15.12.1987
Neðri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Fram hafa komið réttmætar ábendingar um að þetta mál þarfnist betri kynningar. Í tilefni af þeim orðum og þeim tilmælum sem beint hefur verið til mín skal það tekið fram að ég mun beita mér sérstaklega fyrir því í samráði við ríkisskattstjóraembættið að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til þess að ná samkomulagi við sérstaklega sjónvarpsstöðvar og/eða aðra fjölmiðla til þess að koma haldgóðum, réttum og einföldum upplýsingum á framfæri við allan almenning í tæka tíð.

Upplýsingaátak um þetta mál hefur að vísu lengi verið í undirbúningi en því hefur greinilega seinkað mjög. Á ráðstefnu sem skattstjórar landsins héldu í seinni hluta júlímánaðar að ég hygg norður á Akureyri var því lýst hvernig það mál hefði verið undirbúið og hvernig það hefði verið tímasett, samningar gerðir við sérstaka auglýsingastofu um að annast þetta. Niðurstaðan af því starfi er t.d. kynningarbæklingur sem dreift hefur verið í hvert hús og auglýsingar í dagblöðum, en bæði er að þessi kynningarherferð fór seinna af stað en þá var ráð fyrir gert, og annað, að réttar endanlegar upplýsingar voru síðbúnari en gert var ráð fyrir. Vafalaust hefur þetta tafið málið. En ég tek undir með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað að það er full nauðsyn á að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bæta þessa kynningu. Ég mun ekki hér úr ræðustól ætla mér þá dul að kveða upp neinn úrskurð um það hvort upplýsingar, sem birst hafa í dagblöðum, með tilteknum dæmum og einstaklingum, eru réttar upplýsingar. En undir þetta meginatriði, að bæta kynninguna sérstaklega nú þessa dagana og eins fram eftir nýju ári, undir það tek ég heils hugar og mun gera það sem í mínu valdi stendur til þess að tryggja það.