16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég átti vissan þátt í því að semja þessi lög sem hér eru til umræðu, ég sat í þeirri nefnd sem gerði tillögu til ráðherra um þessi lög og breytingar á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu, og var varamaður Borgarafl. í þeirri umræðu. En það sem fær mig til þess að koma hér upp er sú tilkynning eða þær fréttir sem hafa borist af þessum lögum og lögum um staðgreiðslu. Í mínum huga er um mjög verulegar breytingar að ræða og ég tel mikla nauðsyn á því að þessar breytingar séu kynntar almenningi.

Nú á síðustu dögum hefur margt fólk leitað til mín og beðið mig um leiðbeiningar og ég verð að segja það að oft hefur mann rekið í stans í þeim ráðleggingum og ég vil kenna fjmrn. þar um. Þá finnst mér sá bæklingur sem sendur hefur verið á flestöll heimili vera nokkuð villandi og sýna þær upplýsingar sem þar koma fram hvað núv. ríkisstjórn metur Alþingi lítils. Það er ekki búið að samþykkja þau lög sem þar er talað um.

Ég minnist þess að úr þessari nefnd var lagt fyrir ráðherra að ónýttur persónufrádráttur maka kæmi að fullu til frádráttar hjá hinum makanum. Í frv. því um breytingar á tekju- og eignarskatti breytir fjmrn. þessu og hefur eftir sem áður aðeins 80%. Ég vil að þetta komi fram til þess að sýna það að þessum bæklingi er um margt ábótavant og sýnir það líka að ríkisstjórnin metur Alþingi lítils.

En það er ein grein sem ég mundi vilja gera athugasemdir við. Það er 14. gr. frv. sem er breyting á 29. gr. Þar er gert ráð fyrir því að vanskilafé, sem launagreiðandi skilar ekki en lendir síðan í gjaldþroti, eigi að hafa vissan forgang í þrotabú. Hæstv. fjmrh. lýsti því hér áðan að ástæðan fyrir þessu væri sú að þarna væri um refsiverða háttsemi að ræða. Mér finnst ekki meiri ástæða til þess að þetta, varðandi þetta vanskilafé, hafi meira forgang en önnur refsiverð brot. Ef t.d. maður eða fyrirtæki hefur brotið mjög verulega á einhverjum manni með refsiverðum hætti, þá á sá maður ekki skv. 82. gr. skiptalaga rétt á því að hafa forgang við skipti ef sá maður lendir í gjaldþroti.

Þá vil ég taka það fram að til þess að þessi grein geti fengið fullgildi þá liggur það alveg í augum uppi að breyta þarf þessari 82. gr. laga nr. 3/1878 því þar er tæmandi talning á þeim liðum um það hverjir hafi forgang. Ég er efins um að þetta ákvæði hafi fullt gildi gagnvart því.

Þetta eru þær athugasemdir sem ég vildi koma að og fleira hef ég ekki að segja.