20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til viðbótar. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn tali hreina íslensku um þetta mál. (EKJ: Ég gerði það.) Já, rétt hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð. Það er í mínum huga enginn vafi á því að hér er settur yfirdýralæknir að reyna að knésetja þetta fólk við Arnarfjörð. Knésetja það vegna hvers? Vegna þess að það vildi ekki dansa á hans nótum á sínum tíma, eftir hans ráðleggingum. Það er mergurinn málsins. Telja þm. það eðlilegan gang að á annan mánuð er liðið frá því að það er beðið um leyfi? Getur það virkilega verið svo að vinnubrögðin í ráðuneytinu eða hjá yfirdýralækni séu með þessum hætti?

Menn segja hér: Það er ekki hægt að knýja viðkomandi ráðherra til að sniðganga lög. Það er enginn að tala um slíkt. Hv. þm. Albert Guðmundsson sagði áðan að hæstv. landbrh. hefði afskaplega lítil völd. Vel má vera að hann hafi lítil völd. En það þarf enginn að segja mér það að hann hafi ekki vald til að senda dýralækni, þó það væri héðan úr Reykjavík, vestur á Bíldudal ef hann vildi. Það er ekki að ganga á snið við lög. Það er vald sem hann hefur. Ef menn vilja leysa þetta mál er það hægt. En ef menn vilja halda áfram eyðingu byggða, eins og verið hefur að gerast og virðist eiga að gera í áframhaldi, geta menn haldið þessa leið. Ég vil helst ekki að þessari umræðu ljúki án þess að Arnfirðingar fái vitneskju um það: Ætlar landbrh. að hengja haus áfram og gera ekki neitt eða ætlar hann að taka af skarið og segja til um hvort þeir fá sláturleyfi eða ekki? Eða eiga þeir að bíða í annan mánuð eftir að fá það?

Þetta eru spurningar sem brenna á fólki vestra, spurningar sem verður að krefja ráðherra svara við. Hann getur svarað því ef hann vill. Við óskum eftir því að fá svör við þessum spurningum, ákveðin svör.