15.12.1987
Neðri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

206. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorð við þessa umræðu. Það tíðkast nú hinar stuttu ræður, jafnvel um stórmál eins og þetta. Ég kalla það stutta ræðu hjá hv. síðasta ræðumanni þótt hann talaði í 15 mínútur. Enda munu hv. þm. vera orðnir nokkuð þreyttir og máttlitlir eftir erfiða og jafnvel taugaveiklunarkennda atkvæðagreiðslu hér í dag.

Um þetta frv. má kannski segja svipað og um suma liði fjárlagafrv. sem menn voru að samþykkja með semingi hér fyrr í dag. Með semingi vegna þess að þeir vildu gjarnan hafa upphæðirnar hærri. Það er auðvitað ekkert leyndarmál að við kvennalistakonur teljum að fyrirtæki í landinu séu aflögufærari, miklu aflögufærari en ráð er fyrir gert í fjárlagafrv. og staðfest er í því frv. sem hér er til umræðu. Maður hlýtur að bera saman þær gífurlegu alögur sem almenningi er ætlað að taka á sig með breikkun söluskattsstofnsins og þessa hækkunarörðu sem lögð er á fyrirtæki með þessu frv. Menn skyldu taka eftir því að hæstv. ríkisstjórn telur ástæðu til þess í sambandi við þær breytingar sem er verið að leggja til í álögum á fyrirtæki að lækka skattbyrði á fyrirtæki, sem annars hefði orðið, um 187 millj. kr. Það er reyndar rúmlega sú tala sem tónlistarfræðsla mundi kosta á næsta ári væri henni sinnt að fullu í samræmi við núgildandi lög. Margs konar annan samanburð mætti auðvitað gera. Að mínu mati er þetta hrein móðgun við stöndug fyrirtæki því séu þau vel rekin hljóta stjórnendur að vilja láta skoða sig sem fulltrúa hinna breiðu baka sem hafi þá vel efni á því að standa undir framlögum til ýmissa góðra mála.

Herra forseti. Ég hef ekki fleiri orð um frv. á þessu stigi. En hv. þm. má vera ljóst að við kvennalistakonur erum þess fúsar að leyfa fyrirtækjunum að greiða meira til samneyslunnar í landinu en ætlunin er að leggja til með þessu frv. En hæstv. fjmrh. ef hann væri hér nærstaddur. Mig langaði bara til að spyrja í fullri alvöru hvers vegna þetta frv., sem virðist nú tiltölulega einfalt í sniðum, hafi komið svo seint fram.