14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

1. mál, fjárlög 1988

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni að heilsugæslustöðin á Seltjarnarnesi er furðulegt fyrirbæri. Þó þessi ríkisstjórn sé ekki ábyrg fyrir hvernig málin standa þar var það ríkisstjórnarákvörðun á sínum tíma sem kom í veg fyrir að Reykjavíkurborg byggði sína heilsugæslustöð sem átti að þjóna vesturbænum svo til öllum frá Hringbraut að Seltjarnarnesi með Skerjafirði innifalið ásamt aðstöðu í Landakotsspítala. En ríkisstjórnin greip inn í á sínum tíma og byggði á Seltjarnarnesi heilsugæslustöð sem að mig minnir, þegar ég tók þátt í umræðum á þeim tíma sem borgarfulltrúi í Reykjavík, er byggð til að þjóna 12 500 manna byggðarlagi, en Seltjarnarnesið var ekki talið á þeim tíma, miðað við þær byggingar sem áætlaðar eru, geta hýst meira en í mesta lagi, í langmesta lagi 7 þúsund manns. það sjá allir að hér er um slík mistök að ræða að ríkið verður að leysa þennan vanda, fyrir utan annað, að Reykvíkingar, sem búa í Skerjafirði eða búa lengst frá í þeim bæjarhluta sem stöðin á að þjóna, telja sig ekki geta notað stöðina, hún sé of langt í burtu, fyrir utan að margir af þessum stoltu vesturbæingum kæra sig ekkert um að fara út úr bænum til að láta þjóna sér á þennan hátt. Þetta er mál sem þarf að leysa á annan hátt.

En ég harma að hv. formaður fjvn. er líklega farinn að sofa, enda ekki óeðlilegt. Það er skiljanlegt. Hann talaði um að fjvn. flytji ekki margar brtt., þær væru frekar fáar. Það er eflaust alveg rétt hjá honum, enda hafði fjvn. ekki mikið svigrúm til að flytja neinar brtt. Eins og kemur fram í nál. á bls. 2, þar sem skipt er eftir erindum, kemur fram að ríkisstjórnin hefur gefið þeim svigrúm upp á 285 millj. eða 26,8%. Restin af þeim 1000 millj. sem þeir fengu síðast til ráðstöfunar, sem er 73,2%, er samkvæmt skömmtunarseðli frá ríkisstjórninni ef það er þá að marka nál. sem meiri hl. skilaði í kvöld.

En til viðbótar við þetta nál. kom fram í ræðu hv. formanns fjh.- og viðskn. að mikill vandi ríkisstjórnarinnar í peningamálum stafaði af gengislækkun dollarans sem daglega yki á erfiðleika ríkisstjórnarinnar. Er hann þá eins og aðrar blekkingar sem koma úr þessari átt að tala um að vegna gengislækkunarinnar komi minna inn fyrir þann hluta af útflutningsafurðum okkar sem seldar eru til útlanda í dollurum, en getur ekki um að í Bandaríkjunum a.m.k. hafa afurðirnar hækkað um 30% og hann getur heldur ekki um hvað mikið við skuldum í erlendri mynt, sem er miðuð við dollara, og hvað mikið við græðum bókstaflega á gengislækkuninni. Ef við tökum 30% aukningu á afurðunum og það sem við borgum minna í krónum held ég að það þurfi ekki að öskra hér hvað eftir annað að eitthvert vandræðaástand sé að skapast vegna lækkunar dollarans. Það er alrangt.

Hv. formaður fjvn. las upp það nál. sem er á þskj. 249. Þetta þskj. segir mest um hvernig hv. formaður nefndarinnar og líklega þeir sem skrifa undir þetta plagg, meiri hl. nefndarmanna, vilja hafa vinnuaðstöðuna í fjvn. Þeir segja frá því að í þetta skipti hafi þeir fengið Ríkisendurskoðunina sér til aðstoðar við gerð fjárlaga og nýskipaður vararíkisendurskoðandi hafi unnið fjárlagafrv. með fjvn. Það er náttúrlega trygging fyrir því að það er eins lítið vitlaust og hægt er að hafa frv. og er gott að vita til þess að svo öruggur og góður maður sem sá einstaklingur er skyldi hafa verið kallaður til aðstoðar.

