16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hæstv. félmrh. og Alþfl. vilja keyra í gegnum þingið helst án umræðu. Við í Borgarafl. höfum lagt fram brtt. við frv. þetta er felur í sér heildarendurskoðun á byggingarsjóðum ríkisins og annað frv. um húsbanka sem lagt hefur verið fram í þessari deild og er nú í nefnd að lokinni 1. umr.

Við erum sammála hæstv. félmrh. að breytinga sé þörf. Hins vegar teljum við að sú lækning sem hæstv. félmrh. er að framkvæma með frv. sínu sé aðeins pillugjöf í þann dauðvona sjúkling sem húsnæðiskerfið er. Þó við getum fallist á markmið frv. teljum við að frv. nái ekki þeim markmiðum sem við teljum að þurfi að vera í húsnæðislöggjöfinni. Frv. felur aðeins í sér skammtímalækningu og leysir ekki þann vanda sem við er að glíma.

Fyrir mitt leyti átti ég von á, miðað við þær yfirlýsingar sem Alþfl. gaf fyrir kosningar, að fyrsta frv. félmrh. liti öðruvísi út en það frv. sem er til umræðu nú. Átti ég von á að frv. fæli í sér heildarendurskoðun á húsnæðislánakerfinu þar sem forgangsverkefni væri að hjálpa þeim sem væru í mestum vanda í þessu þjóðfélagi, þeim sem eru með lágar tekjur og þeim sem vegna annarra ástæðna ættu ekki kost á að fá lán hjá Byggingarsjóði ríkisins.

Sú staðreynd sem nú blasir við okkur er það frv. sem hér er til umræðu eins og því hefur verið breytt í meðförum Nd. Það sem situr eftir af upphaflega frv. er að þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð fái forgang og einnig fá þeir sem eru að stækka við sig vegna fjölskylduaðstæðna lán frá Húsnæðisstofnun. Við í Borgarafl. viljum taka undir þetta markmið, en eigum erfitt með að sætta okkur við að samþykkja frv. þetta án breytingar á kerfinu í heild.

Þegar frumvörp eru samþykkt á hinu háa Alþingi verðum við að gera okkur grein fyrir því hvaða áhrif þau lög hafi úti í þjóðfélaginu. Frv. félmrh. hefur þau áhrif að 2000 aðilar fá lán af þeim 6000 umsóknum sem bíða nú afgreiðslu í Húsnæðisstofnun. Er það vel. En hvaða önnur áhrif hefur þessi lagasetning? Um það virðist ekkert vera hugsað. Í bréfi Félags fasteignasala til Nd., dags. 23. nóv. 1987, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í athugasemdum með frv. kemur fram að eitt meginmarkmið þess sé að draga úr þenslu á fasteignamarkaði og koma í veg fyrir óeðlilega hækkun á verði íbúðarhúsnæðis. Í þessu sambandi vill stjórn Félags fasteignasala sérstaklega vekja athygli félmn. Nd. á að eina leiðin til að ná þessu markmiði er að skapa jafnvægi á fasteignamarkaðnum, sem þýðir m.ö.o. að jafnvægi ríki milli framboðs og eftirspurnar. Stjórn Félags fasteignasala fær ekki séð að frv. muni nema að óverulegu leyti leiða til þess að þetta jafnvægi náist. Af athugasemdum með frv. má ráða að ætlunin sé að færa forgangshópa enn framar í biðröðinni eftir lánum og færa víkjandi hópa á sama hátt aftar. Í stuttu máli yrði afleiðingin sú að auka enn eftirspurnina á markaðnum og draga enn frekar úr framboðinu eða auka þenslu á fasteignamarkaði og stuðla að óeðlilegri hækkun á verði íbúðarhúsnæðis.

Í bréfi til stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins, dags. 1. des. 1986, vakti stjórn Félags fasteignasala athygli á þessu einfalda lögmáli fasteignamarkaðarins. Eins og glöggt kemur fram í fskj. með frv. um þróun fasteignaverðs gengu spádómar stjórnar Félags fasteignasala í fyrrgreindu bréfi nákvæmlega eftir. Þarft væri að bæta við fskj. þetta upplýsingum um söluverð íbúða á þriðja ársfjórðungi 1987 sem skjóta enn frekar stoðum undir það sem hér hefur verið haldið fram.

