12.12.1987
Neðri deild: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við 3. umr. Það var ekki hægt að flytja hana fyrr þar sem svo stutt er á milli umræðna.

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að ég flyt till. Í fyrsta lagi er alveg óþarfi að senda mönnum bréf um hvenær þeir fái lán. Þeir fá bréf sem fá ekki lán og ef þetta er auglýst með almennri auglýsingu vita menn alveg að hverju þeir ganga. Það er miklu minni vinna hjá húsnæðismálastjórn að haga vinnubrögðum þannig. En aðalástæðan er sú að komið hefur í ljós að ef menn eru með lánsloforð í höndum hafa þeir getað fengið lán eða raunar framselt slíkt loforð. Í vaxandi verðbólgu með vaxandi vöxtum er verið að stefna þessu fólki þannig að það verður gjaldþrota líkt og fólkið varð sem keypti á árunum 1980–1985. Við höfum horft upp á að margir einstaklingar hafa látið sitt lánsloforð með miklum afföllum. Þar af leiðir að það verður að koma í veg fyrir þetta. Ég veit að þetta verður fellt hér, en þá ber hæstv. ríkisstjórn enn þá þyngri ábyrgð á hvernig fer þar sem aðvörunarorð og tillaga hafa verið flutt hér í hv. deild.

Ég ætla ekki að lengja umræðurnar. Það er ekki vani minn að tefja umræður. Ég held að þetta sé alveg nógu skýrt að öðru leyti en því að ég ætla, með leyfi forseta, að lesa tillöguna þó að það sé búið að dreifa henni hér. Þessi till. er við 2. gr.

3. málsl. orðist svo:

„Húsnæðisstofnun skal eigi síðar en einu ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu tilkynna með almennri auglýsingu um afgreiðslu lána sem sótt hefur verið um innan ákveðinna tímamarka, og skal í auglýsingunni birta þau skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að fá lán sín afgreidd.“

Málið er að þeir sem sækja um í desember í ár hefðu átt að sjá auglýsingu í dagblöðum ef þeir ættu von á láni í desember 1988. Þetta er að mínu mati alveg nægjanlegt. Með því fyrirkomulagi sem nú er eru menn sífellt að hringja í húsnæðismálastjórn hvort eð er til að vita hvenær þeir fá lán og kann að vera að það aukist eitthvað. En með þessu eina móti er hægt að koma í veg fyrir að menn láti lánsloforð fara í hendur t.d. gráa markaðarins eða veðdeildar bankanna með miklum afföllum eins og við horfum nú upp á.