14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

1. mál, fjárlög 1988

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. er kominn í þingsal og þó að ég hefði gjarnan viljað sjá aðra hæstv. ráðherra hér, t.d. hæstv. menntmrh., sem ég óska eftir að verði gert sérstaklega viðvart að hér sé verið að fjalla um mál sem snerta sérstaklega hans ráðuneyti, þá mun ég þó halda áfram máli mínu um sinn, en bið um að hæstv. menntmrh. verði gert viðvart.

Ég ætlaði raunar að víkja hér að þeim brtt. sem ég flyt á þskj. 270 í þeirri röð sem þær liggja fyrir á þskj., hv. þingheimi til glöggvunar, til að geta fylgst með þeim tillögum sem þar liggja fyrir og áttað sig á hvað liggur að baki þeim tillöguflutningi í einstökum atriðum. Og þar sem á döfinni er sem 1. brtt. tillaga um hækkun á framlagi til Rannsóknasjóðs, þá hefði ég gjarnan viljað fá upplýst, áður en ég vík að því máli, hvort hæstv. menntmrh. er væntanlegur í þingsal. (Forseti: Ég vil upplýsa þm. um að það er verið að leifa að hæstv. menntmrh.) Getur hæstv. forseti upplýst um hvort ráðherra er í þinghúsinu? (Forseti: Það getur forseti ekki fyrr en þingsveinn kemur til baka með upplýsingar þar að lútandi.)

Virðulegur forseti. Til þess að stytta mönnum vökunótt vil ég þó halda áfram máli mínu hér í von um að hæstv. menntmrh. komi. (Gripið fram í.) Hv. þm. Albert Guðmundsson telur ástæðulaust að vera að lengja svefntíma manna, en ég ætlaði ekki að taka mjög langan tíma í mitt mál vegna þess að ég veit að það er fjöldi þm. sem hefur áhuga á að tjá sig um fjárlagafrv. eins og það kemur frá hv. fjvn.

1. brtt. sem ég flyt er varðandi Rannsóknasjóð og henni tengist brtt. nr. 6, um Fiskimálasjóð, og ég vil skýra þetta efni, hvað á bak við þennan tillöguflutning felst, með því að vísa til erindis sem sent var til hæstv. menntmrh. þann 16. nóv. sl. af framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs, Vilhjálmi Lúðvíkssyni, og afrit sent öðrum einstökum ráðherrum atvinnumála, svo og hæstv. utanrrh. sem áður fyrr var framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins. (Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. um að einungis hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., sem hér situr, eru staddir í þinghúsinu. Aðrir ráðherrar eru ekki viðstaddir.) Virðulegur forseti. Ég treysti því að húsbóndinn á kærleiksheimilinu, hæstv. forsrh., komi þeim ábendingum til skila til annarra ráðherra, ásamt hæstv. fjmrh., þeim ábendingum sem ég hef hér fram að færa varðandi þátt einstakra starfssviða innan ríkisstjórnarinnar, en vissulega er það svo að hér er það Alþingi sem er ætlað að taka ákvarðanir eftir að ríkisstjórnin hefur lagt fram sínar tillögur.

Ég ætla að leyfa mér að vitna til erindis frá 16. nóv. frá framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs. Það er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Málefni: Framlög til Rannsóknasjóðs. Meðfylgjandi minnisblað til ríkisstjórnar er tekið saman í tengslum við umræður um framlög til rannsókna í fjárlagafrv. 1988. Nýja Rannsóknaráðið hefur fjallað um frv. og telur rétt í samræmi við hlutverk sitt í 13. gr. nýrra laga að benda ríkisstjórninni á að skv. frv. dregst verulega saman það fé sem verður til ráðstöfunar með verkefnabundnum hætti. Þetta er andstætt boðaðri stefnu ...“ Virðulegur forseti, ég tek eftir því að hæstv. ráðherrar hafa ekki áhuga á því að hlýða á mál mitt. Þeir eru hér í einkaviðræðum í þingsal. (Gripið fram í.) Ég óskaði eftir viðveru ráðherra til þess að þeir hlýddu á mál mitt sem ræðumanns hér, en ekki til að þeir ástunduðu hér einkaviðræður í þingsal til truflunar fyrir málflutning manna. — „Þetta er andstætt boðaðri stefnu ríkisstjórnar og tillögum ráðsins að undanförnu. Er það þó alger forsenda þess að stofnanir geti þróast eðlilega eftir að þær verða sjálfstæðar eins og boðað er og þær geti keppt um fé til rannsóknarverkefna. Ef það er ekki fyrir hendi lamast þessar stofnanir fljótlega því íslensk atvinnufyrirtæki munu aldrei geta að fullu staðið undir nauðsynlegum langtímaverkefnum þótt hlutur atvinnulífsins í rannsóknum aukist frá því sem nú er.