En með leyfi forseta gríp ég niður í nál. Ég vil taka það fram að þó að hv. formaður fjvn., sem er því miður fjarverandi, telji ástæðu til þess að fjvn. öll starfi allt árið er það rétt sem kemur fram framarlega í þessu nál. innan gæsalappa að það er starfandi undirnefnd fjvn. allt árið. Þegar ég var fjmrh. um tíma reyndi ég að fá fjvn. til að starfa með mér og þá sérstaklega í aukafjárveitingum, eins og ég er hræddur um að núv. fjmrh. eigi eftir að gera í ríkum mæli miðað við fjárlagafrv., en það var þannig að það var ekki hægt að ná saman fjvn. vegna þess að þeir ágætu menn sem hana skipuðu þá voru í sumarfríi eða uppteknir við annað, þeir eru menn sem eru uppteknir í sumarfríum Alþingis og aldrei lausir allir í einu til að mæta á fundum allt sumarið. Og þó að undirnefnd fjvn. sé fámennari er það eins með hana. Hún var líka í sumarfríi. Það voru aðallega formaður og varaformaður fjvn. sem ég átti gott samstarf við, en þeir voru líka í sumarfríi til skiptis. Ég sé því ekki að það sé nein bót í því né þörf að skipa fjvn. sem starfar allt árið. Ég held að það sé alveg útilokað að hafa fjvn., jafnvel þó að henni verði skipt upp í undirnefnd, sem yrði starfandi þá sem eins konar eftirlitsnefnd, eins og hér er talað um, allt árið. Ég efast um að það væri hægt.

Ég fagna því, sem er þegar orðin staðreynd, að Ríkisendurskoðun fylgist með fjárlagagerðinni. Ég vil líka fagna því að Ríkisendurskoðun kemur til með að fylgjast með framkvæmd fjárlaga því að það er kannski stóra atriðið að Ríkisendurskoðun fylgist með framkvæmd fjárlaga. Í minni fjármálaráðherratíð skipaði ég sérstaka nefnd þar sem ríkisendurskoðandi var formaður og allir helstu embættismenn ásamt fleirum, þ.e. embættismenn fjmrn., voru í þeirri nefnd til þess að fylgjast með framkvæmd fjárlaga. Í þeirri nefnd voru m.a. bæði formaður og varaformaður fjvn. Það getur vel verið að það hafi borið árangur því að síðasta fjárlagafrv. sem ég gerði var lagt fram með tekjuafgang upp á 123 millj. tæpar. Þessi nefnd starfaði vel.

En við erum að breyta ansi mikið kerfinu og það sem hv. formaður fjvn. er að leggja til er hættulegt að sumu leyti. Það er nóg að hafa Ríkisendurskoðun sem eftirlitsaðila með framkvæmd fjárlaga og ég fagna því og ég vona að það komi góður maður sem umboðsmaður Alþingis því að umboðsmaður Alþingis verður ekki að mínu mati fulltrúi þingsins gagnvart kerfinu eða gagnvart einstaklingnum eða gagnvart almenningi. Hann á að vera fulltrúi fólksins. Hann á að gerast fyrirgreiðslumaður. Hann á að verja fólkið gegn kerfinu ef fólkið þarf að sækja sinn rétt á kerfið. Öðruvísi væru þetta mistök vegna þess að kerfið sér um sig. Það eru margir sárir út af kerfinu vegna þess að þeir eru of litlir einstaklingar til að hafa kjark til að takast á við kerfið. En ef það kemur góður umboðsmaður er hann umboðsmaður fólksins gagnvart kerfinu.

En ég vona á sama hátt og Ríkisendurskoðun verður eftirlitsaðili með framkvæmd fjárlaga að það verði ekki í framtíðinni þó að það hafi verið núna að vissu marki að Ríkisendurskoðunin verði látin gera fjárlögin. Það tel ég rangt. Ég fagna því að það var veitt aðstoð frá Ríkisendurskoðun til að gera þessi fjárlög, en ég harma ef Ríkisendurskoðun á í framtíðinni að taka þátt í að gera fjárlögin, að vinna verk kjörinna fulltrúa, vinna verk fjvn. Það álít ég rangt.

