14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

1. mál, fjárlög 1988

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Fulltrúi Kvennalistans í fjvn., hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir, hefur gert grein fyrir viðhorfum Kvennalistans til fjárlagafrv.

Þetta fjárlagafrv. er þannig að það þyrfti að gera á því verulegar breytingar næstum því hvar sem borið er niður til að hægt sé að sætta sig við niðurstöðuna. Það verðmætamat sem lagt er til grundvallar fjármálastjórninni er byggt á hinum hörðu gildum eins og svo oft áður. Þótt ekki sé mikil von til að fá fram breytingar á heildarstefnu þeirri sem fram kemur í frv. höfum við kvennalistakonur leyft okkur að flytja nokkrar brtt. við það. Þetta eru aðeins örfáar tillögur sem gætu, ef samþykktar verða, hjálpað aðeins upp á á nokkrum stöðum. Að sjálfsögðu vildum við sjá miklu fleira ofar á listanum í þessu frv. en því verður því miður ekki við komið.

Ég mæli hér fyrst fyrir brtt. á þskj. 259 um hækkun á framlagi til Rannsóknasjóðs ríkisins, úr 70 millj. kr. í 100 millj. kr. Árið 1985 og 1986 voru 50 millj. kr. og árið 1987 60 millj. kr. veittar í sérstakan rannsóknasjóð í umsjá Rannsóknaráðs ríkisins. Úthlutun úr sjóðnum hefur verið beint að ákveðnum sviðum rannsókna og hafa flest verkefnin verið á sviði fiskeldis. Auk þess hafa verið veittir styrkir til verkefna í líf- og lífefnafræði, upplýsinga- og tölvutækni, matvælafræði, gæða- og framleiðslutækni og bygginga- og mannvirkjagerð, auk nokkurra annarra verkefna. Framlag til rannsókna hér á landi hefur alla tíð verið smánarlega lítið og fer enn lækkandi þar sem nú er miðað við að framlag ríkissjóðs til Rannsóknastofnana atvinnuveganna og fleiri rannsóknastofnana verði minnkað verulega á næsta ári. Við stöndum því langt að baki öllum Vesturlöndum í framlagi til rannsókna og þróunarstarfsemi. Við höfum lagt rétt um 0,8% af þjóðartekjum okkar til þessara mála á sama tíma og Norðurlandaþjóðirnar eru komnar hátt á annað prósent. Svíar verja meira að segja um 2,5% af þjóðarframleiðslu til rannsókna og það sama gildir um Japana, Þjóðverja og Frakka. En þessar þjóðir gera sér grein fyrir gildi rannsókna fyrir framþróun og eru bjartsýnar á þá möguleika sem felast í nýrri þekkingu og tækninýjungum á þeim sviðum sem nefnd hafa verið. Ef við ætlum ekki að verða út undan verður að breyta um stefnu.

Í því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu er framlag það sem ætlað er til Rannsóknasjóðs það lágt að líta má svo á að ætlunin sé að leggja hann niður. Ef sæmilegt ætti að vera þyrftum við að leggja í Rannsóknasjóðinn a.m.k. 200 millj. kr. en við kvennalistakonur höfum af hógværð lagt til að framlagið hækki í 100 millj. kr. í þeirri von að þeim tillögum verði vel tekið af hv. þm.

Í öðru lagi mæli ég fyrir brtt., einnig á þskj. 259. þar sem þingkonur Kvennalistans leggja til að þar bætist nýr liður inn í frv., Dagvistarheimili, stofukostnaður. Ef miðað er við verðlag í júlí 1987 skuldar ríkissjóður sveitarfélögum 83,6 millj. kr. vegna dagvistarheimila sem þegar hafa verið tekin í notkun og 35,8 millj. kr. vegna þeirra sem eru í byggingu eða samtals um 120 millj. kr. Jafnframt þessu hefur sveitarfélögum verið gefið grænt ljós varðandi byggingu dagvistarheimila með loforði um framlag ríkisins og nema þær fjárhæðir um 73 millj. kr. og hafa sum sveitarfélög þegar hafið framkvæmd í trausti þess að fá styrk til þess úr ríkissjóði, til byggingar heimilanna. Samtals eru þetta því um 193 millj. kr., þ.e. á verðlagi í júlí 1987 og miðað við þær verðlagsforsendur sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. er þessi upphæð rúmar 220 millj. kr. fyrir árið 1988.