Með vísun til orða þinna [þ.e. til hæstv. menntmrh.] á afmælisráðstefnu vil ég biðja þig að taka málefni Rannsóknasjóðs upp í ríkisstjórn. Hann ætti raunar að fá 100 millj. kr. á árinu 1988 ef verðgildi hans héldi sér frá 1985. Ég minni á tillögur okkar um stuðning við tæknibreytingar í fiskvinnslu. Þær fá nú mjög góðan hljómgrunn hjá forsvarsmönnum sölusamtaka og iðnrekenda. Það væri mjög gott mál að geta tekið myndarlega á í þeim efnum og þjónaði vel þeim þríþætta tilgangi: Að leysa vandamál fiskvinnslunnar, ýta undir hátækniiðnað og efla rannsóknir á sviði upplýsingatækni. Þess má geta að á afmælisráðstefnunni á föstudaginn voru rannsóknir Íslendinga a því sviði taldar allt of veikburða enn sem komið er og mun verr settar en líftæknirannsóknir sem Rannsóknasjóður hefur getað stutt myndarlega.“

Þetta var efni erindis frá framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs til hæstv. menntmrh. með afriti til annarra ráðherra og ég hef leyft mér að gera það hér heyrinkunnugt vegna þess að þarna er framkvæmdastjórinn að framfylgja skyldu sinni að ýta við ríkisstjórninni að standa við þá stefnu sem hún miklaðist mjög af þegar Rannsóknasjóður var settur á laggirnar 1985, en nú fer framlag hans sírýrnandi og er langt frá því að halda raungildi sínu. Þess vegna er hér lagt til að framlag til Rannsóknasjóðs nemi 100 millj. kr. að lágmarki sem er fyrsta tillaga mín.

Önnur till. sem ég vísaði til, nr. 6 á þskj. 270, snertir Fiskimálasjóð. Framlag ríkisins til þess sjóðs var lagt niður að ég hygg í hittiðfyrra. Alveg strikað út. Til þessa helsta stuðningssjóðs við sjávarútveginn til að styðja við tækninýjungar og þróun í aðalatvinnuvegi landsmanna. Þetta eitt út af fyrir sig var ámælisvert. En í þessu samhengi vil ég leyfa mér að vitna til ályktunar Rannsóknaráðs ríkisins sem gerð var á 60. fundi Rannsóknaráðs, ég hygg síðasta fundi eftir fyrri lögum áður en lagabreyting um Rannsóknaráð gekk í gildi. Þar var samþykkt samhljóða ályktun um tæknibreytingar í fiskvinnslu, þann 29. júní 1987. Ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að vitna í þessa ályktun því að hún fjallar um undirstöðuatriði í íslensku atvinnulífi þar sem er staða fiskvinnslunnar í landinu. Þar segir:

„Mikið breytingaskeið stendur nú yfir í sjávarútvegi á Íslandi. Með ákveðnari opinberri stjórnun fiskveiða, vaxandi vinnslu og frystingu afla um borð, auknum ísfiskútflutningi og tilkomu innlendra fiskmarkaða hafa nýjar aðstæður skapast. Hagur fiskveiðanna hefur á heildina litið batnað mikið frá því sem var, en staða frystiiðnaðarins er erfið.“ — Ég vek athygli á að þetta er ályktun 29. júní sl. Og hvernig skyldi staða fiskvinnslunnar hafa þróast síðan?

„Hörð samkeppni um hráefni, hækkandi hráefnisverð og vandkvæði á að fá fólk til starfa leiða til þess að knýjandi nauðsyn er að endurskipuleggja þennan atvinnuveg til að gera hann samkeppnisfæran á ný. Starfshópur á vegum Rannsóknaráðs hefur lagt fram tillögur um leiðir til aðstoðar í þessu efni. Bendir hann á að með samstarfi fyrirtækja í fiskvinnslu og iðnaði og opinberra stofnana megi þróa aðferðir, tæki og stýribúnað sem annars vegar geti auðveldað jöfnun á hráefnisflæði í tengslum við tilkomu fiskmarkaðar og hins vegar aukið stórlega sjálfvirkni í vinnslunni. Með sérhæfingu vinnslustöðva og sjálfvirkni er líklegt að auka megi framleiðni sem skili ávinningi er skiptir milljörðum kr. á ári. Með bættri stjórnun og öflugri vöruþróun í tengslum við slíkar tæknibreytingar gæti ávinningurinn orðið enn meiri. Samvinna á milli stofnana og fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði um þetta mál gæti eflt tæknikunnáttu Íslendinga á þessu mikilvæga sviði og opnað margvísleg tækifæri til framleiðslu á tækjabúnaði og til sölu á tækniþekkingu á innlendum og erlendum markaði.“ — Og nú kemur kjarni þessarar ályktunar, með leyfi virðulegs forseta:

„Rannsóknaráð ríkisins ályktar á 60. fundi sínum 29. júní 1987 að leggja til við ríkisstjórnina að á næstu þrem árum verði varið 60 millj. kr. á ári af opinberri hálfu til aðstoðar við tækniþróun í fiskvinnslu. Leggur ráðið til að helmingi þessa fjár verði veitt í Rannsóknasjóð til að styðja rannsókna- og þróunarverkefni eftir umsóknum sem metnar verði á faglegum forsendum. Áhersla yrði lögð á samvinnu milli fyrirtækja og stofnana um verkefnin. Lagt er til að hinum helmingnum verði veitt í Fiskimálasjóð sem misst hefur tekjustofn sinn en þyrfti að geta veitt fyrirtækjum áhættulán og styrki til vöruþróunar, vinnslutilrauna og markaðsaðgerða í tengslum við vinnslunýjungar. Reiknað er með að á móti þessum opinbera stuðningi komi eigið fé fyrirtækja og framtaksfé frá fjármagnsfyrirtækjum sem nemur a.m.k. 120 millj. kr.“

