20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Þær spurningar sem vakna í sambandi við þetta mál eru fyrst og fremst tvær: Hver hefur valdið og hvar er réttlætið? Eiga valdsmenn virkilega að láta svo sem þeim komi ekki við lífið í landinu? Er æskilegt að maður fari með ráðherravald sem þorir ekki að taka á og beita því í þágu réttlætisins heldur hengir sig í lagakróka? Er ekki eðlilegt að fólkið vilji halda atvinnu í byggðarlögum en ekki flytja hana í burtu? Þarf ekki að halda eðlilegri samkeppni í slátrun? Þurfa ekki risarnir, sem framkvæma mest af sauðfjárslátrun á Íslandi, að hafa smásamkeppni? Þola þeir ekki að sú tiltölulega litla slátrun sem fram fer utan þeirra vébanda eigi sér stað? Hún er þó til góða fyrir alla bændur landsins.

Við höfum verkað víða mat á Íslandi í gegnum árin. Kannski ekki við fullkomnustu aðstæður. Sem betur fer vil ég segja. Annars værum við ekki sjálfbjarga þjóð. Vissulega þarf víða að bæta úr aðstæðum við matvælaframleiðslu. Það er stöðugt unnið að því. En íslenskur matur er góður matur. Íslensk matvælaframleiðsla er góð. Það liggur ekki fyrir að frá sláturhúsi Arnfirðinga hafi komið annað en góður matur. Og frá sláturhúsinu í Vík, sem ekki átti að fá leyfi, hefur þrátt fyrir þröngar aðstæður ekki komið annað en úrvalsvara. Á meðan svo er ber valdsmönnum, sem sitja í góðum húsakynnum hér á mölinni, að veita íslensku fólki sem vinnur hörðum höndum réttinn til að lifa. Valdsmenn sem ekki hafa réttlætistilfinningu þyrftu hins vegar að fá sér annan starfa.