14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

1. mál, fjárlög 1988

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við fjárlög sem eru á þskj. 269 og 278 og eru lagðar fram af þingkonum Kvennalistans. Þessar tillögur varða málefni fatlaðra í Reykjavík og nemur sú hækkun til þeirra sem hér er lögð til 10 millj. 320 þús. kr. Enn fremur eru hér tillögur um hækkun á framlagi til Krabbameinsfélags Íslands sem nemur 7,1 millj. og hækkun til kynfræðslu samkvæmt lögum nr. 25 frá 1975 sem nemur 5 millj. kr. Síðan er brtt. um nýjan lið á fjárlögum um Kvikmyndaeftirlit ríkisins sem nemur 3 millj. kr. til að mæta vanskilum myndbandaleiga við eftirlitið. Samtals fela tillögurnar í sér hækkanir sem nema 25 millj. 420 þús. kr.

Ég vil hafa hér nokkur orð til að rökstyðja hvers vegna við teljum nauðsynlegt að hækka þá liði frv. sem ég hef nefnt og bæta nýjum við. Vegna þeirra breytinga, sem um er fjallað á þskj. 269 og eiga við 4. gr. frv., lið 07–701, og varða málefni fatlaðra, vil ég segja eftirfarandi.

Svæðisstjórn fatlaðra sendi þm. Reykvíkinga erindi vegna þess að fjárlagatillögur hennar voru lækkaðar í meðförum fjvn. Brtt. varða hækkun á ýmsum mjög brýnum rekstrarliðum, en einnig nýjar tillögur um bætta þjónustu við fötluð börn á forskólaaldri.

1. Undirliður 101, sem er beiðni um hækkun sem nemur 1 millj. 776 þús. kr., breytist úr 6 millj. 325 þús. kr. í 8 millj. 101 þús. kr. vegna starfsemi á skrifstofu svæðisstjórnar Reykjavíkur.

2. Liður 122, sem er beiðni um hækkun sem nemur 1 millj. kr., úr 4 millj. 880 þús. kr. í 5 millj. 880 þús. kr. vegna launagjalda við rekstur sambýlis fatlaðra við Stuðlasel. Þar munu dveljast fimm íbúar sem eiga það sameiginlegt að vera þroskaheftir og koma úr heimahúsum vegna veikinda eða fráfalls aðstandenda. Nú bíða um 70 manns eftir vistun á sambýlum í Reykjavík og auk þeirra eru 15 einstaklingar undir 16 ára aldri á biðlista. Hefur svæðisstjórn gert tillögur um úrlausnir á hverju ári um fjölgun sambýla í borginni.

Við þær aðstæður sem nú ríkja í vistunarmálum hafa þeir einstaklingar forgang sem eiga ekki lengur kost á umönnun í heimahúsum vegna veikinda eða fráfalls aðstandenda. Svæðisstjórn er því nokkur vandi á höndum þegar upp koma neyðartilfelli sem ekki gera boð á undan sér en leysa þarf tafarlaust og ekki var gert ráð fyrir við gerð fjárlagatillagna á sl. vori. Sú beiðni sem hér um ræðir er einmitt vegna einstaklings sem þannig er ástatt um og þarfnast mikillar og tímafrekrar umönnunar. Þarf sambýlið á auknum starfskrafti að halda eða sem nemur 11/2 stöðugildi þroskaþjálfa.

3. Liður 132, en þar er um að ræða beiðni vegna verndaðs vinnustaðar Sjálfsbjargar í Reykjavík sem nemur 936 þús. kr.

4. Liður 161 sem varðar dagvistun í Bjarkarási, en þar er beðið um sem svarar 21/2 stöðugildi vegna aukins vinnuálags og umönnunarþarfa. Sú hækkun nemur 1,5 millj. kr. eða hækkar úr 17 millj. 190 þús. í 18 millj. 690 þús.

