14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

1. mál, fjárlög 1988

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Já, menn tala um tímamótafjárlög. Og hvað eiga hv. þm. við þegar þeir tala um tímamótafjárlög? Þeir eiga við að samkvæmt stefnu þeirri sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið í málefnum þjóðarinnar eins og hefur komið fram í fjölmiðlum, jafnvel hjá stjórnarþm., er verið að skipta þjóðinni upp í mjög ríkan fámennan hóp og svo marga sem verða öreigar ef sú stefna nær fram að ganga sem stefnt er að. Það eru þau tímamót sem hæstv. ríkisstjórn er á.

Hv. þm. Svavar Gestsson var að tala um tekjuhlið fjárlagafrv. og hann var að ræða um að það þyrfti að liggja fyrir þjóðhagsspáin um afkomuhorfur þjóðarbúsins og viðskipta við útlönd nú þegar, en eftir þeim fregnum að dæma sem hæstv. fjmrh. talaði um í fréttum í kvöld má ætla að það viti enginn og síst hæstv. fjmrh. hvernig mál standa. Það er því ekki réttlátt að krefjast þess af Þjóðhagsstofnun að hún komi með þetta fram þar sem allt er í óvissu. Ég sé ekki hvernig hún á að meta slíka hluti þar sem enginn veit í sjálfu sér hvernig þessi kerfisbreyting öll muni verka á þjóðlífið, söluskatturinn sem er ráðlagt að setja á, matarskatturinn svonefndi, menn tala ekki um annað nú. Þeir sem studdu þá stjórnarflokka sem nú hafa tekið höndum saman, t.d. bændur og ýmsir aðrir, tala mjög um að nú horfi þannig að þeir telji að þetta sé hin versta ríkisstjórn sem hefur nokkurn tíma setið, jafnvel þeir sem studdu best við þessa flokka í síðustu kosningum. Þannig er komið málum.

Ég tala nú ekki um vaxtastefnuna. Hún er þannig að margir horfa upp á að verða gjaldþrota. Þeir sem styðja þessa ríkisstjórn bera auðvitað fulla ábyrgð á þessari stefnu. Þeir geta ekki skotið sér undan því, hvorki vaxtastefnunni né öðru. Það þýðir ekki fyrir þá að koma fram í fjölmiðlum og annars staðar og segja: Þetta bara gengur ekki, en rétta svo höndina upp hér á hv. Alþingi við þeirri stefnu sem er verið að knýja fram. En ég ætla ekki að ræða þessi mál frekar hér. Ég mun gera það þegar söluskatturinn, tollafrv. sem enginn botnar í, vörugjaldið verður til umræðu, eða þá við 3. umr. fjárlaga ef þannig stendur á að ég get ekki rætt þau mál við 1. umr. þeirra mála sem ég hef hér upp talið.

Það eru margar brtt. sem ég hefði viljað flytja, en ég sé ekki mikla þýðingu að gera það. Ég vil þó taka fram að ég mun styðja ýmsar þær brtt. sem stjórnarandstaðan hefur borið fram, sérstaklega þær sem eru til að jafna lífsaðstöðuna í landinu, bæði tónlistarfræðsluna, jöfnun hitunarkostnaðar og margar fleiri tillögur. En á þskj. 274 flyt ég fimm brtt. um mál sem ég get ekki annað en gert tilraun til að flytja hér vegna þess að í þessum fjórum tilvikum hefur það mjög alvarlegar afleiðingar, ef ekki fást breytingar á, sem ég mun koma að svolítið síðar.

Fjórar þeirra eru um hafnarframkvæmdir. Í fyrsta lagi er það breyting á framlögum til Grímseyjar. Sá liður í frv. er upp á 5,6 millj., en þyrfti að vera 15,9 millj. ef á að takast að steypa þau ker á næsta ári sem stefnt er að og koma þeim niður á árinu 1989. Ef þetta fæst ekki tekst það ekki. Höfnin í Grímsey er þannig að ef koma vond veður verða menn að fara með bátana í land. Þeir geta ekki varið þá í höfninni. Það vita líka allir hv. þm. að strandferðaskipin hafa orðið að fara þarna fram hjá hvað eftir annað vegna þess að það er ekki hægt að leggja þarna að nema veður séu mjög góð eða ekki nema í 4–5 vindstigum. Þannig hefur stundum verið mjög erfitt að koma afurðum þarna frá.

Það má segja að það sé svipað með Kópasker. Það stóð til að reyna að fara í dýpkunarframkvæmdir þar. Í till. meiri hl. fjvn. eru 2,8 millj., en það þarf 9,6 millj. til að dýpka höfnina. Hún er þannig að strandferðaskipin geta ekki lagst þar að nema þegar er flóð og eiginlega í logni og það skip sem þeir eiga nú og nota til að veiða rækju er í stórhættu vegna þess hvað höfnin er grunn.