Eins vil ég vara við, og beini þá orðum mínum til hæstv. fjmrh. vegna þess að hv. formaður fjvn. er líklega farinn að sofa, en hann talar um í þessu nál., með leyfi forseta ætla ég að lesa þetta, það er ekki svo langt, en hann segir á bls. 2:

„Er það ætlun nefndarinnar að halda áfram umfjöllun sinni um bætt vinnubrögð og betri starfsaðstöðu við fjárlagaumfjöllunina og má búast við því að fyrir næstu fjárlagaafgreiðslu hafi fleiri slíkar breytingar þegar komið til framkvæmda. Eigi skiptir minna máli sá þáttur í starfsemi fjvn. sem lýtur að því eftirlitshlutverki sem nefndin á og verður að hafa. Til þess að geta lagt eigið raunhæft mat á tillögur ríkisstjórnarinnar, stofnana og annarra aðila um fjárveitingar á fjárlögum þarf fjvn. auðvitað að geta lagt eigið mat á hvort áætlanir sem fyrir nefndina eru lagðar séu raunhæfar til stuðnings slíkri tillögugerð og eins á nefndin að hafa sjálfstætt eftirlit með því að ákvarðanir Alþingis við fjárlagagerðina séu virtar.“ Og svo heldur áfram: „Þetta eftirlitshlutverk fjvn. þarf að stórefla og gefst nú tækifæri til þess með samstarfi hennar við Ríkisendurskoðun.“

Ég ætla ekki að lesa meira. Tilvitnun í nál. lýkur hér með. En ég vil líka harma það, hæstv. fjmrh., ef ég má beina orðum mínum að hæstv. fjmrh. í fjarveru formanns fjvn., að fjvn. skuli ætla að taka að sér eins konar löggæslu. Það er ekki hennar hlutverk og getur aldrei orðið. En það er hlutverk Ríkisendurskoðunar. Eins getur það aldrei orðið hlutverk Ríkisendurskoðunar að gera fjárlögin. Það er hlutverk fjvn. Ég held að við verðum að átta okkur á því hvað er verið að segja hér.

Svo ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa að síðustu þetta. Þar segir:

„Vegna þeirra aðstæðna að þingkosningar höfðu rofið umboð þess þings sem sat á síðasta kjörtímabili og sumir sem þá höfðu setið í fjvn. voru ekki á þingi var gripið til þess ráðs að fjmrh. skipaði sérstaka nefnd fulltrúa úr öllum þingflokkum til þess að vinna það undirbúningsstarf sem undirnefnd fjvn. hafði áður unnið.“

Það er ekkert sem kom í veg fyrir að Alþingi hefði komið saman strax að loknum kosningum. Jafnvel þó ríkisstjórn hefði ekki verið mynduð. Ríkisstjórnin gamla gat setið eins og hún sat í umboði forseta Íslands þó þing yrði kallað saman til þess að eðlileg skipan kæmist á þingið sjálft. Ég vara við öllu sem fram kom hjá hv. formanni nefndarinnar. Og ég vil ljúka þessari tilvitnun minni í upphaf nál. með því að endurtaka að þessi hluti nál. endar svona, með leyfi forseta:

„Samtals nema brtt. fjvn. við 2. umr. 1 milljarði 62 millj. 233 þús. kr. og greinast þær á eftirfarandi hátt“ — og þar er fyrst skipting eftir hagrænu eðli og síðan er skipt upp eftir uppruna erinda og þar kemur fram að fjvn. hefur haft, eins og hér segir, í aðrar afgreiðslur nefndarinnar 26,8%, samkvæmt tilmælum ríkisstjórnarinnar 61,9% og í verðlags-, launaleiðréttingar o.fl. 11,3%. Nefndin hefur ekki haft neitt til skiptanna. Hún hefur bókstaflega ekki haft nokkurn skapaðan hlut til skiptanna.

Ég ætla ekki að fara út í þá miklu vinnu sem fjvn. hefur unnið í hinum einstöku liðum. Ég hef ætlað mér það hlutverk að gera enga athugasemd við þá vinnu né einstök ráðuneyti. Það hafa aðrir gert og gert það vel. Ég er ekki sammála ýmsu því sem hér kemur fram. Hitt er annað mál að ég veit ekki enn þá hve mikið er til skiptanna. Ég veit ekki enn þá hversu miklu er búið að skipta og gera tillögur um að skipta þannig að þrátt fyrir að miklar tekjur koma augsjáanlega í ríkiskassann á næsta ári er ekkert víst að hann verði hallalaus eins og menn vona.

Ég er ekki að biðja þm. um að hafa hljóð. Ég ætla að bíða þangað til þeir eru hættir að hafa hátt. (Forseti: Það er verið að gera ráðstafanir til að loka hurðum.) Mér liggur ekkert á. Ég hef sterka fætur og get staðið lengi. Það er nú svo. Það fer stundum eftir því hvað fæturnir eru sterkir hvað maður getur talað lengi. Ég held að ég geti talað nokkuð lengi.

