16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir ágætar upplýsingar og greinargóð svör. Ég held að við þm. Borgarafl. og hæstv. félmrh. eigum margt sameiginlegt í afstöðu okkar til húsnæðismála og það skal ekki standa á okkur að reyna að greiða götu frv. hér í deildinni.

Hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson kom inn á það í máli sínu hver væri stefna sjálfstæðismanna í húsnæðislánamálum. Ég held að við þm. Borgaraflokksins getum að nokkru leyti tekið undir með honum að æskilegast væri að fólk upp til hópa gæti eignast íbúðir sínar án þess að það þurfi á ríkisaðstoð að halda. Það er einmitt í þeim tilgangi sem við höfum flutt frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka. Þeir yrðu reknir sem sjálfstæðar lánastofnanir þar sem kannski stærsti hópur fólks sem ætlar að ráðast í það að kaupa sér íbúð eða byggja gæti fengið afgreidd lán fljótt og vel án þess að þurfa að leita til ríkisvaldsins um aðstoð. Ég held að það væri það langbesta kerfi sem við gætum komið upp, að ríkið þyrfti ekki að sinna nema tiltölulega þröngum hópi fólks sem þarfnast aðstoðar og gæti einbeitt sér að því verkefni án þess að vera að kássast með allt húsnæðislánakerfið á sínum herðum. Það þekkist nánast hvergi að svo sé.

Einmitt vegna þess að ríkisvaldið er með allt húsnæðislánakerfið á sinni könnu sjáum við þessar hrikalegu biðraðir myndast. Þessi hnútur sem nú er kominn, þessar 6000 umsóknir — ég á bágt með að fallast á það með hæstv. félmrh. að ekki hefði verið heppilegra að reyna að byrja að afgreiða eitthvað af þessum umsóknum strax og það var hægt.

Það hefur mikið verið talað um að af þessum 6000 umsóknum sem bíða séu um 2000 umsækjendur í hópi þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Reyndar hef ég fengið óstaðfestar upplýsingar um að þeir kunni að vera fleiri, jafnvel allt að 3000. Við höfum ekki fengið nákvæm svör við spurningum okkar um þetta. Sé svo að þeir séu nærri helmingurinn af þessum 6000 umsækjendum lætur nærri að um 1/3 hluti þeirra sé úr þessum 25 lífeyrissjóðum — nú gef ég mér það, ég hef ekki fengið nákvæmari svör — sem þegar hafa gert bindandi samninga við Húsnæðisstofnun og byggingarsjóði ríkisins um kaup á skuldabréfum. Þar með sé ég ekkert því til fyrirstöðu að hægt væri að afgreiða a.m.k. þennan hóp strax því að hann hefur fullnægt öllum skilyrðum, a.m.k. miðað við núgildandi lög og mætti því sem forgangshópur fá úthlutun á undan öllum öðrum. Enda er alveg ljóst að hefði verið gripið til þess ráðs að byrja að úthluta lánsloforðum til þessa fólks er mjög líklegt að fleiri lífeyrissjóðir hefðu komið í kjölfarið. Ætli það hefði ekki skapast kapphlaup hjá mörgum lífeyrissjóðunum að gera bindandi samninga við Húsnæðisstofnun um skuldabréfakaup ef farið væri að afgreiða lán til þeirra sjóðfélaga þar sem þegar er búið að gera slíka samninga? Bara það að hefja afgreiðslu á lánsloforðum til þessara 1000 umsækjenda eða hvað þeir eru nú margir — eins og ég segi, við höfum ekki getað fengið nákvæmar upplýsingar um það — hefði því væntanlega hraðað mjög samningagerð við alla lífeyrissjóðina.

Ég sé ekki annað en að það hljóti að vera mjög erfitt að skapa svona stíflu í kerfinu og taka síðan tappann skyndilega úr með lagasetningu og hleypa þannig gífurlegri skriðu af stað. Ég held að það sé alveg rétt sem hv. 11. þm. Reykv., Guðmundur Ágústsson, nefndi í ræðu sinni hér áðan að þegar tappinn verður tekinn úr stíflunni hlýtur að skapast gífurleg þensla á fasteignamarkaðinum. Þá fá skyndilega mjög margir aðilar lánsloforð sem þeir væntanlega hlaupa með í næstu banka og lánastofnanir til þess að reyna að kría út peninga út á lánsloforðin. Síðan hefst mikið kapphlaup og það skapast spenna á fasteignamarkaðinum. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt. Það besta sem hægt er að gera hlýtur að vera að reyna að afgreiða þessar umsóknir jöfnum höndum þannig að það skapist ekki svona stíflur eins og sú sem nú hefur myndast.

Varðandi það að við höfum lagt frv. okkar fram sem brtt. við húsnæðisfrv. hæstv. ráðherra er það e.t.v. gagnrýnivert. Ég get að vissu leyti tekið undir það að það hefði verið heppilegra að flytja þetta sem sjálfstætt frv. Það er nú einu sinni svo að frv. sem þm. stjórnarandstöðunnar flytja fá yfirleitt ákaflega litla umfjöllun hér á hinu háa Alþingi. Það er yfirleitt tilhneiging til þess að reyna að svæfa slíkan frumvarpsflutning, koma frv. til nefndar með sem minnstum umræðum og reyna svo að svæfa slíkar tillögur í frumvarpsformi í nefnd. Síðan heyrist lítið meira af þeim. Síðan reyna þm. stjórnarandstöðunnar að endurflytja þessi frumvörp sín þing eftir þing, eins og hv. 7. þm. Reykv. sagði einu sinni í þingræðu snemma í haust, hann var að flytja frv. í að mig minnir 8. sinn. Þetta sýnir einmitt hver örlög þmfrv. stjórnarandstöðuþm. eru.

Hins vegar, með því að fara þessa leið, hefur okkur þó tekist að þvinga fram umræður um þessar tillögur okkar í húsnæðismálum samfara umræðum um húsnæðisfrv. hæstv. ráðherra og er það vel. Ég á einnig von á því að við getum fengið umfjöllun um þessar tillögur okkar um leið og húsnæðisfrv. hæstv. ráðherra verður tekið til meðferðar í hv, félmn. Ed., en ég er ekki viss um að það hefði gengið eins vel hefðum við lagt þetta fram sem sjálfstætt þmfrv. okkar þm. Borgarafl. í hv. Ed.