14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

1. mál, fjárlög 1988

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þessarar umræðu þakka meðnefndarfólki mínu ágætt samstarf í fjvn. þann tíma sem liðinn er að undirbúningi fjárlagagerðar. Ég tek undir þær þakkir sem hér hafa verið fluttar til ritara fjvn., hagssýslustjóra og annars starfsfólks Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, vararíkisendurskoðanda og starfsfólksins í Þórshamri.

Enda þótt mikil vinna sé vitaskuld að baki þegar frv. til fjárlaga er lagt fram í upphafi þings fer ekki milli mála að vinnan á vegum fjvn. er sú umfangsmesta sem um getur á haustþingi. Heimsóknir til fjvn. eru margar og margvíslegar vonir eru bundnar við störf þessa þáttar þingsins ár hvert. Ég ætla þó að óvíða gangi jafnmargir bónleiðir til búðar og af þessum vettvangi.

Það frv. til fjárlaga sem hér er til 2. umr. er fyrsta fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar. Það hefur að auki verið nokkuð sögulegt, raunar frá því að fyrst heyrðist af þeirri stefnumörkun sem frv. ætti að fylgja skömmu eftir myndun hæstv. ríkisstjórnar.

Enda þótt góðæri á flestum sviðum þjóðlífsins hafi einkennt undanfarin ár hefur halli á fjárlögum verið nánast árviss og margvíslegum vanda þannig ýtt á undan sér óleystum til framtíðar. Við myndun hæstv. ríkisstjórnar var þjóðinni kynnt sú stefna að ríkissjóðshallanum yrði eytt á næstu þremur árum og þótti þó flestum það verkefni ærið. Hér er þó aðeins um að ræða A-hlutann, þ.e. rekstrarjöfnuð sjálfs ríkissjóðs og ríkisstofnana í A-hluta fjárlaga. Þegar nær dró var ljóst að hæstv. fjmrh. var nokkuð meira í hug en fram kom í þessum efnum á miðju sumri. Þegar frv. var lagt fram í upphafi þings var stefnumörkunin allt í einu orðin hallalaus fjárlög 1988 og stöðvun erlendrar skuldasöfnunar á vegum ríkissjóðs með næsta fjárlagaári.

Stundum er því haldið fram að virðing Alþingis og traust almennings á stjórnmálamönnum fari minnkandi vegna þess að stjórnmálamenn standi ekki við orð sín eða víki af þeirri leið sem þeir hafi markað. Oftar er þó staðhæft að markmiðin séu óljós og almenningi ókunn. Í gær var því t.d. haldið fram í aðalmálgagni hæstv. ríkisstjórnar að um það hafi verið samið við myndun hæstv. ríkisstjórnar að fjárhagur ríkisins skyldi bættur með því að hækka skatta. Þetta er sagt blygðunarlaust, því er blygðunarlaust haldið fram nú, vitaskuld vegna þess að nú verður ekki lengur dulið þetta ætlunarverk sem auðvitað var ákveðið við myndun hæstv. ríkisstjórnar án þess að geta þess nokkurs staðar í stjórnarsáttmálanum. Mér heyrðist það meira að segja á formanni hv. fjvn. áðan að enn um sinn eigi í raun að þegja um þetta markmið.

Um þetta atriði var hins vegar á þennan veg rætt í stjórnarsáttmálanum, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnvægi í ríkisfjármálum verði náð á næstu þremur árum. Tekjuöflun ríkisins verði gerð einfaldari, réttlátari og skilvirkari. Útgjöld ríkisins verði endurskoðuð þannig að gætt verði fyllsta aðhalds og sparnaðar og þau vaxi ekki örar en þjóðarframleiðsla. Skatttekjur nýtist sem best í þágu almennings.“

Þetta segir stjórnarmálgagnið samkomulag um að hækka skatta. Er nokkur furða þó að virðing manna á stjórnvöldum og nánasta samstarfsfólki fari þverrandi við málflutning af þessu tagi?

