15.12.1987
Efri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Þá er hið margumrædda húsnæðisfrv. hæstv. félmrh. loksins komið til okkar upp í Ed. Á þeim langa tíma sem er liðinn frá því að frv. var lagt fram í hv. Nd. hefur mikið vatn runnið til sjávar. Við þm. Borgarafl. höfum lagt mikla vinnu í að athuga með hvaða hætti væri hægt að láta fara fram heildarendurskoðun á húsnæðislánakerfinu. Ég skal fúslega viðurkenna að þegar svokallað húsnæðisfrv. hæstv. félmrh., sem ég hefði viljað kalla miklu frekar skerðingarfrv. hæstv. ráðherrans, var lagt fram reyndum við að sjálfsögðu að flýta þessari vinnu okkar til þess að við gætum fengið málefnalega og skipulega umfjöllun um hugmyndir okkar samtímis því að verið væri að ræða frv. hæstv. ráðherra og er ekki nema eðlilegt að við höfum viljað það. Hins vegar vorum við búnir að vinna að þessum málum í allt sumar og í haust, enda voru þessi mál mjög tekin til umræðu á landsfundi Borgarafl. sem var haldinn í september sl.

Við lögðum fram frv. til l. um húsnæðislánastofnanir og húsbanka í hv. Ed. fyrir alllöngu. Það frv. komst loksins til nefndar fyrir nokkrum dögum eftir að hafa verið alloft á dagskrá og er ekki við neinn þar um að sakast. Það er eins og allir vita að þmfrv. verða að víkja fyrir stjfrv. hvort sem þau eru minna merkileg en þmfrv., við því er ekki að gera. En ég fagna því að það frv. er þrátt fyrir allt komið til nefndar og getur því verið með í umfjöllun hv. félmn. Ed. þar sem ég geri ráð fyrir að sú nefnd muni taka þessar tillögur allar til athugunar svo og skerðingarfrv. hæstv. ráðherra.

Við vorum langt komnir með að vinna drög að frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60 frá 1984, með síðari breytingum, þegar frv. hæstv. ráðherra var lagt fram. Við töldum að það yrði því heppilegra að það væri lagt fram í formi brtt. við skerðingarfrv. hæstv. ráðherra. Í sjálfu sér viðurkennum við þann vanda, sem hæstv. ráðherra stendur frammi fyrir, að það hefur safnast saman gífurlegur fjöldi umsókna um húsnæðislán hjá hinu opinbera húsnæðislánakerfi. Hefur myndast alveg gríðarleg stífla. Að sjálfsögðu verður að leysa það — ja, mér er tjáð að það muni vera yfir 6000 aðilar sem hafa lagt inn umsóknir og bíða eftir afgreiðslu. Við verðum öll að hjálpast að við að leysa þennan hnút.

Hins vegar hef ég tekið eftir því þegar maður les og grandskoðar gildandi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins að þar er heimildarákvæði í 12. gr. laganna, 7. mgr., sem segir að þeir sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð eigi að hafa forgang. Nú kann vel að vera að það hafi verið erfitt að notfæra sér þessa heimild eða þetta ákvæði laganna og þess vegna verði þessir aðilar að bíða þó að ég fái ekki skilið af hverju. Ég get ómögulega séð hvað hindrar hæstv. ráðherra í því að hefja þegar afgreiðslu á lánum til þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Eftir því sem mér hefur verið tjáð munu það vera um 2000 umsækjendur úr þessum 6000 umsækjenda hópi sem einmitt eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð.

Að vísu er rétt að það eru ekki nálægt því allir lífeyrissjóðir sem hafa gert bindandi samninga við Húsnæðisstofnun um að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins, en eins og kemur fram í tillögum hæstv. ráðherra á það að koma fram í svari við lánsumsókn. Eins og segir, með leyfi forseta, í tillögum hæstv. ráðherra í 2. gr. ef ég fer rétt með:

„Í svari Húsnæðisstofnunar til umsækjanda skal koma fram að lánið sé háð því að lífeyrissjóður eða sjóðir, sem umsækjandi er félagi í, hafi fullnægt samningi við Húsnæðisstofnun um ráðstöfunarfé til Byggingarsjóðs ríkisins.“

Þess vegna kann vel að vera að þeir 2000 umsækjendur eða þar um bil sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð séu einhverjir í sjóðum sem ekki hafa gert slíka bindandi samninga. Ég held að ég sé ekkert að vera með vangaveltur út af þessu, en mundi einfaldlega óska eftir því að hæstv. félmrh. útskýrði þetta fyrir okkur, þ.e. svara því hvers vegna er ekki farið að afgreiða umsóknir til þeirra sem geta farið í þessa forgangsröð. Hve margir þessir umsækjendur eru og hve margir þeirra eru úr lífeyrissjóðum sem þegar hafa gert bindandi samninga. Mér er ómögulegt að skilja af hverju er ekki hægt að hefja afgreiðslu á þessum lánsumsóknum strax.

Þetta atriði með lífeyrissjóðina er eitt af því sem við höfum sérstaklega athugað og komist að þeirri niðurstöðu að þetta er kannski ein höfuðmeinsemdin í núverandi húsnæðislánakerfi, þ.e. þetta samkrull ríkisins og lífeyrissjóðanna. Byggingarsjóðir ríkisins treysta nú orðið í æ ríkara mæli á fjármagn frá lífeyrissjóðunum og húsnæðislánakerfið er eiginlega háð því að samningar við lífeyrissjóðina takist með reglulegu millibili. Lífeyrissjóðirnir spyrna við fótum að því er virðist. Það er viss tregða hjá lífeyrissjóðunum að ganga til samninga við ríkisvaldið um að kaupa skuldabréf af byggingarsjóðunum sem er ofur eðlilegt vegna þess að ríkisvaldið þarf að pína niður vexti af þeim skuldabréfum eins og hægt er til að geta endurlánað þetta fé á enn lægri vöxtum. Það er ekki nema eðlilegt að þessir samningar séu bæði erfiðir og það sé viss tregða af hálfu lífeyrissjóðanna að ganga til þeirra. Þess vegna væri miklu betra ef hægt væri að losa þetta alveg í sundur þannig að það yrði ekkert samkrull þarna á milli. Það er einmitt með þeim hætti sem okkar tillögur gera ráð fyrir að þetta verði.

