20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstvirtur forseti. Þetta mál, sem hér er um að ræða, er í rauninni miklu stærra en umfang þess kannski virðist vera við fyrstu sýn. Byggðin, sem hlut a að máli, telur 400 manns. Það kom fram í máli hv. 1. þm. Vestf. fyrr í dag að í fyrra var í þessu húsi slátrað rúmlega 6000 fjár. Í ár er gert ráð fyrir að slátra aðeins um 3000 fjár. Skýringin er sú að í fyrra var þarna slátrað fyrir nágrannana. Þá var það meira að segja sjálft Framleiðsluráð landbúnaðarins sem leitaði til Arnfirðinga og bað um leyfi til að fá að slátra þarna fyrir Rauðsendinga. Það var gert og enginn veit betur en að það hafi allt saman verið í besta lagi. Leyfi fyrir slátrun var þá hins vegar ekki fyrir hendi. Það hafði verið sótt um leyfi. Því hafði ekki verið svarað. En mergur málsins er sá að þá er dýralæknir til staðar og framkvæmdin gengur snurðulaust fyrir sig. Nú var húsið tekið út af dýralækni 26. sept. og komu fram ýmsar athugasemdir og það var unnið að aðgerðum í húsinu. Það eru aðeins tvö atriði eftir sem ekki var fullnægt eftir athugasemdum þess dýralæknis. Annars vegar er um að ræða svefnskála sem ekki voru settir í þetta hús. Þetta er gamla matvælaiðjan á Bíldudal sem Gísli heitinn Jónsson lét byggja á sínum tíma að stofni til. En hitt atriðið var að bakkafæriband er ekki sett í þetta hús. En það er tregðan, sem síðan kemur fram í embættismannakerfinu, sem þeir hv. þm. sem hér hafa talað hafa lagt áherslu á, sem er aðalatriði málsins. Það er vitað um fullkominn velvilja landbrn. í einu og öllu. Þetta er hinn stórkostlegi vandi sem í málinu er. Það er tregða embættismannakerfisins gagnvart svo einföldum hlut að senda vestur á Bíldudal einn mann, sem hefur réttindi í dýralækningum, til að dæma það sem gert hefur verið og fá um það úrskurð hvort hús sem hefur verið bætt frá því í fyrra er ekki betra til að þjóna sínu hlutverki en það gerði þá — fyrir sjálft Framleiðsluráð landbúnaðarins. Takið eftir því.