15.12.1987
Efri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

195. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. með fyrirvara um þetta mál. Fyrirvarinn lýtur að tvennu. Í fyrsta lagi því að ég tel að þessi skattur eigi að geta gefið meira í ríkissjóð, þannig að hægt sé að létta af almenningi einhverjum að þeim álögum sem núv. ríkisstjórn er að hvolfa yfir þjóðina eftir áramótin, og svo hinu að ég tel ástæðulaust að hafa þessa skatta tímabundna. Ég hefði talið eðlilegt að það væri almennt gildistökuákvæði í þessu skattafrv. en að það væri ekki aðeins miðað við árið 1988 eins og gert er ráð fyrir í frv. hæstv. ríkisstjórnar. Ég tel að þetta sé skynsamleg skattlagning og eðlilegt að nýta þennan skattstofn betur. Ég hef hins vegar látið nægja að flytja tillögu um að hækka skattinn örlítið þannig að hann skili eitthvað í kringum 200 millj. kr. á næsta ári sem er ekki mikið miðað við þennan stóra skattstofn. Ég hef látið gildistökuákvæðið í friði. Mun styðja frv. að öðru leyti, þannig að þessi þáttur samfélagsins greiði til samneyslunnar a.m.k. það sem lagt er til af ríkisstjórninni þó að það mætti gjarnan vera meira.