Það er út af fyrir sig ekkert nýtt ástand í sjálfu sér vegna þess að þannig var þetta áður fyrr. Þá var ástandið þannig að Húsnæðisstofnun ríkisins sá um lán til þeirra umsækjenda sem áttu rétt á slíkum lánum. Síðan fengu menn lán til viðbótar húsnæðislánunum hjá hinum ýmsu lífeyrissjóðum. Þannig var þetta allt fram til ársins 1984 að ég hygg. Ég fer kannski ekki alveg nákvæmlega rétt með þetta því ég er ekki með upplýsingarnar í ræðustól, en þetta skiptir heldur ekki öllu máli. Ég er nánast að rifja upp hvernig þessi mál hafa þróast í gegnum árin.

Það þarf ekki að fara lengi yfir það húsnæðislánakerfi sem er nú við lýði á Íslandi til að sjá að það er ónýtt. Það virkar ekki með neinum hætti. Það er eilífur fjárskortur. Umsóknirnar hlaðast upp með vissu millibili. Það má eiginlega líkja þessu dálítið við störf Alþingis. Það kemur upp einu sinni eða tvisvar á ári að hægt er að afgreiða umsóknirnar, en þess á milli hlaðast þær upp vegna þess að fjárskortur leyfir ekki að það sé hægt að afgreiða þessar umsóknir á færibandi. Á milli verða hv. þm. og ráðherrar að vinna baki brotnu að því að finna einhverjar leiðir til að útvega fjármagn til kerfisins, sem er síhungrað, til þess að geta mætt næsta skammti umsókna sem er væntanlegur. Svona er þetta búið að vera eiginlega allar götur síðan ég man eftir mér og umræðan manna á meðal hefur alltaf verið þessi: Hvernig skyldi nú ganga að ná þessu láni út úr húsnæðislánakerfinu? Og eins: Hvenær er komið að mér í biðröðinni? Þegar um var að ræða að menn þurftu að sækja beint í lífeyrissjóðina var í sjálfu sér sama biðröðin þar því að menn þurftu að ávinna sér ákveðin lífeyrissjóðsréttindi, þeir þurftu að hafa verið sjóðfélagar í svo og svo mörg ár áður en þeir gátu fengið lán hjá lífeyrissjóðunum. Þetta hefur, eins og ég segi, lítið sem ekkert batnað. Það er sama ástandið ár eftir ár. Það er þessi eilífi fjárskortur. Það er ekki hægt að sinna öllum umsóknum. Menn þurfa að bíða og bíða. Og nú er gert ráð fyrir því að það besta sem hægt er að gera fyrir umsækjendur er, eins og segir í einni grein frv., með leyfi forseta:

„Umsækjendur, sem uppfylla skilyrði laga þessara um lánveitingar skv. 13., 14., 18. og 25. gr., skulu innan þriggja mánaða frá því að umsókn var lögð fram fá svar um hvort þeir eigi rétt á láni.“

Síðan kemur: „Í svari Húsnæðisstofnunar til umsækjanda“ o.s.frv. Ég gat um það áðan að umsækjandi skuli vera félagi í lífeyrissjóði sem hafi fullnægt samningi við Húsnæðisstofnun. Og síðan endar þetta á því að segja: „Endanleg svör um afgreiðslutíma láns og lánsupphæð berist eigi síðar en einu ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu.“

Þessi grein ber það með sér að umsækjendur geti væntanlega þurft að bíða í allt að tvö ár eftir því að fá lán. Mér sýnist að fyrst líði þrír mánuðir, síðan líður einhver ótiltekinn tími, sem væntanlega er háður því sem ég var að segja áðan, hvernig er fjárhagslegt ástand byggingarsjóðanna, og síðan er umsækjanda svarað eigi síðar en einu ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu þannig að það virðist allt benda til þess að þarna sé um að ræða tveggja ára biðtíma eftir lánum.

Ég hef átt þess kost að vera búsettur í Danmörku um nokkurt skeið og taka þar húsnæðislán í danska húsnæðislánakerfinu. Þar er algengt að umsækjandi kemur með umsókn á mánudagsmorgni til húsnæðislánastofnunar eða fasteignasali gerir það fyrir hann, sem er öllu algengara, umsóknin er meðhöndluð og lánið er greitt út á föstudegi í sömu viku. Þetta er mjög algeng málsmeðferð fyrir þá sem eru að sækja um húsnæðislán í dönskum húsnæðislánastofnunum. Þá óneitanlega hlýtur hver og einn að spyrja: Er ekki eitthvað að við þetta kerfi sem við höfum sett upp í húsnæðislánamálum? Getum við ekki eitthvað lært af hinum nágrannaþjóðum okkar þar sem þessi mál virðast þó vera í sæmilega góðu lagi?

Það kom reyndar fram í umræðum um húsnæðislánastofnanir í sl. viku í hv. Ed.hv. 9. þm. Reykn. vakti athygli á því að vextir af húsnæðislánum í Noregi væru mjög háir. Víst eru þeir það. Ég er ekki að leyna því. Vextir á húsnæðislánum eru mjög háir víðast hvar, sérstaklega þar sem eru starfandi sjálfstæðar húsnæðislánastofnanir sem verða að fjármagna útlán sín á grundvelli þess peningamarkaðar sem er ríkjandi í viðkomandi landi. Að sjálfsögðu verða vextir þá nær því að vera markaðsvextir. Það er ekki hægt að greiða niður vexti af húsnæðislánum fremur en öðrum lánum. Þetta er að vísu fyrirbæri sem við skulum taka hérna til nákvæmari meðferðar á eftir.