Þetta voru lyktir þessarar ályktunar á fundi Rannsóknaráðs. Og hverjir skyldu nú hafa tekið þátt í að samþykkja þessa áskorun á hæstv. ríkisstjórn? Ætli það hafi verið fagmenn, forstjórar rannsóknastofnana eða skyldu stjórnmálamenn hafa komið nærri þessari ályktun? Jú, vissulega, því að þingmenn sátu og voru á þessum tíma fulltrúar í Rannsóknaráði ríkisins frá fyrri lögum undir forsæti hæstv. þáv. menntmrh., Sverris Hermannssonar, sem stýrði þessum fundi og leiddi þessa ályktun til lykta með atkvæðum allra viðstaddra, þar á meðal allra þingmanna, fulltrúa allra flokka á þessum fundi. Og hvar sér svo þessarar samþykktar stað í gerðum ríkisstjórnarinnar, við framlagningu fjárlagafrv.? Hvergi. Því er þessi brtt. flutt um hækkun til Rannsóknasjóðs um 30 millj. og endurreisn Fiskimálasjóðs með framlagi frá ríkinu að upphæð 30 millj. kr.

Ég minni á það að Rannsóknasjóður hefur þegar sannað að ég tel ágæti sitt með úthlutun til verkefna á þýðingarmiklum sviðum. Að vísu eru ekki komnar fram niðurstöður nema í fáum tilvikum, uppskera af því rannsóknastarfi. En þarna er um að ræða ekki síst fiskeldi, líf- og lífefnatækni og upplýsinga- og tölvutækni. Þau þrjú svið hafa fengið stærsta hlutann af framlögum og styrkjum úr Rannsóknasjóði til þessa á yfirstandandi ári, samtals 67 millj. kr. rúmlega. En þá er ekki tekið tillit til þessarar sérstöku ályktunar um 60 millj. kr. til átaks til að bæta tæknina í undirstöðuiðnaði landsmanna, fiskiðnaðinum.

Virðulegur forseti. Ég nefni næst brtt. nr. 2, sem er ekki stór í sniðum en snertir fjárveitingar til héraðsskóla, í þessu tilviki til Alþýðuskólans á Eiðum, þ.e. þess héraðsskóla sem starfandi er á Austurlandi, skóla þar sem unnið er af fullum krafti, hver smuga nýtt í alþýðuskólaforminu, þ.e. fyrir efsta hluta grunnskóla að hluta og fyrir framhaldsnám á ákveðnum brautum í samvinnu við Menntaskólann á Egilsstöðum og aðra framhaldsskóla á Austurlandi. En aðstæður þessa skóla eru með þeim hörmungum að það væri fáheyrt að mínu mati ef Alþingi léti nægja að veita til þessa grunn- og framhaldsskóla, Alþýðuskólans á Eiðum, aðeins 1,2 millj. kr. eins og gert er ráð fyrir skv. fjárlagafrv. Gæti ég vitnað til erindis frá skólastjóra Alþýðuskólans á Eiðum, Kristni Kristjánssyni, sem þm. Austurl. barst ásamt grg. til byggingardeildar menntmrn., þar sem dregin er upp sú dökka mynd sem varðar verulegan hluta af húsnæði þessa aldna alþýðuskóla á Austurlandi. Hér verður að ráða bót á og tillaga um 5 millj. kr. fjárveitingu, sem ég legg hér til að verði veitt til stofnkostnaðarframkvæmda við skólann, er algert lágmark að mínu mati.

Þá kem ég að brtt. nr. 3 sem snertir fjárlagalið á brtt. fjvn. á þskj. 244, varðandi grunnskóla og íbúðir fyrir skólastjóra, en raunar í þessu tilviki íþróttamannvirki, þ.e. að framlag til íþróttahúss í Neskaupstað verði 3 millj. í staðinn fyrir 1,5 millj. kr. Það eru gild rök fyrir þessari tillögu. Þetta er eina tillagan sem ég flyt sem brtt. við þá skiptingu á fjármagni sem okkur þm. Austurl. var ætlað að taka afstöðu til á örstuttum kvöldfundi sl. miðvikudagskvöld. Þar gerði ég almennar athugasemdir við að naumt væri skammtað í þessum efnum. Þessi framkvæmd fékk á síðustu fjárlögum 200 þús. kr. sem var viðurkenning á að hefjast skyldi handa. Menn hljóta að sjá að upphæð sem nemur aðeins 1,5 millj. kr. er ekki til þess í raun að hefja framkvæmdir. Hér er um að ræða framkvæmd sem snertir ekki viðkomandi byggðarlag eingöngu, langt því frá, því þar er starfræktur framhaldsskóli, Verkmenntaskóli Austurlands, sem er fyrir nemendur af öllu Austurlandi sem þurfa að nýta viðkomandi aðstöðu og raunar þótt þeir kæmu víðar að. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram þessa brtt. varðandi þennan fjárlagalið.