En lítum nánar á góssið. „Útgjöld ríkisins vaxi ekki örar en þjóðarframleiðslan“, segir í stjórnarsáttmálanum, með leyfi hæstv. forseta. Í þjóðhagsáætlun frá því í okt. sl. var gert ráð fyrir að þjóðartekjur á næsta ári yrðu óbreyttar frá því sem þær verða í ár. Nú á seinustu vikum þykja ýmis þau teikn á lofti, svo sem minna sjávarfang en ráð var fyrir gert, sem leitt gætu til jafnvel 1–2% samdráttar í þjóðartekjum. Og jafnvel fyrir þessi nýju teikn sagði í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1988, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þeim forsendum um framleiðslu og þjóðarútgjöld, sem hér hefur verið lýst, verður hagvöxtur á mælikvarða vergrar landsframleiðslu á næsta ári óverulegur. Þjóðartekjur í heild aukast ekki heldur þar sem reiknað er með óbreyttum viðskiptakjörum. Samkvæmt þessu verða landsframleiðsla og þjóðartekjur á mann minni á næsta ári en í ár. Þetta eru mikil umskipti frá því hagvaxtarskeiði sem ríkt hefur undanfarin 2–3 ár og er afar brýnt“, segir í þjóðhagsáætluninni, „að útgjaldaákvarðanir einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera taki mið af þeim.“

Forsendur fjárlagafrv. að því er varðar launabreytingar á árinu 1988 eru í meginatriðum þær að reiknað er með því að launahækkanir verði svipaðar og kveðið er á um í gildandi kjarasamningum við opinbera starfsmenn. Að teknu tilliti til launaskriðs en nokkurrar styttingar vinnutíma felst í þessu áætlun um 17% hækkun tekna frá þessu ári. Verðlagsforsendur eru reistar á svipaðri spá um að verðlagshækkun á mælikvarða vísitölu verði um 17–18% milli ára. Þetta felur í sér spá um að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila verði svipaður á næsta ári og þessu. Um allt þetta má lesa í forsendum frv. og gleymum ekki fyrir hvern mun stjórnarsáttmálanum. Útgjöld ríkisins vaxi ekki örar en þjóðarframleiðsla. Verð og kauplag 17–18%, þjóðartekjur núll eða minna, aukning vergrar landsframleiðslu óveruleg.

Hvaða hlut ætla nú stjórnvöld ráðuneytum í ríkisbúskapnum við þessar aðhaldsaðstæður? Lítum ögn nánar á það mál. Æðsta stjórn ríkisins hækkar útgjöld um 37%. Forsrn. hækkar útgjöld um 32%. Menntmrn. hækkar útgjöld um 42%, þar af yfirstjórn um 61%. Utanrrn. hækkar útgjöld um 39%, þar af yfirstjórn um 109%, enda flutt verkefni frá viðskrn. yfir til utanrrn. Landbrn. hækkar að vísu aðeins um 8% samkvæmt frv. þó að yfirstjórnin fengi hækkun upp á 79%. Landbrn. hefur hins vegar mjög rétt hlut sinn nú fyrir 2. umr., eins og hér hefur komið fram, með 303 millj. kr. og 700 þús. betur eða um 17,1% frá frv. Enda þótt um sé að ræða 15% samdrátt á vegum sjútvrn. hækkar yfirstjórn þar eða kostnaður um 100%. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hækkar um 39%, þar af yfirstjórn 52%. Hlutur félmrn. hækkar um 37%, þar af yfirstjórn 68%. Heilbr.- og trmrn. hækkar um 33%, þar af yfirstjórn þess 70%. Og ég bið menn að hafa í huga verðlagsviðmiðunina 17–28% fyrir landslýð. Fjmrn. dregur hins vegar saman, enda aðsjált, um 2% þó að yfirstjórnin hækki þar um 38%. Samgrn. eykur sinn hlut um 25% og yfirstjórn þess um 44%. Samdráttur er hins vegar hjá iðnrn. um 5% þó að yfirstjórnin þar hækki um 36%. Og viðskrn. hækkar um 44% og yfirstjórn þess um 30% þó að það losni við verkefni yfir til utanrrn. Fjárveiting til Hagstofu Íslands hækkar um 58% og sérstaka athygli vekur að yfirstjórn eins aðsjálasta hluta alls ríkiskerfisins, Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, hækkar um 79%. Og fyrir hvern mun, gleymum ekki meginmarkmiði stjórnarsáttmálans: Útgjöld ríkisins vaxi ekki örar en þjóðarframleiðsla, með leyfi hæstv. forseta, enda benda þau áform sem ég hef hér gert einkum að umtalsefni og lesið úr sjálfu fjárlagafrv. til þess að þeir sem hér lögðu grunninn í aðhalds- og sparnaðarskyni væntanlega hafi trúað sínum eigin orðum um að hagvaxtarskeiðinu væri lokið — eða skaraði hver eld að eigin köku meðan enn var tími til, ellegar stóð stríðið um hver fengi drýgstan hlut úr skattheimtufengnum sem stjórnarmálgagnið greindi svo ákveðið og blátt áfram frá í gær að um hefði verið samið í sumar? Mér er það ekki með öllu ljóst, enda gildir það kannski einu.

