12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þetta frv. sé hér komið til 2. umr. og væntanlega til afgreiðslu í hv. deild. Ef draga má ályktun af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og þeim brtt. sem liggja fyrir við þetta frv., þá tel ég að niðurstaðan sé sú að ef vilji er fyrir hendi þá sé hægt að líta svo á að það sé bærileg samstaða um það frv. sem hér liggur fyrir með þeim brtt. sem lagðar eru til. Ég tel einnig að það megi draga þá ályktun af þessari umræðu að allir, sem hér hafa stigið í ræðustól, telji að það þurfi að koma til heildarendurskoðun á húsnæðiskerfinu. Það er vissulega í samræmi við það sem ég hef haldið fram að það þurfi að koma til heildarendurskoðun á húsnæðiskerfinu. Það frv. sem hér liggur fyrir og lagt var fyrir þingið í októbermánuði var til þess að skapa svigrúm til þess að fara í þá heildarendurskoðun á húsnæðiskerfinu sem allir hafa haldið fram að þurfi að koma til.

Borgarafl., sem hér hefur lagt fram ítarlegar tillögur í húsnæðismálum, tekur í raun einnig undir það að það þurfi að skapa svigrúm með brtt. til þess að fara yfir í nýtt kerfi vegna þess að í þeim tillögum sem hér liggja fyrir frá Borgarafl. er einmitt ákvæði til bráðabirgða sem á að gilda fyrst um sinn. En þar er tekið upp það frv. sem lagt var fyrir Alþingi í októbermánuði og gerðar á því mjög litlar breytingar utan þess að fellt er niður ákvæðið í 4. gr., þ.e. vaxtaákvæðið.

Því verður að líta svo á að allir flokkar séu sammála um að það þurfi að skapa svigrúm til þess að fara yfir í nýtt húsnæðiskerfi og að það sé samstaða um að með þeim tillögum sem hér liggja fyrir þá geti það svigrúm verið fengið. Raunar eru í tillögum Borgarafl., sem hér liggja fyrir, í ákvæði til bráðabirgða, þó að hv. þm. Albert Guðmundsson hafi kosið að kalla það frv. ómerkilegt plagg, gerðar sáralitlar breytingar á því frv. sem ég lagði fram og reyndar minni breytingar en hv. félmn. hefur lagt til.

Þær brtt., sem meiri hl. hv. félmn. hefur lagt til við þetta frv., breyta í engu meginmarkmiði og tilgangi frv. og tel ég að þær breytingar sem liggja fyrir frá meiri hlutanum raski því ekki meginmarkmiðum frv. sem að var stefnt. Verði frv. að lögum með þeim brtt. sem þar eru lagðar fram þá get ég vel fallist á þær og er sátt við þá niðurstöðu sem mundi fást í málinu ef það yrði að lögum með þeim hætti.

Ég vil leitast við að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint í þessari umræðu.

Það er í fyrsta lagi að nokkuð hefur verið talað um að það vanti að með þessu frv. séu lögð fram á hv. Alþingi reglugerð sem kveður á um útfærslu á einstökum greinum frv. Ég vil svara því til, og það þekkja auðvitað hv. þm., að það er algengt og kannski algengara en ella að kveðið er á um í lögum sem hér eru afgreidd frá Alþingi að það skuli setja reglugerðarákvæði til útfærslu á einstökum ákvæðum laga sem fara frá hv. Alþingi. Þetta er því mjög algengt, að ekki sé lagt fyrir ákvæði í reglugerð sem fylgja lögunum.

Ég minnist þess t.d. ekki að fyrir hv. Alþingi hafi legið drög að reglugerð með þeim stóra lagabálki sem samþykktur var hér á síðasta ári sem innihélt þó gjörbreytingu á húsnæðiskerfinu, ég minnist þess ekki að lögð hafi verið fyrir Alþingi drög að reglugerð þar að lútandi. Erum við þó að fjalla um miklu minni breytingar en þar voru lagðar til.

Einnig vil ég rifja upp að á árinu 1980 var einmitt lagt til svipað ákvæði og er í 1. gr. þessa frv., þ.e. heimild til húsnæðismálastjórnar til þess að skerða eða synja um lánveitingu. Það var mjög opið ákvæði. Þar var ekki lagt fram neitt reglugerðarákvæði fyrir þingið, né minnist ég þess að það hafi komið fram krafa um að slíkt reglugerðarákvæði yrði lagt fyrir þingið.

