20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

7. mál, blýlaust bensín

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns, vegna þess sem hér hefur áður gerst, upplýsa það að ég sakna að sjálfsögðu hæstv. samgrh. við þessa umræðu en vil samt ekki skorast undan því að mæla fyrir þeirri till. til þál. sem liggur hér fyrir á þskj. 7 og er 7. mál þingsins. En það er till. til þál. um undirbúning notkunar á blýlausu bensíni hér á landi. Flm. eru ásamt mér hv. þm. Skúli Alexandersson og Steingrímur J. Sigfússon.

Till. þessi var fyrst flutt á síðasta löggjafarþingi en varð ekki útrædd en er nú flutt nokkuð breytt. Ég vil þess vegna, með leyfi forseta, lesa tillögutextann eins og hann er nú:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að vinna að því að hafin verði notkun á blýlausu bensíni hér á landi. Nefndinni verði falið að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um leiðir að þessu marki, en jafnframt skal hún benda á varnir gegn því að önnur og ekki síður hættuleg eiturefni taki við af útblæstri farartækja sem ganga fyrir blýbættu bensíni.

Í nefndinni skulu eiga sæti fulltrúar hagsmunaaðila, notenda og seljenda, svo og kunnáttumenn um umhverfismál.

Nefndin ljúki störfum fyrir árslok 1988. Kostnaður við störf hennar greiðist úr ríkissjóði.“

Þó að segja megi að loftmengun sé ekki það vandamál hér sem hún er víða um heim er óhjákvæmilegt að Íslendingar taki þátt í þeim vörnum gegn mengun sem þjóðir heims vinna nú að í æ ríkara mæli. Það er einnig ljóst að innan tíðar verða bifreiðir þannig búnar að þær ganga einungis fyrir blýlausu bensíni. T.d. hafa Svíar þegar lögfest að frá árinu 1989 verði ekki framleiddar aðrar bifreiðar en þær sem ganga fyrir blýlausu eldsneyti og í Noregi verður notkun þess lögskyld í janúar 1989. Þjóðir innan Efnahagsbandalagsins hafa ályktað um að almenn notkun verði hafin á blýlausu bensíni frá 1.okt. 1989 og í Bandaríkjunum og Japan eru nýjar bifreiðar þegar búnar tækjum sem hreinsa útblástur eiturefna en sá búnaður krefst notkunar á blýlausu bensíni.

Nú er ekki víst að allir hv. þm. geri sér grein fyrir hvað í raun og veru er blýbætt bensín eða blýlaust bensín, og í sambandi við það vil ég vísa hér til fskj. I með till. þessari sem er grg. Guðmundar G. Haraldssonar, dósents við Háskóla Íslands, um notkun á blýbættu eldsneyti. En í stuttu máli er blýi bætt eða hefur verið bætt í eldsneyti til þess að dempa eða draga úr banki og glamri í vélum bifreiða.

Það sem hefur síðan gerst frá því í fyrra er þessi till. var flutt, en þá var tekið fram í grg. að vandi Íslendinga væri sá að þeir versluðu fyrst og fremst við Sovétríkin með bensín og Sovétmenn höfðu þá ekki blýlaust bensín og hafa ekki enn, að samkvæmt upplýsingum Olíuverslunar Íslands hefur mér verið tjáð að nú hafi Sovétmenn komið til móts við kröfur Íslendinga um minna blýmagn í bensíni og hafi minnkað það úr 0,40 grömmum af blýi í lítra niður í 0,15, en eftir stendur að blýlaust bensín er það ekki.

Þá vil ég einnig geta þess að frá því að ég talaði fyrir þessu máli á síðasta ári hefur ýmislegt nýtt komið á dagskrá varðandi þessi mál. Á síðustu árum hefur athygli manna beinst að öðrum hættulegum efnum sem hafa verið sett í hráolíu í stað blýsins sem burt hefur verið tekið og bent hefur verið á að jafnhliða því að útblástur frá farartækjum sem ganga fyrir blýbættu bensíni minnki, aukist að sama skapi eiturgufur frá efnum sem notuð eru í bensínið í stað blýsins til þess að hækka svokallaða oktantölu. T.d. hefur vestur-þýska rannsóknastofnunin Stiftung Warentest, sem er rannsóknastofnun á framleiðsluvörum, nýlega varað við efnum eins og bensol og toluol sem gufa beint upp úr bensíngeymum og bensínleiðslum við t.d. ásetning bensíns á bifreiðar. Þessi efni eru talin vera miklir krabbameinsvaldar og raunar stórhættuleg efni.

Á því hefur einnig verið vakin athygli í sambandi við blýbætta bensínið að því nær jörðu sem vegfarendur eru, þeim mun meiri hættu séu þeir í og þá leiðir af sjálfu sér að börn t.d. í kerrum og vögnum eru þar í mestri hættu. Varðandi blýlausa bensínið vilja flm. vekja athygli á því, og hafa bætt því inn í tillögutextann, að það verði jafnframt hugað að þessum efnum sem menn hafa orðið vaxandi ótta af eftir að blýlausa bensínið hefur komið til notkunar í meira mæli en áður.

Hér er auðvitað mjög nauðsynlegt að hér haldist í hendur kunnáttumenn um umhverfismál og þeir sem stunda verslun með bensín og olíu, þessir aðilar taki saman höndum og leiðbeini stjórnvöldum um hvernig sé best að haga þessum málum því að fram hjá því verður ekki komist að blýlaust bensín verður á markaðnum um allan heim og ógerlegt að gera ráð fyrir notkun blýbætts bensíns.

Með till. okkur fylgir síðan lokaskjal frá alþjóðlegri ráðstefnu Norðurlandaráðs um loftmengun yfir landamæri, 8.–10. sept. 1986 og hv. þm. geta þar séð hvað Íslendingar hafa gengist undir af samþykktum um varnir gegn mengun.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt mikið. Ég held að hér sé um að ræða mál sem íslensk stjórnvöld verða að taka afstöðu til og það sé óumflýjanlegt að hér eins og annars staðar í heiminum verði tekið upp blýlaust bensín. Hollustuvernd ríkisins hefur stundað mælingar á loftmengun yfir fjölfarnar akstursleiðir hér í Reykjavík og þó að lokatölur og upplýsingar liggi ekki fyrir þá er vitað að um verulega loftmengun er orðið að ræða hér vegna umferðarinnar þannig að Íslendingar losna ekkert við þennan vanda frekar en aðrar þjóðir.

Ég vil, herra forseti, óska þess að þessi till. til þál. verði falin hv. allshn. Sþ. til meðferðar og vil endurtaka hér það sem ég sagði við flutning frv. í Nd. fyrir nokkrum dögum að ég vænti þess, herra forseti, eftir að nú hefur verið gengið fram í því að styrkja og efla störf nefnda þingsins og ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að störf þeirra verði markvissari og jafnist betur yfir allt þingárið, þá vil ég biðja hæstv. forseta að stýra því að þegar verði hafin störf vegna þeirra mála sem nú fara að berast nefndum og þeim verði skilað aftur inn í þingið jafnt og þétt en ekki á þessum venjulega annatíma eingöngu, við upphaf jólaleyfis eða við þinglok.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.