14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

1. mál, fjárlög 1988

Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt í upphafi máls míns að geta um örfáar leiðréttingar sem þarf að gera á þingskjölum vegna þess að tími gafst ekki til að lesa þau nógu vandlega yfir áður en þau fóru í prentun. Það er fyrst á þskj. 244, brtt. frá fjvn. Sagt er að brtt. séu við frv. til fjárlaga fyrir árið 1987. Þetta á að sjálfsögðu að vera árið 1988 því að hér er ekki á ferðinni frv. til fjáraukalaga heldur breyting á því frv. ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram á hv. Alþingi á fyrstu dögum þingsins. Síðan eru sex tillögur í þessum brtt. þar sem verður að breyta texta til þess að hann sé í samræmi við þær afgreiðslur sem urðu í hv. fjvn. Þessar leiðréttingar er ég með. Ég var að fá þær í hendur rétt nú, herra forseti. Og ég mælist til þess að þeim verði dreift til kynningar. Það verður síðan ákvörðun forseta hvort hann telur rétt að afgreiðsla þeirra verði þannig að okkur heimilist að draga þær brtt. til baka sem rangt eru skráðar á þskj. 244 eða hvort hæstv. forseti telur réttara að bera þessar sex breytingar upp sem brtt. við þær brtt. En ég mun skýra þessar breytingar nánar þegar ég kem að því síðar í máli mínu að fjalla nokkuð um einstakar brtt. fjvn.

Herra forseti. Með jafnreglulegum hætti og fram fer hér á Alþingi fjárlagaumræða á þessum árstíma verða umræður um starfshætti Alþingis. Svo lengi sem ég man hafa í desembermánuði farið fram miklar umræður um nauðsyn þess að bæta vinnubrögð og draga úr því vinnuálagi sem hér á sér stað. Þessi hefðbundna skammdegisumræða hefur farið fram á þessum vetri eins og oftast áður.

Rétt er að lokaspretturinn í þingstörfunum á þessu haustþingi verður erfiðari en oft hefur verið. Mjög miklar breytingar er nú verið að gera á öllum helstu tekjustofnun ríkissjóðs og vissulega hefði verið æskilegra ef þau lagafrv. hefðu getað legið fyrir fyrr en raun ber vitni. Mjög mikil vinna liggur hins vegar í samningu frumvarpanna. Þó að menn hafi lagt sig alla fram var það og er staðreynd að ógerningur var að ljúka frumvarpssmíðinni fyrr. Ég efast um að almenningur geri sér fulla grein fyrir því hversu fáliðað æðsta stjórnkerfi okkar er. Menn tala gjarna um mikla yfirbyggingu og háan rekstrarkostnað ríkisins en gleyma þá eða vita ekki að ráðuneytin sem þurfa að vinna mestalla undirbúningsvinnu við þýðingarmestu lagasetningar eru svo fáliðuð fólki að í raun og veru eru þau vart fær um að takast á við hin viðameiri viðfangsefni nema lagður sé svo mikill vinnuþrýstingur á starfsfölkið að jaðrar við vinnuþrældóm.

Með sama hætti er Alþingi sem stofnun ekki nægilega vel í stakk búin til þess að vinna svo sem best yrði á kosið við afgreiðslu flókinna og umsvifamikilla mála. Starfsaðstaða nefnda þingsins er ekki góð og starfslið hér á Alþingi er svo fátt að nefndir geta ekki fengið nema lágmarksþjónustu við störf sín og þurfa að sækja alla sérfræðilega aðstoð út fyrir veggi stofnunarinnar.

Í stað þess að halda hér uppi ár eftir ár sömu skammdegisumræðunni um vinnuálagið á Alþingi ættu þm. heldur að gefa sér tíma til að huga að þeim breytingum sem gera þarf svo að hægt sé úr að bæta. Ráðuneytin þurfa að ölast þann styrk að þau geti að minnsta kosti með góðu móti sinnt þeim umsvifum sem undir þau heyra en margar ríkisstofnanir, jafnvel flestar þeirra, eru betur búnar að tækjum og starfsliði en ráðuneytin sem yfir þær eru þó sett. Með sama hætti ættu alþm. að leggja kapp á að bæta starfsaðstöðu þingsins og þingnefnda og marka þinginu þann starfsramma í þingskapalögum sem nauðsynlegur er til að þingið geti starfað með sem skilvirkustum hætti. Ein slík aðgerð, þó í litlu væri, mundi skila meiri árangri til bættra vinnubragða hér í þinginu en allar þær ræður hafa gert sem fluttar hafa verið héðan úr þessum ræðustól í fjöldamörg ár með stórum orðum um vinnubrögðin á Alþingi Íslendinga á aðventunni.

Eins og allir þm. vita er starfsemi Alþingis og nefnda þingsins ákvörðuð í lögum um þingsköp Alþingis en þau lög voru endurskoðuð árið 1985. Sú endurskoðun sem þá var gerð var til mikilla bóta en engu að síður tel ég nauðsynlegt að taka þingskapalögin enn til skoðunar í því skyni að bæta vinnubrögð og vinnuaðstöðu Alþingis. Samkvæmt þingskapalögum fellur t.d. umboð allra nefnda þingsins annarra en utanrmn. niður frá og með þinglausnum að vori og þar til nefndir hafa verið kjörnar á ný á haustþingi. Hvorki fjvn. né nein önnur starfsnefnd þingsins utan utanrmn. eru því til formsins vegna frá því Alþingi lýkur störfum að vori og þangað til að nýjar þingnefndir hafa verið kjörnar að hausti.

Það eru mörg ár síðan mönnum var ljóst að við þær aðstæður væri ekki unnt að ná fram með viðunandi hætti fjárlagaafgreiðslu fyrir áramót. Sjálf fjárlagagerðin verður stöðugt viðameiri, erindum fjölgar ár frá ári, fleiri og fleiri viðfangsefni koma til og öll undirbúningsvinna vex. Það eru því mörg ár síðan brugðið var á það ráð að fjárveitinganefndarmenn störfuðu yfir sumarmánuðina án formlegrar heimildar sem tjvn. væri og notuðu þann tíma til þess ýmist að undirbúa næstu fjárlagagerð eða kynna sér einstaka þætti í rekstri ríkisins og stofnana þess. Þannig hafa fjárveitinganefndarmenn um margra ára skeið unnið að undirbúningi fjárlagagerðar án umboðs frá Alþingi og er það samdóma álit allra að ef slíkt starf færi ekki fram væru lítil líkindi til þess að tækist að afgreiða fjárlög fyrir tilsettan tíma með skikkanlegum hætti.

Þessi mál, svo og vinnubrögðin í fjárveitinganefnd, voru til umræðu á fyrstu fundum fjvn. þeirrar sem kjörin var nú í haust. Niðurstaða þeirra umræðna var sú að nefndin mælist mjög eindregið til þess við forseta þingsins og formenn þingflokka að undirbúin verði sú breyting á þingskapalögum sem gefi nefndinni umboð til að sinna þeim störfum á milli þinga sem hún verður að vinna svo að fjárlagagerðin geti gengið áfallalaust fyrir sig.

Í fyrra voru samþykkt lög nr. 12 frá 1986, um Ríkisendurskoðun, en með þeim lögum var Ríkisendurskoðun sett undir stjórn Alþingis og er hún því nú orðin hluti af starfsemi löggjafarstofnunarinnar. Með þessari breytingu hefur Alþingi fengið tækifæri til að styrkja mjög stöðu sína því með Ríkisendurskoðun bætist Alþingi stofnun sem búin er sérhæfðu og sérmenntuðu starfsliði. Hér er um að ræða stórkostlega breytingu á allri starfsaðstöðu Alþingis og skiptir þessi breyting ekki síst sköpum fyrir fjvn. sem nú getur nýtt sér það tækifæri að hafa á vegum þingsins aðgang að stofnun með sérfræðiþekkingu á rekstrarlegum viðfangsefnum.

Um leið og fjvn. samþykkti á þessu hausti nokkrar breytingar á hefðbundnum starfsháttum nefndarinnar, sem þegar eru komnar til framkvæmda, ræddi nefndin einnig sérstaklega þessa nýju aðstöðu. Varð að ráði, eftir að hafa rætt málið við ríkisendurskoðanda og vararíkisendurskoðanda, að fallist var á þau tilmæli að vararíkisendurskoðandi mundi starfa með nefndinni við fjárlagaundirbúninginn og Ríkisendurskoðun veitti fjvn. jafnframt þá aðstoð og fyrirgreiðslu sem nefndin kynni að óska eftir. Hefur þetta samstarf þegar tekist og gefist mjög vel. Bindur nefndin vonir við þetta starf í framtíðinni bæði hvað varðar sjálfan undirbúninginn að fjárlagagerðinni og ekki síður hvað varðar þann þátt í starfsemi fjvn., sem einna minnst aðstaða hefur verið til að sinna af gaumgæfni, en þar á ég við eftirlitshlutverk nefndarinnar.