Ég tek það fram að skuldbinding ríkissjóðs og sveitarfélaganna vegna dagvistarheimila er enn meiri vegna þess að miðað er við að framlag til sveitarfélaganna sé greitt á fjórum árum vegna nýrra heimila. Ástæðan fyrir því að þessi liður hefur fallið niður úr fjárlagafrv. er að fyrir þinginu liggur frv. til l. um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ef það frv. verður að lögum eiga sveitarfélög að taka við byggingu dagvistarheimila en í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að ríkissjóður styrki sveitarfélögin til byggingar heimilanna að 50% af byggingarkostnaði. Með því að fella niður þennan byggingarstyrk til sveitarfélaganna er í raun verið að fara út á stórhættulega braut þar sem þörfin fyrir barnaheimili hefur aldrei verið eins mikil og nú. Þörfin fyrir dagvistarrými er nú svo mikil að líta má á að um hreint neyðarástand sé að ræða. Ef ríkissjóður ætlar að hætta að styrkja sveitarfélögin vegna byggingar dagheimila er ég hrædd um að mörg hver treysti sér ekki til að leggja út í slíkar framkvæmdir. Auk þess skuldar ríkissjóður nú þegar verulegar upphæðir vegna þessa liðar eins og ég sagði áðan.

Þau rök hafa heyrst að með því að ríkissjóður hætti að taka þátt í kostnaði við byggingu dagheimila aukist sjálfstæði sveitarfélaganna. Mér er alveg fyrirmunað að skilja slíka röksemdafærslu. Það hefur enginn skipað sveitarfélögunum að byggja dagheimili hingað til. Þau hafa sjálf ákveðið það. Engin breyting verður því á því þó að hætt verði að styrkja þau til þessara bygginga. Þess vegna leggur Kvennalistinn til þennan nýja lið á fjárlögum og leggur til að ríkissjóður haldi áfram að styrkja sveitarfélögin til byggingar dagheimila sem þau hafa ákveðið að byggja.

Í þriðja lagi mæli ég fyrir brtt. um að hækka framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna um 200 millj. kr. Stjórn Lánasjóðsins hefur gert samþykkt sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna samþykkir að gerð verði leiðrétting á þeim framfærslutölum sem eru lagðar til grundvallar útreikningum námslána á þann hátt að framfærslukostnaður á námsstað í september 1987 skuli vera framfærslukostnaður á námsstað í september 1985, framreiknaður samkvæmt þróun verðlags og gengis.

Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna skal leita eftir því við stjórnvöld að þau geri þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að mæta þeirri útgjaldaaukningu sem af þessu hlýst.“

Samþykkt þessi gerir því væntanlega ráð fyrir að afnumin verði aðgerð hæstv. þáv. menntmrh. Sverris Hermannssonar með reglugerð þann 3. jan. 1986 sem kom í veg fyrir hækkun námslána samfara verðlagsþróun á tímabilinu 1. sept. 1985 til 1. júní 1986. Verðlag hækkaði á þessum tíma um Í5% og er því um að ræða um 15% skerðingu námslána að meðaltali. Ekki hefur verið sýnt fram á að það framfærslumat sem Lánasjóðurinn byggði útreikninga á námslánum fyrir skerðingu á hafi verið of hátt reiknað. Í dag búa námsmenn því í raun við framfærslumat sem er u.þ.b. 15% lægra en það sem Lánasjóðurinn taldi rétt sumarið 1985. Námslán nægja því einungis fyrir um 85% af reiknuðum framfærslukostnaði. I lögum um Lánasjóðinn segir skýrum stöfum að námslán eigi að mæta 100% fjárþörf námsmanna. Lánin duga því alls ekki til framfærslu. Það má nefna sem dæmi að Lánasjóðurinn gerir ráð fyrir að 4000 kr. nægi fyrir námsmenn til að leigja sér húsnæði sem er álveg ljóst að er allt of lágt. Þær 30 000 kr. sem námsmenn ættu að fá ef lánin væru ekki skert eru því síst ofrausn. Víða erlendis eru íslenskir námsmenn í miklum vanda vegna lágra námslána og í einu dagblaðanna mátti lesa fyrir skömmu frásögn ungrar stúlku sem var við nám í Svíþjóð. Hún var svo illa stödd að hún þurfti að leita á náðir félagsmálastofnunar þar í landi til að geta dregið fram lífið. — Er þetta það sem við viljum?

