12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. 41. gr. í þingsköpum Alþingis hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Frumvörp, hvort heldur eru frá ríkisstjórn eða þingmönnum, svo og tillögur til þingsályktunar og breytingartillögur, má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill. En heimilt er hverjum þingmanni að taka það jafnskjótt upp aftur á sama fundi. Fyrirspurn má og afturkalla.“

Í samræmi við 41. gr. þingskapa og að höfðu samráði við alla flm. og þá sérstaklega hv. 1. flm. þeirrar brtt. sem þm. Borgarafl. í Nd. flytja vil ég draga þá till. til baka í nafni flm. og lýsa því yfir að Borgarafl. mun flytja sömu brtt. við fyrstu umræðu þessa frv. í Ed. þannig að brtt. megi á löglegan og eðlilegan hátt koma til athugunar í félmn. seinni deildar þegar frv. verður þar rætt.

Að sjálfsögðu, vil ég bæta við, er þetta gert til þess að á þessum degi, þessu laugardagskvöldi, megi Borgarafl. stuðla að því að hér verði ekki laugardagsnæturfundur í fyrsta skipti í þingsögunni.