12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir tillaga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Sú tillaga er að vísu nefnd ný húsnæðislög sem er ekki rétt heldur eru þetta örfáar leiðréttingar sem hæstv. félmrh. hefur lagt fram. Eins og hefur komið fram í umræðum er þetta gert til að reyna að bæta mjög gölluð lög.

Við í Borgarafl. höfum hins vegar lagt fram tillögu um heildstæð lög með grundvallarbreytingu á lögum Húsnæðisstofnunarinnar ásamt tillögu að lögum um húsbanka. Þessi lög væru raunverulega bylting og eru heildarlausn á þessu.

Ég hafði ekki hugsað mér að vera mjög langorður í dag um þetta sérstaklega. En mig langar þó að koma inn á ákveðin atriði, þ.e. varðandi þær breytingar sem hér er verið að þrýsta í gegn með miklum látum. Það er í fyrsta lagi það að hæstv. félmrh. hefði getað verið búinn að afgreiða á þessari stundu 2000 umsóknir með þeim lögum sem núna eru þegar í gildi. Í 12. gr. húsnæðislaganna stendur, með leyfi forseta:

„Lán skulu afgreidd í sömu röð og umsóknir berast og/eða íbúðir verða veðhæfar, þó þannig að úthlutun til þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn gangi fyrir úthlutun annarra lána samkvæmt nánari reglum sem settar skulu í reglugerð.“

Við sjáum að þetta þýðir að þær 2000 umsóknir sem liggja fyrir hefði mátt afgreiða og hefði átt að vera búið að afgreiða nú. Og ég spyr hæstv. félmrh.: Af hverju hafa þessar umsóknir ekki verið afgreiddar? Ég held að þetta sé mjög mikilvægt. Ég tel að við verðum að líta á það að það er verið að þrýsta þessu í gegn núna, koma þessu í gegn á fölskum forsendum. Það er mjög alvarlegt að hæstv. félmrh. skuli hafa vanrækt að láta þessu fólki lán í té og ég tel að það sé mjög mikilvægt að það verði gert og sem allra fyrst. Ég kom að því áðan, og ég vonast eftir að menn eigi eftir að ræða það frekar, að sú lausn sem Borgarafl. leggur fram er heildarlausn á húsnæðislögunum, annars vegar með brtt. við frv. sem hér liggur fyrir, hins vegar frv. til laga sem við höfum lagt fram í Ed. um húsnæðislánastofnanir, um húsbanka sérstaklega. Ég held að ef við lítum á þetta með sanngirni sé þetta sú lausn sem við höfum beðið eftir. Þetta er uppstokkun á kerfinu og ég sakna þess að hér skuli enginn þm. Sjálfstfl. hafa tekið þátt í umræðum um þessi mál. Það má vel vera að það sé út af því að þeir hafi ekki lengur áhuga á húsnæðismálum fólksins. Ég hefði gjarnan viljað heyra líka svolítið meira um hvort menn vildu beita sér fyrir þessum lausnum sem við leggjum fram. Ég held að það sé mikilvægt. Ég vil láta það koma fram líka að því hefur verið haldið fram að við viljum ekki afgreiða lög hæstv. félmrh. Það er rangt. Í ákvæðum til bráðabirgða í okkar brtt. höfum við tekið upp ákvæði hæstv. félmrh. vegna þess að við teljum að það verði auðvitað að leysa þessi mál til bráðabirgða. Við höfum ekki lagst gegn hennar frv. eins og sést að sjálfsögðu á þessu.

Við höfum viljað að jafnframt væri tekið á heildarlausn þessara mála, og erum með lausnina hér. Það er mjög mikilvægt að menn standi að og leysi þessi mál til framtíðar þannig að það verði ekki á hverju ári sem kemur til þess að á Alþingi þurfi að ræða þessi mál og rífast um einhverja ákveðna liði sem þurfa ekki að vera til umræðu. Nágrannaþjóðir okkar hafa leyst þessi mál fyrir löngu. Við erum hér með eina af þeim lausnum sem hefur reynst mjög vel og það liggur fyrir áhugi frá stóru fyrirtæki, eins og kom fram við framsögu hv. 5. þm. Vesturl. Inga Bjarnar Albertssonar, það er tilbúið að koma hér og lána á okkar markað allt að þeim 60% sem mundu falla undir þessi lög. Meginmálið er það að við getum leyst þetta á skömmum tíma í heild. Við höfum hér lagt til ákvæði til bráðabirgða. Við höfum því ekki lagst gegn frv. sem er til umræðu eins og hér kemur fram. Ég legg áherslu á það að ég hef alltaf talið að það ætti að fá afgreiðslu að þessu leyti til. Ég tel líka mikilvægt að okkar tillögur fái málefnalega umfjöllun og hefði haft gaman af að heyra í sjálfstæðismönnum um það.

Ég ítreka: Ég tel að það hefði átt að vera búið að afgreiða lán til 2000 manna sem hefði verið hægt að gera strax. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það er mjög vítavert að það skuli ekki hafa verið gert enn þá.

Ég vil ekki hafa þessi orð lengri, hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.