtaaðlögunarlána ryðja sér til rúms í nálægum löndum. Þau byggja á því að fyrir t.d. 40 ára veðlán er samið um fasta vexti til ákveðins tíma, t.d. fimm ára í senn. Gengi skuldabréfsins er háð vöxtunum sem samið er um í upphafi hvers vaxtatímabils og þar með er ljóst hver lánsupphæðin er. Við upphaf næsta vaxtatímabils er á ný samið um fasta vexti til næstu fimm ára. Er þá gamla lánið endurgreitt með nýju láni og svo koll af kolli. Afborgunarrunan er hins vegar miðuð við 40 ára lánstíma og lánið er í raun veitt til þess tíma þótt það sé endurreiknað á t.d. fimm ára fresti. Þannig er tekið tillit til verðlagsþróunar á skynsamlegan hátt með því að stilla af vexti og kaupgengi skuldabréfs að baki láninu með reglulegu millibili eftir því sem um er samið. Lántakandinn situr ekki uppi með lán þar sem lánsupphæðin, þ.e. skuldin, hækkar í sífellu þrátt fyrir stöðugar afborganir.

Á fylgiskjali I í grg. með frv. um húsbanka eru sýnd vaxtaaðlögunarlán sem stærsta húsnæðislánastofnun Danmerkur, Kreditforeningen Danmark, býður þýskum húsbyggjendum og íbúðarkaupendum í Frankfurt. Það út af fyrir sig er forvitnilegt að dönsku húsnæðislánastofnanirnar hafa fengið heimild til þess að veita dönsk húsnæðislán í löndum sem eiga aðild að Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD. Hafa þær hafið starfsemi í Portúgal, Þýskalandi og Wales. Danska húsnæðislánakerfið virðist þannig ráða auðveldlega við heimamarkaðinn og geta bætt á sig húsnæðislánum til annarra landa. Í viðræðum, sem hv. þingflokksformaður Borgarafl., Júlíus Sólnes, átti við fulltrúa Kreditforeningen Danmark, kom fram að vel gæti komið til greina að stofnunin veitti húsnæðislán til Íslands, annaðhvort í samvinnu við hliðstæða íslenska stofnun eða með því að stofna útibú á Íslandi. Eftir verðlagsþróuninni að dæma hefði ekki verið ónýtt að geta tekið dönsk húsnæðislán í staðinn fyrir íslensk lán með lánskjaravísitölu.

Að lokum er rétt að minnast á lán með greiðslumarki og afkomutryggingu. Þau eru hér byggð á bandarískri fyrirmynd, en einnig er farið að tala um afborgunartryggingu í nálægari löndum svo sem í Danmörku. Lántakandi, sem fær t.d. 25 ára veðlán, semur um það við húsbankann að sett sé greiðslumark á lánið, þ.e. mánaðarleg eða árleg greiðslubyrði af láninu, vextir, afborgun, hugsanleg verðtrygging o.fl. fari ekki upp fyrir greiðsluþol hans miðað við þær tekjur sem hann hefur við upphaf lánstímans. Samhliða greiðslumarksláninu er tekin afkomutrygging þannig að tryggingafélag tekur að sér að greiða mismun á greiðslumarki og greiðsluþoli lántakanda við atvinnumissi, veikindi, missi maka eða annað óvænt sem hefur áhrif á afkomu lántakandans. Oft er afkomutryggingin tekin á þann hátt að lánstíminn er lengdur, t.d. úr 25 árum í 35 ár án þess að greiðslubyrði vegna lánsins sé minnkuð. Mismunurinn, þ. e. það sem greiðslubyrðin hefði átt að minnka um, er iðgjaldið sem lántakandinn greiðir fyrir afkomutrygginguna. Þannig er á einfaldan og hagkvæman hátt komið í veg fyrir að lántakandinn lendi í greiðsluerfiðleikum sem því miður er að verða regla fremur en undantekning hjá stórum hópi íslenskra lántakenda.