Enn fremur hef ég komið með brtt. um framlag til Raufarhafnar, að í staðinn fyrir 10 millj. komi 16,8. Það er verið að byggja þar frystihús sem á að taka til starfa snemma á næsta ári og þarf að ganga frá planinu fyrir framan eða bryggjukantinum. Hann er ósteyptur. Þar er stórskuld á þeim framkvæmdum sem hafa verið á þessu ári.

Svipað er að segja um Þórshöfn. Þar eru skv. tillögum meiri hl. fjvn. 12 millj., en þyrftu að vera 14,6 millj. til að borga hluta af þeirri skuld sem þegar er búið að framkvæma fyrir. Þessar tölur eru allar eftir tillögum Hafnamálaskrifstofunnar.

Sannleikurinn er sá að þó að það hafi orðið tæplega 150 millj. kr. hækkun frá því sem var sett á fjárlög í haust er það ekki nema helmingur af því sem þyrfti að vera ef ætti á næstu tveimur árum að ná þeim árangri sem er nauðsynlegur fyrir þá sem búa við fiskihafnirnar umhverfis landið.

Enn fremur hef ég leyft mér að flytja brtt. við lið 86, Orkustofnun 110, sérverkefni tengd fiskeldi. Það er 17,1 millj. eftir tillögum meiri hl. fjvn., en lagt til að það sé 26,1 millj. Ástæðan fyrir þessu er sú að á fjárlögum síðasta árs var þessi liður rúmar 10 millj. kr. Þegar hv. þáv. formaður fjvn. talaði fyrir þessari till. segir í þingtíðindum í hans ræðu um þennan lið:

„Orkustofnun. Tekinn verði upp nýr liður, 10 millj. kr., sem tengist sérgreindu verkefni við fiskeldi, einkanlega til að rannsaka náttúrleg skilyrði vatns og upptöku sjávar fyrir fiskeldi, þar á meðal vegna slíkra rannsókna í Öxarfirði.“

Það fór svo að af þessari fjárveitingu, sem varð nú ekki 10 millj. heldur 10,7 millj. þó að þetta sé þannig í þessari ræðu, kom ekkert til þessa verkefnis. Það er lagt til af Orkustofnun að það séu 13,5 millj. sem þurfi að fara til þessa verkefnis. Það hefur farið svo ár eftir ár að það hefur ekki fengist fjármagn til að rannsaka þetta svæði sem er þó talið vera eitt það álitlegasta á landi hér til þessarar framleiðslugreinar. Meiningin var að reyna að hefja framkvæmdir á næsta ári vegna þess að byggðinni þar er að blæða út eins og víða í strjálbýli hér á Íslandi. Ef ekki er von um að eitthvað komi í staðinn er ég ákaflega hræddur um að fólk fari að flýja þennan stað. Þess vegna er það sem ég leyfi mér að flytja brtt. Þetta er nákvæmlega það sem Orkustofnun telur nauðsynlegt að fá í þetta verkefni á þessu ári, 13,5 millj. Ég ræddi þetta við hæstv. iðnrh. og ýmsa úr fjvn., en þó hefur svona til tekist.

Í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar er þó lögð áhersla á að ríkisstjórnin muni leitast við að rannsaka möguleika á fiskeldi í landinu. Það er að vísu hækkun frá því sem verið hefur úr 10,7 millj. upp í 17,1, en það er lítið brot af því sem þarf til að athuga það sem þyrfti að gera, ekki síst eins og mál standa víða úti um land. Ég mun freista þess að taka aftur þessa till. til 3. umr. og ég skora á hæstv. fjvn. að athuga þetta mál betur eins og mál þarna standa. Það var talið að þessi upphæð væri verulega hærri í till. fjvn. en hefur komið fram í þetta verkefni og ég veit það að margir þar norður frá munu kippast við ef þessi breyting nær ekki fram að ganga.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessar tillögur. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er erfitt að fá breytingu á þessum liðum en ég vil taka það fram, t.d. í sambandi við Kópasker, að ef dýpkunarskipið fer fram hjá nú og ekkert verður hægt að gera er ekki víst að tækifæri gefist á næstu árum. Það er erfitt að flytja þetta skip og verkefnin bíða víða fyrir það ef þeim sem keyptu það tekst að halda því, að fá verkefni þannig að þeir haldi því.

Þetta er auðvitað alltaf spurning um að finna fjármagn eða hafa skilning á þessum málum. Það er kannski fyrst og fremst það. Það kann því að vera að ég taki eitthvað af þessum tillögum líka til baka og þá sérstaklega fyrstu tvo liðina, Grímsey og Kópasker.

Ég læt máli mínu lokið.