Til þess að geta afgreitt af þekkingu erindi stofnana og ráðuneyta um fjárframlög til hinna einstöku viðfangsefna þarf nefndin auðvitað að geta lagt sitt eigið mat á hvort og þá hversu raunhæfar áætlanir þær eru sem erindin byggjast á, og með sama hætti þarf fjvn. að geta fylgst með því að ákvarðanir Alþingis við fjárlagaafgreiðslu séu virtar. Fjvn. hefur ætíð reynt að sinna þessu eftirlitshlutverki sínu eftir því sem aðstæður hafa leyft en nú hafa þær aðstæður stórbatnað með samstarfi nefndarinnar við Ríkisendurskoðun. Ég tel tvímælalaust að nota eigi það tækifæri til þess að auka þann þátt í starfsemi fjvn. sem lýtur að sjálfstæðri skoðun hennar á einstökum málefnum og eftirliti með framkvæmd fjárlaga.

Sú ríkisstofnun sem fjvn. hefur nú í mörg ár haft nánust samskipti við er Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Fjvn. hefur fengið ómetanlega aðstoð og fyrirgreiðslu frá starfsmönnum þeirrar stofnunar og hagsýslustjóri, Magnús Pétursson, og starfsfólk hans hefur lagt sig fram um að veita nefndinni allar upplýsingar og aðstoð í starfi sem óskað hefur verið eftir. Hjá fjvn. er vilji til að bæta þetta samstarf enn eins og kostur er.

Þar sem Magnús Pétursson hagsýslustjóri er nú senn hvað líður á förum til útlanda til að sinna þar störfum á nýjum starfsvettvangi vil ég nota þetta tækifæri, fyrir hönd fjvn., til að þakka honum ágætt samstarf og óska honum jafnframt velfarnaðar í nýju starfi. Störf fólksins í Hagsýslunni, og þá ekki hvað síst hagsýslustjórans, eru vandasöm og erfið og ekki er eftirsóknarvert að vera í því hlutverki fyrir hönd ríkisvaldsins að reyna að samræma annars vegar óskir manna og góðan vilja og hins vegar fjárhagslega getu ríkisins og stofnana þess til að greiða þann kostnað sem fyrir hinn góða vilja gjalda þarf. Þetta er erfitt starf og oft vanþakklátt en það hefur Magnús Pétursson unnið af trúmennsku og fyrir það kunnum við honum þakkir.

Auk þess að þakka starfsfólki Hagsýslunnar, svo og vararíkisendurskoðanda og því starfsfólki Ríkisendurskoðunar sem með okkur hefur starfað að þessu sinni færi ég ritara nefndarinnar, Ásdísi Sigurjónsdóttur, kærar þakkir fyrir lipurð og dugnað.

Herra forseti. Það er oft sagt að í fjvn. ríki sérstakt andrúmsloft. Þar vinna fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu saman á löngum og ströngum fundum og þótt vissulega sé meiningarmunur milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga um ýmis stefnuatriði tekst engu að síður oft mjög gott samstarf um sjálf vinnubrögðin og afgreiðslu mála. Slíkt samstarf hefur tekist í þessari nefnd eins og svo oft áður. Nefndarmenn úr meiri og minni hluta hafa starfað vel saman og leyst sameiginlega margvísleg verkefni eins og sjá má af því að nefndarmenn standa sameiginlega að þeim brtt. sem frá fjvn. koma nú við 2. umr. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni, Margrét Frímannsdóttir, Óli Þ. Guðbjartsson og Málmfríður Sigurðardóttir, hafa þó að sjálfsögðu fyrirvara um að þau kunni að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim, fulltrúum stjórnarandstöðunnar ágætt samstarf, svo og samnefndarmönnum mínum úr stjórnarliðinu.

Herra forseti. Ríkisstjórnin markaði þá stefnu við fjárlagagerð nú að nauðsynlegt væri að ná þeim árangri að ríkissjóður yrði rekinn hallalaus. Þetta markmið ríkisstjórnarinnar var nauðsynlegt þegar það var fram sett við upphaf þings og hafi það verið nauðsynlegt þá við þær aðstæður, sem þá lágu fyrir um horfur í þjóðarbúskapnum á næsta ári, er enn nauðsynlegra nú að markmið þetta náist.

Vissulega er rétt að sumir þættir sem ráða miklu um framvindu mála á næsta ári liggja ekki ljósar fyrir nú en í haust og á ég þar auðvitað fyrst og fremst við launaþróun. Að vísu er vitað um launasamninga á næsta ári við opinbera starfsmenn, en nýir launasamningar hafa enn ekki verið gerðir á hinum frjálsa markaði og því ekki hægt að spá um þróun þeirra mála umfram það sem þegar liggur fyrir varðandi samninga opinberra starfsmanna.

Aðrir þættir í þjóðarbúskapnum og horfunum á næsta ári liggja hins vegar ljósar fyrir og þær viðbótarupplýsingar í því sambandi sem bæst hafa við frá því fjárlagafrv. var lagt fram í haust og þar til nú benda því miður allar í þá átt að meiri líkur séu á því nú en voru að hagvaxtarskeiðið sé á enda og við blasi meiri erfiðleikar á næsta ári en menn gátu átt von á þegar frá fjárlagafrv. var gengið í haust. Bandaríkjadollar hefur haldið áfram að lækka og þar með fer lækkandi það verð sem við fáum fyrir mikilvægustu útflutningsafurðir okkar. Afleiðingarnar af þessu, sem og afleiðingar nokkurs samdráttar í almennri eftirspurn í helstu útflutningslöndum okkar, verða að líkindum þær að viðskiptakjör muni versna frá því sem reiknað var með og er nú talið líklegt að þau verði að meðaltali nokkru lakari á árinu 1988 en þau voru á þessu ári.

Þó Alþingi hafi enn ekki afgreitt frv. um stjórn fiskveiða liggur engu að síður fyrir sú tillaga Hafrannsóknastofnunar að dregið verði úr sjávarafla á næsta ári. Ekki verður enn fullyrt um hver þessi samdráttur verður en í upplýsingum sem Þjóðhagsstofnun afhenti fjvn. sl. laugardag er tekið fram að hver 20 þús. tonn af þorskafla jafngildi rúmlega einum milljarði króna í útflutningsverðmæti eða sem svarar til um 2% af vöruútflutningi. Væru menn að tala um 40–50 þús. tonna samdrátt í þorskafla gæti það því þýtt 4–5% samdrátt í vöruútflutningi og 12% samdrátt í þjóðartekjum á föstu verði. Gefa þessar tölur vísbendingu um hvaða áhrif slíkar ákvarðanir gætu haft og kemur svo þessu til viðbótar það sem ég var að nefna áðan um verðlækkun dollarans en eins og allir vita er mjög stór hluti af sjávarvöruútflutningi okkar seldur á dollaraverði.

Þá er í þriðja lagi fyrirsjáanlegt að halli á viðskiptum við útlönd á þessu ári verður meiri en reiknað var með í endurskoðaðri þjóðhagsspá fyrir árið 1987 sem gerð var í október. Þá var spáð afgangi í vöruskiptum en hann mun reynast lítill sem enginn og eru horfur á að viðskiptahalli á þessu ári aukist úr rúmlega 1% af landsframleiðslu, eins og spáð var, í 11/2 eða jafnvel 2%.

Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1988 var gert ráð fyrir því að viðskiptahalli á því ári yrði um 4 1/2 milljarður króna og hætt við að sú spá sé nú ekki lengur raunhæf og að stefnt sé í meiri viðskiptahalla en því nemur. Þessar horfur gera það enn brýnna en áður að ríkissjóður verði rekinn án halla. Hallarekstur á ríkissjóði við þessar aðstæður væri ábyrgðarleysi. Slíkt ráðslag mundi ýta enn frekar undir verðbólguvöxt og verðþenslu þegar á öllu ríður að reynt sé að spyrna við fótum og leggja áherslu á aðhald og aðgæslu.

Stefna ríkisstjórnarinnar um jafnvægi í þjóðarbúskap, viðnám gegn verðbólgu og fastgengi á vissulega í vök að verjast vegna þess að horfur um ytri aðstæður í rekstri þjóðarbúsins á næsta ári hafa fremur versnað en batnað. Frammi fyrir þeim staðreyndum verða ríkisstjórn og Alþingi umfram allt að kappkosta að rekstur ríkisins og stofnana þess vinni með þessum markmiðum ríkisstjórnarinnar en ekki á móti þeim eins og gert væri ef ríkissjóður yrði rekinn með halla.

Við þessa 2. umr. liggja ekki fyrir endanlegar tölur um endurskoðun á tekjuhlið fjárlagafrv. Meira er þó vitað um það nú en oftast eða jafnvel alltaf áður hefur verið við 2. umr. fjárlaga. Sl. laugardag komu fulltrúar frá Þjóðhagsstofnun á fund fjvn. og gerðu henni grein fyrir bráðabirgðaniðurstöðum sínum um endurskoðun á tekjuhlið fjárlaganna miðað við þær veltubreytingar sem spáð hefur verið og hin nýju tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar sem bíða afgreiðslu Alþingis. Þessar tölur eru bráðabirgðatölur en lokatölur munu væntanlega liggja fyrir áður en 3. umr. fjárlaga fer fram. Þessar bráðabirgðatölur sýna að þrátt fyrir þær hækkanir, sem gerðar eru tillögur um við 2. umr. fjárlaga nú, þá er hægt að standa við markmið ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög en þó því aðeins að menn gæti fyllsta aðhalds við lokaafgreiðslu fjárlaga héðan frá Alþingi.