Annars kom það nokkuð fljótt í ljós með fyrstu aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar síðsumars hvert stefndi í þessum efnum. Hins vegar held ég að fáa hafi grunað að verkstjórn og vinnulag á stjórnarheimilinu yrði með þeim eindæmum, sem nú hefur komið í ljós, að þegar um það bil vika er eftir af eðlilegum starfstíma þingsins til jólaleyfis sé slíkur fjöldi stórmála lítt eða ekki ræddur, mála sem þó verða að fá afgreiðslu þingsins fyrir áramót.

Ekki færri en 17 lög og lagabálkar eru til afgreiðslu á þeim örskamma tíma sem eftir er auk fjárlaganna sjálfra. Í fyrsta lagi er það frv. til l. um Útflutningsráð. Í annan stað er það frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins sem frægt hefur orðið af ýmsum ástæðum. Í þriðja lagi er það frv. til l. um útflutningsleyfi. Í fjórða lagi er það frv. til l. um lánsfjárlög fyrir árið 1988. I fimmta lagi er það frv. til l. um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í sjötta lagi frv. til l. um sóknargjöld. Í sjöunda lagi frv. til l. um kirkjugarða. Í áttunda lagi frv. til l. um ráðstafanir í fjármálum. Í níunda lagi frv. til l. um launaskatt. Í tíunda lagi frv. um tekjuskatt og eignarskatt. Í ellefta lagi frv. til l. um gildistöku staðgreiðslu opinberra gjalda. Það tekur langan tíma þó ekki sé annað en lesa upp nöfnin, hvað þá að hugsa um hvert og eitt eða ræða það sex sinnum í þingi með öllu nefndarstarfi. Það sér hver maður. Í tólfta lagi er það frv. til l. um stjórn fiskveiða. Í þrettánda lagi er það frv. til l. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þar sem um er að ræða breytingu á allt að tíu öðrum lögum þannig að það er orðinn ákveðinn veldisvísir í þessu í leiðinni. Í fjórtánda lagi er það frv. til l. um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Í fimmtánda lagi frv. til l. um söluskatt. Í sextánda lagi frv. til l. um vörugjald. Og í sautjánda og ekki sísta lagi frv. til tollalaga. Ekki lítill bálkur það.

Ætli það sé til að auka veg og virðingu þingsins að standa svo að verki sem hér er gert eða er það e.t.v. liður í hernaðaráætluninni að hafa þetta svona til þess að óþægindin taki fyrr af? Það kann vel að vera, en trúa mín er sú að vinnubrögð af þessu tagi borgi sig ekki. Veruleg hætta er á mistökum og það dýrum þegar nær öllu tekjuöflunarkerfi ríkisins er bylt á örfáum vikum. Og svo mikið er víst að þetta er illt fordæmi um vinnubrögð við lagasetningu.

