16.12.1987
Efri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

198. mál, tollalög

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína mjög langa, en að gefnu tilefni langar mig að taka hér fram út af ummælum sem voru viðhöfð um okkur í Borgarafl. í gær, að við séum að tefja þingstörfin, þá hefur einn stjórnarliði haldið ræðu í heilar 40 mínútur. Að vísu kom þar fram margt skemmtilegt og gott sem verður vonandi hæstv. fjmrh. til leiðbeiningar um þá skatta sem hér eru til umræðu.

Hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson er sammála okkur í Borgarafl. og öðrum í stjórnarandstöðu og raunar flestum þegnum þessa lands um að þær skattaálögur sem ríkisstjórnin er að setja á nú séu algjörlega óþarfar eða a.m.k. má draga mjög verulega úr þeim. Það er jafnframt von okkar sem í stjórnarandstöðu erum að hv. þm. greiði þá atkvæði þegar þessi íþyngjandi frumvörp koma til atkvæðagreiðslu og sýni í verki að hann standi við það sem hann hefur hér mælt.

Annars ætlaði ég að taka fyrir þær tollabreytingar og brtt. sem við þm. Borgarafl. gerum við það frv. sem hér er til umræðu. Þessar brtt. koma fram á þskj. 324 og eru um breytingar á tollalögum nr. 55 30. mars 1987. Við gerum eftirfarandi breytingar á 2. gr. frv. og þá fyrst við 19. kafla. Það er þá fyrst tolltaxti 1904.1000, það er matvæli úr korni, og 1904 9000, það er matvæli úr korni einnig. Við gerum þá tillögu að tollur á þessum vörum verði lækkaður úr 30% í 0%.

Næst gerum við tillögu um það að tolltaxti 3006.5000, kassar og töskur til skyndihjálpar, lækki. Hér er E-tollur 0% en A-tollur 5%. Tillaga okkar er að A-tollur verði 0 en E falli niður. Okkur finnst engin ástæða til að tolla vörur til skyndihjálpar.

Í þriðja lagi gerum við tillögu um að tollflokkur 3604.9001 breytist. Þetta eru neyðarmerki, viðurkennd af Siglingamálastofnun ríkisins. Hér er E-tollur 0%, en A-tollur 10%. Tillaga okkar er að A-tollur verði 0% en E-tollur falli niður og þarfnast þetta ekki nánari skýringa því ljóst er að þetta eru nauðsynleg tæki bæði fyrir skip og annað.

Næsta tillaga til breytingar á tollalögum er á tollflokki 4015.1100, hanskar til skurðlækninga. Tillaga um að A verði 0 í stað 15% en E falli brott. Það er ríkið eitt sem kaupir þessa hanska þannig að við sjáum ekki ástæðu til að taka úr einum vasanum og láta í hinn og teljum þetta raunar vera vitleysu hina mestu.

Næsta breyting er á tollflokki 8433.1100, það eru sláttuvélar fyrir útivistarsvæði og íþróttavelli, og 8433.1900, undir liðnum aðrar. Upprunalegar tillögur hljóðuðu upp á 0-toll og flytjum við tillögu um að núverandi tillögu um 30% toll verði breytt í 0. Engin ástæða er til þess að tolla þessar sláttuvélar umfram aðrar gerðir af sláttuvélum.

Næsta tillaga okkar varðar tolltaxta 8450.9000, það eru varahlutir í þvottavélar. Það er ekkert samræmi í því að leggja 15% toll á varahluti í þvottavélar auk vörugjalds á meðan varahlutir í uppþvottavélar, tollnr. 8433.9000, þurrkara 8451.9000 og kælitæki 8418.9900 eru í 0% tolli og 0% vörugjaldi. Þarna er greinilega um ósamræmi að ræða. Tillaga okkar er því að tollur verði hér 0.

Næst er það tollnr. 8509.9000, hlutir í ryksugur og hrærivélar. Hér er heldur ekkert samræmi. Varahlutir í rakvélar, tollnr. 8510.9000, hárþurrkur og straujárn 8516.9000 eru í 0% tolli og því er tillaga okkar um 0% toll hér. Meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur líka borið fram till. um að tækin sjálf verði í 0% tolli og því er ekkert samræmi í því að láta varahlutina bera toll.

Næst koma þrjár tillögur undir f-lið, þ.e. 8512.2000, 8512.3000 og 8512.4000, en þar sem meiri hl. fjh.- og viðskn. mælir með því að þessir tollar falli niður þá geri ég ekki frekar grein fyrir því.

Hérna hefur fallið niður einn liður sem við ætluðum að hafa, nr. 8516.4009, og komum við eflaust til með að leggja fram tillögu um það á seinni stigum. Þetta eru straujárn til heimilisnota. En hér hefur meiri hl. fjh.- og viðskn. greinilega hlaupið fram hjá þessu númeri þegar þeir lögðu til lækkun á tollum á öðrum smyglnæmum vörum í þessum kafla.

Við leggjum því til að þetta númer verði lækkað í 0% toll til samræmis við aðrar smyglnæmar vörur. Þrátt fyrir þyngd og umfang er þetta víst allra vinsælasta ferðamannavaran frá Spáni og Glasgow.

