16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyt. á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í sjálfu sér eru þetta einkum tæknilegar lagfæringar sem auðvitað reyndist óhjákvæmilegt að gera á þessum lögum vegna þess að tíminn sem þingið fékk til að afgreiða þetta mál á sl. vetri var eins og venjulega of stuttur. Þess vegna var það sem þingið og þáv. hæstv. fjmrh. féllust á þá tillögu mína að sett yrði niður milliþinganefnd til að fara yfir þessi mál og undirbúa málið síðan fyrir haustið. Því miður kom þessi milliþinganefnd ekki saman fyrr en í september, trúi ég, og þess vegna varð hún ekki tilbúin með sitt álit fyrr en í byrjun nóvember eða þegar nokkuð var liðið á nóvembermánuð. Þess vegna eru þessi mál svona óskaplega seint hér inni sem hefði náttúrlega átt að vera unnt að taka til meðferðar miklu, miklu fyrr. Þetta er náttúrlega afleitur hlutur sem við berum ábyrgð á, að mál komi svona hroðalega seint til meðferðar hér í þinginu, sérstaklega svona mikilvæg mál og viðkvæm sem snerta hvern einasta landsmann eins og þetta.

Ég ætla ekki að ræða mikið efnisatriði þessa frv. en ég ætla þó að nefna tvennt. Það er fyrst varðandi kynningu á kerfisbreytingunni. Ég hef áhyggjur af því að kerfisbreytingin yfir í staðgreiðslukerfi skatta sé ekki nægilega vel kynnt. Ég tek eftir því, svo að ég nefni dæmi, að ríkisskattstjóri sendir frá sér skattkort, sem við höfum m.a. öll fengið, þar sem gert er ráð fyrir tiltekinni tölu í persónuafslátt. Ég tek jafnframt eftir því að í blöðum og öðrum fjölmiðlum eru birtar miklu hærri tölur um persónuafslátt en standa á þessum skattkortum. Það að þetta hefur viðgengist án þess að fjmrn. sendi frá sér mjög mynduga skýringu á málinn ruglar og truflar. Ég held að þegar svona kerfisbreyting gengur yfir verði hlutirnir að vera sem allra skýrastir. Ég vil leyfa mér að bera fram kvörtun út af þessu vegna þess að hér er oft um að ræða fólk, tugi þúsunda einstaklinga, t.d. gamalt fólk, sem þessar skattkortasendingar vekja upp margar spurningar hjá, hjá fólki sem nánast veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Fólk þekkir ekki þetta mál og þess vegna hefði þurft að leggja í þetta mjög verulega kynningarvinnu og ég hygg að í þeim efnum séu auglýsingar í raun og veru ekki nægilegar. Ég tel að fjmrn. ætti að hlutast til um að skattstjórarnir í öllum umdæmum opni strax skrifstofur sem fólk getur leitað til út af þessari kerfisbreytingu, opni strax skrifstofur með opnum símalínum, ekki bara milli 9 og 5, heldur a kvöldin líka, þar sem fólk getur komið og spurt og hringt og athugað hvað er hér á ferðinni.

