16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Júlíus Sólnes (frh.):

Hæstv. forseti. Ég held þá áfram ræðu minni frá því í gær. Áður en ég hef mál mitt vil ég þó gera nokkrar athugasemdir við fréttaflutning af umræðum um húsnæðismál sem fóru fram í hv. Ed. í gær. Það er látið að því liggja að við þm. Borgarafl. séum með málþóf. Ég vil nota þetta tækifæri í ræðustól og mótmæla harðlega slíkum ásökunum. Við erum að ræða hér mjög veigamikið og mikilvægt mál sem snertir alla þjóðina. Það er alveg fráleitt að það skuli ætlast til þess að það fari engar umræður fram um svo veigamikið mál. Að það sé nánast afgreitt án þess að þm. láti nokkuð í ljós skoðun sína á þessu máli. Ég hefði getað haldið þriggja klukkutíma ræðu um húsnæðismál almennt við 1. umr. ef ég hefði talið að við hefðum nægan tíma til að ræða málin. Síðan hefði ég getað haldið tveggja tíma ræðu við 2. umr. þar sem ég hefði gert ítarlega grein fyrir tillögum okkar í húsnæðismálum. Til þess nú að flýta fyrir þessu máli eins og framast er unnt kaus ég að gera strax grein fyrir tillögum okkar í húsnæðismálum og falla frá því að fjalla almennt um húsnæðismál í mjög langri ræðu sem ég tel þó að ég hefði haft fyllilegan rétt á að gera. Þannig sparast mjög mikill tími með því að þegar ég hef lokið máli mínu hér á eftir höfum við nánast lýst hugmyndum okkar í húsnæðismálum og þurfum þá ekki í framhaldi að gera nema tiltölulega stuttar athugasemdir eða svara ef til okkar verður beint fyrirspurnum.

Ég var kominn þar að í gær að ég var að fjalla um íbúðir fyrir lágtekjufólk og leiguíbúðir sveitarfélaga og ég lýsti því að í till. okkar gerum við ráð fyrir að þessi málaflokkur verði undir miklu styrkari stjórn. Það verði settar á laggirnar svokallaðar húsnæðisnefndir sem fái miklu víðtækara umboð en núverandi stjórnir verkamannabústaða. M.a. var sú breyting af okkar hálfu lögð til að húsnæðisnefndirnar taki líka að sér að stjórna leiguhúsnæði sveitarfélaga.

Að öðru leyti höfum við ekki gert miklar efnislegar breytingar á þeim kafla laganna sem fjallar um verkamannabústaði. Við höfum ekki talið það rétt á þessu stigi málsins þó að margt mætti þar betur fara. Enn fremur eru engar efnislegar breytingar gerðar á. kafla í núgildandi lögum sem fjallar um forkaupsrétt sveitarfélaga á íbúðum byggðum samkvæmt lögum fyrir gildistöku laga nr. 51/1980. Við höfum heldur ekki talið eðlilegt að gera miklar breytingar á. þessum kafla að öðru leyti en því að við höfum aðeins lagað orðalag og við höfum að sjálfsögðu alls staðar fellt í burtu hugtakið „lánskjaravísitala“. Við teljum að einhver mesta hreingerning á þessum lögum sé í því fólgin að fella algjörlega burtu hugtakið „lánskjaravísitölu“ úr lögunum hvar sem það kemur fyrir. Er það í samræmi við þær tillögur sem við flytjum með þessum brtt. að reyna að finna aðrar leiðir í lánamálum, reyna að koma okkur út úr myrkviðum lánskjaravísitölunnar svo ég noti það hugtak.

Síðan kemur hér að síðasta kafla í brtt. okkar. Það er kaflinn um skyldusparnað ungs fólks til íbúðabygginga. Í þeim kafla eins og hann er í gildandi lögum höfum við ýmislegt við ákvæði lagagreinanna að athuga, enda hefur reynsla manna af skyldusparnaði ungs fólks verið allt önnur en góð öll þau ár sem þessi ákvæði hafa verið í gildi. Ungt fólk hefur á ýmsan hátt verið hlunnfarið með þessum skyldusparnaði. Lengi vel gekk erfiðlega að það fengi vexti af innistæðum sínum og enn þann dag í dag má það þola að fá miklu lakari vexti af sparifé sínu hjá Byggingarsjóði ríkisins en það gæti fengið ef það legði fyrir fé á annan hátt, ef það reyndi að notfæra sér þá háu vexti sem nú eru á peningamörkuðum landsins.

