16.12.1987
Efri deild: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir undirtektirnar sem við fengum við athugasemdum hér áðan. Ég vil segja það án þess að vilja vera að tefja þessa umræðu neitt að ég held að upplýsingar í myndmiðlum séu ekki nægilega góðar í þessu efni til að tryggja það t.d. að gamalt fólk fái þær upplýsingar sem það þarf á að halda í sambandi við skattkerfisbreytinguna. Ég held að þarna þurfi að eiga sér stað mikið víðtækari kynningarstarfsemi, sérstaklega gagnvart þessu fólki. Ég benti á þann möguleika að það yrðu opnar skrifstofur bæði að degi og kvöldi og um helgar til að svara spurningum sem fólk ber fram út af þessari kerfisbreytingu. Ég held líka að það gæti verið réttlætanlegt að senda erindreka t.d. inn á elliheimili til að kynna þessar breytingar vegna þess að ég veit að þær valda þessu fólki áhyggjum. Við sem erum vön að umgangast pappíra mundum kannski segja óþarfa áhyggjum, en það er nú einu sinni þannig að þetta fólk er viðkvæmara fyrir svona opinberum pappírum heldur en við erum og þess vegna held ég að það þurfi að leggja alveg sérstaka rækt við það að kynna þessar kerfisbreytingar á heimilum aldraðra.

Varðandi hitt atriðið sem ég nefndi, vasapeningana, þá vil ég benda hæstv. ráðherra á það að frv. um tekjuskatt og eignarskatt er enn þá í fyrri deild. Það væri auðvitað hugsanlegt að koma breytingum fyrir þar varðandi vasapeningana, og ég met fjh.- og viðskn. Ed. mikils, en ég hygg þó að það væri ekki verra ef fjmrn. eða embættismenn þess litu á þetta mál sérstaklega strax meðan málið er í fyrri deild, frv. um tekjuskatt og eignarskatt, þannig að í þeim lögum, sem verða einhvern tíma, verði tekin af tvímæli um það að ekki verði farið að skerða þessa vasapeninga og beinlínis tekið fram að það sé óheimilt vegna þess að þetta eru þvílíkar botngreiðslur að það er ekki hægt að horfa upp það að menn séu að klípa skatt af þessari lús sem vasapeningarnir eru.