Ég ætla ekki að fara í einstaka liði þess verks sem hér liggur fyrir frá meiri hl. fjvn., en ég vil aðeins harma að hér hafa nokkrir stjórnarþm. séð ástæðu til að gera athugasemdir við að fjárveitinganefndarmaður Borgarafl. hefur leyft sér að hafa sjálfstæða skoðun og flutt nokkrar tillögur sem hann að eigin mati taldi eðlilegt að flytja og að sjálfsögðu, eins og aðrir þm., hefur talið sér skylt að láta sína skoðun koma á eðlilegan og þinglegan hátt fram. Þó að hann sé fulltrúi síns flokks í fjvn. tekur það ekki af honum réttinn til að vera sjálfstæður þm. hér uppi í deild. Og ég harma ef þm. annarra flokka, ég tala nú ekki um ef það er sá flokkur sem mér þykir enn þá vænt um, Sjálfstfl., neita sínum þm. nú, það gerði hann ekki áður, um að flytja tillögur eftir því sem þeir töldu rétt og eðlilegt svo lengi sem það braut ekki í bága við almennt siðgæði. Það hef ég aldrei orðið var við. Ég harma þá athugasemd sem hefur komið fram um tillöguflutning fulltrúa Borgarafl. í fjvn.

Ég hafði afskaplega gaman af því að sjá hvernig vilji er ekki allt sem þarf. Það er oft vitnað í það þegar þm. ætla að koma sínum hugsunum virkilega til skila. Þá segja þeir: Vilji er allt sem þarf. Nú koma upp tveir gamlir og reyndir þm. og segja: Við viljum gera allt fyrir íþróttahreyfinguna. Við viljum rétta hennar hag, en við skulum koma henni á réttan kjöl á næstu árum. Bæði hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson og hv. 1. þm. Vesturl., sem eru báðir reyndir og góðir þm., koma og lofa hátíðlega úr þessum virðulega ræðustól að á næstu árum skuli íþróttahreyfingin ekki vera í neinum vanda. Þá eigi að koma henni á réttan kjöl. Af hverju á næstu árum? Af hverju ekki strax? Af hverju er tekin til baka sú hækkun sem fjvn. og fjmrh., þegar ég var þar, létu til íþrótta í landinu? Það er einmitt upphæðin sem ég lét í té sem er tekin til baka af Íþróttasambandinu. Ég hækkaði Íþróttasambandið á sínum tíma úr 12 millj. í 26 millj. Það er lækkað aftur úr 26 og ég held niður í 14. Ég hækkaði Ungmennasamband Íslands að mig minnir um 5 millj. eða svo. Það er einmitt það sem er tekið af Ungmennasambandinu núna eða ungmennafélögunum. Það var búið að leggja niður byggingarsjóð íþróttamannvirkja, Íþróttasjóð. Það var búið að leggja hann niður þrátt fyrir miklar skuldbindingar.

Átti hann ekkert að fá? Hver átti að borga? Hver átti að standa í skilum með loforð ríkisins? Síðan er það hækkað aftur um nokkurn mér liggur við að segja lúsaskít. Það er hækkað um 15 millj. En til hvers? Af hverju takið þið ekki framkvæmdaféð af íþróttahreyfingunni alveg? Af hverju voruð þið að láta koma til baka 15 millj.? Ég veit að hæstv. fjmrh. er sérmenntaður sem forsrh., en hann er fjmrh. svo að ég segi: Hæstv. fjmrh. Af hverju að láta til baka í Íþróttasjóð 15 millj. Til hvers og af hverju? Haldið þið að það sé eitthvað hægt að gera við 15 millj.? Það er ekki upp í greiðsluloforð sem fyrir hendi eru. Í guðanna bænum farið ekki að byggja meira af íþróttamannvirkjum og skemma æskuna með því að gera hana heilsuhrausta og búa hana undir framtíðina með því að ausa í hana peningum. Gerið það ekki því ef þið farið að byggja íþróttamannvirki þarf líka að reka þau. Þetta rekstrarfé sem þið takið af íþróttahreyfingunni er þó ekkert rekstrarfé vegna þess að íþróttahreyfinguna, þó hún fengi þessar 26 millj., kostar líklega nálægt 1 milljarði að reka í ár. Það var eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl. Um leið og lottó fer að gefa einhverja peninga halda menn að í fyrirtæki eins og lottói séu allar inntektir nettó um leið og þær berast. Það er ekki búið að borga niður kostnað við að koma því af stað og langt þangað til það verður gert. En samt sem áður eru íþróttafélögin farin að fá smátekjur, miklu minna en þau fá að sjálfsögðu þegar fyrirtækið er búið að greiða sig niður og stofnkostnaðurinn er ekki lengur þröskuldur.