Brtt. nr. 4 snertir einnig Austurlandskjördæmi sérstaklega. Hún er um framlag til Skógræktar ríkisins, að tekinn verði upp á ný liður sem felldur var út í frv. fyrir næsta ár, þ.e. um hina svokölluðu Fljótsdalsáætlun, sem er skógrækt á vegum bænda í Fljótsdalshreppi sem hafin var í kringum 1970 og hefur þegar borið verulegan árangur. Það er illt til að vita að þessi liður skuli hafa verið felldur niður, eins og raun ber vitni, því þarna er fyllsta ástæða til að halda áfram eins og raunar hefur verið undirstrikað af okkur hv. þm. Agli Jónssyni og Jóni Kristjánssyni, en hinn síðartaldi er fyrsti flm. þáltill. um sérstakt átak í skógrækt á Fljótsdalshéraði, þannig að við höfum undirstrikað okkar sjónarmið í því sambandi. Ég leyfi mér að fylgja því eftir með því að leggja hér fram tillögu um 1 millj. kr. framlag til þessa liðar sem engin rök eru fyrir að fella niður í fjárlögum fyrir næsta ár.

Þá kem ég að brtt. nr. 5 sem varðar Hafrannsóknastofnun. Þar er lagt til að hækkað verði framlag til Hafrannsóknastofnunar, rannsóknasviðs um 10 millj. kr. Ég gæti farið mörgum orðun, um þörfina á auknu fjármagni til Hafrannsóknastofnunar, rannsóknarverkefna á hennar vegum. Þetta tengist með vissum hætti þeim tillögum sem ég hef lagt fram varðandi Rannsóknasjóð og Fiskimálasjóð. Alþingi samþykkti vorið 1984 breytingar á lögum um Hafrannsóknastofnun þar sem markmið hennar voru skilgreind og áherslur lagðar á ýmsa þætti. Hafrannsóknastofnun hefur nýlega kynnt sína stöðu og stefnu í riti sem heitir Haf- og fiskirannsóknir 1988–1992 í fjölriti stofnunarinnar. Eru þau í samræmi við langtímaáætlun Rannsóknaráðs ríkisins fyrir sama tímabil. Þar er dregin upp skýr mynd af rannsóknarþörfinni á fjölmörgum sviðum varðandi haf- og fiskirannsóknir á Íslandi. Það er óhæfa að mínu mati að ætla ekki meira en raun ber vitni til þessara rannsókna. Mig minnir að til rannsóknasviðsins sérstaklega séu tæplega 7 millj. kr. skv. fjárlagafrv. og sjá allir hversu naumt er skammtað í sambandi við þennan undirstöðuþátt.

Ég hef ekki síst í huga þörfina á almennum vistfræðilegum rannsóknum á íslenskum hafsvæðum. En viðleitni hefur verið hjá Hafrannsóknastofnun til að þróa slíkar rannsóknir, aðferðir við slíkar rannsóknir. Það segir m.a. í umræddu riti, með leyfi virðulegs forseta:

„Um nokkurra ára skeið hafa Hafrannsóknastofnun, Háskóli Íslands og fleiri aðilar unnið að því að þróa líkan af innbyrðis fæðutengslum ýmissa dýrategunda á íslenska hafsvæðinu í því skyni að meta afrakstursgetu nytjastofna. Þetta er mjög áhugavert verkefni sem verður áfram á verkefnaskrá. Aðstöðu til tilrauna varðandi meltingar- og vaxtarhraða, t.d. miðað við tiltekinn sjávarhita og fæðuframboð, verður væntanlega komið upp í hinu nýja eldishúsi, en tilraunir af því tagi eru nauðsynlegur liður í þeirri viðleitni að öðlast fyllri skilning á innbyrðis áhrifum dýrastofna með sérstöku tilliti til fiskveiða. Þegar gerðar hafa verið áætlanir um afrakstur nytjastofna hefur hingað til aðallega verið byggð á beinum eða óbeinum mælingum á stofnstærð, upplýsingum um nýliðun og meðalvaxtaferlum viðkomandi tegunda. Með vaxandi þekkingu hefur komið sífellt betur í ljós hversu náin og flókin tengsl eru milli nýliðunar og afrakstursgetu nytjastofnanna á hverjum tíma annars vegar og breytinga á svifdýra- og plöntusamfélögum hafsins svo og ástandi sjávar hins vegar.

