16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég ætla að segja hér nokkur orð og skal það vera örstutt. Ég þakka fyrir góðar ábendingar hv. 6. þm. Reykv. Guðrúnar Agnarsdóttur í þessari umræðu í sambandi við mína fyrri ræðu í þá veru að Sjálfstfl. hefði átt mikinn og góðan þátt í því hvernig íbúðamál og húsnæðismál hafa yfirleitt þróast á Íslandi. Það sem ég átti við og sem er meginatriðið þegar maður hugleiðir þessi mál er að stefna Sjálfstfl. er þess eðlis að hún hefur boðið upp á að menn hafa haft aðra og fleiri möguleika til að taka þátt í því að koma yfir sig húsnæði en aðeins í gegnum ríkið. Þegar menn hafa viljað eignast íbúð hefur ekki verið grundvallaratriði út af fyrir sig að fólk þyrfti að fara með þau mál í gegnum hið opinbera. Við höfum lagt áherslu á að með eigin aflafé og einnig í gegnum fleiri möguleika en þá lánamöguleika sem við erum að fjalla um í sambandi við þetta frv. hefur fólk og á fólk að geta eignast sína íbúð jafnframt því sem við leggjum áherslu á það, eins og hv. þm. kom inn á og ég einnig, að við höfum alltaf sinnt og munum sinna hinum félagslega þætti.

Hv. þm. fannst ég segja einum of mikið um þátt Sjálfstfl. í þessum efnum, en þegar ég tala um þátttöku Sjálfstfl. tók ég fram að m.a. hefði það átt sér stað í gegnum áhrif hans og meirihlutaaðild að sveitarstjórnum. Það er staðreynd, sem ekki er hægt að hrekja, að í tíð meiri hluta Sjálfstfl. í borgarstjórn Reykjavíkur var hér á kreppuárunum, í samstarfi við verkalýðshreyfinguna að vissu leyti, ráðist í mjög miklar framkvæmdir við verkamannabústaði. Verkalýðshreyfingin átti upphafið að þeim hugmyndum að hér yrðu byggðir verkamannabústaðir, en án góðrar þátttöku meiri hluta Sjálfstfl. í borgarstjórn Reykjavíkur á þeim tíma hefði þetta verk aldrei gerst með þeim hætti sem þá varð. Þetta held ég að allir hljóti að vera sammála um. Vísa ég til þeirra góðu íbúða og fyrirmyndarhúsa sem enn þá þykja góð, jafnvel hálfri öld eftir að þau voru byggð vestur í bæ, og Héðinn Valdimarsson, þáv. formaður Dagsbrúnar, hafði forustu um en meiri hluti Sjálfstfl. í stjórn Reykjavíkurborgar studdi. Þar með braut Sjálfstfl. í blað í þessum efnum með því mikla valdi og þeim miklu áhrifum sem flokkurinn hafði í því forustusveitarfélagi á Íslandi sem var Reykjavíkurborg.

Einnig tók Sjálfstfl. þátt í því eftir seinni heimsstyrjöldina að skipuleggja hér heil hverfi með þeim hætti að auðvelda mönnum, fólki sem ekki hafði mikil efni, að eignast sín eigin hús jafnframt því sem byggð voru sambýlishús sem þóttu til fyrirmyndar og eru enn ágætis hús.

Í framhaldi af þessu vil ég einnig undirstrika að í því að taka þátt í því að menn geti átt eða leigt íbúðir felst einnig að styðja og styrkja þá sem koma við sögu í hinum svokölluðu frjálsu félögum á Íslandi, þ.e. verkalýðshreyfingunni og öðrum samtökum eins og byggingarsamvinnufélögum o.fl. Í þeim efnum hefur Sjálfstfl. haft mikið og gott frumkvæði. Ég bendi á það t.d. að stórt stéttarfélag á Reykjavíkursvæðinu hafði frumkvæði um að byggja sérstakt hús yfir aldraða í góðu samstarfi við meiri hluta stjórnar Reykjavíkurborgar. Það er þetta sem ég átti við þegar ég talaði um að Sjálfstfl. hefði komið mjög við sögu húsnæðismála á Íslandi með þeim hætti að til fyrirmyndar væri og ég held að við séum sammála um það, enda kom það fram í ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, að Íslendingar hafa byggt vel. En það er einnig rétt að því miður getur fjármagn og menntun skapað þá gjá stéttaskiptingar sem við viljum öll forðast og höfum viljað forðast. Í þeim efnum verður að gæta þess sérstaklega að fjármagnið komi ekki með þeim hætti inn í þessa framkvæmd eða við myndun þessara eigna að svokölluð öreigastétt verði á Íslandi, þ.e. fólk sem aldrei getur nokkurn tímann eignast íbúð eða býr ekki við viðunandi skilyrði í þeim efnum. Sjálfstfl. vill stuðla að því að þeirra þörfum sem ekki geta eignast íbúð verði fullnægt með félagslegu átaki. Ég undirstrika það. Það er vilji flokksins sem stjórnmálaflokks og einnig þeirra manna sem eru þátttakendur í flokknum og geta haft áhrif á þetta í félagslegri hreyfingu eins og t.d. í verkalýðshreyfingunni.