Stjórn Félags fasteignasala vekur athygli félmn. Nd. á eftirfarandi staðreynd:

40% þeirra sem nú eiga óafgreiddar lánsumsóknir hjá Húsnæðisstofnun eru í forgangshópi, þ.e. eiga ekki íbúð fyrir. 60% eru í víkjandi hópi og eiga íbúðir fyrir. 40% ætla að kaupa íbúðir þær sem 60% eiga. 40% eiga að fá sín lán strax en 60% ári seinna. Niðurstaðan af þessu dæmi er einföld. 40% fá engar íbúðir keyptar nema á uppsprengdu verði því 60% setja ekki sínar íbúðir á markaðinn fyrr en eftir ár. Mikil eftirspurn plús lítið framboð, hátt verð.“

Ljóst er af þessu að þensluáhrifin aukast og er ekki á þau bætandi eins og staðan er. Við þm. verðum að gera okkur grein fyrir öðrum þáttum sem lagasetning getur haft í för með sér úti í þjóðfélaginu. Frv. það sem hér er til umræðu leysir einn vanda en skapar annan og kannski miklu alvarlegri því áhrif lagasetningarinnar smitast um allt þjóðfélagið.

Þær brtt. sem við borgaraflokksmenn gerum á frv. teljum við að verði til lækningar þeim sjúkdómi sem húsnæðislánakerfið er haldið. Furðum við okkur því á því að talsmenn annarra flokka skuli ekki vilja ræða þessar tillögur sem bæði eru heilsteyptar og hafa fengið hljómgrunn hjá þeim aðilum sem láta málefni þjóðfélagsins sig skipta.

Þegar núverandi húsnæðislánakerfi var sett á voru vextir í þjóðfélaginu 5% og spá Þjóðhagsstofnunar sú að almennir vextir mundu fara lækkandi. Þróunin hefur orðið allt önnur og má að verulegu leyti rekja þá óæskilegu þróun til núverandi húsnæðislánakerfis.

Eftir þá stöðnun sem verið hafði á húsnæðismarkaði varð sprenging með tilkomu þessa húsnæðiskerfis. Allir áttu kost á láni og eftirspurnin var gífurleg. Sökum þess og þeirra samninga sem gerðir voru við lífeyrissjóðina um fjármagn tóku vextir úti í þjóðfélaginu að hækka í stað þess að lækka eins og gert hafði verið ráð fyrir í spám. Stafar þetta af því að ráðstöfunarfé bankastofnana minnkaði því þeir aðilar sem lögðu inn í bankana hættu að leggja inn og mikið kappsmál varð að ná í hið litla fé sem var til í þessum bankastofnunum. Þrátt fyrir að vextir hækkuðu í þjóðfélaginu héldust sömu vextir af lánum hjá Húsnæðisstofnun sem kostaði að ríkið þurfti og mun þurfa að auka framlög sín til niðurgreiðslu á vöxtum. Til að fjármagna þessar niðurgreiðslur hefur ríkið þurft í samkeppni við bankastofnanir að gefa út ríkisskuldabréf.

Þegar á allt framangreint er litið sjá allir hvernig þessi hringavitleysa er, hvernig ríkið hefur beint leitt til vaxtahækkana sem verið hafa í þjóðfélaginu síðustu mánuði. Og enn á að auka þennan vanda með brtt. sem nú liggja fyrir. Þetta getur ekki leitt til nema eins, að ríkisstjórnin drepi atvinnureksturinn með vaxtahækkun svo ekki sé talað um þegna þessa lands.

Ég held að stjórnarflokkarnir séu ekki í neinum tengslum við lífæðar þjóðfélagsins á meðan í gildi eru þrenns konar vextir, 3,5% í húsnæðiskerfinu, 9,5% í bankakerfinu og allt upp í 15% á hinum almenna markaði. Það er eitthvað stórvægilegt að í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin sér þetta ekki og kýlir einungis stefnulaust í gegnum þingið skattahækkunum á allt og alla sem hrærast í þessu þjóðfélagi.

Það sem ég hef hér rakið er sú umgerð sem við höfum og það sem við verðum að gera okkur grein fyrir, hv. þm., þegar þetta frv. er rætt. Brtt. þær sem við í Borgarafl. gerum fjalla einmitt um þetta, sem er að gerast úti í þjóðfélaginu, en ekki hvað er að hrærast í einstökum ráðherrum og ríkisstjórn. Við verðum að líta á þjóðfélagið sem heild en ekki einstaka þætti þess einvörðungu og líta á hvaða áhrif þessi breyting hefur á þjóðfélagsheildina.

Ég ætla ekki að rekja hér þær brtt. sem við í Borgarafl. höfum gert við frv. hæstv. ráðherra og læt þær till. og þá umfjöllun sem samflokksmaður minn, Júlíus Sólnes, hefur gert nægja, en vænti þess að þeir sem koma hér á eftir, ef einhverjir koma, og þegar mál þetta verður sett í nefnd ræði um þessar till. og að við getum í sameiningu og allir flokkar komið á nýju húsnæðislánakerfi.