Ég hef orðið var við það, t.d. á tveimur heimilum fyrir aldraða hér í þessu byggðarlagi, að þessar útsendingar skattkorta hitta fólk illa vegna þess að það veit ekki hvað hér er á ferðinni. Það er í rauninni ekkert óeðlilegt þó að fjmrn. við þessar aðstæður sendi erindreka á stærri vinnustaði og elliheimili, svo að ég nefni dæmi, til að skýra þessi mál, til að eyða misskilningi og til að koma í veg fyrir það að misskilningur verði til þess að það verði verulegir hnökrar á þessari skattaframkvæmd. Ég tek fram út af auglýsingunum í sjónvarpinu að ég er ekki að biðja um það að hæstv. fjmrh. haldi vinnustaðafundi um allt land og fundi á elliheimilum til þess að kynna þetta mál. Hann hlýtur að hafa marga sæmilega vel talandi embættismenn sem gætu farið í þennan erindrekstur, en ég tel að hann sé brýnn og ég er ekki að tala í neinu gríni um þetta. Ég hef orðið var við það á þessum tveimur heimilum fyrir aldraða sem ég hef af sérstökum ástæðum þurft að heimsækja núna síðustu dagana að þessar sendingar koma illa við fólk, og þegar svo stemma ekki saman tölurnar á skattkortinu og tölurnar í fjölmiðlunum spyr fólk: Hvað er verið að gera? Er verið að plata okkur hér? Hvort er rétt, hvort er rangt? Þetta er slæmt.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna í sambandi við þessi staðgreiðslumál og ég tók ekki eftir, ég viðurkenni það, þegar lögin voru afgreidd í vor er meðferð á lífeyrisþegum sérstaklega. Auðvitað er það þannig að lífeyrir er laun. Auðvitað er það þannig að biðlaun eru eins og hver önnur laun og ber að taka á þeim með þeim hætti. En nú ætla ég að nefna dæmi fyrir hæstv. ráðherra og þingdeildina um lífeyri, bæði frá lífeyrissjóði og almannatryggingum, þar sem staðgreiðslan mun að óbreyttum lögum koma mjög illa niður á gömlu fólki, þ.e. gömlu fólki sem er inni á elli- og hjúkrunarheimilum. Segjum að maður hafi lífeyri úr lífeyrissjóði. Segjum að viðkomandi hafi líka lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og samtals geri þetta í kringum 40 þús. kr. sem er algengt. Þessir peningar fara í raun og veru aldrei til viðkomandi gamals manns. Þeir fara beint til þess að greiða kostnað samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraða og er ekkert við því að segja. En síðan er það þannig í lögum um almannatryggingar að fólk, öryrkjar og aldraðir, sem er á stofnunum á rétt á vasapeningum sem svo eru kallaðir. Þessi upphæð er liðlega 4 þús. kr. fyrir öryrkja á mánuði og liðlega 5 þús. kr. fyrir aldraða eins og þetta er núna. Í framkvæmd mála og samkvæmt stífustu túlkun staðgreiðslulaganna verður sagt við þetta fólk: Þessir vasapeningar eru líka laun og leggjast þannig við lífeyrinn. Þessir vasapeningar eru líka laun samkvæmt stífustu túlkun laganna og þeir leggjast líka við lífeyrinn. Þannig verður heildartekjuskattsstofn þessa fólks kannski 45 þús. kr. Af 45 þús. kr. á þessi einstaklingur síðan að borga 1–2 þús. kr. í skatta. Þetta yrði framkvæmt þannig að óbreyttu að allur lífeyririnn fer til að greiða uppihald á viðkomandi hjúkrunarheimili eða dvalarheimili aldraðra. Þá yrði skatturinn tekinn af vasapeningunum. M.ö.o., af þeim vasapeningum aldraðra sem í dag eru 5 þús. kr., reyndar nákvæmlega 5012 kr. á mánuði mundu menn samkvæmt stífustu túlkun laganna taka skattinn. Það sjá allir að þetta gengur ekki. Og af hverju segi ég það, hæstv. ráðherra, að skatturinn yrði tekinn af þessu? Jú, vegna þess að lífeyrisgreiðslurnar ganga allar beint til viðkomandi stofnunar og þá er ekkert eftir í höndunum á þessum manni, öldruðum karli eða konu, annað en vasapeningarnir. Það er ekki hægt í þessu efni að breyta þessu nema tekið verði af skarið um það í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda að þessa vasapeninga, samkvæmt lögum um málefni aldraðra og samkvæmt 51. gr. almannatryggingalaga, 4212–5012 kr. á mánuði, megi aldrei skattleggja.

Ég hef tekið eftir því að samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá ákveðnum skattstofum er núna verið að segja við þetta gamla fólk: Ja, ef þið lendið í skatti verðið þið að borga skattinn með þessum vasapeningum. Það má ekki gerast. Þess vegna verður að breyta annaðhvort þessum lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda eða lögunum um tekju- og eignarskatt. Ég hygg, ef hæstv. fjmrh. vill hlýða á ráð mín í þessum efnum sem hann er auðvitað ekkert skyldugur til, að best væri að breyta 5. gr. laganna um staðgreiðslu opinberra gjalda, en þar segir, með leyfi forseta, í tölul. 1:

„Til launa samkvæmt lögum þessum telst endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Hér með teljast t.d. hvers konar biðlaun, starfslaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, eftirlaun og lífeyrir, fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé o.s.frv.“

Í þessari málsgrein held ég að ætti að segja ósköp einfaldlega: Til launa teljast ekki vasapeningar, eins og þeir heita víst í lögunum um málefni fatlaðra, skv. 19. gr. almannatryggingalaga, né heldur skv. 51. gr. laga um málefni fatlaðra. Ég legg á það mjög mikla áherslu að þetta verði hreinsað út áður en lögin fara hér í gegn. Ég segi fyrir mig, maður lætur auðvitað eitt og annað yfir sig ganga í þessu kraðaki hér fyrir hátíðarnar. En við skulum ekki vera að búa til svona vandamál sem snerta allt þetta gamla fólk sem er á stofnunum hér á landi. Við skulum ekki vera að búa til svona vandamál. Við skulum ekki halda þannig á þessu af einhverjum bókstafstrúarástæðum að það eigi að fara að pilla af vasapeningunum á stofnunum aldraðra eða öryrkja.

