20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Júlíus Sólnes:

Hæstvirtur forseti. Sl. sumar vorum við tveir þm. Borgarafl. á ferð á Vestfjörðum og komum m.a. á Bíldudal. Ég held að eftir þá ferð hafi okkur verið ljósara en áður hvílík vandamál steðja að hinni dreifðu byggð á Vestfjörðum. Þess vegna tel ég að byggðin þar megi síst við því að hún sé beitt ofríki valdsins héðan úr Reykjavík.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, munu forráðamenn sláturhússins á Bíldudal hafa fengið í hendur skýrslu frá settum héraðsdýralækni með undirstrikunum frá yfirdýralækni á þeim aðfinnsluatriðum sem voru í skýrslunni. Hófust heimamenn þá handa við að bæta úr þessum aðfinnsluatriðum, lagfæra það sem hafði verið beðið um.

Á fundi sem haldinn var í landbrn. þann 5. okt. sl. gerðu heimamenn yfirdýralækni grein fyrir þeim úrbótum sem þeir höfðu unnið að. Er talið að búið sé að bæta úr velflestum þeim atriðum, sem hafði verið fundið að, eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Suðurl. Engin viðbrögð bárust nema þá að vatnið væri ekki nógu gott. Það er einkennilegt í því sambandi en eftir því sem mér skilst hefur vatnið fyrir sláturhúsið á Patreksfirði ekkert verið rannsakað. Það er annað sem er athyglisvert. Sláturleyfi mun hafa verið gefið út fyrir sláturhúsið á Patreksfirði 15. sept. sl., en úttekt á húsinu fór ekki fram fyrr en 25. sept. Það virðist vera annað Jón eða séra Jón í þessu sambandi.

Það að enginn héraðsdýralæknir eða dýralæknir skuli fást til þess að fara vestur á Bíldudal og gegna þar störfum vekur upp grun, eins og hefur komið fram hér í máli hv. þm. á undan mér. Ég skora því á landbrh. að láta réttlætið ná hér fram að ganga og hlutast til um að lítill og fámennur staður úti á landi sé ekki ofríki beittur af valdakerfinu í Reykjavík.