Ég vil líka rifja upp að í núgildandi lögum var það húsnæðismálastjórn sem setti sér reglur. Þá var ekki sett um það reglugerð heldur setti húsnæðismálastjórn sér reglur um hvernig skyldi háttað ákvæðum varðandi láglaunahópana eða þá sem ekki geta fallið undir ákvæði núgildandi laga vegna þess að þeir standa ekki fjárhagslega undir greiðslubyrði lána. Þar var þó um að ræða mat Húsnæðisstofnunar að því er varðar tekju- og eignastöðu viðkomandi, reglur settar af húsnæðismálastjórn. Því segi ég þetta að hér er ekki að því er þetta frv. varðar um neina undantekningu að ræða að ekki skuli vera lögð fyrir þingið drög að reglugerð.

Verði þetta frv. að lögum mun ég vissulega flýta því mjög að reglugerðarákvæði verði sett og til þess mun ég fá hina færustu menn sem þekkja best til. Hef ég þá einkum í huga starfsmenn Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem unnið hafa með þetta kerfi sem við höfum búið við á annað ár og þekkja gjörla þau vandkvæði sem upp hafa komið og þá galla sem eru á núverandi kerfi. Því mun ég leggja mitt af mörkum til að því verði flýtt eins og kostur er að sett verði reglugerðarákvæði verði þetta frv. að lögum.

Ég vil fara nokkrum orðum um þá brtt. sem kom fram frá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni og snertir 2. gr. frv. og um hefur verið spurt. Ég held að það sé alveg ljóst að 2. gr. frv. er einna mikilvægust í því frv. sem við fjöllum um nú. Kæmi ekki til slíkt ákvæði eins og nú er í 2. gr. frv. og opnað yrði fyrir húsnæðiskerfið á nýjan leik með óbreyttum ákvæðum, þá er ljóst að því fjármagni sem samið var um við lífeyrissjóðina, 20 milljörðum, mundi verða ráðstafað á örskömmum tíma, kannski fjórum til fimm mánuðum og við mundum á nýjan leik standa frammi fyrir lokuðu húsnæðiskerfi.

Í nýju húsnæðislögunum er kveðið á um að viðkomandi eigi að fá svar, bindandi lánsloforð innan tveggja mánaða frá því að umsókn er lögð fram. Það sem á milli ber í tillögum meiri hl. og tillögum minni hl. er fyrst og fremst það að meiri hl. leggur til að umsækjendur fái að vita hvort þeir eigi rétt á láni, og það er í samræmi við ákvæði frv. eins og ég lagði það fram hér á þinginu, en tillögur minni hl. ganga út á það að þeir einir skuli fá svör sem synjað er um lán. Um þetta eru vissulega skiptar skoðanir en ég tel að það sé of langt gengið miðað við þá löggjöf sem við höfum búið við að viðkomandi fái einungis svar þegar um synjun er að ræða. Margir hafa einmitt haldið því fram að ef slíkt yrði gert, þ.e. að þeir einir fengju svar sem ekki fengju lán, mundi það kalla á mikið álag á Húsnæðisstofnun vegna þess að allir mundu reyna að koma sér í samband við stofnunina með hringingum eða öðrum hætti til þess að fá það staðfest að þeir ættu örugglega rétt í húsnæðiskerfinu. Það er kannski meginástæðan fyrir því að þessi frvgr., 2. gr., er þannig úr garði gerð eins og hér er lagt til og eins og meiri hl. leggur til að það verði áfram.

Ég hef ekki kynnt mér það sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir spurði um, hvort það kallaði á fleiri starfsmenn ef nú ætti að gefa öllum svar um það hvort þeir fengju rétt í húsnæðiskerfinu. Það má vel vera að það gæti tímabundið kallað á fleiri starfsmenn, og kannski ekki óeðlilegt þegar húsnæðiskerfið hefur verið lokað í langan tíma og umsóknum hefur ekki verið svarað, að það verði mikið álag til að byrja með á húsnæðiskerfið. En ég vil einnig segja það að við gætum líka staðið frammi fyrir því að það væri álag á húsnæðiskerfið ef þeir einir ættu nú að fá svör sem er synjað um lán því að fólk vill fá að vita hvort það eigi rétt á láni. Ég tel ekki að við þurfum að óttast það svo mjög að ef fólk fær að vita um sinn rétt — þar sem einungis kemur fram að viðkomandi eigi rétt á láni, en þar sem ekki kemur fram lánsfjárhæð, hvaða upphæð viðkomandi fær eða hvenær úthlutunin nákvæmlega fer fram — að slíkir pappírar gætu gefið tilefni til sölu á lánsloforðum eða fara út á hinn gráa markað eins og einhver nefndi hér áðan.