En nái þau áform öll fram sem hér er að stefnt verður vísast um að ræða stórkostlegustu skattþyngingu, nánast áþján, sem um getur í gervallri þingsögunni. Skattkerfisbreytingin í staðgreiðslu beinna skatta, sem átti að þýða sömu skattbyrði og lagt væri á samkvæmt gamla kerfinu, verður fjórðungs þynging miðað við skattbyrðina í ár. Þó eru það smámunir miðað við söluskattsálagninguna sem fyrirhuguð er. Margsinnis í fyrirliggjandi frv. til fjárlaga er rætt um breikkun söluskattsstofnsins og fækkun undanþága, enda verði skattprósentan lækkuð. Það er margsinnis tekið fram. Niðurstaðan varð þó að innheimta 25% söluskatt á mun breiðari stofn en áður hefur þekkst, enda mun tekjuaukningin hjá ríkissjóði verða, eins og hefur komið fram fyrr í þessari umræðu, a.m.k. röskir 3 milljarðar kr. þó að verulegur hluti í þessarar skattheimtu sé ætlaður í niðurgreiðslur og aðrar millifærslur.

Góðfúslega er látið í það skína að skattprósentan lækki um þrjú stig að ári, en undir öðrum formerkjum þó. En hvort það stenst fremur en önnur áform, eins og ég hef hér rakið, mun framtíðin ein úr skera. Borgarafl. er mótfallinn þeim vinnubrögðum sem hér eru í frammi höfð. Hann telur að þessi skattheimta leggist þyngst á þá sem síst skyldi. Borgarafl. telur að verð á matvælum og öðrum nauðþurftum hafi verið nógu hátt hér á landi áður en þessi ókjör riðu yfir. Borgarafl. efast um að markmiðið um betri innheimtu náist fram. Til þess væri skattheimta á fyrsta stig mun vænlegri kostur.

Einhvern tíma heyrði ég þá sögu að íslenskir skattasérfræðingar hefðu verið á þingi eða ráðstefnu erlendis þar sem skattheimta var rædd, skatteftirlit og virkni þess. Þegar þeir íslensku greindu frá söluskattsprósentunni hér á landi á seinasta stig viðskiptanna, 25%, hló þingheimur allur. Það gera þeir líka sem undanskotsleiðirnar þekkja og geta farið þær, en hinir ekki sem eiga ekki annars kost en búa við áþjánina.

Ég ætla að flestir hv. alþm. hafi fengið í morgun bréf norðan úr landi. Það snertir hluta þessa máls og mér fannst það þess eðlis að ég tók það með mér í ræðustólinn. Mig langar, þó fáir séu hér til staðar, að leyfa ykkur að heyra inntak þess bréfs. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Orðsending til alþingismanna.

Þau ótíðindi hafa borist frá ríkisstjórninni að hún áformi að leggja 25% söluskatt á búvörur um næstu áramót, ein aðförin enn að landbúnaðinum og var ekki á bætandi. Ríkisstjórnin segist ætla að auka niðurgreiðslur á búvörur í stað söluskattsins. Í því felst auðvitað engin trygging. Það yrði bara gert fyrst í stað til þess að friða fólk og réttlæta rangar ákvarðanir. Það sjá allir hversu tilgangslaust það er fyrir ríkissjóð að innheimta skatta og greiða þá svo aftur til baka. Svo má ekki gleyma því að það á ekki að greiða niður nautakjöt og ekki kartöflur. Slík mismunun mundi auðvitað koma mjög hart niður á þeim búgreinum og jafnvel eyðileggja með öllu rekstrargrundvöll þeirra. Þessi skattur, ef til kemur, mundi því augljóslega skerða stórkostlega innanlandsmarkað fyrir búvörur, auka verðbólgu og þyngja hlut láglaunafólksins. Þetta yrði reiðarslag fyrir landbúnaðinn og byggðakjarnana sem honum tengjast. Auk þess býður það annarri hættu heim, mjög alvarlegri kröfu frjálshyggjuaflanna á Reykjavíkursvæðinu um frjálsan innflutning á landbúnaðarvörum sem mundi, ef af yrði, leggja landbúnað á Íslandi í rúst.

Ég trúi því ekki að óreyndu að Alþingi samþykki þessa þarflausu og hættulegu skattheimtu. Sérstaklega er mér með öllu óskiljanlegt ef þm. landsbyggðakjördæmanna geta sætt sig við að ganga þannig á móti hagsmunum umbjóðenda sinna. Ég skora því á ykkur, góðir alþingismenn, að afstýra þessum ósóma. Ef þið gerir það ekki, þið sem eigið að gæta hagsmuna dreifbýlisins, verðið þið dæmdir hart.