5. Liður 173 er Vistheimili við Holtaveg, en þar er beðið um 381 þús. kr. til viðbótar.

6. Liður 174, Meðferðarheimili þroskaheftra við Njörvasund sem nýlega hefur tekið til starfa, í byrjun nóvember sl. Fimm íbúar eru fluttir á heimilið og kom í ljós strax í byrjun að þeir þurftu mun meiri umönnun en gert hafði verið ráð fyrir á fjárlagatillögum svæðisstjórnar. Því er beðið um 21/2 stöðugildi í viðbót eða hækkun sem nemur 11/2 millj. kr. Þetta heimili er frábrugðið venjulegum sambýlum fatlaðra. Hér er um að ræða sérstakt meðferðarheimili þar sem hluti af fyrirhuguðum vistmönnum á sambýlum mundi fá undirbúning í formi meðferðar og þjálfunar áður en þeir flytja á sambýli. Hið almenna markmið með dvöl á velferðarheimilinu er að íbúarnir verði hæfari en áður til þess að taka þátt í félagslegu samneyti sem ekki er mjög krefjandi. Að því miðar markviss meðferð, þjálfun og undirbúningur. Vil ég sérstaklega í þessu sambandi minna á yfirlýsingar hæstv. félmrh. í viðtali við blað Sjálfsbjargar, sem gefið var út á árinu 1987, en þar er hæstv. ráðherra spurður, með leyfi forseta:

„Bar málefni fatlaðra sérstaklega á góma í stjórnarmyndunarviðræðunum? Ef svo var, sjást þess merki í málefnasáttmála stjórnarinnar? Hefur stjórnin í hyggju að gera sérstakt átak í málefnum fatlaðra?"

Og svar hæstv. ráðherra er: „Já, vissulega. Ég bendi í fyrsta lagi á ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að jafna lífskjörin og bæta hag fatlaðra, í öðru lagi á ákvæði í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar um að áhersla verði lögð á fjármagn í íbúðir öryrkja í vernduðu þjónustuumhverfi og í þriðja lagi á ákvæði um að starfsemi Framkvæmdasjóðs fatlaðra verði styrkt samkvæmt fjögurra ára áætlun um framkvæmdir og fjármögnun þeirra. Þar á að leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu sambýla fyrir fatlaða og verndaða vinnustaði.“

Síðar kemur enn fram í svari ráðherra: „Þó margt hafi áunnist er margt enn ógert til að ná fram markmiðum laganna sem er að tryggja fötluðum jafnrétti og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi og búa fötluðum viðunandi aðstöðu, ekki síst í húsnæðis- og vistunarmálum“, enda hefur hæstv. ráðherra iðulega staðið í mínum sporum nú og mælt fyrir brtt. á fjárlögum til þess að bæta hag fatlaðra og vænti ég þess að hún beiti sér við hv. fjvn. í þessum efnum.

7. Nýr liður, 193 Leikfangasafn og ráðgjafarstöð fyrir fötluð börn þar sem farið er fram á 3 millj. 227 þús. kr. Í greinargerð um þetta mál frá Ástu M. Eggertsdóttur, sem er framkvæmdastjóri svæðisstjórnar fatlaðra í Reykjavík, og Málfríði Lorange, sem er forstöðumaður SOS-dagvistar barna, segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Eins og kunnugt er er það í verkahring sálfræði- og sérkennsludeildar Dagvistar barna í Reykjavík að veita dagvistarheimilum ráðgjafarþjónustu varðandi börn með sérþarfir. Þessi þjónusta getur verið fólgin í ráðgjöf til foreldra, ráðgjöf við starfsfólk dagvistarheimila, þá sérstaklega það starfsfólk sem ráðið er sem stuðningsaðili vegna eins eða fleiri barna, aðstoð við að skipuleggja þjálfunaráætlanir og að rannsaka eða greina börn. Þessi þjónusta er fremur ófullkomin í dag vegna skorts á starfsfólki og vegna húsnæðisþrengsla og að auki nær þessi þjónusta aðeins til hluta barnahópsins sem hefur þörf fyrir slíka þjónustu. Þó að fötluð börn hafi oftast forgang á dagvistarheimili er vafalaust stór hópur barna sem litla eða enga þjónustu fá frá hinu opinbera.