Í umræddum bráðabirgðatölum Þjóðhagsstofnunar um tekjubreytingar frá fjárlagafrumvarpi er því spáð að beinir skattar hækki alls um 300 millj. kr. umfram það sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Þar er um að ræða hækkun eignarskatta um 170 millj. kr., og er hækkun á fasteignamati milli ára meginskýring þeirrar hækkunar, og svo hækkun tekjuskatta um 130 millj. kr. og stafar sú hækkun af því að tekjuskattur félaga er talinn hækka um þá fjárhæð vegna meiri tekna á líðandi ári en ráð var fyrir gert.

Þær umfangsmiklu breytingar sem áformaðar eru í frumvörpum ríkisstjórnarinnar um sölugjald, tolla og vörugjald munu leiða til nettótekjuaukningar hjá ríkissjóði um rúma 2 milljarða króna. Gjöld af innflutningi, þ.e. tollar, munu lækka um 1 milljarð 430 millj. kr., gjöld af framleiðslu, þ.e. vörugjöld, munu lækka um 1 milljarð 400 millj. kr. en sölugjald mun hækka á móti um 4 milljarða 880 millj. kr. Þá eru bráðabirgðatölur um áhrif veltu og verðbreytinga sem taldar eru skila 300 millj. kr. í auknum tekjum og áætlað er að bætt söluskattsinnheimta vegna niðurfellingar undanþáguákvæða í söluskatti muni skila a.m.k. 400 millj. kr. Samanlögð áhrif á heildartekjur ríkissjóðs af þessum breytingum og endurmatsspá á tekjustofnum er sú að heildartekjur ríkissjóðs muni hækka um röska 3 milljarða króna og niðurstöðutölur fjárlagafrv. tekjumegin því hækka úr 59 milljörðum 564 millj. kr., eins og áformað var í fjárlagafrumvarpi, í 62 milljarða 614 millj. kr.

Þá hefur komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að áformað sé að verja 1200 millj. kr. til niðurgreiðslna til að draga úr áhrifum söluskattshækkunarinnar og 600 millj. kr. er fyrirhugað að nota til að hækka barnabætur og ellilífeyri. Þá eru einnig áformaðar breytingar á kjarnfóðurskatti, m.a. í þá átt að auknar niðurgreiðslur á búvörur verði ekki til þess að breyta svo neinu nemi verðhlutfalli á milli dilkakjöts og kjúklinga- og svínakjöts. Áformin um þessi nýju útgjöld koma að sjálfsögðu til frádráttar þeirri tekjuhækkun sem ég ræddi um áðan og Þjóðhagsstofnun áætlaði að nema mundi röskum 3 milljörðum króna.

Ég legg áherslu á, eins og fram kom hjá Þjóðhagsstofnun, að hér er um bráðabirgðatölur að ræða. Nú er unnið að því að leggja endanlegt mat á tekjuhlið fjárlaganna, á áhrif veltu- og verðlagsbreytinga þar á og á áhrif hinna nýju laga um sölugjöld, vörugjöld og tolla, sem væntanlega verða afgreidd á Alþingi. Endanlegar niðurstöður af þeirri endurskoðun munu ekki liggja fyrir fyrr en við 3. umr.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því að í upplýsingum, sem Þjóðhagsstofnun sendi frá sér um hlutfall ríkissjóðstekna af vergri landsframleiðslu, hafa tölur um verga landsframleiðslu ekki verið endurmetnar með tilliti til hækkunaráhrifa veltu- og verðbreytinga. Fyrr en það hefur verið gert er ekkert hægt að fullyrða um það hvort hlutfall ríkissjóðstekna af vergri landsframleiðslu verði á næsta ári svipað og það var í ár eða meira. Allar fullyrðingar um að hlutfall ríkissjóðstekna af vergri landsframleiðslu verði hærra á næsta ári en verið hefur eru byggðar á því að tölur um verga landsframleiðslu hafa ekki verið endurmetnar vegna áhrifa veltu- og verðbreytinga eins og auðvitað verður að gera. Ber því að taka allar slíkar fullyrðingar um aukna skattbyrði með mikilli varúð.

Herra forseti. Undanfarna daga hefur ýmsum sögum farið af stórfelldum skattaálögum sem áformuð séu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Nefndar hafa verið tölur allt frá 1 milljarði og upp í 10 og virðist talan í blöðunum, skattaálögur ríkisstjórnarinnar, hækka um því sem næst sem nemur 1 milljarði á dag. Hér er verið að stórýkja þau áform sem uppi eru höfð af hæstv. ríkisstjórn og vil ég nota þetta tækifæri til þess að gera eilítið grein fyrir því hvernig þau mál standa.

Fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar fólust í aukinni tekjuöflun til þess að draga úr hallarekstri ríkissjóðs og þensluáhrifum hans. Söluskattsstofn var víkkaður, lagt á sérstakt bifreiðagjald, gjald á erlendar lántökur auk þess sem kjarnfóðurgjald og ríkisábyrgðargjald voru hækkuð. Þessar fyrstu aðgerðir fólu í sér aukna tekjuöflun sem nemur 3 milljörðum 700 millj. kr. miðað við heilt ár og verðlag 1988. Á móti kom hækkun barnabótaauka um 240 millj. kr. og hækkun ellilífeyris um 320 millj. kr. þannig að nettótekjuöflun í ríkissjóð nemur 3 milljörðum 140 millj. kr. vegna þessara fyrstu aðgerða.

Í október var síðan gripið til enn frekari aðgerða til þess að hamla gegn þenslu með hækkun á innflutningsgjaldi af bifreiðum og áfengis- og tóbaksverði. Þessar ráðstafanir má meta til 600 millj. kr. tekjuöflunar á heilu ári.

Í fjárlagafrv. eru síðan boðaðar ýmsar breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ari sem nú eru til umræðu á Alþingi. Þar má nefna hækkun tekjuskatta á fyrirtæki, víkkun á launaskattsstofni og söluskattsstofni, arðgreiðslu ríkisfyrirtækja o.fl. Samtals má meta þessar aðgerðir til 1 milljarðs 400 millj. kr. á næsta ári. Loks má nefna sérstaklega þá kerfisbreytingu í tolla- og söluskattsmálum sem skýrt var frá í byrjun desember. Þessi breyting gerir ráð fyrir algjörri uppstokkun á aðflutningsgjöldum, bæði með stórfelldri tollalækkun og fækkun smærri gjalda. Auk þess er söluskattsundanþágum fækkað og jafnframt ákveðið að taka upp virðisaukaskatt í ársbyrjun 1989. Þessi kerfisbreyting skilar engum viðbótartekjum í ríkissjóð á næsta ári, þar sem öllum tekjuaukanum, 2 milljörðum 50 millj. kr. er varið til aukinna niðurgreiðslna, til sérstakrar hækkunar á ellilífeyri og barnabótum og til endurgreiðslu á kjarnfóðurgjaldi. Þannig verður nettóniðurstaða nákvæmlega núll út úr þessari sérstöku aðgerð.

Til þess að fá síðan heildarmynd af skattlagningu ríkissjóðs er talið einfaldast að skoða hvað skatttekjurnar vega í hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Þetta skatthlutfall hefur verið mjög breytilegt á undanförnum árum. Lægst fór það í 21,7% árið 1985, en hæst var það árið 1982. Þá nam þetta skatthlutfall 24,5% af landsframleiðslu. Árið 1979 var skatthlutfallið 24,2%, 1980 23,4, 1981 24,2, 1982 24,5 o.s.frv.

Það skatthlutfall sem menn eru að ræða um að þessar samanlögðu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til tekjuöflunar muni fela í sér nemur um 24,2%, sem er þá svipuð eða sama skattbyrði og hún var árið 1979 og 1981, en til muna lægri en hún var árið 1980 og 1982, þannig að það er rangt sem haldið er fram að ríkisstjórnin sé að leggja nú á mjög mikla skatta og framkalla skattbyrði sem sé óþekkt í íslenskri sögu. (Gripið fram í.) Það er rangt. Hins vegar vil ég endurtaka það að þessi spá um árið 1988 byggist, eins og ég sagði áður, á óendurmetnum áhrifum veltubreytinga á verga landsframleiðslu, svo ef marka má spá Þjóðhagsstofnunar um veltubreytingar á næsta ári, þá eru allar líkur á því að þetta hlutfall skattbyrðar verði lægra en ég hef hér getið um.

Hitt er aftur á móti alveg ljóst að ef menn ætla að standa við það bráðnauðsynlega markmið að reka ekki ríkissjóð með halla á árinu 1988 og ef menn eru ekki reiðubúnir til að ná því markmiði alfarið með aðhaldi útgjalda, þá verða menn að horfast í augu við þá staðreynd sem ein er eftir: að afla verður nýrra tekna til að standa undir þeim útgjöldum sem menn hafa afráðið.

