20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mörg undanfarin ár hafa bændur við Arnarfjörð rekið sláturhús á Bíldudal. Þetta sláturhús er rekið af félagsskap sem bændur eiga og heitir Sláturfélag Arnfirðinga. Þetta hús hefur starfað með ágætum öll þau ár sem það hefur verið við lýði og á sl. hausti var slátrað þar 6542 kindum. Þá var ekki einu sinni gefið út sláturleyfi. Það var talið svo sjálfsagt. Jafnframt var það eina sláturhúsið í Vestur-Barðastrandarsýslu.

Á þessu sumri sendi félagið umsókn til landbrn. dags. 24. ágúst þar sem sótt er um framlengingu, en hér er um hús að ræða sem er á undanþágu eins og mörg önnur hús. Í lögum um meðferð og skoðun og mat á sláturafurðum segir að héraðsdýralæknir skuli framkvæma skoðun á slátur- og frystihúsum á þeim tíma sem gefur nægan frest til úrbóta ef þörf krefur fyrir næstu sláturtíð. Þessi skoðun fór ekki fram. Forráðamenn sláturhússins fréttu af að héraðsdýralæknirinn hefði skoðað húsið einhvern tímann í sumar, en athugasemdir hans komu í hendur forráðamanna sláturfélagsins í ágústmánuði, þá óundirskrifaðar og ómerktar með öllu.

Þeir brugðust samt fljótt við og hófu aðgerðir til að koma til móts við þessar athugasemdir. Þeir sendu bréf til ráðuneytisins 24. ágúst þar sem beðið er um þessa undanþágu. Síðan hefur margt á dagana drifið og margar viðræður hafa farið fram.

Yfirdýralæknir, settur, hefur sýnt fádæma óbilgirni í þessu máli og vægast sagt er hér um misbeitingu valds að ræða. Löggjafinn hefur ætlað yfirdýralækni að fylgjast með heilbrigðismálum í sambandi við slátrun, en þar hefur verið blandað saman fádæma látum að fækka sláturhúsum, og þar hefur dýralæknir að mínum dómi farið út fyrir sitt verksvið. Síðast er svo verið að fetta fingur út í vatnsgæði. Þeim er víða ábótavant og alls staðar þar sem um yfirborðsvatn er að ræða, en mismunandi mikið eftir því hvort um mikið úrfelli er að ræða eða ekki. Yfirborðsvatn hefur verið notað við slátrun víðar en á þessum stað og það stóð ekkert á forráðamönnum sláturhússins að blanda klóri í vatnið og klórblöndun var til staðar sem er líka allvíða annars staðar. En allt hefur komið fyrir ekki. Alltaf hafa orðið einhverjar tafir, einhver stöðnun í þessu máli.

Ég get þess hér til þess að fyrirbyggja allan misskilning að ráðuneytisstjóri og starfsmenn landbrn. hafa verið mjög viðræðugóðir í þessu máli. Ég spyr hæstv. landbrh.: Hafa kröfur verið samræmdar í öllum sláturhúsum sem leyfi hafa fengið? Hefur ráðherra krafið settan yfirdýralækni um skrifleg rök fyrir áliti sínu? Hvað réttlætir afstöðu yfirdýralæknis að neita um meðmæli nú eftir að endurbætur hafa átt sér stað? Afurðir frá þessu sláturhúsi hafa líkað vel og sömu viðskiptamenn hefur það átt ár eftir ár. Ég spyr líka að því: Eru hærri og meiri kröfur gerðar til gæða vatns til þess að þvo kjötskrokka í sláturhúsi þó vatnið sé klórblandað en til mannfólksins sem má drekka þetta vatn alveg óátalið?

Það væri líka fróðlegt að hæstv. heilbr.- og trmrh. segði sitt álit á því hvort hann telji að það eigi að gera hærri og meiri kröfur til að þvo skrokka í sláturhúsi en til þess neysluvatns sem mannfólkið á að drekka, bæði börn og fullorðnir, og hefur ekki orðið illt af á þeim stað frekar en öðrum þar sem yfirborðsvatn hefur runnið. Og ég hef drukkið það alla mína ævi og ekki orðið meint af.