15.12.1987
Sameinað þing: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

1. mál, fjárlög 1988

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér suður í Fossvogi stendur hús. Í þessu húsi eru fjórar hæðir auðar og hafa beðið eftir því í mörg ár að verkefninu verði fram haldið til þess að unnt verði að stytta nokkuð þá biðlista eftir þjónustu við aldraða sem hér eru í höfuðstað landsins. Fyrrv. ríkisstjórn gekk þannig frá málum að miðað við framlög ársins 1987 taka framkvæmdir við þetta hús þann tíma að því yrði í fyrsta lagi lokið árið 2003. Núv. ríkisstjórn virðist því miður ætla að feta í sama fótsporið. Það er alvarlegt mál og áminning til Reykvíkinga og þjóðarinnar allrar. Hér er flutt till. um að bæta úr. Ég segi já, herra forseti.