Enda þótt mikið verk hafi þegar verið unnið varðandi einstaka þætti vistkerfisins er mikilvægt að hefja sem fyrst samhliða rannsóknir a ofangreindum þáttum með það fyrir augum að tengja betur en nú er hægt upplýsingar um neðstu hlekki fæðukeðjunnar, ólífræna umhverfisþætti og fiskifræðileg gögn. Hér er raunar um að ræða nánari útfærslu á líkani af vistkerfum íslenskra hafsvæða og afrakstursgetu þeirra sem þegar er hafin vinna við og greint er frá í fyrri málsgrein. Þetta mun einkum kalla á mjög aukna starfsemi á sviðum plöntu- og dýrasvifsrannsókna.“

Því legg ég áherslu á þetta atriði hér að þarna er svo stórt verkefni fram undan. En auðvitað ætlast ég ekki til þess, ef Alþingi heimilar þessa aukningu, að því verði eingöngu varið til þessa þáttar því rannsóknarsviðin sem eru í svelti hjá Hafrannsóknastofnun eru mörg og stofnunin verður ekki í neinum vandræðum með að ráðstafa þessu fjármagni, og þó margfalt væri, með skynsamlegum hætti.

Það mundi kannski líka hjálpa hæstv. ríkisstjórn að ná áttum í sambandi við atvinnupólitík í landinu, og kannski hjálpa hæstv. sjútvrh., sem því miður er ekki hér viðstaddur, að skilja örlítið samhengið í sambandi við vistfræði íslenskra hafsvæða, m.a. í sambandi við hvali. En til rannsókna á hvölum er ætluð allnokkur upphæð svo sem réttmætt er, en það hefur ekki hingað til nægt hæstv. sjútvrh. til að draga skynsamlegar ályktanir í sambandi við áhrif hvalanna í fæðukeðjunni á íslenskum hafsvæðum og mætti um það fara nokkrum orðum sem ég ætla að spara mér að sinni vegna fjarveru hæstv. ráðherra.

Þetta læt ég nægja sem rökstuðning fyrir þessari till. um 10 millj. kr. aukningu á framlagi til rannsóknarsviðs Hafrannsóknastofnunar. Ég hef þegar gert grein fyrir tölul. 6 og kem þá að tölul. 7 sem er tillaga um aukningu á framlagi til Jafnréttisráðs um litlar 500 þús. kr.

Jafnréttisráð hefur á þeim tíma sem það hefur starfað sannað gildi sitt sem tæki til þess að upplýsa a.m.k. um það mikla misrétti sem konur í íslenska samfélaginu búa við. Nýjasta dæmi um það eru þær upplýsingar sem ráðið dró fram nýlega varðandi stöðu kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum þess opinbera. Þær upplýsingar urðu mér og hv. 13. þm. Reykv. tilefni til þess að flytja sérstakt frv., um breytingu á lögum um jafnrétti karla og kvenna, til þess að taka á þessu máli og leitast við að fá fram úrbætur á stöðu kvenna í þessu samhengi.

Það sem hér er á ferðinni með þessari tillögu um 500 þús. kr. aukningu er að Jafnréttisráð geti ráðið starfsmann, sem þar er nú að verki í hálfu starfi í rannsóknum varðandi þjóðfélagslegt samhengi, ráðið viðkomandi starfsmann í fullt starf eða heilt stöðugildi. Teldi ég það vera lítið að verið af hálfu virðulegs Alþingis að veita þessari starfsemi stuðning með þessum hætti. Auðvitað gæti verið þörf á meira framlagi til ráðsins. Hér er farið fram á mjög litla upphæð sem ég vona að fái náð fyrir augum þingheims við atkvæðagreiðslu hér eða hv. fjvn. milli umræðna ef ástæða þykir til að draga afgreiðslu málsins til 3. umr.

Þá kem ég að tölul. 8, sem varðar einnig jafnréttisbaráttu í þessu samfélagi, eða öllu heldur kvenfrelsisbaráttu á Íslandi, þ.e. að veitt verði til félmrn. undir liðnum Félagsmál, ýmis starfsemi, fjárveiting til að ráða það sem hér er kallað jafnréttisráðgjafa og veita til starfsemi þeirra 3 millj. kr. á næsta ári. Hugmyndin á bak við ráðningu slíkra starfsmanna á vegum félmrn. á fyrirmynd í starfsemi sem hefur um árabil verið rekin á hinum Norðurlöndunum með starfsemi jafnréttisráðgjafar. Verkefni þeirra er það fyrst og fremst að leitast við að bæta stöðu kvenna í fyrirtækjum og stofnunum í atvinnulífinu, leitast við að brjóta niður þá múra sem þar eru í veginum fyrir eðlilegri aðstöðu kvenna til atvinnuþátttöku og eðlilegra starfsskilyrða.