Í lögum um málefni fatlaðra kemur það skýrt fram að á hverju svæði á að vera viss lágmarksþjónusta. M.a. á að vera fyrir hendi frumgreining, þroskaþjálfun og leikfangasafnsþjónusta, sálfræðiþjónusta og félagsráðgjöf. Ljóst er að Greiningarstöð ríkisins getur ekki sinnt öllum fötluðum börnum á Reykjavíkursvæðinu, hvað þá að veita þjónustu við öll fötluð börn á landinu sem henni er þó ætlað. Samkvæmt greinargerð nefndar sem skipuð var skv. bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, kemur fram að Greiningarstöðinni er aðeins ættað að sinna 31/2% af þeim 10,2% fatlaðra sem áætlað er að séu í hverjum árgangi í aldurshópnum 0–6 ára. Hins vegar kemur það ekki skýrt fram í lögunum hver á að framkvæma og veita þjónustu til þeirra sem Greiningarstöðin ekki nær að sinna.

Tillaga okkar er sú að svæðisstjórn Reykjavíkur um málefni fatlaðra og Dagvist barna í Reykjavík vinni saman um að framkvæma og reka nánar tiltekna þjónustu fyrir börn að 16 ára aldri. Meginhluti þeirra barna sem hafa þörf fyrir slíka þjónustu er í yngsta aldurshópnum, 0–6 ára, því eldri börnin fá í flestum tilfellum þjónustu innan skólakerfisins eða á ýmsum sérstofnunum, en rétt væri að hafa það opið fyrir alla aldurshópa barna.

E.t.v. væri við hæfi að kalla slíka stofnun ráðgjafarþjónustu við fötluð börn þar eð leikfangasafn yrði of þröngt. Það er sameiginleg reynsla þeirra sem hafa unnið við leikfangasöfn víðs vegar um landið að þau geta illa staðið ein og sér. Sú vinna sem fer fram á slíkri ráðgjafarstöð verður eðlis síns vegna að vera teymisvinna, þ.e. að t.d. sálfræðingur, talkennari og þroskaþjálfi hefðu samvinnu um hvert einstakt barn, sbr. núverandi starfshætti sálfræði- og sérkennsludeildar Dagvistar barna.“

Ég ætla ekki að lesa lengur í þessari greinargerð, en henni fylgir kostnaðaráætlun sem er nokkru hærri en sú upphæð sem við leggjum til hér, en er þó mjög nálægt því markmiði sem svæðisstjórnin hefur sett sér og sættir sig við.

Öll þessi mál, sem ég hef þegar mælt fyrir og miða að því að bæta úr sárri neyð fatlaðra og aðstandenda þeirra, eru hin brýnustu og hvet ég hv. fjvn. til að taka tillit til þeirra við umfjöllun frv. milli 2. og 3. umr.

Ég mun þá næst mæla fyrir brtt. sem varðar lið 08399, Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Er þá fyrst liður 131 um Krabbameinsfélag Íslands. Þar er farið fram á hækkun um 7,1 millj. kr., úr 50,4 millj. í 57,5 millj. Í erindi Krabbameinsfélagsins til fjvn. kemur eftirfarandi fram:

„Undanfarin ár hefur Krabbameinsfélag Íslands notið framlags úr ríkissjóði til styrktar starfsemi félagsins. Á yfirstandandi fjárlagaári nam sú upphæð um 24 millj. kr. sem skiptist þannig: brjóstakrabbameinsleit 5 millj., norrænt átak gegn krabbameini 1 millj., óskilgreint framlag til Krabbameinsfélagsins 18 millj. kr. Sá skilningur hefur verið almennur að ríkissjóður sé þar að greiða þjónustu sem félagið innir af hendi við þjóðfélagið. Þar er átt við krabbameinsleitina sem á yfirstandandi starfsári kostar um 20,3 millj. kr. og Krabbameinsskrá Íslendinga sem kostar um 7,1 millj. kr. Fræðslumál og líknarmál svo og önnur starfsemi félagsins hafa fram til þessa ekki verið tíunduð sérstaklega í fjárlögum. Þrátt fyrir verulegt framlag úr ríkissjóði hefur félagið alla tíð þurft að greiða niður krabbameinsleitina af eigin aflafé. Ef leitarstarfið var rekið af elju jókst greiðslubyrði félagsins þar sem framlag ríkissjóðs var föst fjárupphæð“ — og ég vil vekja athygli á því að framlag ríkisins er aðeins hluti af kostnaði Krabbameinsfélagsins. Allt að því helmingur hefur komið til félagsins með frjálsum framlögum.

Heilbrmrn. hefur haft skilning á þessum vandkvæðum og í júní sl. var undirritaður samstarfssamningur milli ráðuneytisins og Krabbameinsfélagsins. Með samningnum eru félaginu tryggðar greiðslur fyrir framkvæmd þessarar leitar sem miðast við 19 þúsund leghálsskoðanir og 12 þúsund brjóstaskoðanir og er þá gert ráð fyrir um það bil 80% mætingu þeirra sem koma í skoðun eða eru boðaðir í skoðun. Vert er að geta þess að brjóstakrabbameinsleitin er reyndar nýr framkvæmdaþáttur sem félaginu er falinn. Það er sannarlega ánægjuefni að ríkið skuli þannig hafa komið til móts við félagið vegna þess að í raun hefur það stundað heilbrigðisþjónustu sem ríkið ætti í raun að veita eða reka. Er þá sérstaklega brjóstakrabbameinsleitin sannarlega í samræmi við samþykkta þál. sem flutt var á síðasta kjörtímabili af þingflokki Kvennalistans og var lofað að sú skoðun mundi hefjast á árinu 1987. Það er vert að geta þess sem vel er gert því að þar var sannarlega staðið við gefin loforð. Skoðanirnar hófust á árinu 1987 og munu halda áfram. En til þeirra þarf að sjálfsögðu fé. Þessi samningur á að veita konum jafnan aðgang að þjónustunni, óháð búsetu og fjárhæð og er það mjög mikilsvert.

Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1988 er ekki gert ráð fyrir fjárframlagi til annarrar starfsemi Krabbameinsfélagsins. Fjárframlagið dugar í raun aðeins til að greiða hlut ríkisins í þeirri leitarstarfsemi sem ég nefndi áðan.

Félagið hefur rekið Krabbameinsskrá Íslendinga frá upphafi hennar 1954. Krabbameinsskráin lýsir árlegu nýgengi hinna ýmsu tegunda krabbameina og þannig má skoða þróunina rúman þriðjung aldar aftur í tímann, en það má einnig nota skrána til að spá fram í tímann. Heilbrigðisyfirvöld nota þessar upplýsingar almennt við ákvarðanatökur um áherslur og skipulag heilbrigðismála sem snerta þessa sjúkdóma og ekki síst allt forvarnarstarf.

Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að rekstur krabbameinsskrár kosti félagið um 7,1 millj. kr. og það er reyndar það fé sem við leggjum til á brtt. okkar að veitt verði. Við höfum ekki fært það upp miðað við verðlag, en látið nægja að flytja sömu upphæð áfram. Það má segja að alltaf getur orkað tvímælis um greiðsluþátttöku hins opinbera í rekstri áhugamannafélaga, en það má þó vera ljóst að sumt í starfi Krabbameinsfélagsins hófst sem tilraunastarfsemi til heilla íslensku þjóðfélagi en hefur nú í raun fyrir löngu sannað gildi sitt. Þar má nefna leitarstarfsemi félagsins og rekstur krabbameinsskrárinnar. Það er augljóst að samfélagið hlýtur að þurfa að taka þátt í þessum kostnaði. Krabbameinsfélagið á að geta lagt sjálfsaflafé sitt í að leggja nýjar brautir til framfara, en samfélagið hlýtur að þurfa að taka við þeim þegar þær eru orðnar troðnar og eru í raun augljós framfaraspor.

Herra forseti. Í öðru lagi er undir þessum lið um heilbrigðismál undirliður 140, en hann varðar kostnað vegna laga nr. 25 frá 1975 sem eru lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Að margra áliti skortir verulega á það nú, um tólf árum eftir setningu þessara laga, að lögboðin fræðsla og ráðgjöf sé veitt á viðunandi hátt. Það er þeim mun alvarlegra sem hér er um að ræða grundvöll lagasetningarinnar. Enn fremur eru sterkar líkur á því eða má leiða líkur að því að auðveldara hefði verið að hefta útbreiðslu eyðni á Íslandi ef allri fræðslu um kynlíf og getnaðarvarnir hefði ekki verið svo ábótavant sem raun ber vitni. Einkum er ástæða til að hafa áhyggjur af vanþekkingu unglinga sem að mati félagsráðgjafa og annarra sem um þessi mál fjalla virðast afar fáfróðir um kynferðismál og getnaðarvarnir. Það má ætla að bein tengsl séu á milli þessarar fáfræði og mikils fjölda þungana meðal íslenskra stúlkna á aldrinum 15–19 ára. Þá virðist enn skorta mjög á að piltum sé ljóst að þeirra er ábyrgðin á afleiðingum samlífs ekki síður en stúlknanna og er brýn nauðsyn að vinna að breyttum viðhorfum hvað það varðar. Ég vil aðeins geta þess að þó fóstureyðingar séu ekki eins tíðar hér og í nágrannalöndum okkar, t.d. á Norðurlöndunum, hefur þó fæðingum hjá 15–19 ára stúlkum í þessum löndum fækkað samtímis á undanförnum árum. Á sama tíma hefur fjöldi fóstureyðinga í þessum aldursflokki aukist hér tiltölulega þó þeim hafi fækkað á Norðurlöndunum og telja menn almennt að þar sé um að ræða árangur meiri og betri kynfræðslu.

Mig langar til þess að vitna aðeins í grein í Læknablaðinu síðan 1987, þ.e. 73. árgangur á bls. 321, með leyfi forseta, um fóstureyðingar og notkun getnaðarvarna, eftir Þórð Óskarsson og Reyni Tómas Geirsson kvensjúkdómalækna. Þar segir:

„Til að halda fjölda fóstureyðinga sem lægstum þarf að gera átak í þá átt að gera getnaðarvarnir aðgengilegri fyrir alla aldurshópa, m.a. með stofnun kynfræðsludeilda við heilsugæslustöðvar, ódýrari getnaðarvörnum og aukinni fræðslu táninga.“

Þingflokkur Kvennalistans flutti á síðasta þingi till. til þál. um fræðslu meðal almennings um kynferðismál. Sú till. var reyndar samþykkt í þinglok eftir að hafa tekið nokkrum breytingum og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrmrh. að efla verulega fræðslu um kynferðismál meðal almennings með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og hindra útbreiðslu sjúkdóma. Sérstök áhersla skal lögð á að upplýsa fólk á aldrinum 15–19 ára um kynlíf og getnaðarvarnir.“