Sandi í Aðaldal, 7. des. 1987.

Friðjón Guðmundsson.“

Svo mörg voru þau orð.

Annars eru allar tillögur við 2. umr. frv. um gjaldahlið þess eins og venja mun vera og hér hefur fyrr fram komið í umræðunni. Tekjuhliðin og breytingar á henni, B-hluta stofnanir og heimildir skv. 6. gr. og nokkur önnur atriði, sem fram komu í ræðu hv. síðasta ræðumanns, munu hins vegar bíða 3. umr. Samtals er aukning gjalda skv. þessum til lögum meiri hl. fjvn. um 1 milljarður 63,2 millj. kr. sem skiptist í 521,6 millj. í rekstrar- og tilfærslugjöld og hins vegar 540,7 millj. í stofnkostnað og viðhald. Þessar tillögur munu nema um 1,8% til hækkunar frá upphaflegri gerð frv.

Mest er hækkun til landbrn. eins og fyrr hefur fram komið, 303,7 millj. eða 17,1% hækkun þess liðar. Þá hækka útgjöld á vegum menntmrn., einkum skólabyggingar, um 223 millj. 979 þús., um 2,2% hækkun. Á vegum samgrn. er hækkun um 230,8 millj. kr., fyrst og fremst í hafnir eða um 5,3%. Fjórði liðurinn eru sjúkrahús á vegum heilbr.- og trmrn., hækkun að upphæð 184 millj. 155 þús., hækkun um 0,7% á þeim gjaldalið fjárlagafrv. sem fyrir var að venju hæstur eða 41,5% af heild.

Þetta frv. til fjárlaga hefur þá sérstöðu að gert er ráð fyrir að flytja marga málaflokka til sveitarfélaga nú um næstu áramót með verulegri breytingu á starfsháttum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Breytingar þessar eru að mörgu leyti óvissar enn, einkum stærð og starfshættir væntanlegrar sérdeildar sjóðsins. Ég tel mörg atriði í fyrirhuguðum flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga meira en vanhugsuð og fráleitt nógu vel undirbúin. Ég er algerlega mótfallinn þeirri ætlan að leggja rekstur og byggingu tónlistarskóla alfarið á herðar sveitarfélaga. Ég vek athygli á öflugri andstöðu nær allra þeirra sem þar eiga hlut að máli við þá fyrirhuguðu breytingu. Enn fremur tel ég niðurfellingu framlags til Félagsheimilasjóðs vanhugsað spor aftur á bak. Að láta ríkissjóð hætta þátttöku í uppbyggingu íþróttamannvirkja tel ég fráleitt með öllu, enda er andstaðan gegn þeirri fyrirhuguðu breytingu svo megn að hæstv. ríkisstjórn er nú á fremur óskipulegu undanhaldi í því máli eins og hefur fram komið í mali a.m.k. tveggja hv. þm. við þessa umræðu. Spá mín er sú að það undanhald eigi eftir að koma víðar fram.

Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 73 frá 1980 segir að tekjur Jöfnunarsjóðs skuli vera í fyrsta lagi 5% af aðflutningsgjöldum, í öðru lagi 8% af 20% af söluskatti. — Ég hef alla tíð, hv. þm., kunnað því illa að hafa hljóðskraf í þeim bekk þar sem ég hef kennt. — Í þriðja lagi hluti landsútsvars sem kveðið er á um með lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Árið 1985 var lögbundið framlag í Jöfnunarsjóð 890 millj. kr. Þá gerist það að aðeins 782 millj. kr. eru á fjárlögum þess árs. Það vantaði sem sagt 108 millj. kr. til sveitarfélaga skv. lögum. Árið 1986 gerist það að lögbundna framlagið átti að vera 1116 millj. kr. Á fjárlögum þess árs voru þó aðeins 912. Það vantaði sem sagt 204 millj. kr. Í ár, 1987, var lögbundna framlagið 1320 millj. kr., en á fjárlögum ársins voru aðeins 972 millj. Sveitarfélögin vantaði í ár 348 millj. til þess að lögum væri framfylgt. Samtals þessi þrjú ár ein eru 660 millj. kr. þannig hafðar af sveitarfélögunum með þessum hætti svo að sveitarfélögin eiga þarna inni ekki litlar fjárhæðir. Og nú í frv. fyrir árið 1988 ætti framlagið að vera 1655 millj. en það eru í frv., og menn telja nú aldeilis að þeir hafi rutt sig, 1485 millj. þannig að enn vantar 170 millj. kr. til þess að lögunum sé framfylgt. Inneign sveitarfélaganna er 830 millj. kr. þegar loforð er gefið um 400 millj. í uppgjörssjóð sem greiða á á næstu fjórum árum, 100 millj. á hverju ári, í fyrsta skipti á næsta ári. Þessi rausn er sem sagt innan við 50% af inneign sveitarfélaganna.