Undirbúningur fjvn. að fjárlagaafgreiðslu að þessu sinni hófst með því að hæstv. fjmrh. skipaði sérstaka nefnd sem í áttu sæti fulltrúar allra þingflokka. Var brugðið á þetta ráð þar eð alþingiskosningar höfðu rofið umboð þess þings sem síðast sat og fjárveitinganefndarmenn, sem setið höfðu á síðasta kjörtímabili, áttu sumir ekki endurkvæmt á Alþingi og enn aðrir höfðu horfið til annarra starfa í stjórnkerfinu.

Umrædd nefnd sem ráðherra skipaði hóf störf þann 16. sept. og starfaði þar til þing kom saman. Á fund hennar komu forráðamenn 13 sjúkrahúsa sem komu í fyrsta sinn inn á föst fjárlög í fyrra eða árið þar áður. Einnig ræddi nefndin við forráðamenn 60 sveitarfélaga og tók við erindum þeirra. Fjvn. kom síðan saman til fundar strax eftir að hún hafði verið kjörin og tók við verkefnum úr hendi nefndar þeirrar, sem ráðherra skipaði, en sú nefnd hætti þar með störfum. Bókaðir fundir hinnar ráðherraskipuðu nefndar voru alls 11 en bókaðir fundir fjvn. eru orðnir 33. Auk þess hefur meiri hluti fjvn. haldið fjölmarga óbókaða fundi svo og einstakir starfshópar nefndarinnar en nefndin skipti sér að venju upp í nokkra starfshópa, bæði um afgreiðslu smærri erinda og eins um tillögugerð um stofnkostnaðarliði.

Til nefndarinnar bárust erindi um alls 1100 viðfangsefni og heildarfjárhæð beiðna og umsókna til nefndarinnar nam 5 milljörðum 762 millj. kr. Sótt var til nefndarinnar um ráðningu í 130 nýjar stöður. Af erindum og beiðnum til nefndarinnar, sem samtals námu eins og ég sagði áðan tæpum 5,8 milljörðum kr., voru erindi er vörðuðu rekstrar- og tilfærsluliði samtals að fjárhæð 1 milljarður 77 millj. kr., erindi er vörðuðu viðhald og viðhaldsverkefni samtals að fjárhæð rösk 31 millj. kr. og erindi er vörðuðu stofnkostnað samtals að fjárhæð 3 milljarðar 954 millj. kr.

Af þessu má sjá að mest virðist þörfin vera fyrir ríkisframlög til stofnkostnaðar og ætti það ekki að koma mönnum á óvart því sannleikurinn er sá að það aðhald og sá niðurskurður sem menn hafa reynt að beita í ríkisrekstri á undanförnum árum hefur fyrst og fremst komið við stofnkostnaðarverkefni og er ástæðan einfaldlega sú að rekstur ríkisins og stofnana þess er í talsvert föstum skorðum og verður þar ekki miklu breytt þrátt fyrir góðan vilja nema með endurskipulagningu í ríkisrekstri. Engu að síður er nauðsynlegt að skoða sérstaklega, eins og raunar er gert í frv., hvernig taka megi á rekstrarmálefnum ríkisins og ríkisstofnana, m.a. með þeim hætti að færa til verkefni frá ríkinu og til annarra aðila, bæði sveitarfélaga, einstaklinga og félaga. Er einmitt að því stefnt í frv. því til fjárlaga sem hér er til umræðu og er nauðsynlegt að því verki sé haldið áfram því margir þættir í rekstri ríkisins og stofnana þess væru eins vel eða jafnvel betur komnir í höndum annarra og margvísleg er sú þjónusta sem ríkið veitir atvinnuvegum og atvinnufyrirtækjum sem eðlilegt er að viðkomandi atvinnugreinar ráði sjálfar meiru um en greiddu jafnframt fullan kostnað af.

Ef menn líta nánar á þau erindi um stofnkostnaðarframlög sem fjvn. bárust má sjá að þau eru einkum á sviði grunnskóla, hafnarmannvirkja, heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa og ætti það ekki heldur að koma á óvart því einmitt þessar framkvæmdir eru þær sem einna helst líða þegar draga þarf saman seglin í ríkisbúskapnum. Er raunar svo komið, og veldur það nokkrum vandræðum við fjárlagagerð nú, að skuldir hafa hlaðist upp á umliðnum árum hjá samstarfsaðilum ríkisvaldsins um þessar framkvæmdir uns svo er komið að fjárveitingar, eins og þær eru fyrirhugaðar, jafnvel til heilu málaflokkanna, dygðu ekki nema tæplega til að greiða skuldir ríkisins við sveitarfélög um sameiginlegar framkvæmdir og í sumum efnum duga þær alls ekki til. Er nauðsynlegt að skoða þessi mál sérstaklega og verður án efa gert í sambandi við áframhaldandi vinnu að skýrari verkaskiptingu á milli ríkisins og sveitarfélaga og að verkefnaflutningi þeirra á milli.

Þá vil ég einnig að gefnu tilefni benda á að það virðist einnig hafa færst í vöxt, sérstaklega á allra síðustu árum, að gerðir séu fastir greiðslusamningar um einstök verk, sérstaklega á sviði grunnskóla, milli tveggja ráðuneyta, samningar sem binda greiðslu úr ríkissjóði langt fram í tímann án þess raunar að Alþingi og fjvn. geti um fjallað. Þessir samningar hafa gert fjvn. mjög erfitt fyrir í vinnu hennar nú og þeim tilmælum verður beint til þeirra ráðherra sem nú sitja í þessum störfum að menn fari sér varlega við slíka samninga og gangi ekki frá þeim án þess að bera þá undir fjárveitingarvaldið eða fjvn. sem er fulltrúi þess, þannig að slíkir samningar séu ekki gerðir öðruvísi en fjvn. viti af þeim og fallist á þá annars vegar og að þm. viðkomandi kjördæmis séu sammála því að í viðfangsefnið sé ráðist og geri sér fulla grein fyrir því að það mun takmarka og á að takmarka svigrúm þeirra um aðrar framkvæmdir í kjördæminu í sama málaflokki.

Þau erindi sem fjvn. bárust hefur nefndin afgreitt á þann veg að hún leggur til að nú við 2. umr. verði samþykkt viðbótarútgjöld við útgjaldatölu fjárlagafrv. sem samtals nema 1 milljarði 62 millj. kr. og er þar um 1,8% hækkun frá fjárlagafrv. að ræða. Í tillögum nefndarinnar er mest hækkun lögð til að verði á viðfangsefnum á sviði landbrn. eða um 303,7 millj. kr. og er það um 17% af heildarhækkunarfjárhæðinni. Svo til öll sú fjárhæð er afgreidd í nefndinni að tillögu ríkisstjórnarinnar.

Í nál. meiri hl. eru afgreiðslur fjvn. flokkaðar annars vegar eftir hagrænu eðli og hins vegar eftir uppruna erinda. Samkvæmt tillögum fjvn. um breytingar á gjaldahlið frv. hækkar launakostnaður um 71 millj. kr. og nemur það 6,7% af heildarhækkunartillögum nefndarinnar. Í þessari fjárhæð er miðað við að 17 ný stöðugildi verði veitt en sótt var um 130, eins og áður er getið. Hækkun á öðrum rekstri en launakostnaði nemur 450 millj. kr. ef tillögur fjvn. verða allar samþykktar og er það um 42,4% af heildarhækkunartillögum hennar. Síðan gerir nefndin tillögu um að stofn- og viðhaldskostnaðarverkefni hækki samtals um 540 millj. 715 þús. og er það röskur helmingur af öllum hækkunartillögum nefndarinnar sem stafa af hækkuðum framlögum skv. tillögum hennar til stofn- og viðhaldsverkefna.

Þá er einnig í nál. reynt að skipta erindum sem nefndin afgreiðir eftir uppruna þeirra. Slík skipting verður alltaf álitamál og umdeilanlegt í hvaða flokk hvert einstakt erindi skuli falla. Eftir því sem best var séð skiptist uppruni erinda í afgreiðslu nefndarinnar þannig að verðlags- og launaleiðréttingar a frv. nema í heild samkvæmt tillögum nefndarinnar um 120 millj. kr. eða 11,3% af heildarfjárhæðinni. Tilmæli frá ríkisstjórninni sem nefndin hefur afgreitt og gert að tillögum sínum nema samtals 657 millj. 200 þús. kr. eða 61,9% af heildarfjárhæðinni sem nefndin leggur til að útgjaldaliðir frv. hækki um. Aðrar afgreiðslur nefndarinnar nema síðan 284 millj. 936 þús. kr. eða tæplega 27% af samanlögðum útgjaldatillögum hennar.

Má vera að mönnum komi á óvart hversu hár liður í tillögum nefndarinnar verðlags- og launabreytingar eru en ástæðan er sú að í fyrsta lagi var um að ræða nokkra launasamninga sem gerðir voru eftir að fjárlagafrv. var unnið og þurfti því að sjálfsögðu að breyta útgjaldatölum fjárlagafrv. með hliðsjón af þeim. Í öðru lagi var um að ræða uppfærslur til verðlags sem ekki lágu fyrir nægar upplýsingar um þegar frá fjárlagafrv. var gengið og í þriðja lagi var um að ræða tilfærslur og áhrif breytinga hjá stofnunum og viðfangsefnum sem sérstaklega var tekið fram í athugasemdum frv. að yrði að gera í meðförum fjvn.