Nú er það svo að í þessum lið fjárlagafrv. um heilbrigðismál undir Ýmis starfsemi er liður 195 Kynsjúkdómar, eyðni. Þar er ætlað 10 millj. 80 þús. kr. til varnar þessum sjúkdómi, eyðni, og um leið til fræðslu um kynsjúkdóma. Ég veit að þetta fé fer nær eingöngu í að gera fræðslubæklinga og ýmislegt fræðsluefni en verður ekki notað til kennslu í skólum. Sá liður sem fjallar um það er einmitt liðurinn sem við viljum breyta, þ.e. liður 1.40. Hann fær ekki nema 1 millj. 71 þús. kr. til að sinna kennslu á öllum námsstigum um kynlíf og getnaðarvarnir. Þann lið viljum við hækka um a.m.k. 5 millj. kr. og hækkum því upp í 6 millj. 71 þús. Það er það allra minnsta. Reyndar hafa heilbrigðisyfirvöld ekki beðið um þetta fé, en við ætlum að hafa vit fyrir þeim í þetta sinn og biðja um það fyrir þau því að við teljum að það sé brýn þörf á því.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum mæla fyrir brtt. á þskj. 278 sem enn er við 4, gr. fjárlagafrv. undir liðnum 02–802, um vernd barna og ungmenna. Þar leggjum við til að komi nýr liður, 140, um Kvikmyndaeftirlit ríkisins sem við leggjum til að fái 3 millj. kr. Kvikmyndaeftirlit ríkisins starfar skv. lögum nr. 53 frá 1966, um vernd barna og ungmenna, en einnig skv. lögum nr. 33 frá 1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum. Við gildistöku seinni laganna bæði breyttist starfssvið Kvikmyndaeftirlitsins verulega og verkefni þess uxu mjög. Fram til þess tíma hafði skoðun kvikmynda eingöngu farið fram í kvikmyndahúsum, en skoðun kvikmynda á myndböndum gerði það nauðsynlegt að eftirlitið fengi til umráða viðeigandi tækjakost og aðstöðu til myndbandaskoðunar. Reyndar er í lögunum nr. 33 1982 gert ráð fyrir að skoðun myndbandanna standi undir sér fjárhagslega þannig að innflytjendur, framleiðendur og dreifingaraðilar kveðji skoðunarmenn til að skoða kvikmyndir áður en þær séu teknar til sýningar og greiði síðan kostnað við skoðun þeirra samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Nú hefur Kvikmyndaeftirlitið sent fjvn. beiðni vegna þess að reglugerðin sem sett var brást algerlega í framkvæmd þannig að reikningar fyrir skoðun myndbanda allt frá áramótum 1983–1984 liggja ógreiddir hjá ríkisféhirði og það virðist einungis raunsætt að mati Kvikmyndaeftirlitsins að þeir fáist í raun ekki greiddir. Eftirlitið telur nauðsynlegt að afskrifa þessa reikninga og byrja nýtt ár með hreint borð þar sem hefur verið gerð bragarbót á ákvæðum reglugerðar, þ.e. ný reglugerð hefur verið gefin út og hún virðist ætla að verka vel og fé innheimtist eins og til var ætlast. Hins vegar er talsvert um útistandandi skuldir sem Kvikmyndaeftirlitið vill losna við og þarf að losna við og þær teljast samtals vera um 3 millj. kr.

Margt væri hægt að segja almennt um efni þessa fjárlagafrv., en ég mun sleppa því. Það hefur hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir, fulltrúi Kvennalistans í fjvn., þegar gert í upphafi þessara umræðna. Aðrar þingkonur Kvennalistans hafa þegar mælt fyrir ýmsum brtt. sem Kvennalistinn gerir við frv. Ég mun því láta nægja að mæla fyrir þeim brtt. sem ég hef þegar nefnt og vona að hv. fjárveitinganefndarmenn, sem hér hlýða á mál mitt, og aðrir hv. þm. taki tillit til þessara hógværu tillagna milli 2. og 3. umr. fjárlaga og styðji þau þörfu mál sem hér hafa verið borin fram.