15.12.1987
Neðri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Mig langar af þessu tilefni til að taka undir það sem hér hefur verið sagt um aukna kynningu á þessu stóra máli. Og að gefnu tilefni, kannski ekki síst vegna þeirrar umræðu við atkvæðagreiðslu sem hér fór fram í dag, leyfi ég mér að benda hæstv. fjmrh. á að svona kynning og auglýsing er náttúrlega sjálfsögð og eðlileg bæði í útvarpi og sjónvarpi og í dagblöðum kannski líka. Og að gefnu tilefni vil ég minna á að það eru fleiri en tvö dagblöð til í landinu og ef á annað borð á að auglýsa eitthvað frá ríkinu í dagblöðum þá tel ég að þar eigi að láta eitt yfir þau öll ganga því að það vita þeir sem þekkja til að það er ekki síður styrkur við dagblöðin að fá auglýsingar frá ríkinu heldur en eitthvað annað. Í þessu tilfelli er kannski ekki verið að útdeila þessu sem styrk heldur að gefa öllum landsmönnum tækifæri á að sjá það sem á annað borð á að birtast í dagblöðum. Og hversu einkennilegt sem það er nú þá er staðreyndin sú að það kaupa ekki allir landsmenn annaðhvort Morgunblaðið eða DV. Þetta segi ég m.a. út af ríkisskuldabréfum sem auglýst voru lengi á síðum ákveðinna dagblaða mun meira en á öðrum. Það virtist eins og sumum Íslendingum væri ætlað að kaupa meiri hlut eða a.m.k. þyrfti að auglýsa það meira fyrir þeim sem keyptu ákveðin blöð en minna fyrir hinum. Jafnframt má benda m.a. á auglýsingar sem hafa verið að birtast undanfarið um brunavarnaátak sem þótti ekki ástæða til að birta öðrum landsmönnum en einungis lesendum Morgunblaðsins.

Í þessu tilfelli er það kannski ekki fjöldi auglýsinganna sem skiptir mestu heldur miklu frekar að auglýsingin sé skýr og þá í leiðbeiningaformi þannig að menn geti átt hana. Ég ítreka að það er mjög nauðsynlegt að ef auglýsingin á annað borð á að birtast í dagblöðum þá sé eitt látið ganga yfir þau öll.