Þá er einnig ástæða til að vekja athygli á því að á bls. 3 í nál. meiri hl. eru frekari talnalegar upplýsingar um tillögur nefndarinnar eftir viðfangsefnum og málaflokkum. Loks er þar á sömu bls. gefið yfirlit um þær breytingar á einstökum útgjaldaflokkum frv. sem tillögur fjvn. gera ráð fyrir.

Eins og venja er til gerir fjvn. ekki við þessa umræðu tilögur um breytingar á tekjuhliðinni heldur bíða þær 3. umr. Sama máli gegnir um stofnanir í B-hluta frv. svo og um nokkur önnur atriði sem ekki eru gerðar tillögur um nú.

Af þeim atriðum sem bíða 3. umr. er þó eitt sem fjvn. hefur þegar tekið ákvörðun um að gera að tillögu sinni við Alþingi. Er þar um að ræða tilmæli ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar um að sérstakt framlag, 100 millj. kr., verði veitt sem fyrsta framlag af fjórum á jafnmörgum árum til þess að greiða ógreidd framlög ríkisins vegna viðfangsefna sem flytjast eiga yfir til sveitarfélaganna með breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en slíkar lagabreytingar eru nú til meðferðar í þinginu.

Fjvn. hefur fyrir sitt leyti fallist á þessi tilmæli ríkisstjórnarinnar en er ekki sem stendur reiðubúin til að ganga formlega frá þeirri tillögu við afgreiðslu fjárlaga. Ástæðan er sú að það er alger einhugur í fjvn. um að þessum framlögum verði skipt með sama hætti og verið hefur um framlög til íþróttamála og dagvistarstofnana með þeirri verkaskiptingu sem gilt hefur, þ.e. að Alþingi sjálft skipti þessu fé að fengnum tillögum fjvn. Fjvn. vill sjá hvernig þessum málum verður fyrir komið varðandi þær lagabreytingar sem gera þarf, svo sem á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga varðandi tilfærslur verkefna og nú eru í meðferð í þinginu. Verði ekki tryggilega frá því gengið í umræddri lagasetningu að þetta uppgjörsverkefni verði áfram í forsjá fjárveitingavaldsins og nefndarinnar eins og verið hefur, þá mun fjvn. ganga þannig frá tillögum sínum fyrir 3. umr. um fjárlög um framlög til þessa viðfangsefnis að það sé gert skýrt og afdráttarlaust hvernig nefndin leggur fyrir Alþingi að afgreiða málið.

Áður en ég tek til við að skýra í stuttu máli einstakar brtt. fjvn. þá vildi ég víkja sérstaklega að tveimur viðfangsefnum sem ekki er þar að finna en nefndin hefur fjallað um. Annað varðar Vinnueftirlit ríkisins. Í erindi Vinnueftirlitsins kom fram að sótt var eftir að fá að auka umsvif stofnunarinnar með fjölgun starfa og aukinni starfsemi og jafnframt kom fram að fyrir lágu samþykktir aðila vinnumarkaðarins sem mundu tryggja Vinnueftirlitinu það fjármagn sem það þyrfti til að standa undir kostnaði við þessa starfsemi þannig að ekki væri um bein fjárframlög að ræða til stofnunarinnar á fjárlögum. Þrátt fyrir þetta féllst nefndin ekki á tilmæli stofnunarinnar og er ástæðan sú, sem raunar einnig kom fram í erindi hennar, að nefndin telur að skoða beri sérstaklega hvort ekki eigi að gera þær breytingar á starfsemi og rekstri stofnunarinnar sem tryggi henni aukið sjálfræði, annaðhvort með því að Vinnueftirlit ríkisins verði gert að B-hluta stofnun með sjálfstæðan fjárhag og kostuð af eigin tekjum eða jafnvel að eftirlitið verði alfarið gert sjálfstætt og þá sem sjálfseignarstofnun eða stofnun í eigu aðila vinnumarkaðarins og verði hún þá ekki viðfangsefni á fjárlögum.

Þá lá einnig fyrir fjárveitinganefnd erindi sem nefndin féllst ekki á um hækkun á launaliðum til sjúkrahúsa vegna óska um hækkun á álagsprósentu. Skammt er síðan fallist var á ósk um slíka hækkun á álagsprósentu á laun en sú afgreiðsla virðist ekki hafa dugað því nú, skömmu síðar, berst ný ósk þar að lútandi. Ef málið er skoðað kemur í ljós að verið er að ræða um álag ofan á föst laun sem nemur samtals um eða yfir 95% .

Það sem hér kemur fram er að sjálfsögðu það sem öllum er kunnugt að verið hefur að gerast í launamálum í landi voru en það er að í æ ríkara mæli eru farnar að tíðkast alls kyns álagsgreiðslur og yfirborganir umfram fasta samninga. Orð mín má ekki skilja svo að starfsfólk sjúkrahúsa eigi síður að fá slíkar greiðslur en aðrir. Þetta fólk vinnur gott starf, oft við erfiðar aðstæður, og vissulega er okkur það ljóst að betri laun eru boðin í mörgum öðrum störfum, enda sýnir það sig í því að erfitt er að fá fólk til starfa á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Hitt er engu síður umhugsunarefni þegar álagsgreiðslur eru orðnar svo miklar að þær nema hartnær jafnhárri fjárhæð og föst umsamin laun.

Fjárveitinganefnd gerir sér fulla grein fyrir því að hér er mikið vandamál á ferð sem verður að leysa. Auðvitað kemur til greina að fallast enn a hækkun þessarar álagsprósentu en ef til vill væri líka ástæða til, og jafnvel mun frekar, að skoða í fyrsta lagi hvort ekki sé rétt að semja í formlegum kjarasamningum um þau laun sem raunverulega eru greidd fremur en að láta þau koma fram í álagsgreiðslum eða þá að fjölga stöðugildum á sjúkrahúsum og heimila þá fremur ráðningu fleiri starfsmanna til að létta vinnuálag en að greiða svo miklar álagsgreiðslur eins og nú stefnir í til þeirra starfsmanna sem fyrir eru. Fjvn. vill að þessi mál séu skoðuð og gerir því ekki tillögur um hækkaðar álagsgreiðslur að þessu sinni en væri fallist á beiðnir þar um, sem gengju að sjálfsögðu til allra sjúkrahúsa, mundi launahækkun af þeim sökum á verðlagi frv. nema 300–400 millj. kr.

Vík ég nú að einstökum brtt. fjvn. og vek enn athygli á því að einhver mistök hafa átt sér stað í sambandi við þær skýringar og viðfangsefni sem prentuð eru í þskj. 244 og 249.

1. till. fjvn. á þskj. 244 lýtur að framkvæmdum á vegum aðalskrifstofu forsrn. og skýrir sú tillaga sig sjálf.

2. till. nefndarinnar er varðandi Háskóla Íslands. Um er að ræða leiðréttingu á launum eins og ég talaði um áðan, um 10 millj. 484 þús. kr. Að öðru leyti skýrir sú tillaga sig sjálf.

3. till. fjvn. lýtur að stofnun nýrrar stöðu meinafræðings við Tilraunastöð Háskólans á Keldum.

4. till. fjvn. er um stofnun Árna Magnússonar. Nefndin leggur til að launagjöld þar hækki um 500 þús. kr. sem er vegna tímabundinnar ráðningar ljósmyndara við stofnunina í hálft ár.

5. till. nefndarinnar varðar Orðabók Háskólans. Nefndin leggur til að önnur gjöld hækki þar um 500 þús. kr. og fari það til greiðslu útgáfukostnaðar vegna orðsifjabókar eftir Ásgeir Blöndal Magnússon.

6. till. nefndarinnar varðar framhaldsskóla. Nefndin leggur til að almennt framlag til þeirra hækki um 3 millj. kr. og á það að renna til uppgjörs vegna framhaldsskóla í samrekstri ríkis og sveitarfélaga.

Síðan kemur 7. brtt. Við hana er breyting á sérstöku blaði sem hefur verið dreift hér í þingsalina. Það er ekki rétt eins og sú brtt. er uppsett. Fjvn. leggur til að viðfangsefnið 601 Endurbætur og tækjakaup fái hækkun um 1,6 millj. kr. Þetta á að skiptast þannig að af þessari fjárhæð eru 600 þús. kr. ætlaðar til endurbóta á gamla skólahúsinu við Laufásveg og 1 millj. kr. er ætluð til endurbóta á lóð Kennaraháskólans.

8. brtt. nefndarinnar varðar Íþróttakennaraskóla Íslands. Þar hefur einnig verið ranglega farið með í prentun viðfangsefna og skýringum í nál. Rétt á að orða þessa brtt. þannig að til viðhalds íþróttavalla á vegum Íþróttakennaraskólans eigi að verja 1 millj. kr. af tillögu nefndarinnar, en þær 3 millj. sem þá standa út af eigi að renna til tækjakaupa og þurfa því að vistast á sérstakt viðfangsefni.