Spurt var um greiðsluerfiðleikahópana, hvaða úrlausna þeir mættu vænta. Ég svara því til að hér er vissulega um vandamál að ræða sem er áhyggjuefni, en lagt er til í frv. til fjárlaga, sem væntanlega verður samþykkt á Alþingi, að varið verði 300 millj. kr. til greiðsluerfiðleikahópanna á næsta ári. Ég vil einnig upplýsa það að ég hef ásamt hæstv. viðskrh. staðið í viðræðum við fulltrúa lánastofnana til þess að kanna grundvöll fyrir því að koma enn frekar til móts við greiðsluerfiðleikahópana heldur en lagt er til í frv. til fjárlaga með þeim 300 millj. sem þar eru til ráðstöfunar.

Hér var spurt um félagslega kerfið, hvort vænta mætti endurskoðunar á því. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beindi spurningu til mín þar að lútandi, og einnig um kaupleiguíbúðir. Ég get upplýst það að frv. til laga um kaupleiguíbúðir er nú til umfjöllunar hjá stjórnarflokkunum og að því er varðar endurskoðun á félagslega kerfinu, þá eru ákvæði um það í stjórnarsáttmálanum að fram skuli fara endurskoðun á félagslega kerfinu, bæði uppbyggingu og fjármögnun þess, og ég mun fljótlega skipa nefnd sem fær það verkefni.

Að því er varðar vaxtamálin sem um var spurt, þá hefur engin ákvörðun verið tekin um það í ríkisstjórninni hvernig með það verður farið. Ég tel að það eigi að vera hluti af þeirri heildarendurskoðun sem fram þarf að fara fljótlega á húsnæðiskerfinu hvernig með vaxtamálin verður farið.

Að því er varðar fsp. hv. þm. Stefáns Valgeirssonar um skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna, þá er það rétt, eins og reyndar kom fram hjá hv. formanni félmn., að tiltölulega fáir sjóðir hafa enn keypt skuldabréf af Húsnæðisstofnun. En ég vænti þess að verði þetta frv. að lögum þá muni verða þar breyting á. Ég tel að ástæða þess að lífeyrissjóðirnir hafa haldið að sér höndum í skuldabréfakaupum sé fyrst og fremst sú að þeir hafi viljað sjá hvaða niðurstaða yrði í afgreiðslu þess frv. sem hér liggur fyrir hv. Alþingi.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði mikið um það hvernig þetta frv. mundi draga úr þenslu. Ég tel mig hafa svarað því að hluta til vegna þess að það er alveg ljóst, eins og ég sagði hér áðan, að ef við að óbreyttu hefðum opnað fyrir húsnæðiskerfið þá hefði verið gefið bindandi lánsloforð til þeirra 6000 umsækjenda sem bíða nú eftir afgreiðslu lána. Þeir hefðu fengið bindandi lánsloforð um fjárhæð og hvenær láni yrði úthlutað og það eru einmitt þeir pappírar sem gengið hafa á fjárfestingarmarkaðnum. Ef fjármagn, sem kannski á að koma til úthlutunar seinni hluta árs 1988 eða 1989, hefði í miklum mæli farið nú út á fasteignamarkaðinn, þá má telja næsta víst að það hefði getað valdið verðhækkunum enn frekar en orðið er á íbúðarverði. En með því ákvæði sem nú er í frv. erum við í fyrsta lagi að koma í veg fyrir þessa þenslu sem ég talaði um og verðhækkanir og í annan stað, sem er kannski mjög mikilvægt, að skapa okkur svigrúm til þess að fara yfir í nýtt húsnæðislánakerfi. Því að ef við að öllu óbreyttu hefðum hleypt öllum þessum lánsumsóknum áfram miðað við óbreytt ákvæði frv., þá hefðum við væntanlega á næstu fjórum til fimm mánuðum bundið húsnæðislánakerfið allt til ársins 1991 og það hefði að mínu viti tafið þær breytingar á húsnæðislöggjöfinni sem allir eru sammála um að þurfi að gera.

Ég tel, herra forseti, að ég hafi svarað flestum þeim fsp. sem til mín var beint í þessari umræðu. Ég treysti því miðað við þá umræðu sem hér hefur orðið að tekist geti samstaða um það að afgreiða þetta mál hér í hv. deild og að það geti orðið að lögum fyrir jólaleyfi þm. Það er brýnt til þess að létta af þeirri óvissu sem verið hefur í allt of langan tíma í húsnæðiskerfinu.