Í fyrrnefndri grg. með frv. um húsbanka eru afkomutryggingarskilmálar bandarísks tryggingafélags fyrir 180 mánaða húsnæðisláni sýndir á fskj. II.

Það er skoðun flm. að nái þessi brtt. fram að ganga væri stigið stórt skref í þá átt að koma okkur út úr þeim ógöngum sem við nú búum við í húsnæðislánamálum.

Hæstv. forseti. Mér þykir að lokum rétt að fara yfir einstakar greinar brtt. og koma með skýringar. Í 1. gr. er greint frá markmiði laganna. Ég held að við getum öll verið sammála þeim markmiðum. Í 2. gr. er gerð sú meginbreyting á lögunum um Húsnæðisstofnunina að henni er nú einungis ætlað að sinna lánaþörf fyrir íbúðir á félagslegum grundvelli og þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn.

Í 3. gr. eru hin mismunandi starfssvið Húsnæðisstofnunar skilgreind. Þannig er gert ráð fyrir deildaskiptingu stofnunarinnar, þ.e. að henni sé skipt í bankadeild og tæknideild. Tilkoma bankadeildar leiðir til meira sjálfstæðis stofnunarinnar í öllum fjármálum og gerir starfsemi hennar miklu markvissari og ábyrgari gagnvart öllum lántakendum. Einnig er hlutverk tæknideildar gert skýrara og henni mörkuð ákveðin verkefni.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir þeirri breytingu að fækkað verði í stjórn Húsnæðisstofnunar úr tíu manns í sjö. Gert er ráð fyrir að allir stjórnarmenn svo og varamenn séu kosnir hlutbundinni kosningu á Alþingi til fjögurra ára í senn. Ekki er gert ráð fyrir fulltrúum frá hagsmunaaðilum launþega né vinnuveitenda. Rökin fyrir því eru þau að mörg önnur hagsmunasamtök eigi jafnmikinn rétt á því að eiga fulltrúa í stjórninni, t.d. Landssamband fatlaðra, félagssamtök aldraðra, námsmannasamtök, svo einhver dæmi séu tekin. Því þykir flm. rétt að stjórnin verði öll kjörin af sameinuðu Alþingi. Með hliðsjón af stjórnarhlutverki hæstv. félmrh. er talið rétt að hann tilnefni formann og varaformann úr hópi kjörinna stjórnarmanna.

Í 6. gr. þarf að gera breytingu á orðalagi. 3. tölul. gr. orðist svo:

Með árlegu framlagi úr ríkissjóði skv. fjárlögum ef með þarf, þannig að heildarframlag úr ríkissjóði skv. 2. og 3. tölul. nemi ár hvert 30% af fjárþörf sjóðsins.

Þetta er í stórum dráttum samhljóða ákvæði gildandi laga um fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna. Flm. hafa ekki tekið afstöðu til þess hvort ekki sé orðið tímabært að endurskoða fjármögnun húsnæðislánakerfis ríkisins. Vilja flm. beina þeim tilmælum til hæstv. félmrh. að hann taki fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins til gagngerrar endurskoðunar.

Þá er ekki gert ráð fyrir 10% mótframlagi sveitarfélaga til Byggingarsjóðsins. Þetta er talin eðlileg ráðstöfun með hliðsjón af nýjum tillögum um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Enn fremur má benda á að félaga- og hagsmunasamtök sem nú eiga rétt á lánum úr Byggingarsjóði verkamanna þurfa ekki að greiða sérstakt framlag til sjóðsins.

Þá er rétt að benda á smá ritvillu, en í 4. tölul. á að vísa í Vl. kafla í stað IV. kafla.

