16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það er fjarri mér að ætla að tefja þetta mál. Ég mátti þó til með að koma upp og gera nokkrar athugasemdir við mál hv. 14. þm. Reykv. Ég hlýt að mótmæla því hóli sem hann hafði um sinn flokk hvað varðar aðild hans að uppbyggingu félagslegra íbúða, en þannig skildi ég upphaf máls hans. Það er rétt hjá honum að á Íslandi ríkir meiri jöfnuður en víða annars staðar í nágrannalöndunum. Þetta er þó óðum að breytast og veldur flestum hugsandi mönnum þungum áhyggjum. Gjár stéttaskiptingar á grundvelli fjármagns, menntunar og almennra tækifæra eru óðum að opnast á milli einstaklinga og hópa í þjóðfélaginu okkur öllum til vansæmdar og skaða sem tilheyrum þessari þjóð, þjóð sem í eyru útlendinga hefur státað af stéttleysi, jöfnuði og samheldni. Eins og ein fjölskylda teljum við okkur vera. En erum við það? Það er fráleitt að halda því fram að félagslegt húsnæði sé nægilegt hérlendis eða sæmilega gott og ástand mála viðunandi í þeim efnum. Það er svo langt í frá, hv. þm., og er gleggsta dæmið um það hin mikla almenna umræða og samtök einstaklinga sem hafa haft frumkvæði að samstarfi ýmiss konar vegna þess brýna vanda sem að þeim steðjar.

Sjálfstfl. hefur haft að sinni meginstefnu að fólk eignist eigið húsnæði. Hann hefur lagt á þetta mikla áherslu, en hann hefur kannski minna sinnt og minna skilið þá sem ýmist geta ekki eða vilja ekki af ýmsum ástæðum eignast eigið húsnæði eða verja til þess lífsorku sinni að koma sér upp eigin húsnæði því að það hefur verið meiri háttar krossganga fyrir venjulegt fólk. Þó eru þarfir þeirra jafnmiklar og fyrir þeim ber okkur að bera jafnmikla virðingu og taka tillit til og annarra.

Ég veitti því hins vegar athygli að í máli hv. þm. kom fram skilningur á mikilvægi þess að koma þessu frv. í gegn þrátt fyrir skoðanaágreining og ég virði það. En hins vegar þótti mér ástæða til að vekja athygli hans á þeirri brýnu nauðsyn sem er á félagslegu húsnæði og á leiguhúsnæði á Íslandi í dag, jafnt á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Þetta er aðkallandi vandamál sem við hljótum að beina athygli okkar að þegar þessum áfanga í húsnæðiskerfinu hefur verið náð.

Ég vona að hv. þm. misvirði ekki þessi orð mín því að ég tók eftir því að mál hans var að öðru leyti fullt af velvilja í garð þessa frv. Ég vildi aðeins ítreka þetta, vekja athygli hans á því hve brýn þörf er á að leysa vanda þeirra sem bíða eftir leiguhúsnæði eða félagslegu húsnæði.