15.12.1987
Sameinað þing: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

1. mál, fjárlög 1988

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef sérstaka ástæðu til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu um þennan lið. Í blaði flokks hæstv. fjmrh. er veist að mér persónulega með ósæmilegum hætti í dag. (Gripið fram í: Hvaða blað er það?) Það mun heita Alþýðublaðið og gefið út í nokkrum eintökum hér í Reykjavík. Þar er það þanið út yfir þvera forsíðu að ég hafi gefið loforð í þessu sambandi sem ekki standist. Þetta er alrangt. Ég vil gera þá grein fyrir atkvæði mínu hér sem hefur þá skýringu að bréf barst mér sem heilbrmrh. á nýbyrjuðu þessu ári þar sem skýrt var frá að stjórn sjúkrahúss Keflavíkur hefði samþykkt að leita eftir leyfi heilbrmrh. til að flýta þessari byggingu sem mjög brýnt er að komist í gagnið sem allra fyrst, eins og segir í bréfinu með leyfi hæstv. forseta. Og áfram vitna ég til þess, með leyfi hæstv. forseta:

„Mundi það einnig bæta núverandi rekstur sjúkrahússins því mestöll nauðsynleg þjónusta við D-álmu er nú þegar til staðar. Leitað hefur verið eftir samþykki og ábyrgð sveitarfélaganna til þessarar lántöku ef leyfi yðar fæst til þess að hraða framkvæmdum við D-álmu.“

Hér er vikið að rekstri sjúkrahússins, en þar hafði komið upp alvarlegur vandi og fjárhagslegur rekstur þess verið til sérstakrar úttektar og ýmissa ráða auðvitað leitað til að bæta hann. Mér var ljóst að mitt leyfi til þessarar lántöku dugði ekki. Það þurfti líka leyfi fjmrn. og fjárveitingavaldsins. (Forseti: Það er vakin athygli hv. þm. á því ... ) Þetta er greinargerð fyrir atkvæði mínu, herra forseti. (Forseti: Já, það verður að stilla henni í hóf, en ekki fara út í langar efnislegar umræður.)

Herra forseti. Ég mun sannarlega gera það. Og nú er ég komin að meginatriði þessarar greinargerðar sem er það að samþykki heilbrmrn. lá fyrir fyrir þess leyti og mér er kunnugt um að eftirmaður minn hefur nákvæmlega sömu afstöðu, en hins vegar skorti samþykki fjmrn. Því vil ég segja nei við þeirri tillögu sem hér liggur fyrir í trausti þess að flokksbræður hæstv. fjmrh., bæði í bæjarstjórn Keflavíkur og þeir sem stjórna Alþýðublaðinu, leiti liðsinnis hans til þess að hann beri þetta mál fram á þann hátt sem þeir óskuðu, þ.e. að fá lánsheimild og gera tillögu um það við Alþingi nú fyrir 3. umr. Í trausti þessa segi ég nei.