Það væri hægt að rökstyðja þörfina á þessari starfsemi með mörgum orðum. Ég ætla ekki að gera það hér og nú, en ég geri ráð fyrir því að ef ekki verður á þessa tillögu fallist, sem ég vænti þó að verði, og kannski hvort sem er, þá muni ég beita mér fyrir því að sett verði löggjöf um þetta efni á yfirstandandi þingi eða a.m.k. að Alþingi lýsi vilja sínum til þess að tekin verði upp starfsemi jafnréttisraðgjafa við félmrn. Þá hef ég vissulega í huga að viðkomandi starfsmenn veiti þjónustu og sinni verkefnum um land allt. Ég hef ekki mótað tillögur um það hvort þeir skuli ráðnir svæðisbundið eins og iðnráðgjafar en tel það þó mjög koma til greina, því að sá háttur er á hafður í grannlöndum okkar, t.d. í Noregi, þar sem jafnréttisráðgjafar starfa við fylkisskrifstofurnar í Noregi, en í Svíþjóð munu þeir vera ráðnir meira í tengslum við atvinnumálanefndir í einstökum héruðum. Upphæðin er lág, aðeins um 3 millj. kr., í ljósi þess að hér er um að ræða nýja starfsemi sem tekur nokkurn tíma að koma fótum undir og varla hægt að gera ráð fyrir því að viðkomandi ráðgjafar hæfu störf fyrr en með vordögum eða á miðju ári og fjárþörfin því kannski ekki eins mikil af þeim sökum. Ég treysti því hins vegar að þetta mál fái góðan stuðning hér á virðulegu Alþingi.

Í tölul. 9 hef ég lagt til að tekinn verði upp nýr liður hjá Orkustofnun til að ráðast í yfirlitsrannsóknir á jarðhita í Austur-Skaftafellssýslu. Þessi tillaga byggir á áhuga heimamanna og erindi sem sent hefur verið okkur alþm. á Austurlandi, frá sveitarstjórnarmönnum í Austur-Skaftafellssýslu sem hafa ýtt við þessu máli og fengið það undirbúið á vegum Orkustofnunar sem gert hefur áætlun um fjármagnsþörf til slíkra yfirlitsrannsókna sem svarar til um 3,4 millj. kr. framlags. Upphæðin miðar sem sagt við fyrirliggjandi áætlun Orkustofnunar og áætlað verðlag á næsta ári. Hvers vegna skyldu menn eiga að ýta við rannsóknum sem þessum í Austur-Skaftafellssýslu sem liggur að mestu utan við hið virka jarðhitasvæði landsins? Jú, þar er að finna lághita, og vissulega er þar að finna eldstöð þar sem er Öræfajökull, en það hefur þegar fundist lághiti á nokkrum stöðum og til lághitans horfa menn nú í auknum mæli, ekki bara vegna möguleika á upphitun íbúðarhúsnæðis ef vel tekst til, heldur ekki síður í sambandi við fiskeldi. Það eru ekki síst möguleikarnir á nýtingu jarðvarma til fiskeldis sem hljóta að ýta á rannsóknir af þessu tagi og raunar ekki fram á mikið farið. Ég treysti því að undir þetta erindi verði tekið. Það hefur þegar verið kynnt hæstv. iðnrh. en ég hef ekki orðið var við að tillaga hafi komið fram um þetta efni af hálfu iðnrn.

Kem ég þá, virðulegur forseti, að tillögum sem ég stend að sameiginlega með hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni. Þar er í fyrsta lagi um að ræða tillögu um hækkun fjárveitingar til Náttúruverndarráðs sem nemur um 14 millj. kr. Nú hrökkva menn kannski við og segja: Hver ósköpin eru hér á ferðinni? Eru menn eitthvað að ruglast í ríminu sem fara fram á það að Náttúruverndarráð fái nær 40 millj. kr. fjárveitingu í staðinn fyrir 25 millj. kr. fjárveitingu? En svo er ekki. Fyrir þessari tillögu eru gild rök og raunar óskir frá Náttúruverndarráði sem hefur bæði sent ráðuneyti sínu, eins og lög gera ráð fyrir, óskir um fjárveitingaþörf, en einnig erindi til fjvn., síðast dags. 29. okt. 1987, þar sem rökstuddar eru óskir ráðsins og dregið saman í lok þessa erindis með svofelldum hætti, með leyfi virðulegs forseta:

„Að lokum er þess eindregið óskað að eftirfarandi breytingar eða leiðréttingar verði gerðar á því frv. til fjárlaga ársins 1988 sem nú liggur fyrir.

1. Leiðrétt verði áætlun um sértekjur ráðsins þannig að sértekjur skrifstofu (vegna eftirlits með mannvirkjagerð) verði minnkaðar um 1,3 millj. kr. og felldar verði á brott áætlaðar tekjur vegna Mývatnsrannsókna að upphæð 2 millj. kr.