Ég vildi þá lýsa tillögum okkar og mæla fyrir þeim. Við höfum áður, eins og ég gat um, lagt fram frv. til l. um húsnæðislánastofnanir og húsbanka og þarf ekki að fjalla frekar um það. Ef til vill er þó rétt í upphafi að geta þess að við reiknum með því að tillögur okkar fæði af sér tvöfalt lánakerfi þannig að það verði gerð sú breyting á starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins að hún komi einungis til með að taka að sér og sjá um lán til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda, þ.e. að veita lán til félagslegra íbúða og svo til þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð.

Eftir því sem ég hef fengið upplýst hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, þó svo að menn greini aðeins á um þetta, mundu tæplega 40% þeirra, sem eru á fasteignamarkaði eða eru að byggja á hverju ári, heyra til þeirra sem eru í félagslega íbúðakerfinu eða eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð, en miklu fleiri eða u.þ.b. 60% af þeim sem eru á fasteignamarkaðnum á hverju ári, ýmist til þess að kaupa sér íbúð eða byggja íbúð, eru þeir sem eiga íbúð fyrir og standa sæmilega traustum fótum í kerfinu ef svo má að orði komast, þ.e. þeir eiga orðið einhverja eign sem þeir geta byggt á. Það er þessi hópur sem við ætlum að taka sín lán hjá sjálfstæðum húsnæðislánastofnunum, húsbönkum, sem við höfum talið að lífeyrissjóðirnir, bankarnir, tryggingafélögin og hagsmunasamtök launþega geti tekið höndum saman um að koma upp. Það hefur komið fram hér áður í hv. deild, m.a. í máli hv. 14. þm. Reykv. Guðmundar H. Garðarssonar, að það eru nógir peningar til í landinu til að veita lán til íbúðabygginga og íbúðakaupa. Það var rætt hér lítillega um möguleika á því að fá erlend húsnæðislán til Íslands því Evrópulöndin eru að stefna að sameiginlegum húsnæðislánamarkaði. Það er kominn örlítill vísir að þessu, eins og segir frá í grg. með frv. til l. um húsnæðislánastofnanir og húsbanka, og ég geri alveg ráð fyrir því að við gætum kannað möguleika á því að fá erlend húsnæðislán til íbúðakaupa eða íbúðabygginga á Íslandi. En hv. 14. þm. Reykv. taldi eðlilegt að nota innlenda peninga, úr því að þeir væru til, fremur en að fá hingað erlent lánsfé til húsbygginga og íbúðakaupa og er ég honum alveg sammála. Ef við eigum nóga peninga sjálfir þurfum við ekki að sækja peninga til útlanda til húsnæðislána.

Við höfum kosið að leggja drög að frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem við vorum búin að vinna í haust, fram sem brtt. við frv. hæstv. félmrh. og skal ég nú gera grein fyrir þessum till. með því að fjalla um hverja grein fyrir sig. Í raun og veru er þetta algjör endurskoðun á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nánast frá grunni. Við höfum farið yfir gildandi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins og reynt að samræma og endurbæta þá lagasmíð og að sjálfsögðu aðlaga hana að frv. til l. um húsnæðislánastofnanir og húsbanka.

Í gildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins fjallar 1. kafli um markmið laganna. Ég býst við að það þurfi ekki að ríkja mikill ágreiningur um hvert skuli vera markmið lagasetningar varðandi Húsnæðisstofnun ríkisins. Hér segir „að stuðla að því skipulagi húsnæðismála að allir landsmenn geti búið við öryggi í húsnæðismálum“. Ég býst við að allir hv. þm. á Alþingi séu sammála því að hvaða lög sem við svo sem reynum að setja um húsnæðismál hlýtur þetta að vera það markmið sem við reynum að setja okkur.

Ég mun fara strax inn í II. kafla þar sem er fjallað um hlutverk og skipulag stofnunarinnar. Við teljum rétt að Húsnæðisstofnun ríkisins starfi áfram sem sjálfstæð ríkisstofnun sem lúti sérstakri stjórn og heyri undir félmrn. Við höfum ekki séð að það sé hægt að gera þetta á betri hátt. Hins vegar teljum við að það megi gera starfsemi stofnunarinnar og stöðu hennar miklu styrkari með því að breyta stöðu hennar að verulegu leyti skv. lögunum. Það kemur kannski best fram í 3. gr. þar sem við lýsum stofnuninni. Við segjum þar að hún skuli starfa sem ein heild en skiptast í tvær deildir. Í fyrri deildinni, þ.e. svokallaðri bankadeild, fari fram fjármálaleg stjórnun stofnunarinnar, rekstrarbókhald, varsla Byggingarsjóðs ríkisins, lánveitingar og öll útlánastarfsemi, þar með talin afgreiðsla lána og innheimta. Hér er um byltingarkenndar hugmyndir að ræða sem ég veit að hv. þm. og e.t.v. hæstv. félmrh. eiga erfitt með að kyngja þó ég viti það reyndar ekki. Það væri gaman að heyra álit hæstv. félmrh. á þeirri hugmynd að Húsnæðisstofnun ríkisins starfi sem banki, þ.e. önnur deild hennar verði bankadeild þar sem Byggingarsjóður ríkisins verði til vörslu. Byggingarsjóður ríkisins verði m.ö.o. í vörslu þessarar bankadeildar en ekki eins og nú að Byggingarsjóður ríkisins og reyndar Byggingarsjóður verkamanna eru báðir í vörslu Seðlabankans.