Annars er fróðlegt að athuga bandorminn svokallaða, þ.e. mismun á framlögum í fjárlagafrv. miðað við hvað þar ætti að vera samkvæmt hinum ýmsu lögum. Ég hef þegar rætt um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og fengið þessa niðurstöðu sem ég áðan gat. Atvinnuleysistryggingasjóður er einn þessara sjóða. Hann ætti að eiga lögbundið framlag í fjárlagafrv. fyrir árið 1988 um 600 millj. kr. Í frv. eru hins vegar 500 millj. Þar er mismunur upp á 100 millj. kr. Framkvæmdasjóður fatlaðra á að hafa lögbundið framlag upp á 201 millj., jafnvel 271, en frv. gerir ráð fyrir 180 millj. Þar vantar a.m.k. 21 millj. kr. Iðnlánasjóður ætti samkvæmt lögboðnu framlagi að vera með 72,5 millj. Ekki er gert ráð fyrir honum í fjárlagafrv. og vantar því þar 100%. Ferðamál ættu samkvæmt lögum að hafa í fjárlagafrv. 80,3 millj., en fá einungis 28. Þar vantar 52,3 millj. Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins ætti að hafa í fjárlagafrv. 190 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir krónu skv. frv. Hafnabótasjóður ætti að hafa 371/2 millj. kr. Þar er gert ráð fyrir 20 millj. og viðkomandi aðili snuðaður um 17,5. Kvikmyndasjóður ætti skv. lögum að hafa 74 millj. kr. í fjárlagafrv., en fær einungis 40 eins og mál standa. Þar vantar því 34 millj. kr. Félagsheimilasjóður ætti, skv. lögum sem enn eru þó í gildi, að hafa 47,7 millj. í fjárlagafrv., en ekki er gert ráð fyrir krónu og ekki heldur til Bjargráðasjóðs sem samkvæmt tillögu ráðuneytis ætti að hafa 39,4 millj. kr.

Útkoman fyrir næsta ár er samtals 744,4 millj. kr. til allra þessara sjóða og þá er meðtalið ársframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar sem á vantaði 170 millj. eins og fyrr var talið. Það getur varla talist eðlilegt að árum saman sé fjárlögum beitt til skerðingar á framkvæmd fjölda annarra laga svo sem verið hefur um árabil og enn virðist ætlun að gera.

Ég læt hjá líða að ræða fjármögnun húsnæðislánakerfisins í þessu sambandi, enda er það á dagskrá þingsins þessa dagana eins og stórmál önnur.

Þó að jöfnuður á A-hluta fjárlaga sé hið virðingarverðasta markmið tel ég að bæði A- og B-hluti eigi að vera undir ef meta á hvort tekst að beita fjárlögum ríkisins á þann veg að ekki leiði til áframhaldandi þenslu og verðbólgu. Ljóst er að verðbólgan er enn það einkenni í íslensku efnahagslífi sem erfiðast reynist að hemja. Margt bendir til að ýmislegt fylgi þessu frv. til fjárlaga sem fremur magnar þenslu og verðbólgu en dragi þar úr. Fá aðhalds- og sparnaðareinkenni eru hér með í för. Óbeina skattheimtan mun reynast meiri en menn grunar. Af þeirri ástæðu hef ég leyft mér að leggja fram ásamt öðrum meðflm. fáeinar brtt. við gjaldahlið frv. sem ég er þó fullviss að munu rúmast vel innan þeirra marka sem þegar aformuð skattheimta stjórnarflokkanna mun spanna.