2. Launakostnaður vegna skrifstofu verði hækkaður um 2 millj. og launakostnaður þjóðgarðsins í Skaftafelli um 1 millj.

3. Framlag til framkvæmda á friðlýstum svæðum verði hækkað um 2,5 millj. kr.“

Þetta var tilvitnun í samanteknar óskir í þessu síðasta, eigum við að segja neyðarkalli Náttúruverndarráðs til fjvn. Upphæðin sem við fáum út úr þessu eru 8,8 millj. En hvers vegna er óskað eftir 14 millj. kr.? Það er vegna þess að Mývatnsrannsóknir eru í svelti og það mál var rætt hér sérstaklega í Sþ. af tilefni fsp. sem ég beindi til hæstv. menntmrh. og hann svaraði og greindi þar frá því að vilji væri fyrir hendi í hans ráðuneyti og hann mundi beita sér fyrir því að varið yrði 6,5 millj. kr. til Mývatnsrannsókna á næstu árum í stað þess að þær eru nú í algeru svelti og viðkomandi sérfræðinganefnd, sem sett var til verksins, hefur sagt af sér vegna fjárskorts. Ég sé þess hins vegar enn engin merki af hálfu fjvn. eða ríkisvaldsins, sem á þar meiri hluta, að standa við þetta fyrirheit og þess vegna hef ég leyft mér að bæta við lágmarksóskir Náttúruverndarráðs sem nemur 6,5 millj. kr. eða þar um bil og þá svarar þetta nokkurn veginn til þeirrar upphæðar sem hér er lögð til sem aukning á fjárveitingu til Náttúruverndarráðs. Auðvitað kæmu aðrir þættir til greina og ég tek undir þær tillögur aðrar sem fyrir liggja hér um það efni.

Ég læt þetta nægja varðandi Náttúruverndarráð og ég vil leyfa mér að taka næst tölul. 3, sem varðar annað ráð, Ferðamálaráð, þar sem flutt er hliðstæð tillaga og ég mælti fyrir fyrir ári síðan til umhverfisverndar á ferðamannastöðum, litlar 10 millj. kr. Þetta er í raun náttúruverndarmál sem hér er einnig á ferðinni.

En hvernig skyldi staðan vera varðandi þessa þætti? Hún er þannig að þrátt fyrir fyrirmæli í lögum um ferðamál og starfsemi Ferðamálaráðs, þá er fjárveiting til umhverfisverndar á ferðamannastöðum á yfirstandandi ári núll. Núll á sama tíma og hér vex hröðum skrefum ferðamannastraumur í landinu, landinu sem ásamt náttúrugersemum þess er verið að auglýsa sem söluvöru út um heim til að laða hingað erlenda ferðamenn sem auðvitað sækja þessa staði heim. Staði sem eru að bíða alvarlegan hnekki vegna átroðslu og of mikils álags og þar sem lágmarksaðstöðu vantar. Það gengur því ekki að Alþingi samþykki fjárlög fyrir næsta ár án þess að einhverju sem teljandi er sé ráðstafað í þessu skyni og hér er vissulega farið fram á algert lágmark í þessu efni.

Ég sé að hv. fjvn. hefur lagt litlar 200 þús. kr. til hönnunar aðstöðu við Gullfoss. 200 þús. kr. í það eina verkefni, til hönnunar aðstöðu. Ég man ekki betur en það hafi verið samþykkt tillaga haustið 1978, eina tillagan líklega sem fór í gegn frá stjórnarandstöðunni á þeim tíma flutt af fyrrv. hæstv. forsrh., Gunnari heitnum Thoroddsen, um sérstaka fjárveitingu í formi lántöku á þeim tíma til að byggja upp ferðamannaaðstöðu við Gullfoss. Og enn stöndum við hér og sjáum 200 þús. kr. til hönnunar ferðamannaaðstöðu á þeim stað sem fjölsóttastur er líklega ásamt Geysi í Haukadal. Eigum við að una þessu? En þessir staðir eru ekki bara Gullfoss. Ég ætla ekki að fara að telja þá hér upp. Væntanlega þekkja þm. ekki bara fimm og ekki bara tíu sem þyrftu á upphæðum að halda af þessu tagi.

Þá kem ég að tillögu 2, virðulegur forseti, sem varðar landbúnaðarmál sem enn er ekki komið að í minni ræðu hér. Þrátt fyrir lágmarksleiðréttingar hv. fjvn. á framlögum til landbúnaðarmála, ég segi lágmarksleiðréttingar því að auðvitað vantar þar stórlega á að eðlilega sé hlúð að þessum atvinnuvegi og sérstaklega rannsóknarstarfsemi í tengslum við hann, eins og þar þrengir nú að í flestum greinum. Þar vantar athugun á undirstöðuþáttum eins og könnun á búrekstraraðstöðu sem ég flutti um sérstaka þáltill. í fyrra að gerð yrði til þess að menn vissu hvernig ástandið er, til þess að menn fengju lágmarksupplýsingar um hvernig ástandið er í sveitum landsins á einstökum jörðum varðandi búrekstraraðstöðu, hlunnindi, aðstöðu til nýrra búgreina o.s.frv. Þetta vita menn ekki í dag. Og ég treysti því að ekki endurtaki sig leikurinn frá því í fyrra þegar felld var tillaga sem ég flutti um það að veita litlar 5 millj. kr. til þess að hraða því verki sem er vissulega hafið að frumkvæði Norðlendinga sem stóðu að því, Ræktunarfélag Norðurlands, að kanna sérstaklega búskaparaðstöðu á Norðurlandi og gaf út fjölrit um það efni, nr. 14/1987, sem er lofsvert framtak Norðlendinga. En knýjandi þörf er á að slík könnun fari fram í öllum landshlutum hið skjótasta og menn hafi almennilega jarðabók í höndum til þess að fjalla um landbúnaðarmálin, nothæfa jarðabók, en þurfi ekki sumpart að vera að gægjast í heimildir frá Árna Magnússyni og Bjarna Pálssyni frá byrjun 18. aldar þegar verið er að meta aðstöðuna í sveitum landsins.