Í tillögu okkar er næst tollnr. 8516.8001, þ.e. rafmagnshitamótstöður í tæki. Hér er mótsögn svipuð og ég lýsti áðan. Meiri hl. fjh.- og viðskn: hefur borið fram tillögu um lækkun á tækjunum sjálfum en skilur varahlutina eftir í tolli. Við leggjum því til að tollur fari hér niður í 0%.

Næsta breyting sem við viljum gera á tollskránni er á nr. 8518.3000, það eru heyrnartól, eyrnaskjól og sambyggðir hljóðnemar, hátalarasett, og síðan er það tollnr. 8518.9000 undir þessum sama lið. Hér er enn eitt dæmi þar sem meiri hl. hefur lagt til að lækkun verði á hljóðnemum í 0% en heyrnartól og einnig sambyggð heyrnartól og hljóðnemar, svo og varahlutir í þessi tæki, eru öll skilin eftir. Tillaga okkar er því að setja þetta einnig í 0% toll.

Næst er það tollnr. 8519.2100. Það eru plötuspilarar og snælduspilarar og undir því 8519.2900, varahlutir. Hér er nú til dags um mjög smyglnæma vöru að ræða. Er mjög vinsælt að kaupa svonefnda geislaspilara erlendis en það fer mjög lítið fyrir þessum tækjum. Hluti ríkisins í söluverði slíks tækis er hins vegar mjög hár hér á landi. Við höfum allir fengið senda útreikninga Félags ísl. stórkaupmanna þar sem sýnt er fram á að hlutur ríkisins af einum slíkum spilara og 10 geisladiskum er um 15 þús. kr. eða andvirði flugmiða til London með gistingu í þrjá daga. Við leggjum því til að tollur af þessum vörum, plötuspilurum og snælduspilurum, verði 0.

Næst er það liður 8520.2000, það eru símsvarar og svo 8520.3100, segulbandstæki fyrir snældur. Þegar símtæki í tollflokki 8517.1000 eru komnar í 0% og ekkert vörugjald þá er ekkert samræmi í því að símsvarar séu í 30% tolli og beri auk þess vörugjald. Einnig eru segulbandstæki fyrir snældur vinsæl og mjög smyglnæm vara og því er lagt til að hvort tveggja verði sett í 0% toll.

Næst er það 8527.1100, útvarpsviðtæki og sambyggð útvarps- og hljóðupptökutæki, og síðan 8527.2100. Hér gilda sömu rök og á undan. Oftast eru þetta lítil ferðatæki sem einnig eru smyglnæm vara. Lagt er til að tollur verði hér færður í 0%.

Næst er tollnr. 8537.1000, bretti, töflur, stjórnborð o.fl., og síðan 8537.2000. Hér er eitt ósamræmið enn. Fullbúnar töflur og stjórnborð í þessum kafla, þ.e. stjórnborð fyrir 1000 volta spennu eða minna í tollnr. 8537.1000 eða fyrir 1000 volt eða meira í tollnr. 8537.2000, eiga skv. frv. að bera 30% tolI en hlutar í þessar töflur og stjórnborð í næsta tollnr. 8538.1000 og 8538.9000 eru gjaldlausar. Þetta þýðir að menn flytja inn hlutina og eru svo að basla við að setja þetta saman með misjöfnum árangri. Við leggjum því til að tolltaxti verði hér 0.

Þá er það tollnr. 9603.2100. Þetta eru tannburstar. Hér leggjum við til að tolltaxti í A-dálki verði 0 í stað 10 og E falli brott. Við skulum frekar ýta undir að tannhirða aukist heldur en vera að tolla áhöld til slíkra hluta.

Síðan kemur 8509.8000. Það eru önnur rafmagnsheimilistæki. Hér eru önnur rafmagnsheimilistæki sem ekki eru sérstaklega nefnd í tollskránni. Hér mundu t.d. rafmagnstannburstar vera og ættu að bera 15% toll auk vörugjalds. Slík tæki eru heilbrigðistæki og því er lagt til að þessi tolltaxti, þ.e. 8509.8000, verði settur í 0.

Síðan viljum við bæta inn í 7. gr., það er viðbót við 93. kafla og verður nr. 9306.3001. Þar komi þá nýtt númer sem verður 9306.3002, skothylki fyrir markbyssur. Hér er um algjört smáatriði að ræða, en við leggjum til að tollur verði þarna 0. Eins og ég sagði þá er þarna um algjört smáatriði að ræða en sem snertir hins vegar starfsemi íþróttahreyfingarinnar. Við þm. Borgarafl. erum alltaf á varðbergi þegar hlutur íþróttahreyfingarinnar er fyrir borð borinn. Því leggjum við þetta til.

Að síðustu leggjum við til að tolltaxti 9603.2100 í dálki A verði 0 en E falli brott. Þetta munu vera, eins og ég sagði áðan, tannburstar.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim brtt. sem við þm. Borgarafl. gerum á frv. til laga um breyt. á lögum nr. 55 30. mars 1987, tollalögum. Vonast ég eftir að við fáum hljómgrunn, en eins og ég hef rakið, þá eru allar þessar breytingar annaðhvort til samræmingar eða þá að þær eru í þeim tilgangi settar fram að þær eru til að þjóna ákveðnum hópum manna sem ekki ættu að þurfa að borga toll af þeim vörum sem þeir nauðsynlega þurfa á að halda.