Í 12. gr. er fjallað um heimild til þess að veita sérstök framkvæmdalán til bygginga sem eru lánshæfar skv. 9. gr. Er reiknað með því að slík framkvæmdalán geti numið allt að 75% af væntanlegu veðláni. Hér er um að ræða breytingu á núgildandi lögum, þannig að sett er fram samræmt hlutfall fyrir alla lánaflokka. Þá er gert ráð fyrir að endanlegt veðlán komi til sögunnar innan fimm ára frá því að byggingarframkvæmdir hófust. Verði lánstími veðlána styttur sem nemur lánstíma framkvæmdanna. Hér er um byltingu að ræða í byggingarmálum. Allir sem eiga rétt á veðláni geta fengið framkvæmdalán til þess að hefja og ljúka byggingarframkvæmdum á sem skemmstum tíma. Þeir geta skipulagt byggingarframkvæmdir sínar með fullri vissu um að hafa tryggt fjármagn.

Í 13. og 14. gr. eru þau lánskjör sem koma til greina skilgreind. Hér er aðalatriðið að fellt er úr gildandi lögum það ákvæði að Húsnæðisstofnun skuli verðtryggja öll lán með lánskjaravísitölu. Ýmsar hugmyndir eru settar fram um annars konar og manneskjulegri lán. Mikilsvert er að á hv. Alþingi skapist samstaða með þm. Borgarafl. um að koma þjóðinni út úr þeirri áþján og sálarkreppu sem lánskjaravísitalan hefur kallað yfir okkur, að þm. beri gæfu til að víkja flokkadráttum til hliðar.

Í 15. gr. er lánstími veðlánanna skilgreindur á einum stað. Starfsmenn Húsnæðisstofnunar þurfa ekki lengur að leita fram og aftur í lögunum að því hver skuli vera lánstími einstakra veðlána. Þá er rétt að benda á að langur lánstími er ekki æskilegur í sjálfu sér. Þær kröfur sem nú eru uppi um að lengja mjög lánstíma húsnæðislána, jafnvel upp í 60 ár, stafa af því að greiðslubyrði húsnæðislána með lánskjaravísitölu er svo þungbær. Miklu betra er að taka upp annars konar lánsform þar sem greiðslubyrðin er léttari og þar með ekki lengur þörf fyrir jafnlangan lánstíma.

Í IV. kafla brtt., þar sem er fjallað um íbúðir fyrir lágtekjufólk og leiguíbúðir sveitarfélaga, er aðallega byggt á ákvæðum fyrri laga um verkamannabústaði. Flm. hafa ekki talið rétt að gera mjög miklar breytingar á eldri lögum um verkamannabústaði sem hafa reynst okkur vel. Þó er rétt að vekja athygli á ýmsum nýmælum.

Í 17. gr. er starfsemi húsnæðisnefnda skilgreind. En þær eiga að taka við hlutverki stjórnar verkamannabústaða. Húsnæðisnefndirnar fá mun víðtækara umboð og mun sterkari stöðu en fyrri stjórnir verkamannabústaða hafa samkvæmt núgildandi lögum. Meðal annars eiga þær nú að sjá um leiguíbúðir sveitarfélaga. Nefndarmönnum er fækkað miðað við stjórnir verkamannabústaða og nefndinni eru ætluð laun í samræmi við aðrar nefndir á vegum sveitarfélaga. Sveitarfélagi verður gert skylt að láta húsnæðisnefndir starfa. Það getur ekki vikið sér undan því eins og nú gerist um stjórnir verkamannabústaða. Að öðru leyti hafa flm. fyrst og fremst sinnt hreingerningarstörfum og reynt að lagfæra og betrumbæta ákvæði laga um verkamannabústaði. Leiguíbúðir sveitarfélaga fá nú fastan sess í því kerfi.

Í V. kafla, sem fjallar um forkaupsrétt sveitarfélaga á eldri íbúðum í verkamannabústöðum, hafa engar grundvallarbreytingar verið gerðar aðrar en þær að þess sé gætt að samræmi sé við aðrar lagagreinar samkvæmt tillögum okkar, enda er ekki ætlunin að svipta þá aðila sem rétt eiga samkvæmt núgildandi lögum réttindum sínum.