Virðulegi forseti. Hér er 4. tillaga og sú síðasta sem ég mæli fyrir varðandi niðurgreiðslu á rafhitun. Þar er lagt til að hækkaður verði liðurinn undir Ýmis orkumál sem heitir Niðurgreiðsla á rafhitun úr 200 millj. kr. í 250 millj. Hvers vegna er nú þetta lagt til, að auka þarna við 50 millj. kr. til niðurgreiðslu á rafhitun? Það er gert til þess að misréttið í orkukostnaði í landinu verði ekki aukið til muna frá því sem nú er. Ég fékk í hendur í dag yfirlit frá Rafmagnsveitum ríkisins þar sem þetta er dregið fram með mjög skýrum hætti og ég hef óskað eftir því að þessu yfirliti yrði dreift á borð hv. þm. Ég vænti að þeir hafi það undir höndum. Þar kemur það fram mjög skýrt og greinilega miðað við þær hækkanir sem ákveðnar hafa verið frá næstu áramótum að rafhitunarkostnaðurinn mun hækka til verulegra muna miðað við þá upphæð sem er í fjárlögunum. Hann mun hækka eins og segir í viðkomandi erindi frá Rafmagnsveitunum, þar sem þeir eru að athuga málin á sínu svæði, með leyfi forseta, örstutt tilvitnun: „Miðað við áðurnefnda upphæð, 143 millj. kr., og 3% aukningu á orkusölu, þá þyrfti 147 millj. kr. til niðurgreiðslna hjá RARIK á árinu 1988.“ Þá er gert ráð fyrir sömu upphæð í niðurgreiðslum á hverja kwst., sömu upphæð sem þýðir hækkun. Og áfram: „Ef hins vegar niðurgreiðslur ættu að hækka til samræmis við taxtahækkanir, t.d. á taxta C-1, þá þyrftu þær að vera 23% hærri eða 181 millj. kr. á árinu 1988. Það þýðir að niðurgreiðslur hækki úr 63 aurum í 77 aura á kwst.“

En þetta er bara varðandi Rafmagnsveitur ríkisins sem eru aðeins með um 2/s af rafhituninni í landinu. Þar fyrir utan er svo Orkubú Vestfjarða og þar fyrir utan er niðurgreiðsla hjá fjarvarmaveitunum sem eru starfandi og þar fyrir utan hygg ég að það standi til að auka rafhitun í Vestmannaeyjum, semja við Rafmagnsveitu Vestmannaeyja, sem byggt hefur á hraunhita, eða hraunhitaveituna þar sem er smám saman að þrjóta svo sem reiknað var með, kannski fyrr en reiknað var með, þannig að þar er einnig fjárþörf. Lágmarksframlag bara til að halda í horfinu eru 250 millj. kr. Ætla þm. dreifbýlisins að fara heim í jólaleyfi án þess að tryggja þetta réttlætismál, án þess að tryggja að það verði ekki um verulega aukna mismunun að ræða í sambandi við húshitunarkostnaðinn í landinu? Ég vil ekki trúa því og ég heiti á hv. þm. jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu að veita þessu sjálfsagða réttlætismáli stuðning.

Virðulegur forseti. Ég hefði haft ástæðu til þess að ræða hér mun ítarlegar um þessar brtt. sem ég hef leyft mér hér að bera fram. Við alþýðubandalagsmenn flytjum fjölmargar aðrar brtt. varðandi fjárlagafrv. Ég er ekki að víkja hér að þeim. Ég minni þó á till. sem ég stend að með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni varðandi Þróunarsamvinnustofnun Íslands, en framlagið til þeirrar stofnunar er til þvílíkrar vansæmdar fyrir Alþingi að um það væri hægt að tala lengi kvölds.

Eftir að Alþingi hefur samþykkt samhljóða þingsályktun um það að reyna að þoka sér smám saman á sjö ára tímabili í átt við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum í stuðningi við þróunaraðstoð fátækra ríkja, þá stefnir í þveröfuga átt. Þveröfuga átt við það sem samhljóða var samþykkt hér á Alþingi um aukningu á framlögum til þróunarsamvinnu. 20 millj. samkvæmt tillögu hæstv. fjmrh., 40 millj. eins og málin standa nú og hlutfallið er samt hríðlækkandi sem varð á síðasta ári. Ætla menn að una þessu? Ætla menn að hlusta á jólamessurnar vitandi það að við erum að lækka að raungildi stórlega framlag til þróunaraðstoðar? Á það að vera kveðjan út í heiminn af hálfu Alþingis Íslendinga eftir að það hefur samþykkt fyrir tveimur árum að lyfta þessari upphæð smám saman upp í það að verða 0,7% af þjóðarframleiðslu og 1% með væntanlegum framlögum hjálparstofnana og annarra sem þarna vilja leggja hönd á plóginn? Ég vona að svo verði ekki.

Ég vona, virðulegur forseti, að það verði aðrar kveðjur sem við að lokum flytjum frá Alþingi en lesa má í fjárlagafrv. og brtt. meiri hl. hv. fjvn. sem hér liggja fyrir.