Vegna þeirra orða sem hv. 2. þm. Vesturl. lét falla í þessu sambandi og um þennan tillöguflutning vil ég geta þess að ástæðan fyrir honum er fyrst og fremst sú að það liggur þegar fyrir að tekjuauki ríkissjóðs, m.a.s. viðurkenndur af Þjóðhagsstofnun, verður röskir 3 milljarðar kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Það er verið með till. meiri hl. fjvn. að skipta röskum milljarði. Það liggur líka fyrir að 1,8 milljarðar er ætlað í tilfærslur. Það er mér ljóst. Engu að síður er eftir það rúm sem nægir vel fyrir þeim tillögum sem ég leyfi mér að leggja fram.

Ég bendi líka á í þessu sambandi að Þjóðhagsstofnun hefur áður gert tillögur. Seinast þegar hún gerði tillögur urðu frávikin um 10% miðað við þær staðreyndir sem virðast ætla að vera í ár. Í hittiðfyrra munaði ekki miklu. Árið þar áður um 7%. Ef maður aðeins tekur meðaltal af þessum þremur árum er það ekki lítil fjárhæð, 6% af 63 milljörðum kr., og reikni svo hver fyrir sig ef hann reynir að giska á hvað út úr þessu dæmi kemur.

Brtt. þær sem ég flyt hér vil ég aðeins fara örfáum orðum um. Fyrri hlutinn er varðandi þskj. 264. Þar eru nokkrar brtt. sem við flytjum saman, hv. 4. þm. Suðurl. Margrét Frímannsdóttir og ég.

Ég vil aðeins geta þess líka að það kom fram í máli hv. 2. þm. Vesturl. að þessi tillöguflutningur væri óvenjulegur. Ég vil geta þess að hann var kynntur áður í fjvn. og það er margframkomið að við skrifuðum undir meirihlutaálitið með þeim fyrirvara að eiga fullan rétt til tillöguflutnings. Ég veit ekki betur en allir fulltrúar minni hl. flytji brtt. og telji sig hafa til þess fullan rétt án þess að brjóta á einn eða neinn hátt samkomulag í því efni.

Þskj. 264 gerir ráð fyrir þessum brtt.: Fyrst er það varðandi byggingar grunnskóla í Suðurlandskjördæmi, þar sem gert er ráð fyrir tillögu vegna Hamarsskóla í Vestmannaeyjum, hækkun úr 6 millj. í 8 millj., vegna barnaskóla á Selfossi, nýs áfanga, 3 millj., vegna stækkunar skóla á Eyrarbakka, hækkun úr 500 þús. í 1,5 millj., vegna skóla í Biskupstungnahreppi úr 2 millj. í 3 millj., vegna skólabyggingar í Hveragerði úr 6 millj. í 8 millj. Seinni hlutinn er um sjúkrahúsabyggingar. Í Vestmannaeyjum er till. úr 4 millj. í 7 millj. Nýr liður, 2. áfangi sjúkrahúss á Selfossi 10 millj. og hjúkrunarheimili aldraðra á Hellu úr 1,5 millj. í 4,5 millj. Seinast eru tveir liðir um ferðamál, annar um ferðamannaaðstöðu við Gullfoss, sem var fyrr minnst á í máli formanns fjvn., um 2,2 millj. Hér er ekki verið að ræða um hönnun eingöngu heldur framkvæmdir líka. Og síðan ferðamannaaðstöðu við Geysi, 500 þús.

Enn fremur flyt ég á þskj. 263 brtt. í einum tíu liðum. Það er fyrst varðandi Kennaraháskóla Íslands. Þar er um að ræða brtt. vegna endurbóta á gamla kennaraskólahúsinu við Laufásveg. Í tillögum meiri hl. fjvn. er gert ráð fyrir að því er mig minnir 600 þús., en hér er gert ráð fyrir að liðurinn hækki úr 7,4 millj. í 12 millj.

