14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

1. mál, fjárlög 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til nú við lok 2. umr. um fjárlagafrv. fyrir árið 1988 að draga saman helstu niðurstöður af málflutningi og tillöguflutningi stjórnarandstöðu og í annan stað að nota tækifærið til að leiðrétta villandi upplýsingar um tekjuhlið fjárlaganna og tekjuöflunartillögur ríkisstjórnar.

Í fyrsta lagi virðist mér það sammerkt með málflutningi stjórnarandstöðunnar, í misjafnlega ríkum mæli þó, að hún lýsir sig andvíga tekjuöflunaráformum ríkisstjórnarinnar. Þar fara fremstir í flokki hv. þm. Borgaraflokksins sem tala um skattpíningarstefnu. Aðrir tala um skattamet og lýsa sig andvíga þvílíkum álögum. Á sama tíma flytur stjórnarandstaðan tillögur um útgjaldaauka umfram niðurstöðutölur fjárlagafrv. upp á 2609 millj. 760 þús. kr. M.ö.o., stjórnarandstaðan lýsir sig þar með í verki andvíga þeirri meginforsendu fjárlagafrv. að skila fjárlögum ríkisins á næsta ári með jöfnuði.

Frá þessu er þó ein undantekning þar sem Alþb. flytur till. til lækkunar útgjalda um 13 millj. 519 þús. kr., en það er framlag vegna aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og Alþb. flytur þar að auki tillögur um nýja tekjuöflun að upphæð 1050 millj. kr. og hefur þar með lagt blessun sína yfir tekjuöflunaráform ríkisstjórnarinnar og tillögur um aukna tekjuöflun að auki sem staðfestir það að þeir vilja halda því meti sem sett var árið 1982 um tekjuöflun ríkissjóðs. Þetta segir meira en mörg orð um alvöruna í þessum tillöguflutningi og þarf ekki orðum við það að bæta.

Annað sem ástæða er til að vekja athygli á er að í þessum umræðum hefur verið farið með villandi tölur um tekjuöflunaráform ríkisstjórnarinnar. Það er mjög í stíl við dagblaðafregnir að undanförnu. Fyrir um það bil sex dögum flutti Dagblaðið fréttir um það að nýjar skattaálögur ríkisstjórnarinnar næmu 1 milljarði en síðan hafa þær daglega farið vaxandi í því blaði og nálguðust 10 milljarða seinast þegar fréttist. Þetta er kannski ekki mjög góð þjónusta við almenning sem vill og þarf að fá glögga mynd af þeirri skattkerfisbreytingu sem verið er að hrinda í framkvæmd nú um áramótin. Þess vegna er nauðsynlegt að taka af tvímæli um það hvernig þau mál standa og er rétt að gera það hér og nú við lok 2. umr. svo að ekki fari milli mála.

Um tekjuöflunaráform ríkisstjórnarinnar er þetta að segja:

1. Tekjuöflunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar í júlí fólust í aukinni tekjuöflun til þess að draga úr hallarekstri ríkissjóðs og þensluáhrifum hans. Þannig var söluskattsstofninn víkkaður með fækkun undanþága, m.a. á ýmsum matvælum, tölvum og sérfræðiþjónustu. Þá var lagt sérstakt gjald á bifreiðar og erlendar lántökur auk þess sem kjarnfóðurgjald og ríkisábyrgðagjald voru hækkuð. Þessar fyrstu aðgerðir fólu í sér aukna tekjuöflun upp á 3700 millj. kr. miðað við heilt ár á verðlagi ársins 1988. Til þess að draga úr áhrifum þessara aðgerða á hag lífeyrisþega og tekjulágra barnafjölskyldna var ellilífeyrir hækkaður sérstaklega um 320 millj. kr. og barnabótaaukinn sem rennur til tekjulágra fjölskyldna hækkaður um 240 millj. kr. Nettótekjuöflun í ríkissjóð með þessum fyrstu aðgerðum nam þannig 3140 millj. kr.

2. Í október var gripið til frekari aðgerða til þess að hamla gegn þenslu með hækkun á innflutningsgjaldi af bifreiðum og áfengis- og tóbaksverði. Þessar ráðstafanir má meta til 600 millj. kr. tekjuöflunar á heilu ári 1988.

3. Boðaðar voru ýmsar breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs í fjárlagafrv. fyrir næsta ár sem nú eru til umræðu á Alþingi. Hér má nefna hækkun tekjuskatta á fyrirtæki, víkkun á launaskattsstofni og söluskattsstofni, arðgreiðslur ríkisfyrirtækja o.fl. Samtals má meta þessar aðgerðir á 1400 millj. kr. á næsta ári.

Niðurstöðurnar af þessu þrennu eru því 5140 millj. kr.

