16.12.1987
Efri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

198. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta frv. sem hér liggur fyrir er mjög veigamikið og ég vil segja að það sé kærkomið frv. í þingsalina þar sem það er einn liður í þeirri nýsköpun tekjuöflunarkerfis ríkissjóðs sem mikil samstaða hefur verið um á Alþingi að nauðsynleg sé og hafi verið svo árum skiptir. Það er auðvitað hægt að flytja um það margvíslega tölu í hverju kostir þessarar nýsköpunar eru fólgnir. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, grípa niður í bréf sem nefndinni hefur borist frá Landssambandi iðnaðarmanna, en þar segir í umsögn um frv. til laga um tollalög, söluskatt og vörugjald svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Breytingar þær á tekjuöflun hins opinbera, sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera, hafa veruleg áhrif til jöfnunar á starfsskilyrðum atvinnuveganna hér á landi. Tollar sem voru smám saman afnumdir af aðföngum til samkeppnis- og útflutningsiðnaðar við inngönguna í EFTA verða nú einnig að langmestu leyti afnumdir af aðföngum til viðgerðar- og þjónustuiðnaðar, svo og byggingariðnaðar og annarrar starfsemi sem ekki hefur flokkast undir samkeppnisatvinnuvegi. Á móti gæti komið óhagræði vegna lækkunar tolla á innfluttum samkeppnisvörum, aðallega frá löndum utan EFTA og Evrópubandalagsins, en lækkun tolla á hráefnum frá sömu löndum verka að sama skapi til hagræðis. Þannig geta iðnfyrirtæki hugsanlega farið að beina viðskiptum sínum í auknum mæli til landa utan Evrópu.

Landssamband iðnaðarmanna hefur jafnan lagt áherslu á að það sé rangt að aðskilja atvinnugreinarnar eins og gert hefur verið í samkeppnisgreinar annars vegar og aðrar atvinnugreinar hins vegar og láta hinum fyrrnefndu í té betri rekstrarskilyrði en hinum síðarnefndu. Samkeppnishæfni þjóðfélagsins hlýtur að byggjast á sameiginlegum árangri allra atvinnugreinanna. Rekstrarskilyrði atvinnulífsins ættu því að vera hin sömu í öllum greinum. Með stefnumörkun þeirri sem nú hefur verið tekin er stigið rétt spor í jafnræðisátt að þessu leyti, en leggja ber áherslu á að til þess að um fullt jafnræði verði að ræða þarf einnig að fella niður önnur aðflutningsgjöld til viðkomandi starfsemi, svo sem söluskatt.“

Ég hygg, herra forseti, að hér hafi misritast aðflutningsgjöld fyrir opinber gjöld og verið sé að tala um niðurfellingu söluskatts á vélum til iðnaðar sem eingöngu nær til samkeppnisútflutningsgreina að ég ætla. Síðan segir áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Landssamband iðnaðarmanna hefur lengi óskað eftir stefnumörkun eins og þeirri sem hér að framan er lýst. Mál þetta hefur jafnan strandað á því að lækkun og afnám tolla hefur óhjákvæmilega í för með sér svo mikla skerðingu á tekjum ríkissjóðs að erfitt hefur reynst að finna leiðir sem allir geta sætt sig við til þess að bæta hana upp. Hugmyndir fjmrn. hafa jafnan verið að leggja á mjög víðtækt vörugjald. Landssamband iðnaðarmanna hefur barist gegn þeirri aðferð. Sú leið sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að fara, þ.e. að hækka söluskatt frá því sem ákveðið hafði verið og einfalda vörugjaldið og halda því á nokkrum skýrt afmörkuðum vöruflokkum, er að dómi Landssambandsins mun betri en vörugjaldsaðferðin sem fyrirhuguð var. Fjölmörg rök má færa fyrir því að þegar vörugjald er lagt á í greinum þar sem framleiðsla er mjög fjölbreytt, seríur eru mjög smáar og ýmist framleiddar skattskyldar eða ekki skattskyldar vörur, er vörugjaldið mjög slæmt skattform og alls ekki hlutlaust gagnvart samkeppni eins og haldið hefur verið fram. Það er því fagnaðarefni að ríkisstjórnin skyldi hætta við að leggja 17% vörugjald á fjölmarga vöruflokka sem haft hefði í för með sér verulega íþyngingu fyrir iðnaðinn.“

Svo mörg voru þau orð sem almennt eru sögð um jákvæðar hliðar þessarar nýsköpunar tekjuöflunarkerfisins, en til þess að fullnægja allri sanngirni er að sjálfsögðu nauðsynlegt að bæta við að Landssamband iðnaðarmanna segir enn fremur að „þótt stefnumörkun frumvarpanna sé í meginatriðum jákvæð hafa þau að geyma nokkur verulega neikvæð atriði“ að dómi Landssambands iðnaðarmanna. Og til að flýta fyrir þá get ég efnislega rakið að þar er verið að tala um í fyrsta lagi það sem ég sagði um söluskattinn og vélar og aðföng til innlends iðnaðar varðandi söluskattinn. Jafnframt er talað um að söluskattshækkunin sé of mikil og eðlilegra hefði verið að hækka niðurgreiðslurnar minna en auka þess í stað fjölskyldubætur og bætur lífeyristrygginga. Og loks er talað um að svo viðamiklar og flóknar breytingar á skömmum tíma geti valdið því að misræmi skapist, en með þessu öllu verður að sjálfsögðu að fylgjast rækilega og ég veit af áratuga kunnugleika af hæstv. fjmrh. að hann er allra manna líklegastur með sinni röggsemi og sanngirni að fylgja því eftir í sínu ráðuneyti að embættismennirnir fylgist grannt með framkvæmd hinna nýju tekjuöflunarlaga þegar þau hafa verið lögfest hér af hinu háa Alþingi.