Annar liðurinn er um Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni. Það sýnist ekki stórt atriði. Frá tillögum eins og þær eru í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir hækkun úr 9,8 í 10 millj. Skýringin er sú að till. er um aðeins 200 þús. kr. á nýjan lið, sundlaug þar við skólann.

Þá er 3. liðurinn, um héraðsskóla almennt, úr 17,9 í 37,9 millj., stofnkostnaður og viðhald.

4. liðurinn er um byggingu grunnskóla. Í Reykjavík Ártúnsskóla úr 2 millj. í 12, í Keflavík Myllubakkaskóla úr 2,3 í 4,3 millj., í Mosfellsbæ, íþróttahús, úr 4 millj. í 6, í Eyrarsveit, Grundarfirði, nýr liður, skólastjórabústaður, 1 millj., í Stykkishólmi hækkun til skóla úr 1 millj. í 2 millj., á Bíldudal hækkun til íþróttahúss úr 0,5 millj. í 1,5, á Patreksfirði, viðbygging skóla, hækkun úr 1 í 2 millj., í Siglufirði, íþróttahús, hækkun úr 3 í 4 millj., á Dalvík, stækkun skóla, úr 1250 þús. í 3 millj. 250 þús., í Hrafnagilshreppi, sundlaug og íþróttahús, hækkun úr 2,3 í 3,3 millj., í Breiðdalshreppi, stækkun skóla, úr 3,2 í 5,2 millj., Þjóðskjalasafn, nýr liður, til héraðsskjalasafna 5 millj., norræn samvinna, nýir liðir, annars vegar vestnorrænn menningarsjóður 1 millj. og síðan sérstök fjárveiting til vestnorræna þingmannaráðsins til ráðstöfunar fyrir þá aðila 2 millj.

Síðan er 7. liðurinn: Nýr liður, byggingarstyrkur til skóla Ísaks Jónssonar 5 millj.

8. liðurinn er um byggingu sjúkrahúsa. Á Patreksfirði hækkun úr 6,5 í 8,5 millj., á Neskaupstað hækkun úr 1,5 í 4,5 millj. og í Keflavík hækkun úr 4 millj. í 10.

Málefni fatlaðra á Suðurlandi er næstseinasti liðurinn. Vegna Sólheima er farið fram á hækkun um 8 millj. kr., úr 48,7 í 56,7.

Og loks er seinasti liðurinn varðandi Stórstúku Íslands, hækkun úr 580 þús. í 1 millj.

Aðrir þm. Borgarafl. munu flytja brtt. og hafa þegar gert það ýmsir við frv. til fjárlaga og munu gera grein fyrir því, ýmist við þessa umræðu eða þá 3. umr.

Hæstv. forseti. Niðurstaða mín er sú að afar mörg áhersluatriði þessa fjárlagafrv. gangi þvert á þá stefnu sem Borgarafl. berst fyrir. Skattaáþján á barnmargar fjölskyldur, aldraða og tekjulágt fólk í formi hárra matarskatta er stefna sem Borgarafl. berst gegn af fullri einurð. Borgarafl. telur þær ógöngur sem Alþingi er komið í með jafnviðamikil mál og hér eru á dagskrá þessa dagana, tugi frumvarpa í nánast einum hnút, beri þess gleggst vitni hver óstjórn ríkir hér í landi. En verst er þó að í veigamiklum atriðum er komið aftan að fólki með miklu hærri skattlagningu en ráð var fyrir gert og nokkurn óraði fyrir fyrir fram og raunar þvert ofan í gefin fyrirheit.

Sjálfstfl. háði kosningabaráttu sína á sl. vori undir kjörorðinu „Á réttri leið“. Lengi hafði það verið markmið þess flokks að stilla sköttum í hóf. Ef þau áform sem hér eru uppi ná fram að ganga þurfa kjósendur hans ekki lengur að efast um inntak stefnu hans eða innihald í þessu efni sem nú er orðin. Holskeflan hefur risið. Hún eirir engum þegar hún fellur. Hún skapar sannarlega ekki bestu aðstæðurnar fyrir aðila vinnumarkaðarins til þeirra viðkvæmu verka sem þeirra bíða rétt handan áramótanna og öll þjóðin á ekki lítið undir að vel takist til með.