16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2277 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Þær ábendingar sem fram hafa komið frá hv. þm. í þessari umræðu eru þakksamlega þegnar og þarfar, bæði að því er varðar nauðsyn á mun rækilegri og mér liggur við að segja einfaldari kynningu, og þá ekki síst í myndmáli og myndmiðlum, sem og það dæmi sem hv. 7. þm. Reykv. nefndi og varðar skattameðhöndlun á vasapeningum þeirra lífeyrisþega sem dvelja á dvalarstofnunum.

Um síðarnefnda málið er það að segja að ég er ekki í nokkrum vafa um að ef það dæmi og önnur af því tagi reynast standast gaumgæfilega skoðun í nefnd þá er vafalaust einhugur um að leiðrétta það og tillögur um með hvaða hætti það verði gert eru vissulega þarfar og gagnlegar.

Um kynninguna er það að segja að við umræðu í hinni hv. deildinni var þessum ábendingum einnig komið á framfæri og það hefur þegar verið fært í tal sérstaklega við ríkisskattstjóra að verða við þessum ábendingum. Nú er það svo að snemma í sumar var hafinn undirbúningur að kynningu þessa máls. Það er eitt af verkefnum hinnar sérstöku deildar við ríkisskattstjóraembættið, þ.e. staðgreiðsludeildarinnar, að undirbúa það. Þá var gerður samningur við auglýsingastofu um kynningu málsins og á ráðstefnu skattstjóra á miðju sumri var lögð fram tímasett áætlun um helstu þætti þessara kynningaráforma. Þá var reyndar ráð fyrir því gert að sú kynning færi með kerfisbundnum hætti af stað í fjölmiðlum, reyndar um mánaðamótin ágúst/september og ekki síðar en í septembermánuði. Það er ljóst að sú kynning sem uppi hefur verið höfð, útgáfa á bæklingi og auglýsingar í blöðum, er ófullnægjandi og þess vegna ber að vinda bráðan bug að því að efna til samstarfs við sjónvarpsstöðvar og reyndar aðra fjölmiðla um að koma nauðsynlegum upplýsingum með skilmerkilegum og einföldum hætti til skila betur en gert hefur verið. Sú gagnrýni er einfaldlega réttmæt.

Ég vil ekki orðlengja það frekar, en það verður gengið eftir því eins og þegar hefur verið yfirlýst að nota þann tíma þótt stuttur sé til þess að bæta hér úr og reyndar má bæta því við að það er full þörf á því einnig eftir áramótin og fyrst í stað meðan kerfisbreytingin gengur yfir. Það er alveg augljóst mál að álag á símakerfið á þessum síma sem auglýstur hefur verið sérstaklega til þess að svara spurningum er slíkt að það kemur ekki að tilætluðum notum þannig að það er rétt og sjálfsagt að reyna að nýta sér fyrst og fremst sjónvarpið til að koma þessari kynningu betur til skila.