11. brtt. nefndarinnar er um framhaldsskóla í Vestmannaeyjum og skýrir sig sjálf. Sömuleiðis 12. brtt. nefndarinnar.

13. brtt. nefndarinnar varðar Vélskóla Íslands og skýrir sig sjálf.

14. brtt. nefndarinnar varðar hins vegar Iðnskólann í Reykjavík. Þar leggur nefndin til að framlag til viðfangsefnisins 501 Fasteignir verði hækkað um 2,5 millj. kr. og er þetta framlag ætlað til þess að endurnýja hitakerfi skólahússins sem er orðið ónýtt og af þeim sökum liggur skólahúsnæðið undir skemmdum. Í tillögu fjvn. um afgreiðslu Alþingis er sérstaklega tekið fram að gert sé ráð fyrir jafnháu framlagi frá borgarsjóði.

15. brtt. nefndarinnar varðar síðan liðinn Iðnnám, almennt. Þar er gerð tillaga um skiptingu þar sem komu ekki fram fullnaðarupplýsingar hvorki í áliti meiri hl. né skýringum sem því fylgja né á þskj. 244, en gert er ráð fyrir því að veitt sé 700 þús. kr. skv. tillögu fjvn. til skipulagsmála vegna iðnmenntunar á Ísafirði, en eins og þm. mun vera kunnugt þá er að hefjast samstarf Menntaskólans og Iðnskólans á Ísafirði um iðnmenntun í húsnæði Menntaskólans og samstarf um það bóklega nám sem þar fari fram.

Síðan koma brtt. 16 og 17 er lúta að héraðsskólum. Eins og kunnugt er var lagt til í fjárlagafrv. að rekstur héraðsskólanna í Reykjanesi og að Laugarvatni yrði aðeins út þetta skólaár og rekstri yrði ekki haldið áfram að þessu skólaári loknu. Samkomulag hefur hins vegar orðið um að halda áfram um sinn rekstri þessara skóla með fjárveitingu sem nægir til þess að hægt er að hefja skólahald að nýju með venjulegum hætti á næsta hausti, bæði í Héraðsskólanum í Reykjanesi og Héraðsskólanum að Laugarvatni. Fram skal sérstaklega tekið í þessu sambandi að gert er ráð fyrir því að á árinu 1988 verði málefni þessara skóla skoðuð sérstaklega, bæði að því er varðar framtíðarskólahald þeirra þarna og möguleika til þess og einnig möguleika á nýtingu húsnæðis og annarrar aðstöðu sem þarna er verði það ekki talið ráðlegt að halda skólahaldi þar áfram í óbreyttri mynd. Verður að sjálfsögðu haft samráð við heimamenn um þessa skoðun málsins.

Mér láðist í þessum upplestri að taka fram brtt. 10 um Fjölbrautaskólann á Akranesi. Þar er einnig villa í nefndarskjölum. Þar er gert ráð fyrir því að sérstakt viðfangsefni verði stofnað sem fái 5 millj. kr. fjárveitingu ef Alþingi fellst á till. fjvn. og er framlag þetta ætlað til nýbyggingar mötuneytis.

Þá komum við að grunnskólunum. 19. till. fjvn. fjallar um grunnskólana á Reykjanesi. Þar er lagt til að ein staða sálfræðings verði stofnuð frá og með byrjun næsta skólaárs. Að öðru leyti er um leiðréttingu á framlagi vegna nemendafjölda að ræða.

20., 21., 22., 23. og 24. brtt. fjvn. eru einnig um grunnskóla og skýra sig allar sjálfar og eru allar aðeins um leiðréttingu á framlagi vegna nemendafjölda.

Um 25. brtt. er hins vegar það að segja að þar er gerð tillaga um, þ.e. við grunnskóla á Suðurlandi, að ráðið verði í stöðu sálfræðings frá miðju ári 1988 og kemur sú till. þá til viðbótar till. um leiðréttingu á framlagi vegna nemendafjölda í þeim skólum.

Varðandi till. 26 er það að segja að þar er gert ráð fyrir nokkurri hækkun sem verði til varasjóðs vegna fjölgunar bekkjardeilda og fleira og er þetta í samræmi við afgreiðslu sem tíðkast hefur áður um þennan málaflokk.

Varðandi brtt. 27, Bygging grunnskóla og íbúða fyrir skólastjóra, þá er lagt til að framlag hækki um 135 millj. 215 þús. kr. og er vísað í sérstakt yfirlit í brtt. um sundurliðun á einstök verkefni á bls. 3–10 á þskj. 244.

28. brtt. nefndarinnar skýrir sig sjálf. Sömuleiðis 29. brtt. hennar. Um 30. brtt. nefndarinnar er það helst að segja að fallist var á erindi Landsbókasafnsins um að ráðið verði á árinu 1988 í stöðu bókavarðar til þess sérstaklega að skrá tímarit og blöð sem safninu hafa borist á undanförnum árum. Munu launagjöld af þeim sökum hækka um 800 þús. kr. ef Alþingi samþykkir þessa tillögu fjvn.

Þá er nýtt viðfangsefni í till. 31 um Þjóðminjasafn Íslands. Þar gerir fjvn. tillögur til fjárveitingavaldsins um að önnur gjöld á vegum Þjóðminjasafnsins verði hækkuð um 500 þús. kr., enda verði sú fjárhæð sérstaklega notuð til kynningar og upplýsingastarfsemi á vegum safnsins, en Þjóðminjasafn Íslands verður 125 ára á næsta ári.

Síðan kemur 32. brtt. nefndarinnar um hækkun á liðum undir Listir, framlög. Þær tillögur skýra sig að mestu leyti sjálfar. Ég vil þó aðeins benda á varðandi c-lið, um Leiklistarráð, að þar er um lækkun að ræða úr 2 millj. kr. eins og tillaga var gerð um í fjárlagafrv. niður í 200 þús. kr. Ástæðan var sú að það var skekkja í fjárlagafrv. Þar sem stóð 2 millj. kr. undir Leiklistarráð átti að standa skv. till. fjmrn. að höfðu samráði við menntmrh. 200 þús. kr. og er sú leiðrétting hér gerð. Þá ber sérstaklega þess að geta að Alþýðuleikhúsið fékk ekki hliðstæða hækkun og önnur leikhús fengu í fjárlagafrv. Það voru mistök sem fjvn. leggur til að leiðrétt verði eins og fram kemur í staflið d.

Þá er einnig í tillögum nefndarinnar lagt til að framlag til Listasafns Sigurjóns Ólafssonar hækki um 800 þús. kr. Þar stendur nú yfir mikil framkvæmd sem unnin er að miklu leyti í sjálfboðavinnu. Þar er verið að gera hluti sem munu horfa til mikilla heilla og verða öllum aðstandendum til mikils sóma. Fjvn. vill ganga til móts við þetta viðfangsefni með þessari till., er. við gerum okkur að sjálfsögðu ljóst að þessir fjármunir hrökkva hvergi nærri til að ljúka þeim viðfangsefnum sem þarna þarf að ljúka. Engu að síður er þarna komið nokkuð til móts við þetta viðfangsefni.

Síðan er önnur lækkunartillaga frá fjvn., g-liður. Þar var gert ráð fyrir að til leikfélaga vegna skuldagreiðslna yrði veitt fjárveiting sem næmi 31/2 millj. Engin umsókn um slíkt lá fyrir fjvn. og því tók nefndin þá ákvörðun að lækka nokkuð þessa fjárhæð, en gerir ekki að tillögu sinni að fjárhæðin verði öll felld niður því að fjvn. veit um erindi í þessu sambandi sem þarf að sinna jafnvel þótt þau erindi hafi ekki borist fjvn. sjálfri.

Liður 33, Norræn samvinna. Þar er lagt til að tekið verði inn nýtt viðfangsefni, Norræn atvinnumiðlun. Þetta er viðfangsefnið Nordjobb sem er á vegum Norræna félagsins og nemur tæplega hálfum launum starfsmanns, en hinn helmingurinn er greiddur af Norræna félaginu samkvæmt samkomulagi við samstarfsráðherra.

34. tillagan varðar liðinn Æskulýðsmál og er þar um nokkra hækkun að ræða og skýrir till. sig sjálf. Till. 35, ýmis íþróttamál. Þar eru tekin inn tvö ný viðfangsefni, annars vegar till. um fjárveitingu að fjárhæð 500 þús. kr. til Handknattleikssambands Íslands vegna kostnaðar sem Handknattleikssambandið óhjákvæmilega verður fyrir í því starfi sínu að reyna að tryggja að heimsmeistaramót á Íslandi geti farið fram árið 1994. Hins vegar er einnig nýr liður, liður 1.16, Íþrótta- og æskulýðsheimili, styrkir, upp á 15 millj. kr. Hér er um að ræða tilmæli frá ríkisstjórn samkvæmt samþykkt hennar og er til þess ætlast að þessi fjárhæð komi til stuðnings við framkvæmdir á vegum íþróttafélaganna. Fjvn. mun fyrir 3. umr. gera tillögu um hvernig lið þessum skuli skipt að höfðu samráði við íþróttafulltrúa ríkisins. Að öðru leyti skýrir till. þessi sig sjálf.