Á sama tíma sem tekjur ríkisins eru meiri en nokkru sinni fyrr eru ýmsir góðir, þarfir liðir, eins og t.d. æskulýðsstarfið, numdir burt. Það er algert skilningsleysi á starfsemi þeirra félaga og samtaka sem eru það eina sem getur verið vörn sem dugar eitthvað, því miður ekki að öllu leyti, gegn alls konar hættum sem steðja að æskulýðnum og þá er ég sérstaklega með í huga eiturlyf og ofnotkun lyfja. Þó að hreyfing eins og Stórstúkan sé rekin af gömlum mönnum má segja er þetta virðulegur félagsskapur sem hefur gert margt gott. Okkur ber að standa undir rekstri Stórstúkunnar og æskulýðsstarfinu sem henni fylgir. Það er alltaf erfiðleikum bundið að fá þó ekki sé nema nokkra tugi þúsunda til starfseminnar. Það þarf allt að byggjast á þessum mönnum og fólki sem hefur eytt ekki bara venjulegri starfsævi heldur mannsævum má segja frá morgni til kvölds, frá vöggu til grafar í það að gera öðrum gott. Ég veit það ekki. Ég segi, án þess að geta sagt það orðrétt, eins og kvennalistakonan sagði hér, ég man ekki hvaða hv. þm. það var, sem var að fagna því að kvennarannsóknir hefðu loksins komið á skrá. Hún sagði þetta svo yndislega, var svo fegin, hún var svo ánægð með að þessi liður skyldi hafa séð náð fyrir augum þeirra sem ráða, ég held ég hafi hvíslað að sessunaut mínum að líklega hefði ríkisstjórninni tekist að sá skynsemisfræi í þetta eina skipti, fengið smáskynsemiskast. Það væri ágætt að þeir fengju það líka hvað æskuna snertir.

Ég las eins og kannski flestir þm. leiðara Morgunblaðsins á sunnudaginn. Þar kom fram að það er til leynisamningur í ríkisstjórninni. Ég vissi það ekki. En þar segir að það hafi verið samið um að gera hallalaus fjárlög í ár. Ég fór að rifja upp stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þá kom fram að í stefnuyfirlýsingunni er gert ráð fyrir að ná ríkissjóði hallalausum á þremur árum. Ég vildi gjarnan fá meiri upplýsingar, ef það er hægt, um þennan leynisamning. Það er sett upp fjárlagadæmi eða fjárlög eru sett fram, en ríkisstjórnin tekur það af löggjafarvaldinu og breytir því um 1000 millj., leggur fram falskt skjal og breytir því að geðþótta og skammtar svo fjvn. ákveðna upphæð til að ráðstafa að nafninu til eins og hún starfi sem fjvn. Svo koma upplýsingar seinna um að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er líka falsað plagg. Ég trúi því ekki að Morgunblaðið ljúgi. Það fær mig enginn til að trúa því.

Þar segir að samkvæmt samningi ríkisstjórnarflokkanna hafi verið samið um að ná fjárlögunum hallalausum á einu ári eins og verið er að gera. Og hvað þýðir það? Það þýðir ekkert annað en að fjárlögin, ef vel tekst til, eru hallalaus, en heimilin sitja uppi með halla. Fólkið í landinu er búið að fá þennan halla inn til sín. Auðvitað er það rétt, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrími J. Sigfússyni, að það eru láglaunahóparnir sem líða mest vegna þess að þeir þurfa að nota 100% sínar tekjur til að kaupa fyrir mat. Þeir sem eru tekjuhærri eða eiga mikla peninga nota hluta af sínum tekjum til að lifa af frá degi til dags. Eins og á stendur núna er kannski til leyniplagg sem getur verið að sé enn þá verra en það sem við höfum þegar séð. Þetta leyniplagg segir: Við skulum ekki lata fólkið komast upp með að eiga peninga.