Við teljum sjálfsagt að Húsnæðisstofnun annist sjálf allar lánveitingar, alla útlánastarfsemi, afgreiðslu lánanna og innheimtu þeirra. Það er nefnilega dálítið einkennilegt eins og þessu er háttað nú. Húsnæðisstofnun svífur þarna yfir vötnunum. Hún á einhverja peninga inni í Seðlabankanum, sem hún á að lána út, en Landsbanki Íslands sér svo um að afgreiða þessi lán. Húsnæðisstofnun virðist vera einhver milliliðastofnun, einhver tengiliður milli Seðlabankans og Landsbankans, þ.e. veðdeildar Landsbankans. Þetta byggir á því að í gildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er heimildarákvæði sem segir að Húsnæðisstofnun megi gera samning við einhvern viðskiptabanka um að annast þessa þjónustu fyrir stofnunina, þ.e. að sjá um lánveitingar og útlánastarfsemi, væntanlega þar með talið afgreiðslu lána og innheimtu þeirra. En ég er ekki í nokkrum vafa um að Húsnæðisstofnun ríkisins yrði miklu styrkari og sjálfstæðari stofnun og þjónusta hennar við umsækjendur og lántakendur yrði miklu, miklu betri ef hún tæki þetta verkefni til sín og sinnti því sjálf. Ég tel að það sé enginn vafi á að hún eigi einnig að hafa vörsluna á sjálfum byggingarsjóðnum. Það væri hægt að hugsa sér að Húsnæðisstofnun geymdi hluta af byggingarsjóðnum úti á landi. Hún gæti átt hluta af byggingarsjóðnum inni á reikningi t.d. í bönkum á Ísafirði, í bönkum á Akureyri, í bönkum úti á landsbyggðinni. Húsnæðisstofnun hefur yfirumsjón með Byggingarsjóði ríkisins, hefur vörslu sjóðsins í sínum höndum og getur eins og ég segi átt upphæðir í útibúum úti á landi. Þetta gæti verið liður í þeirri stefnu, sem við erum að reyna að beita okkur fyrir, að treysta stöðu landsbyggðarinnar með því að þar verði geymdir peningar sem eru ætlaðir til nota úti á landsbyggðinni í staðinn fyrir að flytja þá alla suður og endursenda þá síðan aftur til landsbyggðarinnar þegar þeir eru búnir að fara í gegnum mjög flókið skömmtunarkerfi hjá miðstjórninni í Reykjavík.

Síðan er sjálfsagt að Húsnæðisstofnun hafi mjög sterka og öfluga tæknideild. Hún hefur það reyndar í dag. Það er starfandi mjög öflug tæknideild við Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég held hins vegar að það megi víkka hlutverk tæknideildar. Eitt af því sem Húsnæðisstofnun þyrfti að sinna betur er upplýsingaþjónusta til væntanlegra lántakenda, til umsækjenda, um mismunandi lánsform og hvernig afborgunarrunur og greiðslubyrði lána eru eftir því hvernig lánum er stillt upp. Það er gaman að koma inn í húsnæðislánastofnanir erlendis og sjá tölvukerfi þeirra, hvernig á svipstundu er hægt að kalla upp á tölvuskjá ótal lánsuppstillingar fyrir íbúðarhúsnæði eða hvers kyns húsnæði sem á að fara að selja eða kaupa. Þar er hægt að lesa inn söluverðmæti og útborgun og með mismunandi lánauppstillingum er á svipstundu hægt að fá að sjá hver verður greiðslubyrðin, hver er greiðslurunan, afborgunarrunan og margt fleira. Og það sem meira er, húsnæðislánastofnanir erlendis veita yfirleitt orðið þá þjónustu að þær bjóða fasteignasölum og fyrirtækjum, sem annast sölu og viðskipti með fasteignir, þá þjónustu að þau geti, eftir að hafa gert bindandi samninga við húsnæðislánastofnunina, fengið beinan aðgang að tölvukerfi hennar. Þannig getur fasteignasali, sem er að selja íbúð, sýnt væntanlegum kaupanda á tölvuskjá á fasteignasölunni upplýsingar sem eru teknar beint úr tölvubanka húsnæðislánastofnunarinnar og séð þar á skjánum hvernig lánsuppstillingin verður eftir því hvað hann greiðir háa útborgun og hvaða aðra möguleika hann hefur til að reyna að lækka greiðslubyrðina. Þess konar ráðgjöf vildi ég gjarnan sjá koma hægt og sígandi hjá tæknideild Húsnæðisstofnunar.

Eins og hér segir þarf tæknideildin að halda áfram því verki sem hún annast í dag, þ.e. veita umfangsmikla ráðgjöf á sviði byggingarmála, vera sveitarstjórnum og félagasamtökum, sem hyggja á byggingu félagslegra íbúða eða endurbætur á eldri íbúðum, til aðstoðar við undirbúning, útboð og samningagerð vegna slíkra framkvæmda eins og segir í 3. gr. brtt.

Þá kem ég að 4. gr. sem fjallar um stjórn Húsnæðisstofnunar. Þar teljum við eðlilegt að Alþingi kjósi sjö manna stjórn til fjögurra ára í senn eins og verið hefur. Hins vegar teljum við fráleitt að samtök hagsmunaaðila eigi fulltrúa í stjórninni eins og nú er. Mig minnir að það séu Vinnuveitendasambandið og Alþýðusambandið sem eigi þarna fulltrúa. Það skiptir ekki máli hvort það er eitt sambandið enn, ég man það ekki, en væntanlega leiðréttir þá hæstv. félmrh. mig. Húsnæðisstofnun er samkvæmt till. okkar gert að lána til ýmissa félagasamtaka og hagsmunahópa. Ég nefni t.d. Landssamband fatlaðra, Samtök aldraðra, samtök námsmanna og þannig mætti lengi telja. Ég mundi segja að annaðhvort eiga öll þessi hagsmunasamtök að fá fulltrúa sinn í húsnæðismálastjórn eða þá að ekkert þeirra á að hafa fulltrúa. Ég held að það yrði miklu einfaldara að láta Alþingi kjósa sjö manna stjórn og hafa enga aðra fulltrúa í stjórninni en hina þingkjörnu fulltrúa Alþingis.

Ég tel að stjórnin þurfi að fá svipaða stöðu varðandi stjórnun, þ.e. yfirstjórn Húsnæðisstofnunar, og bankaráðin hafa í sambandi við ríkisviðskiptabankana. Það gæti verið með svipuðum hætti.

Ég held að það þurfi ekki að fjalla um 5. gr. Hún er í sjálfu sér ekkert mikið frábrugðin því sem nú er, að félmrh. mundi skipa framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins og deildarstjóra banka- og tæknideildar að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar.