Þetta tvennt, herra forseti, vildi ég sem sagt nefna. Annars vegar það að það verður að bæta kynninguna á lögunum. Fólk er hrætt við róttækar lagabreytingar, sérstaklega gamalt fólk. Það er eins og við er að búast og eðlilegt er. Það þarf að leggja sig fram af alúð að fara með þessi kynningarmál fyrir þetta fólk. Hitt sem ég legg áherslu á, og ég er ekki vanur að hafa hér uppi hótanir um langar ræður og tafir í þinghaldinu en ég segi alveg eins og er, ég væri alveg tilbúinn til þess að tala hér nætur og daga frekar en láta það gerast að menn fari að pilla skatta af vasapeningum gamals fólks. Það er í raun og veru svo langt gengið að það er hlutur sem maður mundi vilja koma í veg fyrir að gerðist, mér liggur við að segja hvað sem það kostar. Það stríðir gegn réttlætiskennd og eins og menn sjá, allir sanngjarnir menn, er það alveg fráleitt vegna þess að þessi lífeyrir kemur aldrei til þessa fólks. Það er ekki eins og það geti valið um það hvort það kaupir soðningu eða varalit svo að ég nefni vinsæl dæmi úr skattaumræðu undanfarinna daga. Þessu fólki er enginn kostur gerður með þennan lífeyri. Soðningu eða varalit geta menn ekki valið um að því er varðar þessa peninga. Þeir fara beint til þess að kosta uppihaldið á elliheimilinu, beint til þess. Og þess vegna á auðvitað ekki að vera að skattleggja þetta svona. Það verður að tryggja það alveg 100% að menn haldi þessum ræfils vasapeningum sem eru náttúrlega auk þess til háborinnar skammar.

Varðandi svo skattamálin almennt er mér einnig kunnugt um það að hingað í deildina munu koma frumvörp um tekju- og eignarskatt, bæði að því er varðar skatta einstaklinga og skatta fyrirtækja og um þau má margt segja og ég geymi mér umræðuna þangað til um þau efni. Sömuleiðis gerum við ráð fyrir því að það komi áður en langur tími líður frv. um tolla, vörugjald og söluskatt þannig að það er margt undir og engin ástæða til þess að setja á langar ræður um þessi tvö mál sem hér eru á dagskrá núna, þ. e. þessi tæknilegu mál, að öðru leyti en því að ég vara sérstaklega við þessum tveimur atriðum.

Og að lokum, herra forseti. Í þessum frv. báðum og öllum þeim frumvörpum sem verið er að afgreiða hér og við þekkjum misjafnlega vel getur auðvitað verið fullt af fingurbrjótum, mér liggur við að segja hneykslum, eins og það væri að afgreiða lög sem tækju skatta af vasapeningum gamals fólks. Það er voðalegt til þess að hugsa og það hlýtur að vera óþægilegt fyrir hæstv. ráðherra og stjórnarliðið að bera ábyrgð á afgreiðslum eins og þeim sem hér geta orðið þar sem ekki er tími til að fara rækilega yfir mál í nefndum, ekki aðstæður til að kryfja þau til mergjar, og vita það að strax eftir áramót koma menn og segja: Hvað voruð þið að gera þarna síðustu dagana fyrir þingið? Hvað meintuð þið eiginlega með þessu og þessu og þessu sem menn hafa ákaflega misjafnlega góðar hugmyndir um hvað í raun og veru þýðir. Það er ástæða til þess að votta stjórnarliðinu samúð í þessu efni. Hins vegar er þeim kannski ekki beint vorkunn. Það væri ekki sanngjarnt að vera að vorkenna þeim vegna þess að þeir vita hvað þeir gera. Það er ekki hægt að bregða því fyrir sig, því miður, að við skulum fyrirgefa þeim vegna þess að þeir viti ekki hvað þeir gera, eins og segir í góðri bók sem menn eiga gjarnan að lesa í þessum mánuði eins og kunnugt er. Það er nú ekki þannig. Menn vita hvað þeir eru að gera og það er gallinn á málinu. Ég hef lokið máli mínu.