Það er nú svo komið að námsmenn geta ekki dregið fram lífið nema með aðstoð frá ættingjum og vinum. — Er þetta dæmi um það sem við köllum jafnrétti til náms?

Ef námslán væru í samræmi við eðlilegan framfærslukostnað nú í dag miðað við verðlagsþróun síðustu tveggja ára ættu þau að meðaltali að vera u.þ.b. 15% hærri. Þess vegna ætti heildarráðstöfunarfé sjóðsins að vera um 200 millj. kr. hærra en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Þess vegna höfum við lagt til þessa hækkun á framlagi til Lánasjóðsins um 200 millj. kr.

Í fjórða lagi mæli ég fyrir brtt. á þskj. 259 um Náttúruverndarráð. Þar er lagt til að hækkað verði framlag til fræðslustarfsemi úr 930 þús. kr. í 1950 þús. kr. eða um rúma milljón kr. Þessi hækkun er lögð til til þess að Náttúruverndarráð geti ráðið starfsmann til að annast fræðslustarfsemi á vegum ráðsins. Náttúruverndarráð hefur gefið út fjölrit og kynningarbæklinga og þyrfti að gera miklu meira af slíku. Einnig hefur ráðið haldið námskeið fyrir landverði og náttúruverndarnefndir auk smærri námskeiða. Það þyrfti að sjálfsögðu að auka alla fræðslustarfsemi um umhverfisvernd og náttúruvernd, bæði á vegum ráðsins og annarra. Hér er aðeins lagt til að fjárveitingin sé aukin til að hægt sé að ráða mann sérstaklega til að sjá um þennan þátt starfsins en auðvitað þyrfti þessi liður að hækka enn meira.

Í starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar stendur m.a., með leyfi forseta: „Fræðsla um náttúruvernd og umhverfismál verði aukin.“ Þannig hlýtur ríkisstjórnin að styðja þessa breytingu ef hún leggur þá ekki til að framlagið verði hækkað enn meira. Það verður nefnilega að hafa í huga varðandi þennan lið að gert er ráð fyrir að Náttúruverndarráð fái um 400 þús. kr. í tekjur vegna námskeiða og bæklinga svo að framlag ríkissjóðs er í raun aðeins 550 þús. kr. til fræðslustarfsemi á vegum ráðsins.

Einnig er lagt til að tveir nýir liðir bætist við vegna Náttúruverndarráðs en þær brtt. eru á þskj. 267. Annar liðurinn er vegna framkvæmda í Dimmuborgum í Mývatnssveit. A árinu 1987 hófust framkvæmdir í Dimmuborgum sem miða að því að draga úr náttúruspjöllum af völdum ferðamanna og voru þær fjármagnaðar með sérstakri fjárveitingu Alþingis að upphæð 900 þús. kr. Það sem helst var gert þar var að stika og afmarka gönguleiðir, smíða tröppur frá hliði og niður í borgirnar, auk annarra smærri stiga og fleka yfir hraungjótur, hafin var gerð upplýsingaskiltis og lagfæring og afmörkun bílastæða, svo að eitthvað sé nefnt. Á árinu 1988 þarf að halda þessu verki áfram því að það er ekki nema hálfnað og skilar ekki tilætluðum árangri ef látið verður sitja við svo búið. Þess vegna er mjög mikilvægt að sérstök fjárveiting verði til þessa verkefnis á fjárlögum.

Hinn liðurinn um Náttúruverndarráð er vegna framkvæmda í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Mikið hefur vantað á að lágmarksaðstæður séu fyrir ferðamenn á fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins og má þar nefna snyrtiaðstöðu og tjaldsvæði og göngustíga svo að aðeins fá dæmi séu tekin. Ég held að það þurfi varla að fjölyrða um það að algjört neyðarástand ríkir víðast hvar vegna aðstöðuleysis. Leggjum við því til að 3 millj. kr. verði veittar til þessa liðar á næsta ári til að bæta aðstöðuna bara þar sem ástandið er verst. Ég vil að sjálfsögðu taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði að ástandið er slíkt að þessir liðir þyrftu að sjálfsögðu allir að hækka miklu, miklu meira en um það sem við höfum gert ráð fyrir hérna en við leyfum okkur að fara þó fram á þessar litlu upphæðir til hækkunar eins og fram kemur í þessum tillögum.