Síðan komum við að III. kaflanum sem fjallar um Byggingarsjóð ríkisins. Þar er höfuðbreytingin sú að við leggjum til að byggingarsjóðir ríkisins verði sameinaðir. Þar sem við höfum lagt til að Húsnæðisstofnun sjái einungis um félagslegar íbúðarbyggingar, þ.e. hún sjái aðeins um að veita lán til þeirra sem þurfa aðstoðar við og svo til þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð, er ástæðulaust að vera með tvo sjóði. Byggingarsjóður verkamanna hefur það hlutverk nú að annast lágtekjufólkið, það sem þarf aðstoðar við, og reyndar þá aðila sem við teljum upp í 9. gr. sem ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér því hún er kannski kjarninn í okkar till., en hún hljóðar svo:

„Úr Byggingarsjóði ríkisins er heimilt að veita lán til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði, til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á notuðu húsnæði, til útrýmingar á heiluspillandi húsnæði og til orkusparandi breytinga á húsnæði sem hér segir:

1. Íbúðir fyrir lágtekjufólk.“ Ég hef sett í sviga fyrir aftan „verkamannabústaðir“. Ég tel að það sé miklu heppilegra að tala um lágtekjufólk. Þetta er einfaldlega vegna þeirrar þjóðfélagsbreytingar sem hefur átt sér stað frá því að verkamannabústaðakerfið kom til sögunnar. Það kom fram í umræðum í báðum hv. deildum í síðustu viku þegar við vorum að ræða húsnæðismálin. Það var skemmtileg tilviljun, að úr báðum ræðustólum var vitnað í umræður á Alþingi sem fóru fram í maí 1929 þegar lögin um Byggingarsjóð verkamanna voru samþykkt. Þar kom fram, eins og ég minnist reyndar þegar forstjóri Húsnæðisstofnunar flutti mjög skemmtilegt og fróðlegt erindi á húsnæðismálaráðstefnu sem var haldin fyrr í haust, að hann kom einmitt inn á þetta sama efni og sagði á skemmtilegan hátt frá því þegar Jón Þorláksson og Jón Baldvinsson ræddu húsnæðismál í hv. Ed. fyrir tæpum 60 árum.

Hvað snertir fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins höfum við ekki verið neitt sérlega sniðugir. Við höfum ekki séð aðrar eða nýrri leiðir en eru í gömlu lögunum. Kannski hv. 14. þm. Reykv. hafi góðar hugmyndir fram að færa með hvaða hætti mætti fjármagna Byggingarsjóð ríkisins. Staðreyndin er sú að eins og við leggjum til kemur allt fjármagn til Byggingarsjóðs ríkisins frá ríkinu sjálfu. Við leggjum þó til og það er reyndar ákvæði um viðbótarfjármagn sem er inni varðandi báða sjóðina eins og segir í 6. gr., tölul. 5: „Með sölu skuldabréfa og sérstökum lántökum, sem eru ákveðnar í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisins ár hvert, þegar ráðstöfunarfé sjóðsins skv. liðum 1–4 nægir ekki til þess að standa undir þeim útlánum sem sjóðurinn er skuldbundinn til þess að veita.

Í sjálfu sér er hér ekki um neinar nýjungar að ræða varðandi fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins, þessa sameinaða sjóðs, og má vel vera að sumir segi: Ja, það verður sama vandræðaástandið áfram með fé til útlána. Sjóðurinn verður jafnblankur og hann hefur alltaf verið. — Hins vegar vonumst við til þess að með því að skera þann hluta umsækjenda sem sjóðurinn þarf að sinna niður í 40% af heildinni ætti að vera auðveldara fyrir sjóðinn að sinna útlánum til þessa takmarkaða hóps.

Ég fer kannski fram og aftur í þessum greinum, en það gerir ekki svo mikið til. Þetta er allt vel þekkt. Mig langar aðeins til að fara hérna í 8. gr. þar sem segir að á vegum tæknideildar skuli fara fram mat á fasteignum og veðhæfni þeirra áður en lánveiting getur farið fram. Þetta er út af fyrir sig ekkert frábrugðið því sem gerist í dag. Ég ætla þó, og það er sérstaklega talað um þetta í frv. um húsnæðislánastofnanir og húsbanka, og ég legg mikla áherslu á það að matsverð fasteignar verði ákveðið af stofnuninni sjálfri, að hún sæki ekki einhverjar fastar upplýsingar um fasteignamat hjá einhverri annarri ríkisstofnun og láni eftir því. Það er alls staðar þar sem ég þekki til lánastofnunin sjálf sem ákveður hvert er matsverð fasteignar, hver er veðhæfni fasteignar, hvernig hún getur lánað út á viðkomandi fasteign eftir að starfsmenn lánastofnunar hafa farið á staðinn og kynnt sér fasteignina og skoðað ástand hennar.

Ég held að 2. mgr. 8. gr. sé nauðsynleg á Íslandi vegna þess ástands sem víða ríkir úti á landi þar sem fasteignir hafa miklu lægra, hvað eigum við að segja, söluverð á frjálsum markaði en fasteignir t.d. á þéttbýlissvæðinu. Það verður að taka tillit til þessa með einhverjum hætti. Ég hef hugsað mér að þar sem matsverð fasteigna úti á landi er verulega lægra en meðaltalsmatsverð hliðstæðra fasteigna yfir allt landið ætti stjórn Húsnæðisstofnunar að vera heimilt að hækka mörk sem gilda um veðhæfni skv. 10. gr.

Þá tel ég að á vegum tæknideildar, eins og segir í 3. mgr. 8. gr., skuli fara fram ítarleg athugun a tæknilegum forsendum og fyrirkomulagi bygginga sem sótt er um lán til, bæði hvað varðar hagkvæmni, byggingarskipulags- og hönnunarforsendur, byggingarkostnað o.fl. Ég tel alveg sjálfsagt, þegar um er að ræða að það er verið að veita ríkislán með niðurgreiddum vöxtum, að það sé alveg á hreinu að þeir umsækjendur og þær íbúðir eða þær byggingar sem þeir hyggjast taka lán til verði að fullnægja þeim skilyrðum sem tæknideild setur um bæði skipulagsog hönnunarforsendur, byggingarkostnað með fleiru og það skuli liggja fyrir jákvæð umsögn tæknideildar áður en lánveiting er ákveðin.