Sama má segja um 36. till., hún skýrir sig sjálf, svo. og 37. og 38. till.

Varðandi þær tillögur sem nefndin gerir um mál sem undir landbrn. heyra, þá má segja um svo til allar þær tillögur, till. 39 til og með till. 49, að hér er nefndin að fallast á þau tilmæli sem hæstv. ríkisstjórn beindi til nefndarinnar um afgreiðslu undir þessum lið og ég hef út af fyrir sig fátt annað um þessar tillögur að segja. Þær skýra sig nákvæmlega sjálfar. Það eru aðeins tvö atriði sem ég vil leyfa mér að benda á.

Það er varðandi tillögu 41 Þar er tekið inn nýtt viðfangsefni, liður 1.90 Tilraunastöðvar, 8 millj. kr. Verði þessi till. samþykkt mun fjvn. í byrjun næsta árs taka ákvörðun um skiptingu þessara fjármuna niður á tilraunastöðvar að fengnum tillögum landbrn.

Þessu til viðbótar má bæta við till. 46, Jarðræktarlög. Þar er tekinn inn nýr liður, viðfangsefni 1.20, Framlög til búnaðarsambanda 9 millj. kr.

Að lokum er sérstök ástæða til að benda á atriði í brtt. 49. Þar leggur nefndin til að fjárveiting til Gunnarshúss, Skriðuklaustri, verði hækkuð um 2 millj. kr. og er það fé ætlað til viðgerða á þaki og gluggum, en mikið viðhaldsverkefni stendur nú yfir við Gunnarshús á Skriðuklaustri í minningu skáldsins.

Þá komum við að sjávarútvegsráðuneytinu.

Brtt. 50 um Hafrannsóknastofnun. Þar er lagt til að tekinn verði inn nýr liður, Alþjóðlegt samstarfsverkefni á hafsvæðinu milli Íslands og Austur-Grænlands, er hljóti 4,2 millj. kr. Þetta er samningsatriði sem við Íslendingar erum að sjálfsögðu skuldbundnir til að standa við.

Þá er lagt til í till. 51 að taka inn nokkur viðfangsefni sem við leggjum til að hækki. Þar er enn ein villa, sú næstsíðasta. Þar er lagt til að inn undir þennan lið, Sjávarútvegsmál, ýmis starfsemi verði tekinn nýr liður, 1.33 Öryggismálaskóli sjómanna, og til hans verði veittar 10 millj. kr. Það er ekki rétt með farið að þessi fjárveiting eigi að heyra undir þennan lið í sjútvrn. Það voru mistök að viðfangsefnið skyldi vistast þar. Það átti að vera í samgrn. á næsta ári að tillögu nefndarinnar eins og það var á sl. ári og hefur brtt. um það efni þegar verið dreift.

Þá er komið að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Þar er till. 52. Hún varðar vinnuhælið að Kvíabryggju þar sem gert er ráð fyrir að nýr liður verði tekinn inn, 6.10 Umhverfisbætur að fjárhæð 500 þús. kr.

Brtt. 53 varðar Landhelgisgæsluna. Þar hefur það gerst að Landhelgisgæslan hefur samið við Landgræðslu ríkisins um að taka að sér flugrekstur fyrir síðarnefndu stofnunina. Til þess þarf að hækka nokkuð launakostnað og viðfangsefnakostnað á vegum Landhelgisgæslunnar og er till. fjvn., brtt. 53, í samræmi við þær niðurstöður um breytingar sem Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur lagt fyrir nefndina að gera þurfi.

Till. 54 varðar að gerð er tillaga um að liðurinn 1.10 Æskulýðsstarf hjá Biskupsstofu verði hækkaður um 250 þús. kr. og er sú hækkun ætluð til stuðnings við æskulýðsstarf safnaða á Vestfjörðum. Erindi barst til nefndarinnar um að ráðinn yrði sérstakur æskulýðsfulltrúi fyrir söfnuði á Vestfjörðum. Nefndin féllst ekki á þau tilmæli, en gerir tillögu um afgreiðslu málsins með þessum hætti.

Þá kemur till. 55. Þar leggur nefndin til að viðfangsefnið 6.20 Byggingar á prestssetrum verði hækkað um 2 millj. kr. og að viðbótarframlag þetta verði látið renna til byggingar prestsseturs í Bjarnanesi.

Þá er loks till. 56 sem varðar dóms- og kirkjumrn. Hún varðar lið 3.04 Ýmis kirkjuleg málefni. Þar er lagt til að framlag til Hóladómkirkju verði hækkað um 2 millj. kr. þannig að framlagið verði alls 9 millj. kr. Fjárveiting frá fyrra ári, sem er að nokkru leyti ónotuð, nam 5 millj. kr. þannig að nokkru meiri fjármunir eru til ráðstöfunar til framkvæmda við Hóladómkirkju en hér eru sýndir.

Það er sameiginlegt áhugamál fjvn. og kirkjumálaráðherra að unnt verði á næsta sumri að ljúka þeim framkvæmdum sem vinna þarf inni í sjálfu kirkjuskipi Hóladómkirkju. Það mun kosta nokkru meiri fjármuni en til ráðstöfunar eru, en bæði ráðherra og fjvn. hafa áhuga á að það mál sé leyst með sérstökum hætti og væri ekki úr vegi a.m.k. að það yrði hugleitt, tekið til alvarlegrar skoðunar að Byggðasjóður ætti þar hlut að máli. Fjvn. mun fyrir sitt leyti leggja til að það fé, sem að láni þyrfti að taka í þessu skyni, verði síðan greitt til baka á fjárlögum næstu ára, en nefndin vekur einnig athygli á því að fyrir Alþingi liggur nú frv. til l. um sóknargjöld sem gerir ráð fyrir mun rýmri aðstæðum fyrir kirkjuna á Hólum til þess að ráðast í framkvæmdir af þessu tagi. Þó að lokið verði við framkvæmdir inni í kirkjuskipinu sjálfu eru allmiklar framkvæmdir enn óunnar við Hóladómkirkju, bæði í fordyri og eins að utan.

Þá komum við að till. 57 um málefni fatlaðra og skýrir hún sig sjálf. Sömuleiðis till. 58, en þar er lagt til að ráðinn verði þroskaþjálfi á Höfn í Hornafirði. Till. 59 gerir ráð fyrir nokkurri hækkun á viðfangsefninu 1.90 hjá félmrn., Ýmislegt, eða alls um 4 millj. 609 þús. kr. 2 millj. af þeirri upphæð eru sérstaklega ætlaðar til endurvinnslu staðla í byggingariðnaði.

Þá er í till. 60 gert ráð fyrir að Alþingi fallist á nokkra hækkun til ýmissar starfsemi, þar a meðal að styrkir til sjómannastofa hækki um 100 þús. kr., en þær hækkuðu ekki frá fjárlögum 1987 til frv. 1988 og er hér um eðlilega verðuppfærslu að ræða.

Sama máli gegnir um lið 1.30 Félagasamtök. Viðfangsefnið 1.32 Starfsmenntun í atvinnulífinu á hins vegar skv. till. nefndarinnar að hækka um 4 millj. kr. og er þar um að ræða tilfærslur vegna fata- og vefjariðnaðar.

Þá komum við að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

Till. 61 varðar Geislavarnir ríkisins og er þar gert ráð fyrir að staðið verði við þær skuldbindingar sem gefnar hafa verið gagnvart Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni á þann veg að önnur gjöld Geislavarna ríkisins verði hækkuð um 700 þús. kr. og er það til tímabundinnar ráðningar starfsmanns og auk þess verði tekinn inn nýr liður, liður 6.01 Tækjakaup 21/2millj. kr. Tryggja þessar fjárveitingar, ef samþykktar verða, að hægt verður að standa að fullu leyti við skuldbindingar þær sem gefnar hafa verið Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni fyrir þá aðstoð sem hún mun veita okkur Íslendingum í sambandi við geislamælingar.

Þá kemur launaleiðrétting, till. 62, vegna héraðshælis Austur-Húnvetninga.

Síðan kemur till. 63 er varðar Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þar gerir fjvn. þá tillögu að önnur gjöld á vegum sjúkrahússins verði hækkuð um 600 þús. kr. og er það sérstaklega hugsað til að greiða kostnað við athugun á framtíðarnýtingu eldra húsnæðis, en slík umsókn barst frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Síðan eru till. 64, 65, 66 og 67. Þetta varðar allt saman sambærilegt mál. Launaútgjöld hækka vegna leiðréttinga sem þurfti að gera vegna þess að tiltækar upplýsingar bárust fjvn. um launamál þessara sjúkrahúsa sem þurfti að leiðrétta frumvarpstölurnar um og ekki höfðu legið fyrir þegar fjárlagafrv. var samið.

Þá komum við að till. 61 er varðar ríkisspítala. Þar leggur fjvn. til að viðfangsefnið 1.10 Legudeildir, svæfinga- og gjörgæsludeild verði hækkað um 11,4 millj. kr. og er hækkunin vegna þriggja nýrra stöðugilda sjúkraliða á Kristnesspítala og vegna hjartaaðgerða og er þar gert ráð fyrir að hjartaaðgerðum fjölgi úr tveimur á viku, eins og verið hefur, í þrjár. Þá hækka launagjöld á þjónustudeildum um 4,2 millj. kr. vegna stöðubreytinga og vegna hlutastöðu sérfræðings. Framlag til stofnkostnaðar hjá ríkisspítölum hækkar um 13 millj. kr., ef tillaga nefndarinnar yrði samþykkt, og er hún ætluð til tækjakaupa.