Í fimmta lagi leggjum við svo fram brtt. á þskj. 267 um hækkun á framlagi til Kvennaathvarfsins í Reykjavík, úr 4,5 millj. kr. í 5 millj. 528 þús. kr. Í fjárhagsáætlun Kvennaathvarfsins um rekstur er áætlað að reksturinn kosti um 7 millj. 897 þús. kr. á næsta ári og fara þær konur sem sjá um reksturinn fram á að ríkissjóður greiði 70% af þeim kostnaði eða 5 millj. 528 þús. kr. Á hverju ári koma meira en 150 konur í Kvennaathvarfið í Reykjavík og yfir 100 börn. Konurnar koma í athvarfið af öllu landinu þó að flestar séu þær frá höfuðborgarsvæðinu, en eins og kunnugt er er Kvennaathvarfið í Reykjavík eina kvennaathvarfið á landinu. Enginn efast lengur um gildi Kvennaathvarfsins og gagnsemi þess fyrir konur og börn sem verða fyrir ofbeldi og eiga í ekkert hús að venda ef athvarfsins nyti ekki við. Við Kvennaathvarfið starfa margar konur í sjálfboðavinnu sem ekki er talið með þegar kostnaður við athvarfið er reiknaður. Ekki er þar heldur um neina launaða stjórn eða dýra yfirbyggingu að ræða. Ef kemur til þess að Kvennaathvarfinu þurfi að loka vegna fjárskorts og ríki og sveitarfélög þurfa að taka yfir þá starfsemi sem þar fer fram má búast við að það verði miklu dýrara en núverandi fyrirkomulag. Ef athvarfinu verður lokað getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir þær konur og ekki síður börn sem verða fyrir ofbeldi á heimilum. Það eru því sterk rök sem mæla með því að hækka framlagið til Kvennaathvarfsins um þetta lítilræði sem farið er fram á. Það er vissulega góð fjárfesting.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns þyrfti að gera gagngerar breytingar á frv. ef það ætti að vera viðunandi plagg en nú er aðeins von um smávægilegar breytingar. Mig langar aðeins að nefna nokkur atriði til viðbótar við það sem ég hef þegar nefnt.

Í fjárlagafrv. er aðeins gert ráð fyrir 20 millj. kr. til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á sama tíma og fjárhagsáætlun stofnunarinnar hljóðaði upp á 45 millj. kr. Nú hefur komið tillaga frá fjvn. um hækkun á þessu framlagi ríkissjóðs upp í 40 millj. kr. Ekki veit ég hvar á að ná í þær 5 millj. sem á vantar til að endar nái saman hjá stofnuninni. Það er þó kapítuli út af fyrir sig að skoða fjárhagsáætlun Þróunarsamvinnustofnunarinnar. Það er aðeins gert ráð fyrir að við stöndum við þau verkefni varðandi þróunaraðstoð sem við erum nú þegar búin að taka að okkur og getum alls ekki hætt við. Þróunarsamvinnustofnunin gerir því ekki mikið með þá ályktun Alþingis frá 107. löggjafarþingi sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að á næstu sjö árum skuli með reglubundinni aukningu framlaga náð því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjum verði 0,7% af þjóðarframleiðslu.“

Hún gerir heldur ekki mikið með þá setningu sem stendur í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar en þar stendur, með leyfi forseta:

„Samvinna við þróunarlönd verður aukin í anda samþykktar Sameinuðu þjóðanna um þróunaraðstoð.“

Til hvers er Alþingi að samþykkja ályktanir ef ekki er ætlunin að fara eftir þeim? Þetta er okkur til háborinnar skammar.

Ég vil aðeins nefna að lokum, herra forseti, að ég tel að það sé með öllu óviðunandi hve hlutur Reykjavíkur er lítill í fjárlagafrv. Reykjavík er líklega það kjördæmi sem verst er sett varðandi heilsugæslustöðvar og virðist ekki vera ætlunin að bæta þar neitt úr ef frv. verður samþykkt. Þó þörf sé fyrir auknar fjárveitingar til skóla alls staðar á landinu er hlutur Reykjavíkur engan veginn í samræmi við þá fjölgun sem hefur orðið í Reykjavík á undanförnum árum. Á árunum 1981–1987 hefur Reykvíkingum fjölgað um 12 000 og er nauðsynlegt að tekið sé tillit til þess við fjárveitingar.

Margt fleira væri ástæða til að nefna. Aðrar þingkonur Kvennalistans munu mæla fyrir brtt. hér á eftir sem Kvennalistinn flytur við fjárlagafrv.