Ég get nú farið hraðar yfir sögu. Í 10. gr. er búið að safna saman hvert skuli vera lánshlutfall hinna mismunandi fasteigna eftir því hver sé notkun þeirra. Þetta er ekkert nema allsherjar hreingerning á eldri lögum þar sem þeir hafa tjáð mér, starfsmenn Húsnæðisstofnunar, að það sé nánast óvinnandi eftir gildandi lögum. Þeir þurfa að hlaupa fram og aftur í lögunum til að leita að því hvað megi lána hátt hlutfall af matsverði hinna mismunandi fasteigna allt eftir því hvaða hópa er verið að tala um. Hér er þetta fram sett á einfaldan hátt í einni grein.

Það er út af fyrir sig lítið um þessa grein að segja. Hún skýrir sig að verulegu leyti sjálf. Ég hef þó bætt þarna inn í 9. tölul. að það sé rétt að setja ákveðið lágmark þannig að menn séu ekki að sækja um lán að upphæð minna en 100 þús. kr. sem síðan fylgi byggingarvísitölu. Þó teljum við eðlilegt, ef um ellilífeyrisþega er að ræða eða fólk sem nýtur örorkubóta, að víkja megi frá bæði ákvæðum 8. og 9. gr. Í 8. gr. er talað um lán til viðhalds, breytinga eða endurbóta á húsnæði og þar er sett fram það skilyrði að lánið megi ekki vera hærra en nemur hinum raunverulega kostnaði vegna breytinganna sem að mati Húsnæðisstofnunar telst vera sanngjarnt. Taka má tillit til eigin vinnu háð samþykki Húsnæðisstofnunar.

Í 11. gr. er ákvæði þess efnis að lán sem eru veitt til íbúðarhúsnæðis skv. 9. gr. séu háð því skilyrði að stærð íbúða verði takmörkuð miðað við fjölskyldustærð og félagslegar aðstæður umsækjenda. Ég held að menn verði að sætta sig við að þeir sem fá ríkislán með niðurgreiddum vöxtum verða að sníða sér stakk eftir vexti. Það er ekki heppilegt kerfi. Reyndar hefur það verið svo undanfarin ár að það hefur verið ýmist úr eða í. Stundum hafa menn fengið lán til hvaða bygginga sem vera skal. Ég var svo heppinn sjálfur, þegar ég var að byggja stórt hús úti á Seltjarnarnesi fyrir allmörgum árum, að lánareglum Húsnæðisstofnunar ríkisins var breytt þannig að ég gat fengið lán. Um ári eftir að ég flutti inn var aftur skellt á þessu ákvæði og mér skilst að það hafi verið allar götur síðan þannig. — Nei, það breyttist reyndar, en fljótlega á eftir var ekki lengur hægt að fá lán til svo stórra bygginga. Þannig hefur þetta verið ýmist úr og í. En ég tel að það sé alveg sjálfsagt og eðlilegt, þegar um er að ræða ríkislán með niðurgreiddum vöxtum, að setja verði stærðarmörk á íbúðir.

Þá vek ég sérstaka athygli á 12. gr., en ég tel að það sé mjög mikið nýmæli sem hún beri með sér. Það er að ég tala þar um sérstök framkvæmdalán. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt að veita framkvæmdalán. Hins vegar hefur það verið með þeim hætti að Húsnæðisstofnun hefur einungis veitt viðurkenndum aðilum í byggingariðnaði framkvæmdalán. En ég legg hér til að allir þeir sem eiga rétt á lánum hjá stofnuninni geti fengið framkvæmdalán. Það mundi valda byltingu í íbúðarhúsabyggingum ef umsækjendur gætu fengið framkvæmdalán, annaðhvort til að byggja eða kaupa íbúð sem væri í byggingu. Það gæti þá gengið í gegnum byggingarverktakann ef umsækjandi ætlaði að kaupa sér íbúð, en ef umsækjandi væri að byggja sér litla íbúð gæti hann fengið framkvæmdalán sjálfur sem væri allt að 75% af áætluðu veðláni skv. 9. gr. Síðan eru ákvæði um að strax og matsverð byggingar er orðið nægjanlegt til þess að það megi veita endanlegt veðlán skal það tekið og notað til að greiða framkvæmdalánið upp. Við teljum að til þess að fá slíkt framkvæmdalán þurfi fyrir það fyrsta að gera framkvæmdalánasamning við Húsnæðisstofnun, þ.e. lánsumsækjandi geri sérstakan framkvæmdalánasamning við Húsnæðisstofnun, og síðan verður hann að leggja fram bankatryggingar eða aðrar jafngildar tryggingar.

Þá kem ég að 13. gr. sem fjallar um lánskjörin. Í raun og veru væri eðlilegt að taka heilan dag í að ræða þessa grein. Ég mundi eindregið leggja það til, jafnvel það að við ættum að eyða í það heilum degi, með þeim knappa tíma sem við höfum fram til jóla, að ræða um lánskjör því það eru ekki einungis lánskjör húsnæðislána sem hér eru í húfi heldur lánskjör almennt í þjóðfélaginu. Það er að mínum dómi löngu orðið tímabært að taka eina langa umræðu um lánskjör á Íslandi, vexti og lánskjör og lánskjaravísitöluna fyrst og fremst sem ég er alveg sannfærður um að er einhver mesti bölvaldur sem við höfum innleitt í þetta þjóðfélag okkar.

Við höfum fyrir það fyrsta hreinsað alls staðar út úr gömlu lögunum þar sem kemur fyrir orðið „lánskjaravísitala“. Í staðinn segjum við einfaldlega:

„Heimilt er að verðtryggja lán úr Byggingarsjóði ríkisins skv. 9. og 12. gr. þessara laga með því að stjórna vöxtum, afborgunum og höfuðstól lánsins á hverjum tíma miðað við verðlagsþróun.“

Þetta er heimildarákvæði sem við leggjum til að komi í staðinn. Við höfum í grg. með frv. til l. um húsnæðislánastofnanir og húsbanka skýrt frá ýmsum leiðum til að verðtryggja lán á þann hátt að það leggi ekki fjölskylduhag og sálarheilsu lántakanna í rúst eins og er að gerast á þessum árum.

