12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. félmn. (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að jafnvel lánsloforð einu ári áður en lánið verður greitt út getur leitt til þess að fólk fari út á hinn svokallaða gráa markað sem talað hefur verið um hér með þeim afleiðingum sem það getur haft í för með sér. Það þyrfti því sjálfsagt að setja einhver lög yfir þetta og reyna að koma strax í veg fyrir það að hægt sé að versla með þessi lánsloforð með þeim miklu afföllum sem virðast vera á þeim úti á þessum svokallaða gráa markaði. Ég veit allt of lítið um þennan gráa markað, en það eru aðrir sem virðast vera betur að sér í því hvernig meðferð þessara lánsloforða hefur farið fram þannig að ég vonast til þess að þeir sem um þessi mál fjalla taki þetta til athugunar vegna þess að það getur náttúrlega alls ekki gengið — það er talað um 30–40% vexti af þessum lánum sem fólk tekur út á þessi loforð.

En ég ítreka enn að ég tel þó að það sé viss hætta á því að fólk geti farið með þessi lánsloforð, þessi bráðabirgðaloforð, út á lánamarkaðinn og selt þau með jafnvel enn þá meiri afföllum en hin, því að þau eru náttúrlega enn þá minna virði þar sem ekkert stendur í þeim um það hvenær lánin koma til útborgunar og ekki hversu há þau eru þó að hver og einn geti svona nokkurn veginn giskað á það, hver og einn geti svona nokkurn veginn fundið það út hvað hann á að fá hátt lán. Ég vara því enn og aftur við því að gefa út þessi bráðabirgðaloforð.

Vegna þess sem hv. 5. þm. Reykv. Albert Guðmundsson sagði þá skildist mér á honum að hann hefði túlkað mín orð svo að ég teldi að þetta frv. skipti engu máli. Það er ekki rétt. Ég tel að það séu nauðsynlegar breytingar sem hér er verið að gera. En ég var aðeins að tala um að þessir 6000 sem bíða fá ekki neina úrlausn núna á morgun eða strax eftir áramótin, heldur erum við að tala um þá sem fá lán í lok ársins 1988 sem eru um 200 manns eða rúmlega það, það er ekki svo gott að vita nákvæmlega, og svo hinir árið 1989 og síðar eins og fram hefur komið áður.

Ég gat ekki skilið orð hv. 1. þm. Vesturl. Alexanders Stefánssonar öðruvísi en svo að það væri að ósk ríkisstjórnarinnar að gefa út þetta bráðabirgðasvar. Ég gat ekki betur skilið á orðum hans en það væri að ósk ríkisstjórnarinnar að þetta bráðabirgðasvar væri inni í 2. gr. Það kom hins vegar ekki skýrt fram í máli hans hvort hann sjálfur væri hlynntur því að gefa út slík bráðabirgðaloforð sem þar er talað um. Mér fannst einhvern veginn á orðum hans samt að hann væri á móti því svo að ég skil það þá þannig að það sé ríkisstjórnin, og þar með þá hæstv. félmrh., sem vill að þessi bráðabirgðaloforð séu gefin út, enda sagði hæstv. ráðherra að sér fyndist of langt gengið ef fólk fengi engin svör og það mundi kannski kalla á aukið álag á Húsnæðisstofnun vegna þess að það yrði svo mikið um hringingar. Fólk færi að velta fyrir sér hvort það hefði lánsrétt eða ekki. En ég held að það verði alveg jafnmikið álag á Húsnæðisstofnun og ekki minna ef fólk fær bréf sem í stendur: Þú færð lán. Og ekkert annað. Það veit ekki hvenær. Það getur jú gert sér grein fyrir að það fái eitthvert lán einhvern tímann og nokkurn veginn hvaða lán, en ekki annað. Ég er ansi hrædd um að það verði jafnmikið álag á Húsnæðisstofnun eftir að fólk fær slíkt bréf í hendur eins og það að fá ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég held jafnvel að það sé betra að fólk fái engin svör. Það verði hins vegar auglýst vel og vandlega hvað hér sé á ferðinni og þá verði það langheppilegasta lausnin. Ég hef ekki nokkra einustu trú á því að það verði minna álag á Húsnæðisstofnun ef fólk fær einhvern snepil í hendur sem á stendur: Þú færð lán. Ég held að það væri miklu betra og minna álag ef farið væri að brtt. þeirri sem ég mælti fyrir hér áðan og ég vona að hæstv. félmrh. hafi gert ráðstafanir til þess að Húsnæðisstofnun geti mætt því aukna álagi sem í því felst ef frv. og 2. gr. verður samþykkt óbreytt.