Í Vl. kafla er fjallað um skyldusparnað ungs fólks. Þar er um algjörlega nýja hugsun að ræða eins og áður hefur komið fram.

Í 34. gr. er leitast við að tryggja að það fé sem ungt fólk sparar saman með skyldusparnaði verði notað til að byggja leigu- og eignaríbúðir fyrir ungt fólk og reyna þannig að bæta úr mjög slæmu húsnæðisástandi þess.

Í 35. gr. er nánar kveðið á um að þeir sem er skylt að greiða skyldusparnað til Byggingarsjóðs ríkisins geti gert samning við Húsnæðisstofnun um að sparifé þeirra verði notað til þess að byggja áðurnefndar íbúðir. Um leið fær viðkomandi forgang að slíkum leiguíbúðum. Að sparnaðartímabilinu loknu fær hann afhent afsal fyrir eignarhlut í íbúð á vegum Húsnæðisstofnunar sem hún hefur látið byggja í samvinnu við ýmis hagsmunasamtök, aðallega þó sveitarfélög. Viðkomandi getur nú selt eignarhlut sinn á markaðsverði eða fengið lán hjá Húsnæðisstofnun til þess að kaupa íbúðina. Flm. leggja mikla áherslu á að þessar tillögur nái fram að ganga því ástandið í húsnæðismálum ungs fólks, einkum námsmanna, er óviðunandi.

Varðandi kaflann um byggingarsamvinnufélög hafa flm. ekki séð ástæðu til þess að breyta honum að svo stöddu. Þarf að taka það mál upp í samhengi við lög um húsnæðissamvinnufélög og hugsanlegar kaupleiguíbúðir sem þm. Borgarafl. hafa ekki tekið endanlega afstöðu til.

Um ákvæði til bráðabirgða er þetta að segja, hæstv. forseti: Við teljum að nota eigi allt næsta ár til þess að endurskipuleggja húsnæðislánakerfi landsmanna á þeim grundvelli sem hér er lagður. M.a. þarf að semja upp á nýtt við lífeyrissjóðina þar sem við gerum ráð fyrir að þeir dragi sig út úr fjármögnun á Byggingarsjóði ríkisins og snúi sér að því verkefni að koma upp sjálfstæðum húsnæðislánastofnunum eða húsbönkum til hagsbóta fyrir félagsmenn sína. Verði slíkum stofnunum komið upp þurfa menn ekki lengur að karpa um hvort lánsumsækjandi eigi margar íbúðir fyrir eða hve stórar þær séu. Það skiptir hreinlega engu máli.

Varðandi svokallað húsnæðisfrv. hæstv. félmrh., sem við þm. Borgarafl. viljum heldur kalla skerðingarfrumvarp ráðherrans, erum við sáttir við að lagagreinar þess fái gildi sem bráðabirgðaákvæði til gildistöku nýrra laga um Húsnæðisstofnun ríkisins samkvæmt tillögum okkar þann 1. jan. 1989. Þm. Borgarafl. viðurkenna að neyðarástand ríkir í húsnæðislánamálum og því er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að leysa úr þeim hnút sem málin eru komin í. Við viljum engu að síður lýsa yfir furðu okkar á því að ekki sé farið að afgreiða einhverjar af þeim 6000 umsóknum sem nú bíða og samkvæmt núgildandi lögum ber að afgreiða. Við getum fallist á skerðingartillögur hæstv. félmrh. með því skilyrði að tillögur okkar nái fram að ganga og nú þegar verði hafist handa við að lagfæra hið handónýta húsnæðislánakerfi landsmanna.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokinni þessari umræðu mælast til þess að brtt. þessum verði vísað til hv. félmn. til umfjöllunar og afgreiðslu.