Þess vegna höfum við lagt til grundvallarbreytingu á því með hvaða hætti ungt fólk getur ávaxtað sparifé sitt sem það leggur inn til Byggingarsjóðs ríkisins. Í 34. gr. í brtt. okkar segjum við, með leyfi hæstv. forseta:

„Fé, sem safnast vegna skyldusparnaðar ungs fólks í innlánsdeild Byggingarsjóðs ríkisins, skal notað til að byggja leigu- og eignaríbúðir fyrir ungt fólk sem þess óskar, sbr. 35. gr. Skal húsnæðismálastjórn leita eftir samstarfi við þá aðila sem hafa rétt til lána skv. 9. gr., um byggingu slíkra íbúða. Ungt fólk, sem greiðir til skyldusparnaðar, hefur forgang, að þessum íbúðum.“

Hér erum við að reyna að koma til móts við gífurlega íbúðaþörf ungs fólks. Það hefur orðið sú grundvallarbreyting á húsnæðismálum landsmanna á undanförnum kannski 5–10 árum að leiguhúsnæði er nánast ekki til í landinu. Ungt fólk á ákaflega erfitt með að finna litlar leiguíbúðir við sitt hæfi, sérstaklega þó námsfólk sem ekki er undir það búið að festa kaup á eignaríbúðum og er háð því að geta fundið hentugar leiguíbúðir sem það ræður við að greiða.

Hér á árum áður var mjög algengt að fólk ávaxtaði fé sitt í íbúðarhúsnæði. Það festi fé sitt í íbúðum vegna þess að það var erfitt að verðtryggja peninga eða sparifé með öðrum hætti. Það brann annars upp í verðbólgunni sem var á áttunda áratugnum. Á þeim tíma var algengt að fólk keypti íbúðir, sem það þurfti hugsanlega ekki sjálft á að halda, og þessar íbúðir voru síðan leigðar út. Á þessum árum var þess vegna ekki sérstakur hörgull á leiguhúsnæði, a.m.k. ekki í líkingu við það sem nú er orðið. Þessi hörgull á leiguíbúðum kemur fyrst og fremst niður á ungu fólki. Það verður að reikna með því að ungt fólk sem hleypir heimdraganum þarf nokkurn aðlögunartíma áður en það getur ráðist út í það þrekvirki að festa kaup á íbúð eða húsnæði, eignast þak yfir höfuðið eins og það heitir. Þess vegna leggjum við til að ungt fólk geti gert samninga við húsnæðismálastjórn um að sparifé þess verði ávaxtað í leigu- og eignaríbúðum sem Húsnæðisstofnun muni þá láta byggja og unga fólkið fái forgang að. Þessu er nánar lýst í 35. gr. í brtt. okkar og ég ætla að lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeim sem er skylt að greiða skyldusparnað til Byggingarsjóðs ríkisins standa til boða tvær mismunandi ávöxtunarleiðir fyrir sparifé sitt:

1. Með því að gera sérstakan samning við Húsnæðisstofnun getur viðkomandi eignast hlut í íbúð sem hefur verið byggð sem leiguíbúð skv. 34. gr. Skal hann fá afhent afsal fyrir þeim eignarhluta í íbúðinni sem hann hefur sparað saman með skyldusparnaði samkvæmt matsverði íbúðarinnar þegar skyldusparnaðartímabilinu er lokið. Viðkomandi getur þá keypt íbúðina og fær til þess lán í samræmi við 10. og 15. gr. þessara laga. Hann getur einnig selt Húsnæðisstofnun eignarhlut sinn og er hún skuldbundin til að kaupa hann á því matsverði sem þá er í gildi.

