15.12.1987
Sameinað þing: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

1. mál, fjárlög 1988

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skil vel að hæstv. fjmrh. skuli mjög vilja árétta það hér undir fjárlagaumræðum að hann beri enga ábyrgð á Alþýðublaðinu eins og það er skrifað og kemur þingheimi ekki á óvart. Hitt þykir mér bera vott um skilning hæstv. fjmrh. á mannlegu eðli að hann skuli kalla það taugaveikluð viðbrögð ef menn í þingsalnum fást til að greiða atkvæði með fjárlagafrv. eftir hans línum. Ég játa það satt að segja að ég er að velta því fyrir mér hvort meiri hluti þingheims sé ekki í dag haldinn þessari veiki, taugaveikluðum viðbrögðum þegar hann greiðir atkvæði um fjárlagafrv.