Þetta er undir forustu Alþfl. sem allt frá því að ég var að selja Alþýðublaðið í gamla daga barðist fyrir auknum tekjum verkalýðsins, láglaunahópanna, enda voru forustumenn flokksins flestir af Eyrinni þá, en það er komið nýtt andlit á flokkinn í dag. Nú er ekki lengur baráttumálið að flokkurinn standi í baráttu fyrir auknum tekjum láglaunahópa heldur er aðalbaráttumál flokksins að ná því litla sem fólkið hefur af því í sem ríkustum mæli því allir vita að verkamaðurinn lifir ekki af átta stunda vinnudegi. Hann gerði það ekki áður en matvæli hækkuðu um 25%. Ég held að hann geri það síður eftir að matvæli hækka. Mér finnst eðlilegt að það verði erfiðara fyrir hann eftir þessar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar en var fyrir.

Ég hef aldrei þekkt Sjálfstfl. sem skattpíningarflokk. Þess vegna leið mér oft vel í Sjálfstfl. En þetta er nýr Sjálfstfl., nýfrjálshyggjan hefur breytt honum. Ég vona að hann lifi það af.

Það kom fram hjá einum eða tveimur hv. þm. sem töluðu á undan mér, hv. 7. þm. Norðurl. e. Málmfríði Sigurðardóttur sem talaði um að söluskatturinn væri 25% á matvælum og skilaði yfir 5 milljörðum, bara söluskatturinn einn af matvælum, í tekjuauka.

Af því að hann væri svona hár, skildist mér, 25%, hlyti hann að skila sér betur. Ég held að það sé alveg öfugt. Ég held að einmitt af því að hann er orðinn svona hár skili hann sér kannski verr en ella. Alþfl. hefur flokka mest borið það upp á verslunarstéttina að hún skilaði ekki söluskattinum og kynnt árum saman að það væri til leið til að ná honum inn. Einu sinni þegar ég var nýorðinn fjmrh. sagði núv. hæstv. fjmrh. að það vantaði 10 milljarða upp á að söluskatturinn skilaði sér. Sú upphæð hefur að vísu lækkað. En hann kunni ráð sem dugar til að innheimta skattinn. Ég óska honum til hamingju með að vera nú í aðstöðu til að nota þær leiðir sem hann hefur, þannig að það fer ekkert milli mála að héðan í frá verður ekki hægt að tala um að söluskatturinn skili sér ekki.

Af því að ég er að tala um söluskattinn. Það kom fram hjá virðulegum þm. og fyrrv. ráðherra eins og flestir eru að verða hérna, Friðjóni Þórðarsyni, hv. 2. þm. Vesturl., sem er víst líka farinn heim að sofa, að við þessar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar mundi verslunarferðum til útlanda fækka. Ég veit ekki hvort á að leggja niður flugferðir eða eitthvað slíkt. Halda menn að verslunarferðir til Glasgow eða útlanda almennt minnki við þessar ráðstafanir? Í Englandi, af því að þangað fer fólk mest, er tollalaus innflutningur á þeim vörum sem við yfirleitt kaupum. Þá er það oftast nær varningur sem er framleiddur í eða kemur frá samveldislöndunum. En við erum með 25% söluskatt, 171/2% vörugjald fyrir utan aðra tolla ef það eru tollar af vörunum. Þessi háa prósenta er alveg nóg til þess að fólk heldur áfram að fara til útlanda og versla. Við skulum ekki blekkja hvert annað. Við skulum ekki tala til hvers annars eins og við séum ekki sæmilega hugsandi fólk. Þessar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar gera ekkert nema illt verra.