Árið 1972 setti ég fram hugmyndir í þessum efnum á félagsfundi í einu stéttarfélagi í Reykjavík. Þær voru birtar á þeim tíma í Þjóðviljanum. Þar á meðal setti ég fram mínar hugmyndir um að verkalýðshreyfingin á Íslandi ætti að koma meira til skjalanna í þessum efnum án þess að þurfa að leita til ríkisins eða sveitarfélaga. Því miður fékk sú hugmynd ekki hljómgrunn á þeim tíma. Hefði betur verið að svo hefði verið vegna þess að þá, árið 1972, voru einmitt verkalýðsfélögin að stofna til þeirra lífeyrissjóða sem allir mæna nú til í sambandi við lausn þessara mála. Mín hugmynd á þeim tíma var sú að verkalýðshreyfingin hefði frumkvæði um að nýta þessa sjóði í framtíðinni, m.a. til að byggja og reisa félagslegar íbúðir sem væru í félagseign, þ.e. að jafnvel verkalýðshreyfingin sem slík gætti átt þessar íbúðir og leigt þær félagsmönnum eða öðrum. Einnig var í þessum hugmyndum — ég ætla ekki að þreyta þm. eða lengja umræðuna með því að fara of nákvæmlega út í þessar hugmyndir — sett fram það atriði að verkalýðshreyfingin og sjóðir verkalýðshreyfingarinnar, þar á meðal lífeyrissjóðirnir, stæðu á bak við byggingu íbúða fyrir aldraða með þeim hætti að við þyrftum ekki á því opinbera að halda í þeim efnum. Ég spáði því þá að það liðu ekki mörg ár þar til lífeyrissjóðirnir yrðu svo öflugir að það væri leikur einn fyrir verkalýðshreyfinguna að nýta hluta af ráðstöfunarfé sjóðanna til að framkvæma þetta verk. Því miður var ekki hlustað á þessar tillögur á þeim tíma, en nú er komið í ljós að hluti af pakkanum, sem hv. þm. eru að ræða hér um að eigi að fara í gegnum Húsnæðisstofnun ríkisins, er vegna þessara þarfa. Ef við hefðum farið þessa leið árið 1972 þyrftu hv. alþm. ekki að eyða tíma sínum í að fjalla um hvernig fólkið byggði yfir sig sjálft.

Við getum væntanlega þróað okkur út úr þessu kerfi aftur. Ég veit að hæstv. félmrh. hefur góðan skilning á þessum málum og vill stuðla að framgangi þeirra. En ég segi eins og ég hef oft sagt áður í ræðum: Í guðanna bænum, hv. alþm., leyfið þið fólkinu sjálfu að ráðstafa sínum peningum til þeirra þarfa sem það hefur þörf fyrir að láta framkvæma fyrir sig, þ.e. leyfið þið fólkinu sjálfu að leggja sína fjármuni í það að byggja yfir sig og sína hvort sem það er á félagslegum grundvelli eða öðrum og leyfið þið því einnig að nota sitt eigið fé til að byggja yfir aldraða en skyldið það ekki til þess að leggja eigið aflafé með lagaákvæðum inn í sameiginlega sjóði til þess að aðrir geti síðan útdeilt þessum peningum sem fólkið getur sjálft séð um, m.a. íbúðarhúsnæði og húsnæði fyrir aldraða. Það er grundvallaratriði. 55% í gildandi lögum, sem er skyldukvöð á lífeyrissjóðunum, er gjörsamlega út í hött og ber að leiðrétta hið fyrsta og lækka. En það gerist ekki nema í góðu samráði við þá sem hafa um það samið og löggjafinn tók afstöðu til á sínum tíma.