Ég vil að svo mæltu þakka meðnefndarmönnum mínum mjög gott samstarf í fjh.- og viðskn. en harma að stjórnarandstaðan hafi ekki treyst sér til þess að verða okkur samferða í nál. og með því að mæla fyrir samþykki frv. og skil satt að segja ekki hversu á því megi standa. Ég vil þakka sérstaklega þeim sem unnið hafa með nefndinni, frá fjmrn. frú Guðrúnu Ástu Sigurðardóttur, Bolla Bollasyni og Lárusi Ögmundssyni, sem hafa greitt fyrir störfum nefndarinnar, og öllum öðrum þeim sem nefndin hefur leitað til. En ég ætla að alls 40–50 manns hafi komið á fund nefndarinnar og brugðist skjótt við þótt þeir hafi verið kallaðir fyrir með stuttum fyrirvara. Það er náttúrlega óviðkunnanlegt að biðja um leiðréttingu á því sem stendur í nál. minni hl., en hér er sagt að stjórnarandstaðan hafi krafist þess að fulltrúar ASÍ, BSRB, Stéttarsambands bænda og Sambands ísl. samvinnufélaga kæmu á fund nefndarinnar. Ég held að formaður hafi tekið ljúfmannlega öllum beiðnum um það að menn mættu á fund nefndarinnar og beinlínis að fyrra bragði haft orð á því við stjórnarandstöðuna að hann vildi greiða fyrir því að á fund nefndarinnar kæmi hver sá sem óskað væri.

Eins og gerð er grein fyrir í nál. meiri hl. mælir hann með samþykkt frv. með þeim breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj., en þar er í fyrsta lagi gengið enn lengra en í frv. í þá átt að fella niður toll af tilteknum vörum sem kalla mætti ferðamannavörur, en við köllum í nál. með frv. um vörugjald smyglgjarnar vörur. Það er auðvitað alltaf álitamál hvaða einkunn maður eigi að gefa þessum vörum sem fólk grípur með sér á ferðalögum erlendis vegna þess að þau eru hátollavarningur hér á landi. Við munum það á sínum tíma með nælonsokkana og úrin. Það sem við erum að tala um núna eru sjónaukar, rakvélar, hárþurrkur o.s.frv. „Smyglgjarn“ er að mínu viti svolítið skemmtilegt orð og miklu fallegra orð og betur viðeigandi en „smyglnæmur“ sem stendur í gamalli tollskrá. Þar að auki er lýsingarorðið næmur yfirleitt notað um persónur eða miklu frekar. Hins vegar tölum við um rokgjarnan og við tölum um brotgjarnan þannig að mér finnst þetta orð þess vegna mun betra en ýmis önnur og mjög lýsandi um það sem hér er verið að ræða um, en það eru sem sagt smávörur sem menn grípa með sér á ferðalögum, smyglgjarnar vörur sem eru lækkaðar í verði. Það er talað um að skattalækkanirnar nemi um 40 millj. kr. en búist við því að sjálfsögðu að með lægri tollum og betri skilum muni þetta skila sér margfalt til baka þegar söluskattsinnheimtan bætist við, eins og ég geri ráð fyrir að athugun á tollflokkum muni sýna á næstu árum. Með þessu er verið að færa verslunina inn í landið.

Í öðru lagi er felldur niður tollur af nokkrum vörum sem flokkast undir öryggisbúnað ökutækja og þar með komið til móts við ábendingar hv. 6. þm. Reykn. Salome Þorkelsdóttur sem mjög hefur einmitt beitt sér fyrir því að auka öryggi í umferðinni.

Í þriðja lagi er hækkaður tollur á álpönnum til þess að laga innlendu framleiðsluna að samkeppnisaðstæðum.

Þá er gert ráð fyrir því að flýta gildistöku lokaáfanga tollasamnings við Portúgal og Spán.

Og í fimmta lagi eru gerðar ýmsar minni háttar lagfæringar í einstökum atriðum þar sem leiðréttinga er þörf.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er til að hafa þessa ræðu mikið lengri. Ég vil að lokum taka það fram vegna ábendinga frá hæstv. menntmrh. að tæki og búnaður til vísindarannsókna er undanþeginn aðflutningsgjöldum og þarf ekki að taka það sérstaklega fram um Vísindaráð eða Vísindasjóð.

Ég ítreka, herra forseti, undrun mína á því að stjórnarandstaðan skuli ekki vilja vera okkur samferða í þessu máli. Auðvitað er það rétt sem stendur í þeirra nál. að þessi tollalög frekar en önnur eru ekki fullkomin. Mannanna verk eru það nú sjaldnast. Ég þekki satt að segja ekkert dæmi um það að mannanna verk geti verið fullkomin nema ef vera skyldi á nokkrum fallegum helgimyndum frá endurreisnartímanum, ef þær myndir eru þá fullkomnar (SvG: Það var ekki söluskattur þá.) og þær eru náttúrlega eins vandaðar og raun ber vitni vegna þess að — ja, það er rétt hjá hv. þm. að söluskatturinn var ekki mönnum til trafala á þeim tíma.

Auðvitað er við því að búast að þingið þurfi að breyta þessum tollalögum síðar þó samþykkt verði, en ég skal ekki hafa fleiri orð, enda var samkomulag um það við stjórnarandstöðuna að hlé yrði gert á fundinum kl. 7. — [Fundarhlé.]