Ég var að tala um íþróttirnar áðan. Það er einn þáttur íþrótta sem ekkert hefur verið minnst á og enginn hefur eflaust áhuga fyrir, skiptir út af fyrir sig engu máli. Það er Íþróttakennaraskóli Íslands. Hann gerir ekkert gagn. Hann menntar bara menn til að hugsa um alla æsku landsins. Hann er ekkert atriði ef frv. til fjárlaga er mælikvarði. Menn átta sig ekki á að Íþróttakennaraskóli Íslands á Laugarvatni þjálfar og útskrifar leiðbeinendur fyrir alla skóla landsins, fyrir öll íþróttafélög landsins. Það áttar sig kannski enginn á því hve mikið og óeigingjarnt starf skólastjórinn, Árni Guðmundsson, hefur unnið. Það er með ólíkindum. Ég vil segja að það er afrek. Hann hefur svo sannarlega unnið afrek, enda sjáum við það að þó að einstaka íþróttaflokkar. eins og úrvalsdeild handknattleiks, sé með erlenda þjálfara og eitt og eitt knattspyrnulið með erlenda þjálfara er árangurinn góður hjá öðrum líka, hvort sem það er á skíðum eða í knattspyrnu, handbolta eða sundi. Sundfólkið fer varla í vatn án þess að slá ný og ný met. Framfarirnar eru svona örar. Fimleikar. Við erum farnir að fá verðlaun erlendis í keppni. Hver fylgist ekki með frjálsíþróttamönnum, kösturunum sem við höfum haft eða glímumönnum sem koma með verðlaunapeninga frá Ólympíuleikum? Körfuboltinn, lyftingar, svo að við tölum ekki um skákíþróttina. Það er alveg sama hvort það er líkamlegt eða andlegt. Við erum að eignast afreksfólk á öllum sviðum. En það er ekki þess virði að Alþingi Íslendinga taki tillit til þess og hlaupi undir bagga fjárhagslega á eðlilegan hátt. Það mundi ekki standa á peningum ef þetta unga afreksfólk væri með vandamál eiturlyfja eða eitthvað í óreglu. Þá yrði strax hlaupið undir bagga, því ekki stæði á peningum.

Virðulegur 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson talaði fyrir 2–3 tillögum sem hann ásamt hv. 13. þm. Reykv. hefur lagt fram sem brtt., þar á meðal um B-álmu Borgarspítalans sem mig minnir að hann hafi lagt til að fengi 50 millj., Framkvæmdasjóð fatlaðra, Landspítalalóðina, K-bygginguna og ef ég man rétt talaði hann um Framkvæmdasjóð aldraðra og bíður eftir að vita skiptinguna á þeim sjóði frá stjórn sjóðsins, ef ég fer rétt með, áður en hann gerir tillögur í þeim málaflokki. Ég lýsi yfir stuðningi við þessar tillögur. Ég lýsi yfir góðum stuðningi við þær og ég vil líka lýsa stuðningi mínum við tillögur Kvennalista. Ég held að þær séu á margan hátt sanngjarnar. Eins og málum er komið, hvort sem ríkissjóður verður hallalaus eða ekki hallalaus, er vaninn að ríkissjóður hafi yfirleitt tekjur umfram áætlun þannig að ég held að þetta rúmist innan tekjumarka ríkissjóðs. Það kæmi mér ekki á óvart að þessar 8750 millj., sem reiknað er með að ríkissjóður hafi í viðbótartekjur miðað við það sem áður var, fari yfir 10 milljarða. Ég held að það sé ekki þörf á að gera tekjuáætlun á móti kostnaðaráætlun eða kostnaðarauka sem stafar af tillögum þeirra alþýðubandalagsmanna og Kvennalistans saman.

Ég tel að það sé lýðum ljóst að Krabbameinsfélagið vinnur þarft starf. Guðrún Agnarsdóttir, hv. 6. þm. Reykv., talaði fyrir 7 millj. kr. hækkun til Krabbameinsfélagsins. Mér finnst einhvern veginn þegar talað er af ábyrgð og ég tala ekki um þekkingu að það sé ábyrgðarhluti að taka ekki tillit til þess arna. Við vitum öll, við þurfum ekkert að spyrja hvert annað, að Krabbameinsfélagið hefur unnið mjög gott og merkilegt starf. Ég hef átt þess kost að vera erlendis með krabbameinslæknum okkar einmitt á þeim tíma sem stóð yfir krabbameinsþing í Frakklandi og hafði mikla ánægju af að finna hvernig okkar menn stóðu jafnfætis í þekkingu og að mér fannst á allan hátt sambærilegir við þá sérfræðinga sem voru þar að þinga. Ég lýsi stuðningi mínum við till. frá Guðrúnu Agnarsdóttur.

Ég hef ekki heyrt neinn af þm. stjórnarliðsins segja frá hvaða örlög bíði þjóðarbókhlöðunnar og ég eins og hv. 7. þm. Reykv. óska eftir að fá meira að vita um hvað verður um hana. Eins vona ég að tekið verði tillit til þess sem hv. 7. þm. Reykv. sagði í sambandi við afgreiðslu mála fyrir okkar kjördæmi. Ég styð hann í því sem þar kom fram, en endurtek að ég hafði ekki hugsað mér að gera tillögur sjálfur. Ég vil sem fyrrv. fjmrh. ekki skipta mér af fjárlögunum eins og þau eru að verða. Það er alveg ljóst að það er stefnt að því að heimilin beri halla en ríkissjóður verði hallalaus. Ef ég gæti á einhvern hátt komið í veg fyrir það mundi ég gera það. En því miður held ég að með þeim styrkleika sem stjórnarandstaðan sameinuð hefur verði það erfitt verk, kannski óvinnandi.