Við höfum bent á eitt lánsform sem gæti vel komið í staðinn fyrir lánskjaravísitölulánin. Það eru svokölluð vaxtaaðlögunarlán þar sem vextir og sölugengi veðskuldabréfs eru ákveðin fyrir fram og bundin til fárra ára í senn. Þessi lán ryðja sér mjög til rúms á erlendum lánamörkuðum. Þau virka með þeim hætti að lántakandi fær t.d. 30 ára veðlán. Hann semur um fasta vexti e.t.v. til fimm ára í senn. Hann getur valið um að semja um t.d. 4% vexti, 5% vexti, 6% vexti eða 7% vexti. Ég hef í grg. með frv. um húsnæðislánastofnanir sýnt lánstilboð dönsku húsnæðislánastofnunarinnar, Kreditforeningen Danmark, á lánamarkaði í Frankfurt 20. okt. 1987. Þar mundi lántakandi, sem tekur húsnæðislán til 30 ára og ákveður að binda vexti 7% í fimm ár, geta selt skuldabréfið á yfirverði. Hann fær sölugengi 100,79 vegna þess að hann velur sér svo háa vexti. Ef hann hins vegar hefði valið vextina 4,5% hefði sölugengið verið 90,71 fyrir skuldabréfið. Hann getur þarna valið hvaða vexti hann bindur til fimm ára og eftir því fer sölugengi skuldabréfsins. Síðan líða fimm ár og á þessum fimm árum borgar hann af láninu miðað við 30 ára lánstíma. Að fimm árum liðnum kemur hann aftur til húsnæðislánastofnunarinnar og nú er á nýjan leik samið um vexti til næstu fimm ára og gefið út nýtt skuldabréf. Sölugengi þess fer nú eftir verðlagsástandinu á þeim tíma. Og þannig koll af kolli þannig að lánið er alltaf stillt af með vissu millibili.

Á Íslandi, þar sem verðlagsþróun og peningamarkaður er kannski viðkvæmari, vakrari en í nágrannalöndunum, gætum við haft þennan aðlögunartíma skemmri, við gætum t.d. stillt lánið af á þriggja ára fresti þannig að vextir og sölugengi skuldabréfs yrðu aðlöguð á þriggja ára fresti. Það sem vinnst við þetta lánsform er að höfuðstóllinn þvingast niður. Það verður vart við að borgað sé af láninu, ekki eins og í lánskjaravísitölukerfinu að þegar búið er að borga af láninu í ein tíu ár er skuldin helmingi meiri en var í upphafi þó það megi með reikningslegum kúnstum sýna fram á að raungildi höfuðstólsins sé minna en upphaflega var tekinn að láni. En það hjálpar lítið upp á sálarheill manns sem sér skuldina vaða upp alveg sama hvað hann borgar af henni. Og þó ekki sé annað tel ég að lánskjaravísitölulánin hafi fyrst og fremst slæm sálfræðileg áhrif á fólk sem tekur slík lán. Það fyllist vonleysi þegar það fær rukkunina frá bönkunum og sér að það skuldar orðið margfalt meira en það gerði þegar það tók lánið og skuldin fer síhækkandi. Ég held að þessi sálfræðilegu áhrif séu geysilega þýðingarmikil og við verðum að breyta þessum lánum.

Ég hef bent á annað lánsform sem er tekið eftir amerískum fyrirmyndum. Það er þar sem sett er á greiðslumark með afkomutryggingu. Það er hugsað þannig að samið er fyrir fram um hámarksgreiðslubyrði eftir gjaldþoli lántakanda. Það væri mjög æskilegt að gera hér á Íslandi, þ.e. að athugað sé í byrjun lánstímans hvað lántakandinn getur raunverulega borgað. Hæstv. félmrh. getur væntanlega frætt okkur um það, en mér kæmi ekki á óvart að húsnæðislánin skv. núgildandi lögum séu komin langleiðina í 3 millj. þegar loksins verður farið að leysa úr stíflunni. Það segir sig sjálft að í því ástandi sem við búum við núna, við skulum segja að verðbólgan verði eitthvað á bilinu 20% , hún verður varla mikið minni, eru verðbæturnar á slíku láni á einu ári 600 þús. og síðan koma 10% vextir sem gera þá önnur 300 þús. Það þýðir að lánið kostar 1 millj. kr. á ári. Ég spyr: Hverjir hafa efni á að taka slík lán? Það getur vel verið að með því að fá lánið til 100 ára eða lengur, þannig að næstu afkomendur tækju að sér að halda áfram að borga af lánunum, megi komast út úr þessu, en ég býð ekki í það vesalings fólk sem þarf að taka 3 millj. kr. að láni á fullri lánskjaravísitölu jafnvel þótt það sé með mjög lágum vöxtum, ekki nema 3,5%, í þeirri verðbólgu sem hér er fyrirsjáanlegt að verði.

Þess vegna held ég að það væri mjög skynsamlegt nú þegar að huga að því að setja greiðslumark á lán með afkomutryggingu þannig að það sé samið um hámarksgreiðslubyrði eftir gjaldþoli lántakanda. Greiðslumarkið fylgi síðan verðlagsþróun, ef um er að ræða verðtryggð lán hlýtur svo að verða, en þá er gert ráð fyrir því að verði lántakandi fyrir slysi, eigi við að stríða tímabundið atvinnuleysi, veikindi eða annað sem hefur skert tekjur hans án þess að hann fái við ráðið, taki afkomutryggingin að sér að greiða þann mismun sem er á skertu gjaldþoli lántakandans og greiðslumarkinu. Þetta hefur farið fram með þeim hætti hjá Bandaríkjamönnum að ef tekið er veðlán til 20 ára skapar það ákveðna greiðslubyrði. Ef lánstíminn væri lengdur til 30 ára ætti greiðslubyrðin að minnka. En þeir láta greiðslubyrðina haldast óbreytta og láta mismuninn borga afkomutrygginguna.

