20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það gefst stuttur tími til að rekja þetta mál og því miður er ekki hægt að koma við öllum þeim upplýsingum sem fram þyrftu að koma, en ég vil aðeins nefna í þessu sambandi þrjú atriði.

Í fyrsta lagi skulum við gera okkur grein fyrir því að það er ekki aðeins mannfólkið sem neytir þess vatns sem þarna er ekki talið hæft til að þvo úr kjötskrokka heldur er sama vatnið notað í allan þann matvælaiðnað sem fram fer á Bíldudal, þar á meðal í fiskverkunarhúsum staðarins. Það er fráleitt, ef það er álit yfirdýralæknis að þetta vatn henti ekki til matvælaframleiðslu, að hægt sé að halda áfram framleiðslu á matvælum á þessum stað við þessar aðstæður. Þannig er það ekki aðeins mannfólkið sem drekkur þetta vatn, sem yfirdýralæknir telur óhæft til þess að þvo úr kjötskrokka, heldur er það einnig notað til allrar matvælaframleiðslu á staðnum.

Í öðru lagi er hér um að ræða uppgjörsmál. Þeir bændur sem þarna hafa slátrað hafa fengið mjög greitt og vel uppgert fyrir þær afurðir sem þeir hafa lagt þarna inn. Hins vegar hefur því ekki verið að fagna hjá þeim húsum sem þeim hefur verið vísað á m.a. af embættismönnum þeim sem hér eiga hlut að máli.

Í þriðja lagi vil ég benda á, hæstv. forseti, að hérna er líka um stjórnunaratriði að ræða og skýra frá því að það hafa gefið sig fram starfandi dýralæknar sem virðast hafa verið fúsir til að gefa þá umsögn um þetta sláturhús sem verið er að leita eftir, en þeim hefur snúist hugur á einni nóttu. Þessa þekkir hæstv. landbrh. mjög vel til og það er mat mitt og annarra þm. Vestf. að þessi sinnaskipti umræddra héraðsdýralækna, sem hafa verið reiðubúnir að gefa umsögn um þetta hús, séu af annarlegum rótum runnin. Þar er ég ekki að ásaka hæstv. landbrh. eða embættismenn í landbrn.