En það er eitt sem ég ætla að biðja ríkisstjórnina um að gera og stjórnarliða. Það kostar þá ekki peninga. — Og þó. Við erum í mesta góðæri sem gengið hefur yfir þjóðina. Ég orða það þannig, það hefur gengið yfir þjóðina, því að stjórnarliðar gefa þannig upplýsingar að það er eins og það sé mesta hallærismál að góðæri skuli vera á Íslandi. Í fréttum í kvöld, í matarhléi þingsins, dundi yfir þjóðina að væntanlega væri minnkandi þjóðarframleiðsla, næsta ár verður væntanlega mjög óhagstæður verslunarjöfnuður o.fl. o.fl. Allt sem kemur frá Þjóðhagsstofnun er til að brjóta niður vilja, brjóta niður góðærið, brjóta niður móral fólksins, til þess að búa fólkið undir harðæri þrátt fyrir það mikla og gjöfula sem guð almáttugur hefur gefið okkur sem þjóð til að spila úr. Við höfum tekjumöguleika sem við nýtum okkur. En förum svo langt fram úr í eyðslunni. Það er alveg sama hvað okkur er gefið mikið. Við eyðum alltaf meira. Það er hins vegar ekki ástæða til þess að hræða fólkið og undirbúa það undir að stjórnvöldum mistakist að fara með þann mikla auð sem náttúran leggur okkur til, þannig að ríkisstjórnin er á sama tíma og hún er að búa til þessi vondu fjárlög, og á sama tíma og hún er að færa halla ríkissjóðs yfir í halla heimilanna, að búa fólkið móralskt undir það að ríkisstjórninni mistakist, mistakist að nota fyrir fólkið þann mikla auð sem hún hefur úr að spila. Þetta er nákvæmlega það sama og þegar hún segir: Við gátum ekki haft tilbúið kerfi. Það var ekki hægt að skipuleggja Alþingi vegna þess að það kom ekki saman fyrr en 10. október. Alþingi gat komið saman strax eftir kosningar. Þá hefði enginn verið í tímaþröng. Hún segir: Við verðum að afgreiða fjárlagafrv. Við verðum að afgreiða 20 önnur mikilvæg frv. á nokkrum nóttum. Hún hefur skapað vandræðaástand. Hún er að búa til tímaleysi. Það er nákvæmlega það sama og hún er nú að gera með fjölmiðlum. Hún er að búa fólkið undir að allt sé svart fram undan þó að tekjur þjóðarinnar hafi aldrei verið meiri. Og það er ekkert sem bendir til þess, ekkert annað en tilbúningur, að hallæri sé fram undan. Það er alveg eins og þegar hún segir: Efnahagur þjóðarinnar er í rúst vegna þess að dollarinn heldur áfram að lækka í verði og felur þá, með því að segja ekki frá því hvað það er jákvætt fyrir okkur vegna þess að við skuldum mikið erlendis að erlendur gjaldeyrir fellur.

En ég tek undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann segir: Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar eru launamannaskattur. Það hljóta allir að sjá að maðurinn sem ekki vinnur fyrir sínu heimili með 8 stunda vinnudegi, 40 stunda vinnuviku, og þarf að nota hvíldartímann til þess að bæta við sig vinnutímum daglega, hann hlýtur að líða meira, hann hlýtur að þurfa að nota allar sínar tekjur til þess að kaupa nauðsynjavöruna, matinn og kannski enn þá frekar eftir að hann hækkar um 25% söluskatt. Hann hlýtur að nota meira af sínum tekjum hlutfallslega en sá sem hefur háar tekjur.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki komið með neina tillögu sem eykur á erfiðleika ríkisstjórnarinnar. Ég hef heldur ekki gert tillögu um neina nýja skatta til að auka á gleði ríkisstjórnarinnar og ánægju, létta hennar störf. Ég hef gert það viljandi, en ég lýsi aftur yfir stuðningi við þær tillögur sem hafa komið fram frá minni hl. Að sjálfsögðu lýsi ég stuðningi við þær tillögur sem koma og hafa komið fram og koma frá félögum mínum í Borgaraflokknum.