Þá komum við að Borgarspítalanum. Þar leggur fjvn. til að sex ný stöðugildi verði samþykkt í Arnarholti. Ef sú till. verður samþykkt munu launagjöld hækka hennar vegna um 8 millj. kr.

Síðan kemur viðfangsefnið 5.01 Viðhald. Það er gert ráð fyrir því að til þessa verkefnis verði veitt auknu fé er nemi 8 millj. kr. og er sú fjárhæð ætluð til að greiða hluta kostnaðar við eldvarnakerfi. Það er mat manna að það kosti 24 millj. kr. að koma á fót fullnægjandi eldvarnakerfi á Borgarspítalanum. Þessi fjárhæð nægir fyrir þriðjungnum af þeirri þörf og er hugmynd fjvn. sú að þetta verkefni verði leyst á þremur árum.

Þá er einnig tekinn inn nýr liður, Bygging B-álmu, að fjárhæð 9 millj. kr.

Í till. 70 er varðar sjúkrahús almennt gerir fjvn. tillögu um að tekinn sé inn nýr fjárlagaliður með 50 millj. kr. Þessum lið er ætlað að vera til ráðstöfunar við uppgjör til sjúkrahúsa á föstum fjárlögum vegna hugsanlegs rekstrarhalla ársins 1987, en samkvæmt þeim upplýsingum sem fjvn. hefur stefnir í að rekstrarhalli þessara sjúkrahúsa geti numið um 5%. Nefndin er ekki reiðubúin að flytja tillögur um að skipta þessum fjármunum upp á milli sjúkrahúsanna. Til þess liggja ekki nægar upplýsingar fyrir. En niðurstaða hennar er sem sagt sú að leggja til að sérstakur fjárlagaliður verði stofnsettur með 50 millj. kr. framlagi sem ætlað er að vera til ráðstöfunar við þetta uppgjör þegar fyrir liggja nánari upplýsingar um stöðu mála.

Þá komum við að till. 71 er varðar sjúkrahús og læknisbústaði. Nefndin gerir það að tillögu sinni að viðfangsefni 6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða hækki um 54,8 millj. Vísað er í sundurliðun með sérstöku yfirliti með brtt. á þskj. 244 um skiptingu þessarar fjárhæðar á einstök verkefni, bls. 14–15 í því þskj.

Þá komum við að tillögu nefndarinnar nr. 72 er varðar Heilbrigðismál, ýmsa starfsemi. Þar leggur nefndin til að viðfangsefnið 1.35 Hjartavernd, Mónica-rannsóknir, verði hækkað um 860 þús. kr. Jafnframt verði tekinn inn nýr liður, 1.80 Sjúkraflug, og til þess viðfangsefnis fari 2 millj. kr. og munu tilfærslur því hækka sem því nemur verði þessi till. samþykkt. Þetta viðfangsefni féll niður af fjárlögum yfirstandandi árs, en hafði þá lengi verið á fjárlögum. Hugmyndin var sú að taka málin til gagngerðari skoðunar en tími gafst til við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Niðurstaða fjvn. eftir þá skoðun er sú að hún leggur til að þessu verkefni verði sinnt með þessum hætti, eins og hér er gerð tillaga um, og er fjárveitingin ætluð til þátttöku í kostnaði við bakvaktir vegna sjúkraflugs, enda liggi fyrir kostnaðarþátttaka sveitarfélaga. Það verður svo heilbrmrn. sem tekur við umsóknum um styrki samkvæmt þessum fjárlagalið og afgreiðir þær en ekki Alþingi og fjvn. eins og oft hefur verið.

Þá er það tillaga 73. Hún varðar Gæsluvistarsjóð og er um að framlag til Verndar verði hækkað um 200 þús. kr.

Liðurinn 4.81 Bindindisstarfsemi. Þar leggur nefndin til að viðfangsefnið 1.10 Áfengisvarnir hækki um 2 millj. 595 þús. kr. og er það sú fjárhæð sem þarf til að reka starfsemi áfengisvarnaráðs með óbreyttri starfsemi frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Samtals er því ætlað til áfengisvarna 4 millj. 547 þús. kr.

75. till. fjvn. varðar Vegagerð ríkisins. Nefndin leggur til að nýframkvæmdir hækki um 50 millj. kr. og önnur gjöld sem því nemur. 20 millj, af þessari hækkun eiga að renna sem sérstakt framlag til jarðgangagerðar í Ólafsfjarðarmúla þannig að 30 millj. af þessum 50 komi þá til skipta til annarra þarfa.

76. till. fjvn. varðar hafnamál. Þar er lagt til að viðfangsefni 6.30 Hafnarmannvirki og lendingarbætur hækki um 148 millj. 500 þús. kr. og er vísað í sundurliðun á einstök verkefni í yfirliti með brtt.

77. till. fjvn. er sú að tekinn verði inn nýr liður, 6.51 Landshöfn Rifi, og veitt verði í hann 4 millj. kr. og er þetta skuldauppgjör.

78. till. um Siglingamálastofnun ríkisins skýrir sig sjálf.

79. till. skýrir sig einnig sjálf. Ég vil aðeins í því sambandi vekja athygli á d-liðnum þar sem lagt er til að framlag til norrænna jarðskjálftarannsókna á Suðurlandi hækki um 3 millj. 92 þús. kr., en þessi till. nefndarinnar er við það miðuð að fá visst umsamið framlag frá hinum Norðurlöndunum til þessa verkefnis.

Þá kemur loks till. 80, en það er 6. og síðasta till. sem ekki er rétt farið með í þeim texta sem fyrir liggur. Í textanum sem fyrir liggur er sagt að fjvn. geri tillögu um nýjan lið, 6.30 er heiti Hönnun ferðamannaaðstöðu við Gullfoss. Fjárveiting verði 200 þús. kr. Þetta er ekki rétt. Það lá að vísu fyrir fjvn. erindi um gerð mannvirkja við Gullfoss vegna bættrar þjónustu við ferðamenn. Fjvn. var ekki reiðubúin að fallast að svo stöddu á þær framkvæmdahugmyndir sem komu fram í þeim tillögum. Eins og liðurinn er hins vegar orðaður mætti ætla að með þessu væri fjvn. að fallast á að hönnun þessara mannvirkja gæti hafist. Svo er ekki. Nefndin lagði hins vegar til að 200 þús. kr. yrði varið til að lagfæra ferðamannaaðstöðuna við Gullfoss, bifreiðastæði og annað það sem nú er fyrir ferðamenn á þeim stað. Réttur ætti liðurinn að hljóða þannig: 6.30 Lagfæring ferðamannaaðstöðu við Gullfoss. Það skiptir kannski ekki ýkja miklu máli hvort orðið er notað en við viljum að það sé alveg skýrt að nefndin hefur ekki að svo stöddu fallist á hugmyndir um þær framkvæmdir við Gullfoss sem lagðar voru fyrir nefndina á þessu hausti.

Þá kem ég að brtt. 81 er varðar Veðurstofu Íslands. Þar er um að ræða veðurþjónustu vegna millilandaflugs, hækkun á þeim lið, og launakostnað vegna veðurathugana við Galtarvík á Hjarðarnesi sem féll niður í frv. en er í samræmi við samkomulag við Alþjóðaflugmálastofnunina.

Till. 82 varðar Landmælingar Íslands. Þar leggur nefndin til að viðfangsefnið 1.01 Landmælingar Íslands hækki um 2 millj. kr. vegna lækkunar sértekna um þá upphæð. Með þessu er nefndin að ganga nokkuð til móts við það sjónarmið Landmælinganna að sértekjur stofnunarinnar séu nokkuð ofáætlaðar, en vill þó fá að sjá hvernig skil geta orðið vegna sértekna hennar og er ekki á þessari stundu reiðubúin að ganga lengra en þessari tillögu nemur.

Till. 83 varðar Iðntæknistofnun Íslands. Lagt er til að tilfærslur hækki undir viðfangsefni 1.90 um 1 millj. kr. og er um að ræða framlag vegna vinnuvélanámskeiða.

Till. 84 skýrir sig sjálf, sömuleiðis till. 85 og síðasta till., nr. 86, varðar Orkustofnun, viðfangsefni 1.10, Sérverkefni tengd fiskeldi. Þar er lagt til að viðfangsefnið verði hækkað um 4,5 millj. kr. og er ætlast til þess af fjvn. að sú hækkun sé notuð til rannsókna varðandi fiskeldi við Öxarfjörð.

Herra forseti. Ég hef nú lokið þessum langa lestri og gert grein fyrir tillögum fjvn. eins og þær eru lagðar fram við 2. umr. fjárlaga. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari afgreiðslu vísað til 3. umr. og að frv. verði samþykkt eftir 2. umr. með þeim breytingum sem fjvn. leggur til.