20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef oft spurt um það hver sé munurinn á því að slátra í þessu húsi núna á þessu hausti eða var í fyrra þegar slátrað var meira en hálfu sjöunda þúsundi fjár. Ekkert svar. Ég tel að landbrh. hafi rétt til að veita slíkt leyfi. Þegar Pálmi Jónsson var landbrh. veitti hann slíkt leyfi þvert ofan í ummæli yfirdýralæknis sem lét sér það lynda og slátrun fór fram á því hausti. Það vefengdi enginn rétt landbrh. þá og það mun enginn vefengja rétt núv. hæstv. landbrh. til þess. Ég skal greiða atkvæði með traustsyfirlýsingu á hann á eftir ef hann gerir það en ég dreg það mjög í efa að ég geti treyst honum ef hann lætur þessa dýralæknismafíu ráða ríkjum eins og nú virðist vera.

Vill hæstv. landbrh. fá frekari heimild? Eigum við þá ekki bara að flytja hér frv. til l. um það að Sláturfélagi Arnfirðinga sé heimiluð slátrun í sláturhúsi sínu haustið 1987 ef yfirstjórn landbúnaðarmála treystir sér ekki fyrir yfirdýralækni að framkvæma það? Hvað segir hæstv. landbrh. um það? Vill hann styðja slíkt frv. og getum við náð samkomulagi um það við forseta deildanna að slíkt frv. fari í gegn?

Ég þakka þeim þm. utan Vestfjarða sem hafa talað hér fyrir þann stuðning sem þeir hafa sýnt í þessu réttlætismáli. Ég vil líka taka fram, hæstv. landbrh., að í sláturhúsinu á Patreksfirði hefur enginn dýralæknir verið í haust. Það er enginn héraðsdýralæknir á Vestfjörðum. Hann er í Stykkishólmi og kemur þar ekki neitt og sér ekkert um það. Hins vegar er ófaglærður maður sem fer með kjötskoðun þar, sennilega ágætur maður. Það eru til margir ágætir menn sem hafa ekkert síður vit á kjöti en sprenglærðir dýralæknar. Og þeir eru líka til á Bíldudal, hæstv. landbrh.

Ég veit að hæstv. landbrh. hefur gjarnan viljað gera betur en gert hefur verið, en þar hefur verið meiningarmunur. Hann telur sig ekkert geta gert fyrir ofríki dýralækna. Ég tel — og fjölmargir þm. hafa tekið undir það hér — að valdið sé í höndum landbrh. Og ég spyr: Vill ekki hæstv. landbrh. heldur fara eftir samhljóða áliti allra þeirra þm. sem hér hafa talað í þessu máli — og þeir eru miklu fleiri, maður hefur heyrt í fleiri þm. — að fara frekar eftir þeim og veita slíkt leyfi?

Hér er komið í óefni. Það er kominn 20. október. Það er búið að ljúka slátrun víðast hvar á landinu eða alls staðar, en þarna gengur fé úti. Verður kannski gripið til svipaðrar ráðstöfunar og gert var fyrir nokkrum árum vegna riðuveiki í þessari sýslu að landhelgisflugvélin fór til þess að skjóta skepnurnar á fæti?