4. Þá má nefna sérstaklega þá kerfisbreytingu í tolla- og söluskattsmálum sem skýrt var frá í byrjun desember. Þessi breyting gerir ráð fyrir algjörri uppstokkun á aðflutningsgjöldum, bæði með stórfelldri tollalækkun og fækkun smærri gjalda. Auk þess er söluskattsundanþágum enn fækkað og jafnframt ákveðið að taka upp virðisaukaskatt í ársbyrjun 1989. Þessi kerfisbreyting skilar engum viðbótartekjum í ríkissjóð á næsta ári þar sem tekjuaukanum, 2050 millj. kr., er varið jafnharðan til útborgunar á eftirtöldum þáttum:

1. Til aukinna niðurgreiðslna 1250 millj. kr.

2. Til sérstakrar hækkunar á ellilífeyri 280 millj. kr.

3. Til sérstakrar hækkunar á barnabótum 320 millj. kr.

4. Til endurgreiðslu á kjarnfóðurgjaldi 200 millj. kr. eða alls 2050 millj. kr.

Hér að framan hefur verið drepið á helstu atriðin í tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári. Til þess að fá heildarmynd af skattlagningu ríkissjóðs er eðlilegast að skoða tekjurnar í hlutfalli við landsframleiðslu. Þetta er rétt að gera með því að rifja upp þær tölur yfir næstliðin ár og þá kemur til greina að sýna tvennt, þ.e. hlutfall annars vegar skatttekna og hins vegar heildartekna, þ.e. að meðtöldum vaxtatekjum og arðgreiðslum. Þessi hlutföll hafa verið breytileg á undanförnum árum. Hæst fór skattahlutfallið árið 1982 þegar það var 24,5%. Lægstu tölurnar sjást fyrir árin 1986 og 1987. Það er engin tilviljun að skattahlutfallið skuli vera með lægsta móti, bæði í fyrra og á þessu ári, þar sem hallarekstur ríkissjóðs hefur verið með mesta móti þessi tvö ár. M.ö.o., í stað þess að afla tekna fyrir útgjöldum ríkissjóðs var þeim vanda velt á undan sér með því að afla lána til þess að jafna hallann. Á næsta ári er hins vegar gert ráð fyrir hallalausum ríkisbúskap og til þess að ná því markmiði hækkar skatthlutfallið á nýjan leik. Það er þó samkvæmt þessum áætlunum lægra en t.d. árið 1982 en svipað og árið 1979 og 1981 Það er m.ö.o. rangt sem haldið hefur verið fram, þrátt fyrir aukna tekjuöflun, að hér sé verið að setja skattamet á mælikvarða hlutfalls skatttekna af vergri landsframleiðslu.

Tölurnar um skatttekjur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á undanförnum árum eru sem hér segir: Árið 1979 24,2%, árið 1980 23,4%, árið 1981 24,2%, árið 1982 24,5%, árið 1983 22,1%, árið 1984 22,5%, árið 1985 21,7%, árið 1986 21,9%, árið 1987 samkvæmt áætlun sem varla getur talist endanleg 21,9% og árið 1988, spá, 24,2%.

Ef litið er á sama mælikvarða og sömu ár og mælikvarðinn er hlutfall heildartekna af vergri landsframleiðslu, þ.e. heildartekjur sem eru hvort tveggja skatttekjur að meðtöldum vaxtatekjum og arðgreiðslum, eru þessar tölur fyrir sömu ár eftirfarandi: Árið 1979 26%, 1980 24,8%, 1981 25,6%, 1982 26,3%, 1983 24,8%, 1984 25,1%, 1985 24,l%, 1986 23,9%, 1987, áætlun, 23,3%, 1988, spá, 25,5%.

Þegar hlutfallstölur fyrir næsta ár ern skoðaðar er rétt að hafa í huga að á þessari stundu ríkir nokkur óvissa um fjárhæð landsframleiðslunnar á næsta ári þar sem enn liggur ekki fyrir endurskoðuð þjóðhagsspá. Á hinn bóginn má telja líklegt að þær tölur sem miðað er við í þjóðhagsáætlun í október muni breytast og þá til hækkunar. Það á raunar bæði við um tölur fyrir árin 1987 og 1988. Þetta stafar m.a. af meiri veltubreytingum hér innan lands en þá var áætlað sem t.d. hafa skilað sér í auknum tekjum ríkissjóðs á þessu ári. Þegar af þessari ástæðu er augljóst að fjárhæð landsframleiðslunnar fyrir næsta ár mun hækka. Auk þess er nánast sjálfgefið að landsframleiðslan hækkar einnig vegna þeirra breytinga sem nú er gert ráð fyrir að verði á tekju- og gjaldahlið fjárlaganna, enda er þar beinlínis aukið við bæði fjárfestingar- og samneysluútgjöld ríkissjóðs, auk þess sem neyslutilfærslur stórhækka. Af þessum ástæðum er ekki hægt að notast við óbreyttar tölur um landsframleiðslu frá því í haust. Við útreikning hlutfallstalnanna hér að framan hefur verið tekið tillit til þessara áhrifa.

Niðurstaðan af þessu er því sú að nýir skattar þessarar ríkisstjórnar nemi um það bil 5 milljörðum kr. miðað við álagningu á næsta ári. Þessir skattar fara til þess að eyða hallarekstri ríkissjóðs og þar með að halda aftur af verðbólgu, viðskiptahalla og erlendum lántökum. Þetta, herra forseti, sýnist mér vera kjarni málsins.