2. Ef viðkomandi óskar þess að sparifé hans sé ávaxtað á venjulegan hátt er Húsnæðisstofnun skylt að ávaxta innstæðu hans með sömu kjörum og gilda um útlán stofnunarinnar.“

Það hafa orðið heilmiklar umræður í hv. Nd. um skyldusparnað ungs fólks og enn fremur um húsnæðisþörf námsmanna og er það vel. Hér er ein hugmyndin enn um hvernig megi koma til móts við ungt fólk, bæði námsfólk og annað ungt fólk sem er að hefja störf í þjóðfélaginu, er að stíga sín fyrstu skref til að standa á eigin fótum. Ef það fé sem sparast saman með skyldusparnaði ungs fólks væri notað til að byggja sérstakar leigu- og eignaríbúðir fyrir ungt fólk mætti gera stórt átak til að leysa úr þessari brýnu íbúðarþörf og bæta úr þeim skorti sem er á leiguhúsnæði einkum þó og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu þegar hópur námsmanna flykkist hingað á haustin, en ég skal síður en svo gera lítið úr þeim húsnæðisvandræðum sem eru víða úti á landsbyggðinni.

Ég er þá kominn að lokum máls míns. Eftir er aðeins að fjalla um þau ákvæði til bráðabirgða sem við leggjum til í till. okkar, en það er einmitt húsnæðisfrv. hæstv. félmrh. eins og það kom út úr hv. félmn. Nd., eins og frv. var samþykkt í hv. Nd. Við erum nefnilega alveg sammála því að það þarf að taka með einhverjum hætti á þeim vanda sem hefur skapast með því að það eru ekki nægir peningar til í kerfinu og það hafa hrannast upp umsóknir. Við tökum svo innilega undir með hæstv. félmrh. að það þurfi að finna lausn á þessu vandamáli og við viljum styðja hæstv. félmrh. í því að finna þessa lausn. Þess vegna leggjum við til að frv. eins og það kom úr Nd. verði tekið óbreytt upp sem ákvæði til bráðabirgða í okkar tillögum. Við gerum ráð fyrir að það þurfi a.m.k. eitt ár til að koma þessum hugmyndum okkar á framfæri þannig að það verði unnið að því a.m.k. allt árið 1988 að semja upp á nýtt við lífeyrissjóðina þannig að þeir dragi sig út úr samstarfi við ríkið og taki höndum saman við að koma upp húsnæðislánastofnunum eða húsbönkum fyrir þann stóra hóp sem við ætlum að verði út undan þegar till. okkar eru orðnar að lögum. Við leggjum hins vegar mikla áherslu á að ákvæði VI. kafla í till. okkar, sem fjallar um skyldusparnað ungs fólks, taki þegar gildi því að þar er vandamálið svo brýnt að það verður að leysa nú þegar. Því miður er ekkert það í frv. hæstv. félmrh. sem miðar að því að leysa úr þessari brýnu húsnæðisþörf unga fólksins og sérstaklega þó námsmanna. Það hefur að vísu verið, eins og ég gat um áðan, flutt þáltill. í Nd. um sérstakan byggingarsjóð námsmanna og kann vel að vera að það sé leið til að leysa þetta vandamál. Mér óar engu að síður við þeirri till. vegna þess að hún er í sama kerfi og núverandi húsnæðismál eru, þ.e. það er einn byggingarsjóðurinn enn sem væntanlega verður þá í vörslu Seðlabankans. Hann verður jafnblankur og hinir sjóðirnir og sömu vandamálin og hafa verið í sambandi við lánveitingar úr byggingarsjóðum ríkisins munu gera vart við sig eins og málin hafa gengið fyrir sig undanfarin mörg ár.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð mín öllu fleiri. Ég vil ítreka að lokum að ég tel að með því að ég hafi tekið á þessum málum með þeim hætti sem ég hef nú gert, þ.e. að fjalla ítarlega um okkar till. strax við 1. umr. og láta það vera mína fyrstu ræðu í þessum umræðum um húsnæðismál í hv. Ed., hafi ég sparað stórfelldan tíma og hjálpað til að koma þessu mali sem allra fyrst í gegnum deildina.