Ég hef í 14. gr. rétt aðeins farið inn á lánsformið sjálft. Í gildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er aðeins talað um annuitets-lán, svokölluð jafngreiðslulán þar sem afborganir og grunnvextir ásamt framlagi til rekstrar eru jafnstórar upphæðir allan lánstímann ef um enga verðbólgu væri að ræða. Það er einnig til annað lánsform. Þá er talað um raðlán þar sem er um að ræða jafnar afborganir. Þá er höfuðstól lánsins skipt niður í 30 jafnar afborganir ef um 30 ára lán væri að ræða og er greitt einu sinni á ári af láninu en vextir og framlag til rekstrar reiknast af höfuðstól lánsins á hverjum tíma. Þannig yrði greiðslubyrðin mest í upphafi en færi síðan minnkandi. Víða erlendis er farið að taka upp svokölluð blönduð lán þar sem þessum tveimur lánsformum er blandað saman til að fá heppilega greiðslubyrði fyrir lántakandann og líka kannski heppilega endurgreiðslu fyrir lánastofnunina þannig að hún fái höfuðstólinn til baka eilítið hraðar en með jafngreiðslulánunum.

Ég held að við þurfum ekki að eyða miklum tíma í lánstíma og skilmála. Ég hef sett upp í einni grein hver skuli vera lánstíminn. Hann tekur mjög mið af eldri lögum. Þarna er á skipulegan og einfaldan hátt stillt upp hver skuli vera lánstíminn fyrir hinar mismunandi byggingar og fyrir hina mismunandi hópa. Ég held að þurfi ekki að eyða tíma í það.

Ég hef töluvert fjallað um stöðu tæknideildar og þá ráðgjafarþjónustu sem hún hefur veitt. Ég hef í 16. gr. hnykkt enn þá frekar á henni. Ég held að ráðgjafarþjónustan, sem Húsnæðisstofnun hefur veitt lántakendum og sem hefur sérstaklega á síðustu árum verið í sambandi við greiðsluerfiðleika hinna ýmsu lántakenda, sé mjög merkileg og mikilvæg þjónusta og sjálfsagt að efla hana og jafnvel auka hana.

Þá komum við að gamla verkamannabústaðakerfinu sem ég vil kalla íbúðir fyrir lágtekjufólk og leiguíbúðir sveitarfélaga. Þar hef ég gert veigamikla breytingu á örfáum atriðum, en það er fyrst og fremst með hvaða hætti skuli stjórna þessum íbúðum. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir stjórn verkamannabústaða sem skuli skipuð í hverju sveitarfélagi. Það hefur víða úti á landi gengið ákaflega illa að fá stjórnir verkamannabústaða til að starfa með eðlilegum hætti. Það stafar af því að það eru engin ákvæði í gildandi lögum um að þær skuli vera launaðar. Í stærri sveitarfélögunum fá þessar stjórnir greidda einhverja þóknun þannig að þar gengur eitthvað skár. En ég tel að það sé alveg sjálfsagt að það sé kveðið á um það í lögunum að þessum stjórnum beri þóknun fyrir störf sín. Ég hef kosið að kalla þetta húsnæðisnefndir og hef tekið mið af byggingarnefndum sveitarfélaga. Ég mundi segja að húsnæðisnefndin ætti að fá svipaða stöðu í sveitarstjórnarkerfinu þannig að það væri fastanefnd í hverju sveitarfélagi sem héti húsnæðisnefnd. Hún er skilgreind í þessu frv. á svipaðan hátt og byggingarnefndir sem eru skilgreindar í byggingarlögum og hafa þess vegna sérstaka stöðu í sveitarstjórnarkerfinu umfram aðrar nefndir sveitarfélaga. En hér væri þá komin önnur slík, húsnæðisnefnd sveitarfélaga. Ég tel að eigi að bæta við verkefni hjá húsnæðisnefndum, en mér þykir eðlilegt og sjálfsagt að þær sjái um leiguíbúðir sveitarfélaga. Það er ekki samkvæmt gildandi lögum. Stjórnir verkamannabústaða skv. gildandi lögum sjá einungis um að láta byggja verkamannabústaði og fara með umsóknir um íbúðir og úthluta íbúðum í verkamannabústaðakerfinu. Í sveitarfélagi, sem hefur látið byggja leiguíbúðir, annast hins vegar sveitarstjórnin eða sveitarstjórinn í viðkomandi sveitarfélagi úthlutun leiguhúsnæðis. Ég tel alveg sjálfsagt að bæði þessi verkefni séu sett undir húsnæðisnefndina, að hún annist leiguíbúðirnar á sama hátt.

Ja, ég bauð upp á það, hæstv. forseti, að við gætum frestað þessari umræðu. Ég verð að fá að gera grein fyrir till. mínum þó það taki einhvern tíma. En ég lýsti því yfir á fundi okkar fyrr í dag að við hefðum ekki áhuga á að vera með langan fund. Það er náttúrlega að því tilskildu að við fáum að ræða málið. Við getum ekki tekið það á okkur að bara til þess að klára þetta mál núna í kvöld hættum við að ræða það. Við verðum að fá okkar tíma til að ræða þetta mál. Það er fyrst núna komið í Ed. og það er ekki við okkur að sakast. Við höfum ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins í hv. Nd. En ég tel óhjákvæmilegt að við, a.m.k. fulltrúar stjórnarandstöðunnar, fáum tækifæri til að ræða þessi mál.

(Forseti: Að gefnu tilefni vil ég upplýsa að það var meiningin að fundur yrði hér til hálfátta. Ég hafði talið að ræðumaður væri að ljúka máli sínu. Þess vegna frestaði ég að slíta fundi. En ég er tilbúinn til að fresta fundi nú og síðan verði haldið áfram á morgun að ræða málið ef ræðumaður vildi þá vera svo góður að stansa núna.) Já.